426. - Gúglað úr glerhúsi. (Æ, þetta hljómaði bara svo vel)

Ég man vel eftir því að þegar ég var forstöðumaður vídeókerfisins í Borgarnesi sem landsfrægt varð á sínum tíma var mér eitt sinn boðið á ráðstefnu um fjölmiðlamál sem haldin var í Ölfusborgum á vegum þáverandi Alþýðubandalags.

Þetta rifjaðist upp fyrir mér þegar ég heyrði eða sá um daginn viðtal við Þorbjörn Broddason fjölmiðlafræðing.

Með mér í för var Björgvin Óskar Bjarnason þáverandi stjórnarmaður í ÚSVB (Útvarps- sjónvarps- og videofélagi Borgarness) og áður leikmaður með meistaraflokksliði Víkings í knattspyrnu og forstjóri Húfugerðarinnar í Borgarnesi.

Á þessari ráðstefnu flutti ég erindi um starfsemi videókerfisins. Við gerðum fleira en að fá kvikmyndir á videóleigum og sýna þær í kerfinu. Við áttum sjónvarpstökuvél í félagi við Leikfélag Borgarness og gerðum ýmislegt sem ekki er algengt að svo lítil samfélög sem þetta geri.

Vilborg Harðardóttir tók fréttum af félaginu mjög vel og sagði okkur vera að gera góða hluti. Mér er líka minnisstætt að Þorbjörn Broddason flutti erindi á ráðstefnunni og kallaði okkur videókerfismenn "misgerðamenn ríkisútvarpsins" sem mér fannst vel að orði komist hjá honum. Þetta mun hafa verið svona um 1982 - 1985

Svavar Gestsson og Ólafur Ragnar Grímsson voru líka á þessari ráðstefnu en ég minnist þess ekki að þeir hafi látið neitt í sér heyra um þessi mál.

Sennilega hefði ég getað sleppt þessari færslu með öllu. Ég hélt ekki að ég væri farinn að endurtaka mig svona mikið. Fékk nefnilega þá snilldarhugmynd að gúgla þetta og þá sé ég að ég hef víst sagt eitthvað frá þessu í bloggi nr. 113 frá því í september í fyrra. (Loksins koma þessi blessuð bloggnúmer mín að einhverju gagni)

En ég nenni ekki að fara að fitja uppá nýju bloggi núna. Fer bara frekar að sofa. Fyrirsögnin er líka svo góð að hún afsakar þetta næstum.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Jakob Falur Kristinsson

Fyrirs0gnin er ágæt.

Jakob Falur Kristinsson, 22.8.2008 kl. 01:07

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband