Bloggfærslur mánaðarins, maí 2007

53. blogg

Um daginn var eitthvað minnst á Lady Baden Powell í sjónvarpinu. Ekki man ég í hvaða sambandi það var, en finnst það hafa verið eitthvað snobbtengt. Ég hugsa líka að Baden Powell hafi verið ákaflega snobbaður.

Það var nú samt ekki það sem ég ætlaði að skrifa um heldur minnti þetta mig á að þegar ég var svona 10 - 15 ára starfaði ég mikið í skátahreyfingunni. Líklega hef ég verið meira en tíu ára þegar ég byrjaði þar því ég man ekki betur en minnstu krakkarnir þar hafi verið kallaðir ylfingar og ljósálfar en krakkar á mínum aldri voru ýmist drengjaskátar eða kvenskátar. Ég man að Grétar á Reykjum var flokksforingi í fyrsta skátaflokknum sem ég var í. Þar tókum við svonefnt nýliðapróf og mikil uppistaða í því var að vita sem mest um Baden Powell. Hann var meðal skátanna álitinn næstum því guðleg vera. Grétar las líka fyrir okkur framhaldssögu á skátafundunum úr bók sem hét Frumskóga-Rútsí.

Á þessum árum man ég eftir að hafa tekið þátt í einu landsmóti, en það var haldið í Hagavík við sunnanvert Þingvallavatn. Á þessu móti var það einna merkilegast að allir þátttakendur fengu að taka í hendina á Lady Baden Powell sem þá var af einhverjum ástæðum í heimsókn á Íslandi.

Ég man líka eftir því að hafa farið á samkomur í Skátaheimilinu við Snorrabraut og eftir Hrefnu Tynes sem þar stjórnaði með mikilli röggsemi. Óp-era sem fjallaði um efni Þrymskviðu man ég líka  eftir að flutt var á vegum skátanna. Ég man líka eftir að Skátafélag Hveragerðis setti þessa óp-eru upp og þá var Guðmundur Wium í hlutverki Þórs. Löngu seinna var svo efni Þrymskviðu gert að alvöru óperu.

Eitt var það sem Skátafélag Hveragerðis sá alltaf um á þessum árum, en það var stjórn skrúðgöngu á hátíðahöldunum 17. júní. Eitt árið man ég að ég var fánaberi í göngunni og hafði eignast mitt fyrsta reiðhjól daginn áður. Ég man vel hvað mér leiddist að þurfa að þramma með fána í skrúðgöngunni, en geta ekki farið að leika mér á nýja hjólinu mínu.

Starfsemi skátafélagsins var með miklum blóma á þessum árum. Meðal annars þurftu allir skátar sem lokið höfðu nýliðaprófinu og unnið skátaheitið alltaf að vera í sérstökum búningum á fundum og við allar athafnir á vegum félagsins. Búningarnir voru svo skreyttir allskyns merkjum sem táknuðu allt mögulegt. Ég man vel eftir því að minn skátabúningur var svolítið öðruvísi á litinn en flestra annarra. Það var vegna þess að mamma saumaði minn búning, en líklega hafa flestir aðrir keypt sína búninga í einhverri skátabúð þeirra tíma. Ekki man ég eftir að hafa sett það sérstaklega fyrir mig að minn skátabúningur var svolítið öðruvísi en annarra.

Merkingarnar á skátabúningunum voru til að sýna í hvaða deild, sveit og flokki viðkomandi væri og líka voru þau til upplýsingar um sérpróf og þ.h. sem lokið hafði verið við o.s.frv. Auðvitað var þetta allt sniðið eftir hermennsku enda á skátahreyfingin uppruna sinn að rekja þangað. Drengirnir í Mafeking var bók sem var annaðhvort eftir Baden Powell eða um hann og var nánast skyldulesning fyrir alla skáta.

Ég man að á endanum var ég orðinn sveitarforingi í Skátafélagi Hveragerðis ásamt þeim Atla Stefáns og Jóa á Grund.


52. blogg

Ekki veit ég hvað þeim Morgunblaðsmönnum gengur til að vera að auglýsa þennan japanska nauðgunarleik. Ég er lítið fyrir að linka í fréttir en geri ráð fyrir að margir linki núna í þessa frétt af mbl.is. Ég er ekki meðlimur í torrent.is (og gæti vel trúað að eitt af skilyrðunum fyrir þátttöku væri að þvertaka alltaf fyrir hana) en held að þessi frétt sé ekki síður árás á það vefsetur en eitthvað annað.

Skráaskiptiforrit eru engin nýjung og hafa verið lengi við lýði. Minna má á að í síðustu kosningum í Svíþjóð bauð fram flokkur sem einfaldlega var kallaður Sjóræningaflokkurinn. Allt snýst þetta um höfundarrétt og mögulegan gróða þeirra sem yfir honum ráða. Auðvitað svíður þeim aðilum sem selja tölvu og sjónvarpsefni dýrum dómum að hægt skuli vera að nálgast slíkt efni fyrir ekki neitt. En svona er þetta bara. Meðan það verð sem krafist er fyrir aðgang að efni er mun hærra en flestir sætta sig við verða vefsetur eins og torrent.is vinsæl.

Annars er Salvör Gissurardóttir minn aðalguru í höfundarréttarmálum, en hún er ekkert búin að blogga um þetta mál mér vitanlega.

Sjálfur fer ég yfirleitt á "alluc.org" ef ég vil horfa á kvikmyndir eða sjónvarpsþætti sem ég hef ekki séð áður. Miðað við að það vefsetur er öllum opið án nokkurra takmarkana er furða hve mikið úrval er þar af efni.


51. blogg

Þetta skeði í kreppunni. Sjómaður lagði frá sér skötu skammt frá húsi einu í Skuggahverfinu. Þá kom maður nokkur og tók um sporðinn á skötunni og veifaði henni í kringum sig. Var hann síðan veifiskati kallaður. Sá sem upphaflega átti skötuna kom nú til að ná í hana en sá þá að hún var horfin svo hann sagði: "Það legg ég á og mæli um að þessi staður kallist héðan í frá hverfi skata."

Þannig er nú það.

Ef menn hafa gaman af orðaleikjum og útúrsnúningum ættu þeir að lesa eitthvað eftir Hallgrím Helgason, hann er snillingur í slíku, en því miður oft óhæfilega langorður.

Þegar átti að kenna mér að skrifa var mér kennd þessi vísa:

Skrifaðu bæði skýrt og rétt

svo skötnum þyki snilli.

Orðin standa eiga þétt,

en þó bil á milli.

Mamma kenndi mér þessa vísu og hún sagði reyndar skautnum í stað skötnum í annarri ljóðlínu, en þegar ég vildi fá að vita hver þessi skauti væri varð fátt um svör. Í mínum augum var hann einhvers konar guðlegt yfirvald sem gætti þess að maður vandaði sig við að skrifa. Ekki tókst mér þó að læra að skrifa almennilega, en er þeim mun betri á ritvélar.

Hverfisgötubrandarann heyrði ég svo löngu seinna.

Um daginn var ég að skoða gömul blogg frá Önnu í Holti og rakst þar á skemmtilega frásögn um misskilning  sem átti sér stað á veitingahúsi á Spáni. Hún minnti mig á að þegar ég fór í fyrsta sinn til Spánar þá sátum við á einhverju veitingahúsi og ég þurfti að pissa eins og fara gerir.

Ég stóð upp og svipaðist um eftir hentugum stað til slíks. Fljótlega sá ég dyr nokkrar og fyrir ofan þær var skrifað með skýrum stöfum: "SENORAS". "Jahá", hugsaði ég með sjálfum mér. "Þó ég sé nú ekki vel að mér í spænsku þá er ég það góður í tungumálum yfirleitt að ég sé í hendi mér að þetta er karlaklósettið". Þangað steðjaði ég semsagt og pissaði eins og ég þurfti. Það rann svo ekki upp fyrir mér fyrr en seinna að líklega var þetta ekki karlaklósettið.


50. blogg

Jæja, nú er þessari gósentíð bloggara og blaðamanna að ljúka. Ný ríkisstjórn komin á koppinn, þingmeirihlutinn ríflegur og allt í lukkunnar velstandi svo það ætti að vera í lagi að snúa sér að öðru en pólitík.

Fleira er matur en feitt ket og nú tekur hversdagsleikinn við.

Kannski verður minna bloggað á moggablogginu í heildina en áður og þó er ég ekki viss um það. Nóg er til að blogga um og margir eru þeir sem gaman hafa af að skrifa. Bara spurning um lesendurna.

Maður á ekki að vera að spandera góðum hugmyndum í comment hjá einhverjum og einhverjum. Nær að nota þær í sín eigin blogg. Aldrei er of mikið af hugmyndum. En auðvitað getur verið gaman að kommenta á vinsælum bloggum, vitandi að margir lesa rövlið.

 

Fékk svokallað svefnöndunartæki og plastgrímu á Borgarspítalanum um daginn vegna kæfisvefnsins. Hef verið að venja mig við þessi ósköp undanfarið. Ekki er þetta kannski alveg sú töfralækning sem ég hafði gert mér vonir um, en margt er smám saman að lagast við þetta.

Það vakti athygli mína á Borgarspítalanum um daginn að þar var byrjað að slá túnblettina. Þar hitti ég líka Þórð í Straumfjarðartungu eða Tóta í Strympu eins og hann var oftast kallaður.


49. blogg

Las í gær pælingar Péturs Tyrfingssonar hér á moggablogginu um stjórnarmyndunarviðræður o.þ.h. ásamt athugasemdum  við þær. Margt athyglisvert kom þar fram og í heild var þetta verulega áhugavert, en ég ætla ekki að blanda mér í það. Sá almannarómur virðist mér nokkuð réttur að Geir Hilmar hafi haldið vel á sínum spilum að afloknum kosningum, Ingibjörg Sólrún allvel eða a.m.k. sæmilega en þeir kumpánar Jón Sigurðsson og Sigfús Jóhann alveg afleitlega. Aðrir komust nú eiginlega ekki að í þeirri spilamennsku, en auðvitað er svosem ekki alveg víst að spilmennskunni sé lokið.

 

 

Á landssambandsþingi Íslenskra verslunarmanna eða einhverjum svipuðum fundi fyrir allmörgum árum var á kaffibollasnakki milli þingfunda verið að ræða um aðild Íslands að EES sem þá var ofarlega á baugi. Einn þingfulltrúanna sagði eitthvað á þessa leið: „Ja, ég er nú eiginlega alveg sammála dóttur minni sem sagði um daginn að það væri í rauninni engin leið að reikna sig af neinu viti til niðurstöðu í svona máli. Það yrði einfaldlega að taka ákvörðun á öðrum grundvelli."

Mig rámaði í að hafa heyrt einhverju í þessa átt haldið fram stuttu áður á Alþingi svo ég spurði manninn hvað þessi dóttir hans héti.

„Ingibjörg Sólrún".


48. blogg

Það er engin þörf  að kvarta / þegar blessuð sólin skín.

Jú, annars; ég þarf  að kvarta undan sólinni. Hún skín hérna beint inn um gluggann þar sem ég sit við tölvuna og veldur því að ég sé ekki almennilega á skjáinn. Auðvitað gæti ég reynt að færa tölvuna eða breiða fyrir gluggann, en ég er of latur til þess.

Þetta var í morgun. Nú er komið kvöld og engin sól til að trufla mig. Lauk í dag við að þýða tvö Atlas skjöl um Tyrkland. Nú er bara yfirlestur eftir og ég hef alveg frammá sunnudagskvöld til að klára hann.

Maður er það sem maður segir og gerir. Í bloggheimum eru flestir aðeins það sem þeir blogga. Nema náttúrulega þeir sem eru landsþekktir fyrir eitthvað annað líka. En er maður sitt síðasta blogg eða summan af öllum sínum bloggum? Kannski er þessu best svarað með spurningu: Eru einhverjar líkur til þess að sá sem uppgötvar nýtt blogg sem honum finnst sæmilega áhugavert nenni að færa sig langar leiðir aftur í tímann?  Ég held varla.

Sumir bloggarar stunda það að vísa í sín fyrri skrif og það er að mörgu leyti sniðugur kostur. Örugglega betri en sá að endurtaka sig í sífellu.

Þó ég geri ekki mikið af því að segja hér frá öðrum bloggum sem ég les fer ekki á milli mála að það hlýt ég að gera. Satt að segja les ég blogg orðið mun meira en flest annað. Vefmiðlarnir koma sennilega næst þar á eftir og svo fylgist ég talsvert með sjónvarpinu. Dagblöðin sé ég ekki nema öðru hvoru og er að mestu hættur að nenna að lesa þau.

Nú er ég sennilega farinn að endurtaka mig svo það er best að hætta.

 

Og þó. Árið er 1972. Ég er staddur í Kaupmannahöfn í minni fyrstu utanlandsferð á ævinni. Daginn áður höfðu Danir greitt atkvæði um það hvort landið skyldi ganga í Efnahagsbandalag Evrópu. Við erum stödd í stóru deildarskiptu verslunarhúsi (hugsanlega Magasin du Nord) og á einum stað hefur hópur fólks safnast saman í kringum sjónvarpstæki til að fylgjast með einhverju sem þar er verið að segja frá.

Það hafði legið fyrir strax kvöldið áður að inngangan í Efnahagsbandalagið hafði verið samþykkt, svo ekki var fólkið að fylgjast með fréttum af því.

Svar við því hvað fólkið er að gera þarna fáum við fljótlega þegar strákur einn lætur okkur fá bréfmiða sem merktur er Politiken. Á honum ofanverðum stendur með nokkuð stóru letri: „Löbeseddel" og fyrir neðan það með ekki minni stöfum: „Krag gaar av".

Þarna var semsagt skýringin komin. Fólkið var að fylgjast með fréttum um afsögn Jens Otto Krag sem verið hafði forsætisráðherra Danmerkur allt þar til honum hafði tekist það ætlunarverk sitt að koma Dönum í Evrópusambandið.


47. blogg

Auðvitað er ríkisstjórnarmyndun mál málanna hjá flestum þessa dagana,  en ég nenni ekki að skrifa mikið um það, þó ýmislegt megi um það segja. Vitaskuld er langlíklegast að fyrrverandi stjórn reyni að lafa eitthvað áfram og þeir þingmenn stjórnarflokkanna sem gefið hafa annað í skyn að undanförnu hafa sjálfsagt verið skammaðir og brýnt fyrir þeim að nú gildi liðsheildin og að rugga ekki bátnum að óþörfu.

 

Ég varð snemma nokkuð bókhneigður. Áður en ég átti að fara í skóla var ákveðið af foreldrum mínum að ég þyrfti að læra að lesa. Var ég því sendur í tíma til Sveinu í Grasgarðinum. Þar lærði ég síðan að lesa og man ég ekki betur en það hafi gengið sæmilega.

Þegar ég var orðinn læs ákvað pabbi að tími væri til kominn að gefa mér bók og ég man vel hvaða bók það var. Hún hét Gusi grísakóngur og fjallaði um frægar Disney-persónur og þar á meðal var sá skúrkur sem í Andrésar andarblöðunum sem ég komst seinna upp á lag með að lesa á dönsku var kallaður Store stygge ulv. Frásögnin í bókinni fjallaði um tilraunir hans til að blása hús grísanna um koll og býst ég við að margir kannist við þá sögu.

Þegar kom í fyrsta bekk í skóla var ég semsagt orðinn læs og þessvegna fljótlega sendur í næsta bekk fyrir ofan ásamt nokkrum öðrum sem svipað var ástatt um.

Ég man ekki mikið eftir fyrstu bókunum sem ég las, en meðal þeirra var efalaust bókin um Dísu ljósálf og líklega einnig bókin um Alfinn álfakóng. Mér þóttu þessar bækur þó fremur barnalegar og miklu meira koma til bókarinnar um Ívar hlújárn eftir Walter Scott. Allar þessar bækur las ég mörgum sinnum og þær áttu það sameiginlegt að mynd var á efri hluta hverrar blaðsíðu. Söguþráður bókarinnar um Ívar hlújárn er mér enn minnisstæður.

Ég man líka vel eftir því að einhvern tíma á þessum árum var ég í heimsókn hjá Sigga í Fagrahvammi og sá þar nokkrar bækur í bókahillu sem hann átti og þar á meðal einhverja bók sem ég hafði áhuga á. Spurði því Sigga hvernig þessi bók væri. Svar hans er greypt í huga mér: „Það veit ég ekki, ég hef ekki lesið hana."

Þetta fannst mér svo ótrúlegt að engu tali tók. Að einhver maður gæti átt bók án þess að hafa lesið hana var hugsun sem aldrei hafði hvarflað að mér. Á mínu heimili voru allar bækur marglesnar og lesnar aftur og aftur meðan þær voru í heilu lagi.

Þarna hefur ef til vill opnast fyrir mér munurinn milli fátækra og ríkra. Þetta hafði samt engin áhrif á vinskap okkar Sigga hvorki fyrr né síðar.


46. blogg

  Fyrir margt löngu gaf séra Sveinn Víkingur út litla bók sem hann kallaði vísnagátur. Í henni voru 50 slíkar vísur frumortar af honum. Aftast í bókinni var svarblað þar sem hægt var að skrá svörin við öllum gátunum. Heitið var verðlaunum fyrir réttar ráðningar og ég man að ég þóttist vera búinn að ráða allar gáturnar og sendi svarblaðið, en fékk það endursent með leiðréttingu á einu svarinu.

Ein gátan úr bókinni er mér af einhverjum ástæðum minnisstæð. Hún er svona:

 

Í öllum húsum er hann.

Og í bát þú sér hann.

Þversum jafnan þar.

Á sauðarhaus má sjá hann

Þá sannast oft hver á hann.

Og sætur svöngum var.

 

Ég er ekki viss um að þetta birtist á réttan hátt á blogginu því síðast þegar ég vissi var ekki gott samkomulag milli Moggabloggsins og Words-ins sem ég nota hvað snertir linefeed o.þ.h.

Annars eru vísnagátur oft skemmtilegar. Atli Harðarson heimspekingur og bróðir Bjarna þingmanns gerir ágætar vísnagátur. Þær má nálgast á heimasíðu hans á this.is/atli

Reyndar er önnur gáta úr bókinni hans Sveins sem mér flýgur í hug um leið og ég minnist á Atla og hún er svona:

 

Löngum hafa menn leikið á hana.

Á lofti um nætur fengið að sjá hana.

Svo greinir hún líka gróft og fínt í sundur.

Enn gerast á henni vorsins stærstu undur.

 

Ég er eiginlega hissa á að ég skuli ekki muna eftir fleiri vísum úr þessari ágætu bók. Ég man þó lokin á einni vísunni en þau voru svona:

 

........... tvær á kindinni.

Ein fegursta sveit

er á foldu ég leit

og fjórar á nýju Myndinni.

 

Grúskarar gætu fundið út hvenær þessi vísa er gerð því þarna er vísað í dagblað sem kom út í stuttan tíma hér á Íslandi og var ekki nema 4 blaðsíður, í stóru broti þó.


45. blogg

 

Kosningaúrslitin leggjast auðvitað svolítið misjafnlega í menn. Eins og venjulega eru allir fremur ánægðir og hafa yfirleitt unnið sigur, a.m.k. varnarsigur. Sjálfur er ég auðvitað ánægðastur með að Bjarni Harðarson skuli vera kominn á þing.

Einnig finnst mér ánægjulegt að Ellert Scram skuli loksins hafa fengið uppreisn æru. Ég man að eitt sinn lét hann af hendi sæti á framboðslista sem hann átti að margra mati fullan rétt á. Kannski ætlaðist hann til þess að Sjálfstæðisflokkurinn launaði honum það síðar, en slíkt gera þannig skepnur ekki.

Ég man líka vel eftir að hafa séð Ellert í landsleik í knattspyrnu. Sumir álitu að hann hefði notið föður síns við val í liðið og ætti ekkert erindi þangað. Bauluðu jafnvel á hann þegar hann fékk boltann. Ég hafði ekki mikið vit á knattspyrnu þá frekar en nú, en ég man að mér þótti þetta ósanngjarnt.


44. blogg

Í dag er kosningadagurinn mikli. A.m.k. er hann mikilvægur og afdrifaríkur nákvæmlega núna, hvað sem síðar verður sagt um hann.

Ég ætla samt ekki að blogga um hann, nógu margir verða víst til þess.

Bjarni benti mér á það um daginn að ég gæti bæði fundið Önnu í Holti og Gíslínu í Dal á Moggablogginu. Þetta reyndist alveg rétt.

Að undanförnu virðast Moggabloggs-forritararnir hafa verið að fikta eitthvað í aðsóknartölunum og ég skil líklega ennþá minna í þeim núna, en ég hélt að ég gerði.

Ég hafði ekki ætlað mér að vera neitt að velta fyrir mér stýringum í blogginu, bloggvinum og þess háttar fyrr en einhverntíma eftir kosningar. En í gær fékk ég boð frá Önnu í Holti um að gerast bloggvinur hennar og auðvitað þáði ég það. Í framhaldi af því datt mér svo í hug að það væri vel til fundið að bjóða Bjarna frænda bloggvináttu á sjálfan kosningadaginn. Þetta hlýtur að vera ansi spennandi dagur fyrir hann.

 

Jói og Hafdís fóru í gær í sumarbústað austur í Tungur. Lísa köttur verður hjá okkur á meðan. Áslaug og hún verða víst einar á kosningavökunni í Auðbrekkunni í kvöld.

Benni er búinn að kaupa sér íbúð sem hann fær afhenta 1. júlí að ég held. Sína íbúð þarf hann að afhenda í byrjun júní svo þarna er svolítið bil sem þarf að brúa, en ég hef ekki trú á að það verði mikið vandamál. Íbúðin er við Helluvað og minnir mig náttúrlega á að það var einmitt á Hellu sem ég hitti Áslaugu fyrst, en það er alltönnur saga.


Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband