914 - Ólafur Ragnar Grímsson

Menn rugla gjarnan saman forseta og forsetaembætti. Það er eðlilegt. Forsetar sitja venjulega svo lengi að tiltölulega fáir muna eftir öðrum en þeim sem forseti er hverju sinni og ef til vill þeim sem á undan var.

Ólafur Ragnar Grímsson á erfitt með að ákveða sig núna. Ekki vorkenni ég honum það. Hann kom sér sjálfur í þessa stöðu og virðist ekki vera ýkja vinsæll meðal þjóðarinnar.

Líklegast er að hann hagi sér á þann hátt sem pólitísk fortíð hans bendir til og skrifi undir lögin. Geri hann það er hann þar með orðinn áhrifalítill og tilgangslaus forseti. Embættinu er kannski bjargað um sinn en áhrifamáttur forsetans í stórmálum framtíðarinnar er stórlega skertur.

Áhrifaleysi hans sjálfs hefur lítið að segja. Hann mun ekki bjóða sig fram oftar og hefur litlu að tapa. Upphrópanir æsingamanna um borgarastyrjöld og aðrar kárínur eiga ekki mikinn hljómgrunn meðal þjóðarinnar og munu ekki rætast.

Neiti hann að skrifa undir mun hann verða vinsæll hjá mörgum þeirra sem hingað til hafa haft lítið álit á honum en vinátta þeirra mun ekki rista djúpt og þeir munu afneita honum við fyrsta tækifæri.

Líklega segir ríkisstjórnin af sér ef hann skrifar ekki undir. Það er þó alls ekki víst. Hún hefur mörg fleiri úrræði. Hætt er þó við að áfram verði deilt um þetta mál ef svo fer og á einhvern hátt verði hægt að kenna því um að ekki sé mikið gert í öðrum málum.

Alls ekki er fyrirséð hvort, hvenær eða hvernig þjóðaratkvæðagreiðsla muni fara fram ef undirskrift verður neitað. Sigmundi Davíð og Bjarna Benediktssyni mundi kannski líka vel að fiska í því grugguga vatni sem stjórnmálin gætu lent í. Hugsanlegt er að þeim tækist að mynda ríkisstjórn en líklegra er þó að kosningar yrðu fljótlega og þá gæti skipt máli hvar þingrofsrétturinn er. Samkvæmt venju ætti hann að vera hjá forsætisráðherra.

Örleikrit í einum þætti

Persónur: Hann og hún.
Staður og tími: Reykjavík vorra daga.

Hún kemur með konfektskál og otar að honum: Hérna. Fáðu þér konfektmola. Hún Una frænka sendi þetta og ég er að velta því fyrir mér hvort hún hafi búið þetta til sjálf eða keypt það.

Hann: Takk. (stingur einum mola upp í sig annars hugar)

Hún: Hvurslags er þetta maður. Þú átt að bíta í molann en ekki stinga honum upp í þig.
(Hugsar: Hann er eins og hungraður úlfur.)

Hann: Nú, það vissi ég ekki.
(Hugsar: Ekkert má nú. Maður fær ekki einu sinni að borða sitt konfekt eins og manni sýnist.)

Hún: Hvernig á ég þá að komast að því hvort hann er heimatilbúinn eða ekki?

Hann: Mér finnst hann verksmiðjulegur á bragðið.

Hún: Það er nú lítið að marka. Ég verð líklega að fá mér sjálf.

Hann: Já, gerðu það.

Tjaldið fellur.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 identicon

Liðið með erlenda nafninu er 25%. Hrunliðið og skuldarar.  Hvernig er hægt að greiða atkvæði um þáttöku um skattlagingu, með já/nei?
VIÐ VERÐU RÚIN ÖLLU TRAUSTI FYRR EN VARI.  Evrópu þjóðir af ýtrekað rökstutt og sýnt fram á að við verðum að standa við lámarks ábyrgðir.  Góður eins og vant er.

Ólafur Sveinsson 2.1.2010 kl. 01:05

2 Smámynd: Sæmundur Bjarnason

Minn skilningur er að lögin um ríkisábyrgð á Icesave öðlist ekki fullgildingu ef forsetinn neitar að skrifa undir þau. Stjórnarskráin segir að lögin öðlist þá samt gildi en skuli lögð undir dóm kjósenda. Hvernig, hvenær og þessháttar ef til kemur eru allt seinni tíma ákvarðanir. Efni laganna skiptir ekki máli, en gæti skipt forsetann máli þegar hann tekur ákvörðun um hvort hann skrifar undir eður ei.

Sæmundur Bjarnason, 2.1.2010 kl. 01:14

3 identicon

Ólafur Ragnar hefur með því að beita synjunarvaldinu í fjölmiðlamálinu markað forsetaembættinu það hlutverk að vera síðasti öryggisventill, utan flokkapólitíkur, ef þing vill aðhafast eitthvað sem meirihluti þjóðarinnar er mjög andsnúinn. Ef hann neitar að skrifa undir í þetta skiptið, nú þegar pólitískir "vinir" hans eru í stjórn, þá á hann kannski eitthvað minna af vinum á eftir en mun hafa áunnið sér ákveðna virðingu yfir litrófið með því að sýna að hann sé í raun hafin yfir flokkapólitík.

Skrifi hann undir þá verður tæpast borgarastríð þótt það gætu orðið einhver læti. Hinsvegar er hætt við því að þetta gæti orðið langlíft tilefni til  reiði og sundrungar, líkt og hermálið, og ýtt undir samfélagslega firringu.

Í raun ætti ríkisstjórnin að hafa stoppað þetta mál í þessum farvegi og reynt að finna einhverstaðar hjá sér dálitla stjórnvisku. 

Hans Haraldsson 2.1.2010 kl. 01:39

4 identicon

Fjölmiðla frumvarpið var beint gegn einu fyrirtæki.  Málin ekki sambærileg.

Ólafur Sveinsson 2.1.2010 kl. 01:59

5 Smámynd: Eygló

Lögin öðlast held ég þegar gildi, þegar Alþingi hefur samþykkt.
Undirriti forseti eða handhafar forsetavalds ekki þessi gildu lög, er aðeins tvennt í stöðunni:
a) að draga málið til baka
b) að efna til þjóðarkosninga.

Eygló, 2.1.2010 kl. 02:11

6 Smámynd: Kama Sutra

Hvað tefur Indefence-liða í því að setja upp lista fyrir þá sem vilja neita að greiða fyrir gjaldþrot Seðlabankans?

Kama Sutra, 2.1.2010 kl. 02:28

7 identicon

 

Hafið þið hugsað út í það tímabil sem gengur í hönd, ef Ólafur R. samþykkir ekki lögin?
Hvernig hafa menn hugsað sér framkvæmd þjóðaratkvæðis greiðslunnar. Áróður í fjölmiðlum í nokkrar vikur?
Málið er bara ekki tækt í þessu formi til já/nei atkvæðagreiðslu

Ólafur Sveinsson 2.1.2010 kl. 02:37

8 identicon

Gjaldþrot SÍ var um 300 milljarða. Viku fyrir þrot. Í stórkallaleik Davíðs.                    Þar sem hann sagði: sáuð þið hvernig ég tók þá?  Lítil umræða?

Ólafur Sveinsson 2.1.2010 kl. 02:40

9 Smámynd: Sæmundur Bjarnason

Mér finnst málin að mörgu leyti sambærileg. Hans, hvar var stjórnviska Davíðs Oddssonar og ríkisstjórnar hans þegar hann lét fjölmiðlalögin ganga til forseta?

Ég held að ríkisstjórnin hafi ekki sagt sitt síðasta orð í þessu máli ef Ólafur skrifar ekki undir. Hörmulegt er hvernig þetta mál virðist ætla að skipta þjóðinni í fylkingar þó báðar fylkingar séu næstum sammála en bara ekki um það hverjir eiga að vera í ríkisstjórn. 

Sæmundur Bjarnason, 2.1.2010 kl. 02:41

10 Smámynd: Kama Sutra

Þjóðaratkvæðagreiðsla um Icesave yrði margra mánaða process minnst.  Vel til þess fallin að virka sem smjörlíkisklípa og kæfa niður allar umræður um niðurstöður rannsóknarnefndar Alþingis.

Óskastaða fyrir suma...

Kama Sutra, 2.1.2010 kl. 02:45

11 Smámynd: Eygló

Fer að líkindum ekki í þjóðaratkvæðagreiðslu þótt forseti samþykki ekki.
Verða afturkölluð.

Eygló, 2.1.2010 kl. 02:46

12 identicon

Furðulegt hvernig menn vilja alltaf draga Davíð Oddson inn í þessa umræðu.

Einn segir að úr því að Seðlabankinn tapaði stórfé undir stjórn Davíðs þá sé um að gera að bæta meiru við. Ég treysti mér ekki til þess að reyna að finna vitglóru í þeirri hugsun.

Annar kemur og segir að úr því að Davíð fór illa með fjölmiðlamálið þá sé um að gera að fara illa með þetta mál líka.

Hverskonar ands%#&%ns vitleysa er þetta eiginlega?

Ekki skil ég síðan hvernig síðuhaldari kemst að þeirri niðurstöðu að fylkingarnar greini helst á um það hverjir eigi að vera í stjórn. Þessi skuldbinding er þess eðlis - svo stór í sniðum og óvissan svo mikil - að umbúnaður hennar einfaldlega verður að vera í lagi ef hana á að axla yfirleitt sérstaklega vegna þess (en ekki þrátt fyrr!) að ríkið er svo skuldugt án hennar.

Ég segi það fyrir mitt leiti að mér er slétt sama hver situr í stjórn svo lengi sem gengið er sómasamlega og skynsamlega frá þessu máli.

Hans Haraldsson 2.1.2010 kl. 02:56

13 Smámynd: Sæmundur Bjarnason

Hans, eftir því sem fram kom í umræðum á Alþingi þá er ekki ágreiningur um að greiða skuli, heldur bara hvernig. Það var mikil bjartsýni að gera ráð fyrir að Bretar og Hollendingar féllust á afgreiðslu Alþingis án þess að segja múkk. Vel má hugsa sér að fara hefði mátt öðruvísi með málið eftir það. Nú er það bara statt á þessum punkti og framhald þess ræðst af einum manni. Ekkert er athugavert við að menn reyni að hafa áhrif á Ólaf Ragnar en gera má ráð fyrir áframhaldandi deilum ef hann skrifar ekki undir. Sumir (margir) verða að vísu reiðir ef hann skrifar undir en ákveðinn endapunktur er samt settur við málið.

Sæmundur Bjarnason, 2.1.2010 kl. 03:11

14 Smámynd: Jóhannes Laxdal Baldvinsson

Afsögn á borðið hann lagði
Ice save svo samþykkti og sagði:
"Þótt bilið sé breitt
þá er eðlið samt eitt,
skítlegt með gallsúru bragði"

Jóhannes Laxdal Baldvinsson, 2.1.2010 kl. 03:36

15 identicon

Ríkisábyrgðin frá því í sumar er orðin hlutur og ef Bretar og Hollendingar ganga að því tilboði sem í henni felst þá er ekki um annað að ræða en að borga.

En munurinn á ábyrgð með fyrirvörum eða án þeirra er ekki aukaatriði. Það hvort að vaxtagreiðslur falla undir greiðsluhámarkið eða ekki getur skilið á milli feigs og ófeigs. Tímatakmörkin skipta líka gríðarlegu máli og sá fyrirvari að ríkisábyrgðin falli úr gildi ef til þess bær dómstóll úrskurðar að innistæðutryggingin eigi ekki við er sjálfsagt.

Þessi ágreiningur snýst einfaldlega um annað og meira en flokkapólitík.

Út af fyrir sig er ekkert undarlegt við að það heyrist múkk í Bretum og Hollendingum. Það undarlega er að stjórnin skuli hlaupa til við fyrsta múkk og reyna að fella burt alla þá fyrirvara sem einhverju skipta.

Auðvitað lýkur þessu máli ekki á næstunni hvort sem forsetinn skrifar undir eða ekki. Verði ekki skrifað undir þarf að finna nýja lendingu í málinu og verði skrifað undir á enn eftir að borga.

Hvernig sem málinu er snúið þá er það alltaf þannig að ríkisstjórn getur ekki tekist á við verkefni á stærð við ríkistryggingu á Icesave án þess að hafa unnið meirihluta þjóðarinnar á sitt band.

Annars snýst þetta um meira en bara peninga. Í bankahruninu horfðum við á flestar helstu stofnanir ríkisins bregðast fullkomlega. Allskyns óhroði hefur síðan komið í ljós varðandi tengsl spillts viðskiptalífs og stjórnmálanna. Sá eini af fjórflokkunum sem hafði eitthvað kapítal í að endurreisa trúverðugleika yfirvalda hefur brennt sínum eigin trúverðugleika eins og engin sé morgundagurinn. Lykilmenn í fjármálalífinu hafa komist í valdastöður í krafti flokkstengsla o.s.frv. o.s.frv.

Ég er ansi hræddur um að ef valtað verður yfir meirihluta þjóðarinnar í þessu máli þá verði það til þess að auka enn á samfélagslega firringu sem síðan mun lýsa sér í landflótta, auknu umburðalyndi gagnvart lögbrotum og skattsvikum og fleiru í þeim dúr. Ég held að réttast væri að senda þingmenn í kynnisferð til t.d suður-Ítalíu til þess að skoða hvernig það fer með samfélag til lengdar þegar fólk upplifir yfirvaldið sem eitthvað sér framandi og hálf óvinveitt. 

Hans Haraldsson 2.1.2010 kl. 03:47

16 Smámynd: Sæmundur Bjarnason

Hans, það er ekki nóg að þú segir að ágreiningurinn snúist um meira en flokkapólitík. Ég sagði ekki að fyrirvararnir væru aukaatriði. Ég segi aftur á móti að með fyrirvörunum hafi Alþingi í raun verið að bjóða uppá áframhaldandi samninga. Ríkisstjórnin álítur að lengra verði ekki komist. Stjórnarandstaðan er annarrar skoðunar. Um það snýst ágreiningurinn. Einhversstaðar verður málið að enda. Hefðu báðir aðilar verið ákveðnir í að semja hefði það verið hægt og þar með tryggð samstaða þjóðarinnar í þessu máli.

Meirihluti þjóðarinnar sem þú telur að verið sé að valta yfir er hugsanlega allsekki nógu upplýstur um málið. Best væri auðvitað að báðir aðilar ákvæðu fyrirfram að sætta sig við úrskurð Ólafs Ragnars. Því virðist alls ekki vera að heilsa.

Sæmundur Bjarnason, 2.1.2010 kl. 04:04

17 Smámynd: Sæmundur Bjarnason

Flott vísa Jóhannes. Áttu við að Ólafur ætli (eða ætti) að segja af sér? Eða er það bara formið sem ákveður þetta?

Sæmundur Bjarnason, 2.1.2010 kl. 04:09

18 identicon

Stjórnarflokkarnir njóta fylgis tæplega helmings þjóðarinnar skv. nýjustu könnun Gallup (47% þeirra sem afstöðu taka, 40% heildar)  á meðan að andstaðan við Icesave í núverandi mynd er um 70% og er andstæðinga og fylgjendur að finna meðal fylgismanna allra flokka, meira að segja stöku kratar inni á milli. Málið snýst ekki um flokkapólitík.

Lendingin sem stjórnin býður fram er ekki viðunandi og það á ekki að setja neinn punkt aftan við þetta stig málsins fyrr en viðunandi lending næst.

Hver á að dæma um það hver sé nógu upplýstur til að taka gilda afstöðu í málinu? Á það er ekki til neinn skýr mælikvarði. Hinsvegar liggur það ljóst fyrir að öll þjóðin mun borga brúsann og mér þykir það eðlilegt að þeir hverra hagur eru í húfi eigi lokaorðið.

Hans Haraldsson 2.1.2010 kl. 04:23

19 Smámynd: Jóhannes Laxdal Baldvinsson

Sæmundur, þetta er  óskhyggja.  Orðin koma bara og raðast upp, ég er ekkert að rembast..hef ekki efni á því í kreppunni

Oft er rímið heldur rýrt
og ræfilslegir hortittirnir líka
Engin vilji til að yrkja dýrt
andagiftin gerir enga ríka

Jóhannes Laxdal Baldvinsson, 2.1.2010 kl. 04:25

20 Smámynd: Kama Sutra

@Sæmundur:  "Meirihluti þjóðarinnar sem þú telur að verið sé að valta yfir er hugsanlega allsekki nógu upplýstur um málið."

Ég veit fyrir víst að margir sem hafa sett nöfnin sín á undirskriftalista Indefence hafa misskilið hann og telja sig vera að neita því að greiða Icesave.  Undirskriftalistinn snýst hins vegar ekki um að greiða ekki Icesave.  Hafi ég skilið þetta rétt vilja Indefence-liðar láta synja nýjustu útgáfunni af samningnum staðfestingar.

Kama Sutra, 2.1.2010 kl. 04:31

21 Smámynd: Sæmundur Bjarnason

Hans þú segir:

Auðvitað lýkur þessu máli ekki á næstunni hvort sem forsetinn skrifar undir eða ekki. Verði ekki skrifað undir þarf að finna nýja lendingu í málinu og verði skrifað undir á enn eftir að borga.

Þetta var að vísu ekki í síðasta innleggi þínu en mér finnst örla þarna á hugsuninni sem Kama Sutra orðar ágætlega. Málið snýst alls ekki um að borga eða borga ekki. Vel er samt hugsanlegt að sumir álíti það. Ég hef ekki sagt að ekki megi hafa þjóðaratkvæðagreiðslu um málið, bara að ef Ólafur neitar að skrifa undir verði áfram deilt um þetta og ekki verði hægt að snúa sér að öðrum málum.

Sæmundur Bjarnason, 2.1.2010 kl. 04:55

22 Smámynd: Sæmundur Bjarnason

Jóhannes, þú óskar þess semsagt að Ólafur segi af sér og skrifi undir lögin. Ég er ekki á sama máli og þú varðandi afsögninn og er alveg viss um að til þess kemur ekki. Mér finnst Ólafur vera um margt ágætur forseti og kaus hann á sínum tíma. Eins og fleiri hreifst hann of mikið af útrásarvíkingunum og geldur þess núna.

Sæmundur Bjarnason, 2.1.2010 kl. 05:07

23 Smámynd: Jóhannes Laxdal Baldvinsson

Ég kaus Ólaf í fyrsta sinni en síðan ekki meir. Mér fannst hann sýna minningu Katrínar litla virðingu þegar hann tók saman við Dorrit og frá þeim degi hefur álit mitt á þessum uppskafningi og stertimenni bara legið niður á við. Ekki bæta úr skák þessar orðuveitingar hans. Í raun er kallinn umboðslaus því það kaus hann enginn síðast. Réttast væri að setja hann af og fá Vigdísi til að gegna embættinu eitt kjörtímabil. Það væri sómi að því fyrir land og þjóð

Jóhannes Laxdal Baldvinsson, 2.1.2010 kl. 05:40

24 Smámynd: Hulda Haraldsdóttir

Það er mín einlæg ósk að Ólafur skrifi ekki undir þessa nauðasamninga vegna þess að þá gefst ráðrúm til þess að setjast að samningaborði við þessar þjóðir aftur, og þá með sterka samningsmenn af okkar hálfu bæði stjórnmálamenn, fagmenn í milliríkjasamningum og þverskurð manna meðal þjóðarinnar sem njóta trausts hins almenna borgara. Ég held að með því móti gætum við fengið mun sanngjarnari niðurstöðu heldur en þá sem nú liggur fyrir.  Ég er ekki að segja að við eigum ekki að axla neina ábyrgð, en svo sannarlega ekki alla ábyrgð, því vissulega bera samningsþjóðirnar líka ábyrgð bankarnir voru jú starfræktir undir þeirra lögsögu.  Ég held að ef við göngum að samningsborðum aftur með það að leiðarljósi munum við fá margfalt betri og sanngjarnari samning. Hins vegar hef ég aldrei skilið af hverju í ósköpunum stjórnvöld völdu ekki dómstólsleiðina í upphafi ? Átti þetta að sýna mátt okkar og megin ? Að við værum svo efnuð og öflug að við myndum vel ráða við þetta ? Hefði ekki verið heiðarlegra að segja strax frá byrjun að við myndum ekki ráða við þetta, heldur en að þurfa að koma með skottið á milli fótanna þegar að skuldadögum kemur ??

Hulda Haraldsdóttir, 2.1.2010 kl. 06:02

25 Smámynd: Sigurður Hreiðar

Ef forsetinn -- þessi árin í persónu Ólafs Ragnars Grímssonar -- neitar að skrifa undir sýnir ÓRG einkum þjónkun við þá sem mest hatast við persónu hans -- þá sem halda, að ég tel fyrir misskilning, að hag okkar sé betur borgið með því að draga frágang æsseifmálsins á langinn. Hinir, sem helst hafa stutt ÓRG og varið eru flestir hlynntir því að ljúka nú æsseifmálinu með þeirri samþykkt sem nú liggur fyrir -- og snúa sér að einhverju þarfara heldur en ónýtu þvargi um þetta mál sem hátt í 60 þúsund manns eða jafnvel fleiri misskilja stórlega eða skilja alls ekki.

Sigurður Hreiðar, 2.1.2010 kl. 11:12

26 Smámynd: Emil Hannes Valgeirsson

Þetta sagði Bjarni Benediktsson í ræðu í fyrra þegar ákveðið var að fara samningaleiðina:
„… Ég held að það sé afskaplega mikil einföldun á þessu máli öllu saman, að telja að í raun og veru, að það hafi verið valkostur fyrir íslensk stjórnvöld að standa stíf á lögfræðilegri túlkun og halda henni til streitu jafnvel fyrir dómstólum hvort sem það væri á alþjóðlegum vettvangi eða hér heima fyrir íslenskum dómstólum, vegna þess að ef menn ætla að fara að taka þann slag þá verða menn líka vera tilbúnir til að tapa því máli, ef á það myndi reyna. …
… Það er alveg ljóst að sú leið sem valin var og sá farvegur sem málið er í núna mun alveg örugglega skila okkur hagstæðari niðurstöðu en við hefðum fengið með því að láta reyna á rétt okkar og ef við hefðum mögulega svo tapað þeirri þrætu fyrir dómstólum, það er alveg öruggt. …“
o.fl.

Ræðuna má finna hér: http://blog.eyjan.is/larahanna/2009/12/30/aest-til-oeirda-a-folskum-forsendum/ 

Emil Hannes Valgeirsson, 2.1.2010 kl. 11:35

27 Smámynd: Sæmundur Bjarnason

Það getur vel verið að sú leið hafi verið fær einhverntíma að fara svonefnda dómstólaleið eins og hér hefur verið nefnt. Hún hefði samt verið mjög áhættusöm og næstum örugglega tapast og orðið okkur Íslendingum mun dýrari en nú er útlit fyrir að þetta mál verði. Það er endalaust hægt að telja sjálfum sér trú um að betri samningum sé hægt að ná en það er líka hægt að segja að lengra verði ekki komist og nauðsynlegt sé að ljúka þessu máli.

Sæmundur Bjarnason, 2.1.2010 kl. 14:29

28 Smámynd: Emil Hannes Valgeirsson

Það má líka velta fyrir sér hvaða framhald þeir sjá fyrir sér sem vilja að forsetinn skrifi ekki undir. Sumir vilja betri samninga, aðrir vilja fara dómstólaleið og enn aðrir vilja einfaldlega að við borgum ekki neitt. Það er ekki rétt sem Hulda segir að við séum látin bera alla ábyrgð, því að stærsti hlutinn kemur úr fyrrum eignum Landsbankans og lendir þar með á fyrrverandi eigendum bankans, stór hluti kemur frá breska ríkinu og einhver hluti frá íslenska ríkinu.

Emil Hannes Valgeirsson, 2.1.2010 kl. 18:57

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband