236. - Aumastir allra í bloggheimum

Aumastir allra í bloggheimum eru þeir sem fara mikinn í kommentakerfum annarra en læsa sínum eigin bloggsíðum.

Gott dæmi um þetta er einhver Vilhjálmur Andri Kjartansson sem heldur úti bloggsíðu á Moggablogginu sem hann kallar "Frjálshyggjumanninn" og var um daginn að skattyrðast um pólitík við Önnu í Holti, en leyfir ekki nema einhverjum útvöldum að sjá sína bloggsíðu. Ekki langar mig að sjá hana svo hún má vera lokuð mín vegna. Þeir sem svona haga sér viðra oft svo fáránlegar skoðanir á sínu bloggi að venjulegu fólki ofbýður vitleysan.

Merkilegt var líka með klámið hjá Ellý Ármanns. Hún lokaði loksins síðunni sinni en það var augljóslega af öðrum ástæðum en hjá Villa. Útá þá hæfileika sína að laða fólk að síðunni, fékk hún svo starf á fjölmiðli að ég held. Les reyndar aldrei efni af því tagi sem hún virðist sérhæfa sig í.

Beinakerlingar eru sumar vörður nefndar. Ekki veit ég hvaða vörður fá þetta sæmdarheiti eða hvað það þýðir í raun. Vinsælt var áður fyrr að setja vísur í beinakerlingavörður og eru slíkar vísur jafnan kallaðar beinakerlingavísur. Ein sú snjallasta slíkra vísna sem ég hef heyrt er þessi:

Að mér riðu átta menn

einn af þeim var graður.

Kominn ertu á kvið mér enn

Klemens sýslumaður.

Hafi sýslumaður að nafni Klemens verið í hópi áttmenninganna og verið nægilega frekur til þess að klifra sjálfur uppá vörðuna og ná í kveðskapinn, er vísan beinlínis eitursnjöll.

Hverjir skyldu vera mínar helstu fyrirmyndir í bloggheimum? Ekki veit ég það svosem en ég hef oft dáðst í hljóði að kennara einum sem býr á Selfossi og heitir Erlingur Brynjólfsson. Hann bloggar oft og reglulega, en hefur frá litlu að segja þó hann bloggi yfirleitt af mikilli snilld.

Sennilega tek ég mér hann talsvert til fyrirmyndar án þess að vita það. Harpa Hreinsdóttir á Akranesi er líka bloggari sem ég hef fylgst mjög vel með lengi.

Þar fyrir utan má segja að ég hafi í gegnum árin einkum fylgst með Stefáni Pálssyni og Salvöru Gissurardóttur í gegnum bloggin þeirra. Gott ef það eru ekki einkum þessir aðilar sem eru mínir mentorar í faginu.

Úps, nú geng ég útfrá því að ég sé orðinn full-fledged bloggari sem auðvitað er ekkert víst.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Lára Hanna Einarsdóttir

Fann þetta hér:

Sænska Kerlingar-örnefnið leiðir hugann að merkingu orðsins beinakerling í íslensku sem er algengt nafn á grjótvörðum, “sem kallaðar eru kerlingar, ... hlaðnar upp við alfaraveg” Blanda II:406). Oft var stungið legg (beini) í vörðuna með vísu til kerlingar eða skilaboðum til ferðamanna. Spurning er hvort það er ekki síðari tíma siður en að upphaflega hafi orðið beini í orðinu verið í merkingunni ‘hjálp til að rata’, sbr. að leiðbeina, beina mönnum á rétta braut, þ.e. *beinikerling. Tvær Beinakerlingar eru þekktastar, önnur á Kaldadalsleið (Sveinn Pálsson Ferðabók, bls. 111), hin á Sprengisandi. Orðið er líka haft sem samnafn, t.d. beinakerlingin Sankti Pétur (Skírnir 1926:157), sem er varða hlaðin á alfaraleið.

Lára Hanna Einarsdóttir, 31.1.2008 kl. 00:26

2 Smámynd: Salvör  Kristjana Gissurardóttir

Takk fyrir að nefna mig sem mentor Sæmundur, það er mikill heiður

En ég hef tekið eftir þessu með nokkra últrahægri menn, þeir eru með lokuð blogg og eitthvað samþykktakerfi í gangi þó þeir úði yfir aðra einhverri illsku. Þetta er sennilega einhvers konar þeirra skilningur á málfrelsi. það á að vera fyrir þá. en ekki  neitt mikilvægt að það sé fyrir hina.  

Salvör Kristjana Gissurardóttir, 31.1.2008 kl. 00:53

3 Smámynd: Lára Hanna Einarsdóttir

Ég held að þetta sé alveg rétt hjá Salvöru.

Lára Hanna Einarsdóttir, 31.1.2008 kl. 01:00

4 Smámynd: Anna Einarsdóttir

Já Sæmundur... mér fannst þessi Vilhjálmur Andri ekki stíga beint í vitið í kommentunum. Þau voru svo vitlaus að það var ekki vegur að svara þeim.    Honum tókst á einhvern undarlegan hátt að gera mig að nasista... bara sisvona.  Maður getur þó glaðst yfir að þurfa ekki að búa með svona sauðum. 

Anna Einarsdóttir, 31.1.2008 kl. 18:08

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband