46. blogg

  Fyrir margt löngu gaf séra Sveinn Víkingur út litla bók sem hann kallaði vísnagátur. Í henni voru 50 slíkar vísur frumortar af honum. Aftast í bókinni var svarblað þar sem hægt var að skrá svörin við öllum gátunum. Heitið var verðlaunum fyrir réttar ráðningar og ég man að ég þóttist vera búinn að ráða allar gáturnar og sendi svarblaðið, en fékk það endursent með leiðréttingu á einu svarinu.

Ein gátan úr bókinni er mér af einhverjum ástæðum minnisstæð. Hún er svona:

 

Í öllum húsum er hann.

Og í bát þú sér hann.

Þversum jafnan þar.

Á sauðarhaus má sjá hann

Þá sannast oft hver á hann.

Og sætur svöngum var.

 

Ég er ekki viss um að þetta birtist á réttan hátt á blogginu því síðast þegar ég vissi var ekki gott samkomulag milli Moggabloggsins og Words-ins sem ég nota hvað snertir linefeed o.þ.h.

Annars eru vísnagátur oft skemmtilegar. Atli Harðarson heimspekingur og bróðir Bjarna þingmanns gerir ágætar vísnagátur. Þær má nálgast á heimasíðu hans á this.is/atli

Reyndar er önnur gáta úr bókinni hans Sveins sem mér flýgur í hug um leið og ég minnist á Atla og hún er svona:

 

Löngum hafa menn leikið á hana.

Á lofti um nætur fengið að sjá hana.

Svo greinir hún líka gróft og fínt í sundur.

Enn gerast á henni vorsins stærstu undur.

 

Ég er eiginlega hissa á að ég skuli ekki muna eftir fleiri vísum úr þessari ágætu bók. Ég man þó lokin á einni vísunni en þau voru svona:

 

........... tvær á kindinni.

Ein fegursta sveit

er á foldu ég leit

og fjórar á nýju Myndinni.

 

Grúskarar gætu fundið út hvenær þessi vísa er gerð því þarna er vísað í dagblað sem kom út í stuttan tíma hér á Íslandi og var ekki nema 4 blaðsíður, í stóru broti þó.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband