Bloggfærslur mánaðarins, maí 2007
10.5.2007 | 19:06
43. blogg
Um daginn var ég þó að flækjast á Netinu og sá þá mynband sem vakti athygli mína og ég ætla að segja hér svolítið frá. Vel getur verið að þetta sé gamalt myndband og að fjallað hafi verið um þetta mál í fréttum hérlendis, þó ég hafi ekki orðið var við það.
Þetta myndband var úr öryggismyndavél og sýndi umferð á fjölförnum gatnamótum í borginni Tel Aviv í Ísrael.
Þar sást að ökumaður mótorhjóls reyndi að skjótast milli tveggja flutningabíla. Honum mistókst það og hann virtist lenda utan í öðrum bílnum og undir hinum og bíða samstundis bana. Nú geri ég mér grein fyrir því að banaslys í umferðinni eru ekki mjög sjaldgæf, hvorki hér á Íslandi né annars staðar. Það fer heldur ekki hjá því að slíkt náist öðru hvoru á mynd eins og myndavélar eru orðnar algengar. Nokkrum sinnum hef ég séð myndir af slíku og vissulega er það hryllilegt á að horfa.
Það er samt það sem fram fór eftir slysið sem fær mig til þess að blogga um þetta. Í langan tíma gerðist ekki neitt. Hundruð ökutækja af ýmsum gerðum óku framhjá manninum í blóði sínu á götunni eins og ekkert hefði ískorist.
Að sumu leyti skiptir sjálfsagt máli hvar þetta var. Ég býst ekki við að ég hefði orðið eins hissa ef þetta hefði t.d. verið í Kína eða á Indlandi. Ísrael hélt ég hins vegar að væri nánast vestrænt ríki.
Sem betur fer verð ég væntanlega dauður áður en svonalagað þykir sjálfsagt og eðlilegt hér á Íslandi.
8.5.2007 | 00:46
42. blogg
Það að yrkja er þjóðargaman / þetta er fyrri hendingin. / Vísu þessa setti ég saman / svona verður endingin.
Ég hef alltaf haft sérlega gaman af vísum um vísnagerð ef þær eru vel ortar. Þessi er ágæt, en því miður gerði ég hana ekki sjálfur og hef ekki hugmynd um hver gerði hana.
Fyrir alllöngu síðan, (líklega laust eftir 1990 eða svo) í árdaga Internetsins á Íslandi stofnaði Pétur Þorsteinsson á Imbu sinni leirlistann svokallaða. Þetta var póstlisti af hefðbundinni gerð þannig að allt sem skrifað var á hann fór í tölvupósti til allra á listanum. Á Imbu eða einhverri af öðrum tölvum sem Ísmennt kom seinna á laggirnar var talsvert skrifað á einhverja ráðstefnu og þar lét ég sundum ljós mitt skína og birti meðal annars eitthvert vísnabull eftir mig. Í framhaldi af því var mér svo boðið á leirlistanum og þáði ég það auðvitað með þökkum.
Þar var ég svo einn af svonefndum leirlistamönnum allar götur þangað til á síðari hluta síðasta árs. Lengst af var ég nú heldur atkvæðalítill þar en orti þó stöku sinnum vísur sem ég er náttúrlega alveg búinn að gleyma.
Í upphafi voru leirlistamenn ekki margir og framleiðslan svona ein eða tvær vísur á dag, jafnvel minna. Undir það síðasta hafði félögum á listanum fjölgað svo að líklega hafa þeir verið farnir að nálgast hundraðið. Allmargir af þessum nýju félögum virtust líta á það sem skyldu sína að senda a.m.k. nokkrar vísur á hverjum einasta degi og þar með var það orðið talsvert mál að opna öll bréfin og lesa vísurnar sem þar voru. Ég tala nú ekki um ef einhverjir dagar liðu án þess að pósturinn væri athugaður.
Vísurnar voru líka afskaplega misjafnar að gæðum þó flestar væru þær rétt ortar. Margar af bestu vísunum voru birtar í Morgunblaðinu því einn blaðamaður þar var á listanum.
6.5.2007 | 11:21
41. blogg
Þetta blogg mitt væri sennilega réttast að kalla minningablogg. Mér finnst auðveldast og skemmtilegast að setja saman þessi minningabrot sem ég hef verið að setja hér á blað (eða réttara sagt, breyta í rafeindamerki - blöð koma hér ekkert við sögu). Ekki er útilokað að þeir sem ólust upp í Hveragerði um miðja síðustu öld finni hér eitt og annað sem þeim finnst áhugavert.
Það eru hugleiðingarnar sem geta kostað heilabrot, minningarnar koma næstum af sjálfu sér. Oftast rifjast hlutirnir upp fyrir mér með einstökum myndum sem þó eru ekki alltaf fullkomlega skýrar. Vandinn er svo einkum fólginn í því að finna réttu orðin til að lýsa hlutunum. Vel getur verið að minningarnar séu ekki alltaf nákvæmlega réttar, en við því er ekkert að gera. Þetta er eins og ég man hlutina. Margt getur hafa skolast til á löngum tíma.
Vorið heldur sínu striki nokkuð vel. Sífellt grænkar meir og meir og bráðum hætti ég að geta séð í gegnum hekkið hérna fyrir utan. Pólitískur æsingur eykst líka dag frá degi eftir því sem nær dregur kosningum. Árangur flokkanna sveiflast fram og aftur ef miðað er við skoðanakannanir, sem eru orðnar svo margar og mismunandi að ekki er nokkur leið að fylgjast með þeim öllum.
Eina íþróttin sem ég hef einhverntíma getað eitthvað í er skák. Auðvitað þykjast allir karlmann líka geta eitthvað í fótbolta, en það er önnur saga sem ég fer kannski nánar út í seinna. Sumir halda því reyndar fram að skák sé ekki íþrótt, en ég fer ekki ofan af því að skák sé a.m.k. að hluta til íþrótt.
Ég lærði mannganginn hjá þeim Skaftasonum Jósef og Jóhannesi ef ég man rétt. Við vorum stundum að leika okkur með taflborð og menn en kunnum næsta lítið fyrir okkur. T.d. man ég vel að við kunnum ekki að þrengja markvisst að einmana kóngi með kóng og hrók. Við fundum þetta síðan út af eigin hyggjuviti og þóttumst hafa gert mikla uppgötvun.
Pabbi kunni að tefla en hans hugmyndir um skákreglur stönguðust svolítið á við það sem viðurkennt var af öðrum. Tvennt er það sem ég man vel eftir að var öðruvísi hjá honum en algengast var og er.
Hann hélt því fram að einungis mætti nota átta leiki til þess að máta beran kóng, annars væri skákin jafntefli. Hann hélt því líka fram að þegar peð kæmist upp í borð væri aðeins hægt að vekja upp mann af þeirri gerð sem þar var þegar skákin hófst. Þannig að ef peð kæmist upp í borð á A eða H línu þá væri einungis hægt að vekja upp hrók. Á D línunni væri hins vegar hægt að vekja upp drottningu. Ég man bara ekki hvað átti að gerast ef vakið var upp á E línu. Örugglega var ekki vakinn upp annar kóngur. Ástæðan fyrir því að ég man þetta ekki er sennilega sú að ég tók aldrei mark á þessum reglum. Aðrir sögðu annað og ég trúði því betur.
Pabbi taldi líka að svonefnd valdskák væri nokkurn vegin jafnmerkileg og venjulega skák og hefði verið mikið iðkuð áður fyrr. Valdskák er það nefnt þegar bannað er að drepa valdaðan mann en venjulegar skákreglur gilda að öðru leyti.
3.5.2007 | 23:19
40. blogg
Þetta er blogg númer 40, sem er nú talsverður árangur út af fyrir sig. Að undanförnu hef ég skrifað óvenju oft. Nýtt blogg á hverjum degi.
Mér finnst ég yfirleitt vera þurrausinn eftir hvert blogg, en leggst svo eitthvað til þegar ég er búinn að ræsa Word-ið næsta dag. Ef ég kemst í þrot loka ég bara skjalinu og fer að gera eitthvað annað.
Ég var að hlusta á þá Guðmund Steingrímsson og Robert Marshall flytja Robinson-lagið sitt áðan. Mér fannst það fyndið, en á nýjan hátt. Það er ekki hægt að segja að þetta sé nein Baggalútsfyndni, en ef maður getur haft hemil á kjánahrollinum er eiginlega bara gaman að þessu.
Ég reikna með að stóra Jónínumálið fari að lognast útaf. Það er ekki líklegt að það dragi neinn dilk á eftir sér, allra síst svona rétt fyrir kosningar. Í mínum huga er aðeins eftir að upplýsa hver lak málinu í Helga Seljan eða Kastljósfólkið yfirleitt. Bæði Bjarni Benediktsson og Jónína koma til með að bíða talsverðan pólitískan skaða af þessu. Einkum þó Bjarni, en hann var á margan hátt ein helsta vonarstjarna Sjálfstæðisflokksins. Guðjón Ólafur og Guðrún Ögmundsdóttir munu heldur ekki græða á þessu máli. Þó þeir Kastljósmenn hafi e.t.v. stundum farið nokkuð geyst í þessu máli, þá held ég að það verði þeim til álitsauka í heild og sömuleiðis dragi þingmenn nokkurn lærdóm af því.
Þegar ég var unglingur voru rústir af gamalli þangmjölsverksmiðju skammt frá Álfafelli. Stór steypt laug til vatnssöfnunar var þar rétt hjá. Húsið hafði verið byggt efst í brekkunni við ána og þó engir veggir væru lengur að fullu uppistandandi var gaman að leika sér þar. Steyptar grunnplötur voru þarna margar og á mörgum hæðum og mikið pláss. Ofsafengnir bardagar með trésverðum og tilheyrandi voru háðir þar og í minningunni að minnsta kosti voru liðin fjölmenn sem tóku þátt í þeim.
Ég man ekki hvort bardagarnir þarna tengdust einhverjum öðrum átökum milli hópa í þorpinu. Ég held frekar að við höfum stundað þetta sem íþrótt en sem illsku. Mesta hættan sem af þessu stafaði var sú að hjöltun á sverðunum væru svo illa gerð að sverð andstæðingsins rynni óvart á hendi manns.
Fyrir neðan rústirnar af þangmjölsverksmiðjunni og dálítið niður með ánni var gamla rafstöðin. Hætt var að nota hana og búið að fjarlægja allan vélbúnað. Hússkrokkurinn var þó þarna ennþá og að sjálfsögðu stíflan. Oftast nær flæddi áin a.m.k. nokkra sentimetra yfir stífluna, sem var varla meira en svona 20 sentimetra breið. Það þótti manndómsmerki að þora að ösla yfir ána eftir stíflunni þegar vel flæddi yfir hana.
2.5.2007 | 23:34
39. blogg
Það eru svo margir sem beygja þessa sögn vitlaust að það liggur við að það vitlausa sé orðið rétt.
Sjálfur reyni ég eftir megni að vara mig á að dæma aðra eftir því hvernig þeir tala eða skrifa. Ég hugsa að ég sé viðkvæmari fyrir slæmum texta en slæmum framburði. Víst er ljótt að sjá hve slæmur og illskiljanlegur texti veður uppi í fjölmiðlum. Og blogg eru að mínum dómi fjölmiðlar.
Mér finnst eðlilegt að gera strangar kröfur í málfarslegu tilliti til auglýsinga og fjölmiðla með mikla útbreiðslu. Hinsvegar er afleitt ef viðmælendur eru dæmdir af einstökum slysum.
Ég man að ég var eiginlega feginn þegar Magnús Torfi Ólafsson stóð að því að afnema setuna. Ástæðan var einfaldlega sú að sumar setureglurnar voru svolítið flóknar og ég hafði aldrei náð því að tileinka mér þær nógu vel. Hinsvegar vefjast ypsilon reglurnar lítið fyrir mér.
Eitt af því sem mér finnst mjög áberandi á vefmiðlum er að svo virðist sem oft sé verið að breyta um orð í textanum fram á síðustu stund og ekki gætt að því að breytingarnar geta hæglega haft áhrif annars staðar. Lokayfirlestri er þá greinilega sleppt.
Í framhaldi af þvi sem ég skrifaði um brunnklukkurnar um daginn, þá get ég nefnt að lirfur brunnklukkna eru nefndar vatnskettir. Það var að vísu ekki á sama stað og við fylgdumst með brunnklukkunum, en mér er minnisstætt að ég fylgdist með vatnsköttum einu sinni. Þeir voru furðustórir og það sem mér þótti eftirtektarverðast við þá var að húðin á þeim var glær og holdið gegnsætt þannig að innri líffæri sáust öll.
Svo ég haldi nú áfram þessu kvikindatali þá finn ég það á sjálfum mér að viðkvæmni gagnvart ýmsu þessháttar eykst með aldrinum. Nú mundi ég t.d. helst ekki taka kónguló upp nema með bréfi eða einhverju, en þegar ég var yngri hefði mér þótt slíkt fáránlegt.
Þegar ég vann á Garðyrkjuskólanum á Reykjum gerðum við það stundum strákarnir að gamni okkar að taka kónguló og setja hana í vef hjá annarri sem var heldur minni. Ef vel tókst til varð úr þessu gríðarlega spennandi bardagi (einkum ef sú sem átti vefinn var með eggpoka hjá sér) sem við gátum svo fylgst með og jafnvel reynt að hafa áhrif á.
1.5.2007 | 21:47
38. blogg
Þessi dagur er haldinn hátíðlegur víða um heim og ekki að ófyrirsynju. Rússar og fleiri þjóðir hafa reyndar komið óorði á hann með hersýningum og öðru brambolti, en saga hátíðahalda á þessum degi er löng og merk bæði hér á Íslandi og víða annars staðar.
Langt er síðan ég hef farið í kröfugöngu en ég held að þær hafi á sínum tíma verið af hinu góða. Að mörgu leyti held á að fólk sé að upplifa það núna hve rangt það hefur verið á undanförnum áratugum að leggja megináherslu á yfirborganir en vanrækja grunnlaunin ásamt því að afneita verkalýðsfélögum og treysta á mátt sinn og megin.
Um daginn sá ég í blaði að Berþóra Árnadóttir væri dáin. Þegar við áttum heima vesturfrá eftir brunann voru hún og systkini hennar meðal leikfélaga okkar. Ég minnist sérstaklega Jóns Sverris bróður hennar. Hann átti það til að sjást ekki fyrir þegar hann reiddist og slíka krakka kölluðum við gjarnan grjótkastara. Eitt sinn henti hann steini beint í hausinn á mér svo það kom stærðar kúla. Foreldrar þeirra þau Alla Magga og Árni voru eftirminnileg og skiptu sér líklega meira af okkur en aðrir foreldrar.
Yfirleitt held ég að okkur krökkunum hafi komið ágætlega saman. M.a. man ég eftir gamalli og hálfhruninni sundlaug einhvers staðar í nágrenninu, sem var full af fúlu vatni. Þar sátum við löngum stundum og fylgdumst með brunnklukkunum sem þar var mikið af. Skemmtilegt var að fylgjast með þeim þar sem þær skriðu um botninn en komu öðru hvoru upp og settu afturendann uppúr vatninu til að taka loft undir skelina.
Við þessa sundlaug fann ég líka einu sinni ónotað riffilskot. Ég setti það á sundlaugarbarminn og lamdi á það með stórum steini. Vissulega kom hvellur af þessu, en ég er ekki viss um að þetta hafi verið mjög gáfulegt.
Jón Sverrir fórst fáum árum eftir þetta í hörmulegu bílslysi þar sem hann var á reiðhjóli á þjóðveginum fyrir neðan þorp, skammt frá réttunum sem þar voru.