Bloggfærslur mánaðarins, janúar 2008
31.1.2008 | 00:07
236. - Aumastir allra í bloggheimum
Aumastir allra í bloggheimum eru þeir sem fara mikinn í kommentakerfum annarra en læsa sínum eigin bloggsíðum.
Gott dæmi um þetta er einhver Vilhjálmur Andri Kjartansson sem heldur úti bloggsíðu á Moggablogginu sem hann kallar "Frjálshyggjumanninn" og var um daginn að skattyrðast um pólitík við Önnu í Holti, en leyfir ekki nema einhverjum útvöldum að sjá sína bloggsíðu. Ekki langar mig að sjá hana svo hún má vera lokuð mín vegna. Þeir sem svona haga sér viðra oft svo fáránlegar skoðanir á sínu bloggi að venjulegu fólki ofbýður vitleysan.
Merkilegt var líka með klámið hjá Ellý Ármanns. Hún lokaði loksins síðunni sinni en það var augljóslega af öðrum ástæðum en hjá Villa. Útá þá hæfileika sína að laða fólk að síðunni, fékk hún svo starf á fjölmiðli að ég held. Les reyndar aldrei efni af því tagi sem hún virðist sérhæfa sig í.
Beinakerlingar eru sumar vörður nefndar. Ekki veit ég hvaða vörður fá þetta sæmdarheiti eða hvað það þýðir í raun. Vinsælt var áður fyrr að setja vísur í beinakerlingavörður og eru slíkar vísur jafnan kallaðar beinakerlingavísur. Ein sú snjallasta slíkra vísna sem ég hef heyrt er þessi:
Að mér riðu átta menn
einn af þeim var graður.
Kominn ertu á kvið mér enn
Klemens sýslumaður.
Hafi sýslumaður að nafni Klemens verið í hópi áttmenninganna og verið nægilega frekur til þess að klifra sjálfur uppá vörðuna og ná í kveðskapinn, er vísan beinlínis eitursnjöll.
Hverjir skyldu vera mínar helstu fyrirmyndir í bloggheimum? Ekki veit ég það svosem en ég hef oft dáðst í hljóði að kennara einum sem býr á Selfossi og heitir Erlingur Brynjólfsson. Hann bloggar oft og reglulega, en hefur frá litlu að segja þó hann bloggi yfirleitt af mikilli snilld.
Sennilega tek ég mér hann talsvert til fyrirmyndar án þess að vita það. Harpa Hreinsdóttir á Akranesi er líka bloggari sem ég hef fylgst mjög vel með lengi.
Þar fyrir utan má segja að ég hafi í gegnum árin einkum fylgst með Stefáni Pálssyni og Salvöru Gissurardóttur í gegnum bloggin þeirra. Gott ef það eru ekki einkum þessir aðilar sem eru mínir mentorar í faginu.
Úps, nú geng ég útfrá því að ég sé orðinn full-fledged bloggari sem auðvitað er ekkert víst.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (4)
30.1.2008 | 02:34
235. - Fischer, blogg almennt, íslenskt mál og nýyrði
Mér virðist Vilhjálmur Örn Vilhjálmsson geta um fátt annað bloggað en Fischer og hugsanlegan arf eftir hann.
Fyrir mér er Fischer dauður og grafinn. Erfðamál hans finnst mér ekki koma mér við. Vel geta orðið einhverjar deilur um þau síðar meir, en mér finnst óþarfi að vera að bollaleggja um þau fram og aftur núna.
Af hverju skyldi ég vera að bögglast við að blogga næstum því á hverjum degi? Ekki geri ég mér vonir um að breyta heiminum. Ekki held ég að mikil eftirspurn sé eftir áliti mínu á hinum ýmsu málum. Og ekki er ég svo frægur að minni spámenn hópist að mér eins og flugur að mykjuskán. Ekki blogga ég oft á dag og reyni að linka í allar þær fréttir sem koma á mbl.is eins og sumir virðast gera. Í alvöru talað hvernig skyldi standa á því að nokkur hópur fólks (ekki mjög stór að vísu) skuli daglega kjósa að kíkja á bloggið mitt? Ég bara skil þetta ekki.
Hvað skyldu bloggarar á Íslandi vera margir? Hvað ætli Moggabloggarar séu stór hluti af þeim? Hvenær verða menn bloggarar? Hvað þarf að blogga mikið til þess? Hve oft? Hve langt? Hve reglulega? Og svo framvegis. Skyldi blogg hafa áhrif? Stundum vinna fjölmiðlamenn sér það til hægðar að vitna fram og aftur í blogg. Það sýnir bara þeirra eigin leti. Er til eitthvað sem heitir Bloggþörf? Er blogg árátta? Hve margir lesa blogg? Til hvers lesa menn blogg?
Bloggið er ágæt aðferð fyrir fjölskyldur og allskyns hópa til að halda sambandi og ræða um allt mögulegt. Fólk er oft svolitla stund að ná úr sér hrollinum við þetta en með tímanum verður það ósköp eðlilegt. Þeir sem eru með ritræpu eins og ég geta skrifað fjandann ráðalausan ef þeir kæra sig um, en gæta þess bara að fylgjast með því sem aðrir segja.
Íslenskt mál hefur lengi verið mér hugleikið. Einu sinni fyrir löngu síðan fór ég á tölvusýningu í Þjóðarbókhlöðunni. Þar fluttu nemendur við tölvudeild háskólans erindi um hin ýmsu mál sem tengdust tölvum. Sum þessara erinda hlustaði ég á og man að mér kom á óvart hve flytjendurnir vönduðu sig við að finna íslensk orð yfir allt mögulegt sem að tölvum laut. Á þeim tíma óðu ensk orð uppi um þetta og voru miklu tamari þeim sem við tölvur unnu. Ekki er mér ljóst hvort þetta hafði áhrif.
Eru orð eins og gemsar og lappar að vinna sér þegnrétt í málinu? Orðið tölva hefur greinilega gert það, en fjöldi fólks virðist þó halda að segja eigi talva.
Nýyrði þurfa að henta vel í allskyns beygingum og samsetningum til að geta talist góð. Gemsar og lappar falla ágætlega að þeim kerfum sem fyrir eru. Mér finnst vanta orð yfir það sem á löppum er gjarnan notað fyrir mús. Skrats-mús eða kropp-mús eru afleit orð. Orðið mús er þjált í samsetningum og skilst vel. Engin nauðsyn er þó að það sé hluti af því orði sem þarna þarf að koma.
Árni Mathiesen er sennilega sá sem mest hefur haganast á fjölmiðlasirkusnum að undanförnu. Andstæðingar hans í dómaraskipunarmálinu fræga voru einmitt að ná sé á strik þegar það mál hvarf skyndilega úr umræðunni. Nú þarf sennilega tvöfalt átak til að koma því í umræðuna á ný og Árni sleppur líklega með skrekkinn.
Ofan gefur snjó á snjó.
Snjóum vefur flóa tó.
Tófa grefur móa mjó.
Mjóan hefur skó á kló.
Svona var einu sinni ort. Og dýrt er kveðið, ekki vantar það. Mér finnst nóg komið af andskotans snjónum. Nú mætti vorið alveg fara að koma.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (3)
29.1.2008 | 00:44
234. - 123.is, vísur, lappar og geðveiki
Hún er nú búin að nota sér træal períóðuna á Corel draw-inu og getur ekki teiknað meira í bili. Þess vegna hefur hún snúið sér að vísnagerð og þvíumlíku.
Hún bloggar í bundnu máli
á bak við sinn Papparass.
Því hann er úr stinnu stáli
og styrkist við sérhvert smass.
Lappi einn eða Laptop tölva kom hingað á heimilið fyrir meira en viku. Ég fékk hann að láni hjá dóttur minni. En af því að hann vildi ekki þýðast þráðlausa kerfið okkar og þar með tengjast Internetinu var hann ósköp lítið notaður. Ástæðan skilst mér að hafi verið sú að hann var stilltur á fasta IP-tölu. Núna um helgina var þessu kippt í lag og við það gerði ég mér ljósara en áður að í raun er tölva svotil gagnslaus ef hún getur ekki tengst Internetinu.
Mér finnst heldur önugt að nota kropp-músina á lappanum í samanburði við venjulegar mýs, en eflaust má venjast því með tímanum. Auðvitað er gott að vera laus við allt snúruvesen og geta farið hvert sem er með tölvuna.
Hlustaði á Ólaf F. Magnússon í gær í Mannamálinu hjá Simma. Mér finnst hann nokkuð sannfærandi í málflutningi sínum, en þó held ég að hann geri mörgum óleik með augljósum fordómum varðandi veikindi sín.
Nær væri fyrir hann að tala hreint út um þau, en vera að þessum feluleik.
Ég man vel hve vinsæl kvikmyndin Gaukshreiðrið var á sínum tíma. Ég hélt því reyndar alltaf fram að sú mynd væri fyrst og fremst gamanmynd, en af því að gert væri grín að geðsjúklingum mætti ekki nefna það.
Þessi mynd var sannarlega barn síns tíma og mér finnst Ólafur F. Magnússon vera fastur í þeim tíma með því að neita að nefna hlutina sínum réttu nöfnum og tala sífellt grátandi um ofsóknir og einelti. Já, mér fannst Spaugstofuþátturinn alls ekkert verri en aðrir slíkir, jafnvel betri.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (5)
28.1.2008 | 03:14
233. - Borgarmálin enn og aftur
Helst er að heyra á þeim sem um borgarmálefnin ræða þessa dagana að tilgangurinn með borgarstjórnarskiptunum hafi verið að bjarga tveimur húskofum við Laugaveginn frá niðurrifi.
Eða kannski öllu heldur að bjarga ríkinu frá þeim kostnaði sem því fylgir að rífa þau og endurbyggja síðan í þeim anda sem friðunarpostulum hugnast akkúrat núna.
Áhrif skiptanna á flugvallarmálið og Sundabrautina verða líklega engin og á önnnur mál líklega lítil. Annars er mér svosem sama hvernig þessi mál þróast því ég bý í Kópavogi. Ég vorkenni samt Reykvíkingum að þurfa að búa við þennan hringlandahátt og held að það sé jafnvel betra að hafa framkvæmdaglaðan mann eins og Gunnar Birgisson yfir sér en þessi ósköp. Annars eru þær bollaleggingar sem þessum stjórnarskiptum fylgja farnar að þreyta mig. Samt verður gaman að fylgjast með þróuninni.
Ég sé ekki betur en spurning spurninganna sé að verða þessi: Hver var það sem krafðist þess að Ólafur F. sýndi læknisvottorð um heilbrigði sitt þegar hann hugðist koma til starfa nokkru eftir að 100 daga stjórnin tók við? Svarið við þessari spurningu ef það kemur einhvern tíma fram getur upplýst margt. Voru virkilega einhverjir sem vildu með öllum ráðum koma í veg fyrir að Ólafur hæfi störf að nýju?
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
27.1.2008 | 02:14
232. - Næstu borgarstjórnarkosningar, bækur og fleira
Þrjú framboð verða að líkindum í næstu borgarstjórnarkosningum. Sjálfstæðismenn, Samfylkingin og Vinstri grænir. F-listinn er næstum örugglega búinn að vera og líklega treystir framsókn sér ekki til að bjóða fram.
Hverjir verða þá á þessum listum? Hjá Samfylkingunni og Vinstri grænum verður aðalspurningin hvort einhverjir af núverandi forystumönnum verði farnir í landsmálin. Ég er til dæmis ekkert viss um að Steingrímur Sigfússon lafi í formannsstólnum allar götur fram að næstu þingkosningum. Svandís Svavarsdóttir gæti vel verið á leiðinni i þann stól. Sennilegra að þó að hún verði í framboði til borgarstjórnar en að hún verði það ekki.
Þá er það listi Sjálfstæðismanna. Þar eru það einkum Hanna Birna og Gísli Marteinn sem eru líkleg til framhaldslífs. Það veltur þó allt á því hver þróunin verður á næstunni, hvort þeim tekst að sanna sig. Viljann og metnaðinn vantar þau ekki. Villa verður áreiðanlega sparkað. Nú sjáum við hvers vegna forysta flokksins vildi raunverulega aldrei sjá hann sem borgarstjóraefni.
Ef litið er á blogg fólks eins og Vilhjálms Arnar Vilhjálmssonar, Sigurðar Þórs Guðjónssonar og Grétu Bjargar Úlfsdóttur er greinilegt að nokkur hópur fólks er allt í einu búinn að fá mikinn áhuga á hugsanlegum arfi eftir Bobby Fischer. Þetta er nokkuð undarlegt því alls ekki er víst að þar sé um miklar upphæðir að ræða.
Það er þó vel hugsanlegt og alls ekki útilokað að átök verði einhver um skiptingu arfsins. Hvaða erindi þau átök kunna að eiga í opinbera umræðu hlýtur fyrst og fremst að fara eftir eðli máls. Ekki því hvað einhverju óviðkomandi fólki finnst. Sjálfur tel ég mig algjörlega óviðkomandi í þessu máli og hef ekki neinn áhuga á að ræða það í smáatriðum.
Lauk í gær við að lesa bókina eftir Jón Björnsson sem fór á reiðhjóli frá Gdansk til Istanbul. Þetta var um margt ágæt bók. Miðaldasaga Evrópu var þó ansi stór hluti bókarinnar og í endursögn Jóns var margt af því sem þar var sagt nokkuð áhugavert. Ferðasagan sjálf var þó áhugaverðari, en ekki mjög löng. Hann notaði greinilega þessar miðaldaendursagnir sem uppfyllingu og til að lengja bókina.
Nú sé ég að ég hef ekki verið alveg sanngjarn í umsögn minni um bók Hrafns Jökulssonar. Hann endursagði á sinn hátt einmitt margt af því efni sem finna má í fornum ritum um Árneshrepp og íbúa hans. Margt af því sem þar var sagt kom mér kunnuglega fyrir sjónir því ég hef lesið um það annars staðar. Þeir sem ekki hafa gert það kunna því ef til vill vel að fá það í endursögn Hrafns á sama hátt og ég kunni því ágætlega að fá ýmislegt úr miðaldasögu Evrópu í endursögn Jóns Björnssonar.
Nú er ég byrjaður á Skipinu eftir Stefán Mána og finnst hann byrja ansi bratt. Menn blóðugir upp að öxlum, hrikalegt bílslys, morð og pyndingar strax á fyrstu blaðsíðunum. Get vel trúað að sagan verði spennandi.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
26.1.2008 | 02:49
231. - Um heimspólitík og heimsendi
Það er vissulega rétt að nýr tónn var sleginn í íslenskum stjórnmálum með mótmælunum sem fram fóru við borgarstjórnarfundinn í gær fimmtudag.
Ég er þó í vafa um hvort túlka beri þetta sem vaxandi ofstopa vinstri manna eða það að hægri öflin séu að herða tökin. Annað hvort er það, ég er ekki í neinum vafa um það.
Hægri öflin á vesturlöndum hafi verið að festa sig í sessi að undanförnu. Raunar allt síðan árásirnar á tvíburaturnana áttu sér stað árið 2001. Ég man að ein fyrsta hugsun mín þegar ég fylgdist með þeim atburðum í fréttum var að nú mundi sú stefna til lögregluríkis sem boðuð var í bók Orwells 1984 og greinilega var komin af stað herða á sér um allan helming.
Hægri sinnuð stjórnmálaöfl hafa notfært sér það ástand sem skapaðist við þetta hermdarverk. Vel kann að vera að það hafi einmitt verið tilætlun þeirra íslömsku ofsatrúarmanna sem að árásinni stóðu þó líklegra sé að ætlun þeirra hafi verið að valda glundroða og auka spennu milli vesturveldanna og arabaríkjanna.
Ógæfa okkar á vesturlöndum er sú að við völd í Bandaríkjunum var stjórn á þessum tíma sem beinlínis beið eftir tækifæri og tilefni til þess að auka völd sín. Með árásinni fengu þeir gullið tækifæri til þess að gera einmitt það. Fyrst voru tökin hert heima fyrir og síðan tekið smá æfingastríð í Afghanistan og síðan farið í stóra stríðið við Kölska Hússein sjálfan.
Það stríð var nú reyndar svo vitlaust og illa undirbúið að Bandaríkjamenn sjálfir eru nú í vaxandi mæli farnir að snúast gegn stjórnvöldum vegna þess á sama hátt og gerðist í sambandi við Viet Nam. Ótrúlegt er annað en demókratar vinni forsetakosningarnar sem fram fara í nóvember næstkomandi. Þessvegna er svo spennandi að fylgjast með viðureign þeirra Clinton og Obama.
Jæja, ég er nú orðinn svo háfleygur og pólitískur að það er best að hætta þessu rugli.
Alveg hreint óforvarendis koma mér skyndilega í hug tvær vísur sem ég orti einhvern tíma fyrir langa löngu og eru svona:
Jörmungandur japlar mélin.
Járnin bryður ótt og títt.
Innst í brjósti urgar vélin.
Ólmast faxið mjúkt og sítt.
Gneistar fljúga úr spyrntu spori.
Splundrast grjót og rignir mold.
Endi heims á atómvori.
Eldar brenna og sekkur fold.
Ég man að mér þótti þetta nokkuð gott hjá mér á sínum tíma og gerði einhverja samantekt um tilurð þessara vísna í Þórbergskum anda en man lítið eftir henni. Man samt að þegar ég gerði vísuna fannst mér endilega að Jörmungandur væri hestur, líklega Sleipnir eða álíka goðsögulegur reiðskjóti en svo er víst ekki.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
25.1.2008 | 01:22
230. - Borgarstjórafarsinn og ýmislegt fleira
Hef verið að fylgjast með mótmælum á borgarstjórnarfundi og vissulega eru þau nýnæmi.
Gamli góði Villi sem var víst borgarstjóri einhvern tíma í fornöld sagði að mótmælin væru skipulögð. Auðvitað eru þau það. En eru þau eitthvað verri fyrir það? Er allt slæmt sem er skipulagt?
Eitt finnst mér ekki hafa komið nógu greinilega fram í öllu moldviðrinu sem þyrlað hefur verið upp í kringum þessi borgarstjóraskipti. Ólafur F. segir að hann hafi fundið að ekki var mikill hljómgrunnur fyrir stefnumálum F-listans meðal samstarfsflokkanna. Það getur verið svolítið til í þessu hjá honum, ef hann horfir einkum á Reykjavíkurflugvöll og gömul hús.
Ég á samt bágt með að trúa því að hann sé svo skyni skroppinn að hann haldi að það verði auðveldara að finna þennan hljómgrunn hjá Sjálfstæðisflokknum, þó þeir hafi verið tilleiðanlegir til að setja einhver falleg orð á blað. Þegar á herðir er ég viss um að Ólafur verður jafnóánægður með undirtektir þeirra. Þá skáka Sjálfstæðismenn í því skjólinu að Ólafur treysti sér ekki til að fara aftur í fang kollega síns, því þá væri hringlandahátturinn kominn út fyrir öll mörk.
Langlíklegast er að Ólafur undirbúi endurkomu í Sjálfstæðisflokkinn og vonist jafnvel til að hægt verði að fá fleiri með sér heim í heiðardalinn. Hann vonar kannski að hann fái völd og áhrif á ný í gamla flokknum en hræddur er ég um að hann lendi í sama pyttinum og óþekkir Sjálfstæðismenn lenda yfirleitt í.
Risafyrirsögn sá ég í einhverjum snepli í dag og var hún þannig: Töldu Margréti með. Fyrst þegar ég sá þessa fyrirsögn hélt ég að verið væri að segja frá einhverjum einföldum mistökum við talningu. En líklega er verið að meina að einhverjir hafi talið að Margrét Sverrisdóttir myndi fylgja Ólafi uppí til Sjallanna.
Bingi greyið komst ekki nærri strax að með sínar fréttir. Það er að segja að hann væri búinn að ákveða að hætta í borgarstjórn. Ég held að Björn Ingi ætli sér enn stóra hluti innan framsóknarflokksins. Ef honum og Valgerði tekst ekki að sveigja flokkinn til fylgisaukningar á þéttbýlissvæðum landsins þá er hætt við að sögu flokksins ljúki fyrir 100 ára afmælið.
Annars er það önnur frétt sem hefur vakið meiri athygli mína í dag og mér þykir jafnvel merkilegri en þessi borgarstjórafarsi og það er að líklega er það rétt að Bobby Fischer hafi átt dóttur.
Ef svo er þá á hún að sjálfsögðu að taka arf eftir hann samkvæmt íslenskum lögum. Reyndar veit ég afskaplega lítið um fjármál Fischers, en veit þó að hann stóð í margvíslegum málaferlum. Öll þau mál verður trúlega að leiða til lykta áður en arfskipti geta hafist.
Stór hluti þeirra fjármuna sem Fischer kann að hafa eftirlátið fer eflaust til þeirra lögfræðinga sem skiptin annast. Mér finnst hæpið að krefjast þess að nefnd sú sem vann að hingaðkomu Fischers á sínum tíma láti sér jafn annt um dóttur hans og hann sjálfan, en auðvitað á nefndin á engan hátt að leggja stein í götu hennar. Kannski reyna þeir bara að nota hana til að fá einhvern hlut í arfinum ef einhver er.
Anna Einarsdóttir í Holti birti magnaða færslu á sínu bloggi í gær og ég hvet alla sem hér koma til að skoða hana. Anna er efst í mínum bloggvinalista. Það er ekki rétt af mér að vera að endursegja þá sögu sem þar er sögð, en óhætt er að segja að hún sé áhrifamikil.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)
24.1.2008 | 02:45
229. - Enn um Vilhjálm Örn og Fischer og fleira
Einn annar af bloggvinum mínum hefur hallmælt Fischer undanfarna daga á sínu bloggi en það er Sigurður Þór Guðjónsson. Mér hefur þó ekki fundist þau ummæli keyra eins um þverbak og greinin sem ég kommentaði á eftir Vilhjálm. Sigurði virðist þó hafa blöskrað hvernig Vilhjálmur lét því hann setti eftirfarandi komment á sama blogg hjá Vilhjálmi og ég kommentaði á:
Hvaða máli skiptir þetta Vilhjálmur? Fischer er dauður og grafinn!"
Og Vilhjálmur svararði með eftirfarandi hætti:
Sigurður, eitthvað verður maður að blogga um. Sumir blogga um veður aðrir um gyðinga, og enn aðrir um lækni á lækni ofan í Reykjavík."
Að vísu er mér ekki alveg ljóst hvað Vilhjálmur er að fara með þessu svari en í því birtist undarleg afstaða til bloggiðjunnar. Eitthvað verður maður að blogga um." Hver er eiginlega að neyða Vilhjálm til að blogga. Ég hélt að flestir gerðu þetta af fúsum og frjálsum vilja.
Nema þá helst Sigurður Þór. Hann er alltaf öðru hvoru að tala um hvað sér leiðist að blogga. Enn þá linnir ekki áskorunum á hann um að halda endilega áfram. Ég er ekki frá því að ég hafi einhvern tíma skorað á hann að halda áfram að blogga. Mér finnst hann skemmtilegur bloggari. Nýjasta útspilið hans virðist vera að reyna einu sinni enn að æsa menn til trúarbragðadeilna í kommentakerfinu hjá sér.
Þetta með af hverju menn bloggi finnst mér skemmtilegt umræðuefni. Hvers vegna blogga menn? Hvers vegna geta menn helst ekki hætt að blogga, þó þeir vilji? Hvað er það sem upphaflega fær menn til að prófa þennan fjára? Af hverju eru bloggarar á Íslandi svona óskaplega margir. (Eða eru þeir það kannski ekki? - Ég held að það hljóti bara að vara) Af hverju líta aðrir bloggarar svona niður á Moggabloggið? - Spurningarnar eru legíó.
Vilhjálmur talar um það í einni kommentafærslunni að hann hafi fylgst með einvíginu 1972. Það gerði ég líka og þurfti þó að ferðast nokkur hundruð kílómetra til að geta barið hetjuna mína augum.
Og að lokum: Hvers vegna skyldi Vilhjálmur vera að blanda Flóabandalaginu inn í þetta mál?
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
23.1.2008 | 01:07
228. - Um Evrópusambandið og inngöngu í það - Fischer
Vilhjálmur Örn Vilhjálmsson fornleifafræðingur í Kaupmannahöfn heldur úti bloggsíðu hér á Moggablogginu sem hann kallar PostDoc Kaupmannahafnarpóstur."
Eftir að Bobby Fischer lést um daginn hefur hann hvað eftir annað bloggað um hann með ýmsum rangfærslum og útúrsnúningum.
Í dag birti hann mynd af leiði Fischers með árásum sínum á hann í pistli sem hann kallar: Spurningar til Flóabandalagsins"
Ég leyfði mér að setja eftirfarandi komment við þá grein:
Skelfing ertu upptekinn af Fischer. Manni dettur ósjálfrátt í hug hvort önnur skrif þín séu jafn vitleg.
Þessu svaraði Vilhjálmur síðar í dag (í gær) með illindum einum og einnig öðrum athugasemdum. Áhugavert er að hann er ekki í neinum vafa um hvernig beri að skilja orð mín og bendir það til þess að hann viti vel af hvaða hvötum hann skrifar um Fischer eins og hann gerir.
Það er ekki rétt að ég sé að túlka það sem Vilhjálmur skrifar og bendi ég því þeim, sem ef til vill hafa áhuga á þessu málefni, á að skoða blogg hans og kynna sér þetta.
Árið 1972 fór ég í fyrsta sinn á æfinni til útlanda. Við fórum með Gullfossi til Írlands, Hollands, Þýskalands, Danmerkur og Færeyja. Í Danmörku var þjóðaratkvæðagreiðsla um inngöngu í Evrópusambandið dagana sem við dvöldum í Kaupmannahöfn.
Um svipað leyti og Danir létu verða að þessu gengu Englendingar og Írar einnig í Evrópusambandið. Málefni þess voru talsvert ofarlega í umræðunni um þetta leyti. Allar götur síðan þetta var hef ég verið þeirrar skoðunar að ekki væri nema tímaspursmál hvenær Íslendingar gengju í Evrópusambandið. Ég hefði þó ekki getað búist við að þeim tækist svo lengi að standa utan þess sem raun hefur á orðið.
Bæði er það vegna þess að þróun Evrópusambandsins hefur orðið með talsvert öðrum hætti en flestir bjuggust við og Íslenskir stjórnmálaflokkar hafa óttast mjög þjóðernislegan metnað margra Íslendinga. Grýlan um sjávarútveginn hefur líka reynst andstæðingum aðildar mjög vel. Einkum vegna þess að sjávarútvegsstefna bandalagsins hefur verið í miklu skötulíki. Það stafar einkum af því að sjávarútvegur er í heildina ekki mjög mikilvægur fyrir bandalagið og hefur oftast verið látinn fylgja landbúnaðinum og útúr því hafa stundum komið skondnir hlutir.
Ég er enn þeirrar skoðunar að Ísland muni á endanum ganga í Evrópusambandið. Rétta tækifærið var strax eftir að Norðmenn ákváðu að gera það ekki að sinni. Þá hefði verið hægt að ná hagstæðum samningum að mörgu leyti.
Núna er það ekki eins hagstætt og tekur áreiðanlega talsverðan tíma. Kostirnir við inngöngu eru margir en þó er sú ástæða mikilvægust að það er í raun söguleg nauðsyn fyrir okkur að ganga í bandalagið. Visst hagræði getur einnig verið af því að standa utan við það eins lengi og mögulegt er.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (4)
22.1.2008 | 00:12
227. - Að græða á daginn og grilla á kvöldin
Hlutabréf bæði hér og erlendis hafa verið að lækka undanfarið.
Í dag virðist fallið þó hafa verið meira en fyrr og hugsanlegt er að hlutabréfabólan sé að springa. Ég hefði þó haldið að slíkur hvellur væri það sem bankar og verðbréfafyrirtæki um víða veröld vildu síst sjá og reyndu með öllum ráðum að koma í veg fyrir. Vonandi tekst þeim það, því djúp og löng kreppa gæti komið flestum illa.
Var í mesta sakleysi í dag að lesa bloggið hennar Ólínu Þorvarðardóttur þar sem hún vitnar í Hannes Hólmstein Gissurarson og ummæli hans um Sjálfstæðisflokkinnn. Hún minntist líka á það sem Lára Hanna hafði sagt um þetta mál og allt í einu segi ég við sjálfan mig: "Vá, þetta stuðlar bara alveg og enginn vandi að finna rímorð."
Og áður en ég vissi af var ég búinn að setja saman vísukorn um þetta í huganum. Mín fyrsta hugsun var hvað ég ætti að gera við vísuna. Blýant og blað fann ég fljótlega og páraði vísuna á það svo hún týndist ekki. Svo fór ég að hugsa um að fleiri mættu svosem sjá þetta og í framhaldinu hugsaði ég sem svo að allir vísnavinir hlytu að kíkja reglulega á síðuna hans Hallmundar Kristinssonar. Ég þangað og skellti vísunni þar í athugasemd.
Eftirá séð sýnist mér að vísan ætti ekki að eiga það á hættu að týnast í kommentakerfi eins og athugasemdir gera stundum. Þess vegna set ég hana hér.
Geiri minn grillar á kvöldin
og græðir um miðjan dag.
Hamingjan hefur nú völdin
og Hannes er kominn í lag.
Annað er ekki að heyra en að nýr borgarstjórnarmeirihluti sé að myndast. Þetta fer nú að verða slíkur farsi að ekki er hægt að likja því við neitt. Ólafur frjálslyndi er alls góðs maklegur en mér sýnist þó að hann sé búinn að fá flugvöllinn í Vatnsmýrinni á heilann.
Svo virðist samkvæmt fréttum að Norðmenn hafi verið á svipaðri braut og við Íslendingar varðandi fjölda háskóla. Nú segjast þeir ætla að fækka þeim úr 38 í 8. Sú tíð kann að koma hér á landi að háskólum hætti að fjölga. Þeim á samt eflaust eftir að fjölga nokkuð enn og fráleitt er annað en allir landshlutar fái sinn háskóla.
Enn heldur hann áfram að koma á óvart þó hann sé búinn að vera dauður í nokkra daga. Hver hefði búist við að hann vildi láta grafa sig í Flóanum? Þetta var snjall leikur í mjög erfiðri stöðu. Ég sé fyrir mér að þarna verði í framtíðinni reist minnismerki og þangað muni áhugafólk um skáksögu koma til að berja augum staðinn sem Fischer vildi hafa fyrir sinn lokastað á jörðinni.
Bloggar | Breytt s.d. kl. 00:13 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)