769- Lesið í gamlar vísur

Ein er sú vísa sem kemur mér oftar í hug en flestar aðrar. Hana kunna eflaust flestir en hún er svona:

Þar sem enginn þekkir mann,
þar er gott að vera.
Því að allan andskotann
er þar hægt að gera.

Útfrá þessari vísu má eflaust álykta allan fjandann. Mér dettur samt alltaf í hug að sá sem hana gerði hljóti að vera úr fámenni miklu. Því meira fjölmenni sem maður er í því færri hljóta að þekkja mann. Sá sem slíkt lofsyngur hlýtur að vera vanur fámenni.

Annars er merkilegt að hugsa um þessa vísu. Hún er ágætlega gerð en boðskapurinn heldur klénn. Hún sýnir líka að þann sem hana gerði langar til að gera eitthvað stórkostlegt. Vill þó helst ekki vera þekktur fyrir það. Með öðrum orðum vill hann líklega gera eitthvað óleyfilegt. Jafnvel saknæmt eða dónalegt. Hvað skyldi öðrum detta í hug þegar þeir muna eftir þessari vísu?

Þessi vísa hefur þá náttúru að hún lærist auðveldlega þó hún sé ekki endurtekin. Það þykir mér alltaf vera aðalsmerki góðra vísna.

Sævör grét áðan því úlpan var ónýt.

Þetta er ekki upphaf að vísu heldur klausa sem gott var að kunna í eina tíð þegar stafatöflur riðu húsum. Í henni er allir séríslenskir stafir eða svo var mér sagt.

Margir hafa hátt varðandi Borgarahreyfinguna um þessar mundir. Ýmist til stuðnings Þráni Bertelssyni eða þá að hávaðinn beinist gegn honum. Mér finnst að þeim sem ekki kusu Borgarahreyfinguna í síðustu kosningum komi þetta lítið við.

Það er rifist í öllum flokkum og flokkar hafa beinlínis liðið undir lok vegna rifrildis. Ekki óska ég Borgarahreyfingunni slíks. Frekar vil ég treysta þingmönnum hennar til að finna sómasamlega lausn á þessu deilumáli sem nú er að flækjast fyrir þeim.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Kama Sutra

Ég er ein þeirra sem álpaðist til að kjósa Borgarahreyfinguna og ætla því hér með að hafa skoðun á henni.

Eins og staðan er núna styð ég Þráin - en ekki þrenninguna, Birgittu, Þór og Margréti.  Ég vil helst fá varamenn inn fyrir þau öll þrjú.

En auðvitað ræð ég engu um það...

Kama Sutra, 10.8.2009 kl. 22:29

2 Smámynd: Sæmundur Bjarnason

Ég er enn þeirrar skoðunar að eini raunhæfi möguleikinn í síðustu kosningum hafi verið að kjósa Borgarahreyfinguna. Ætlast ekki einu sinni til að þingmennirnir séu alltaf eins og ég vil helst hafa þá en heldur ekki að þeir séu að rífast of mikið.

Sæmundur Bjarnason, 10.8.2009 kl. 23:10

3 Smámynd: Kama Sutra

Já, það er líklega alveg rétt.  Mér fannst ég ekki geta kosið hrunflokkana, B, D og S - og Vg er yfirleitt of sundurlyndur hópur til að vera stjórntækur.  Smákóngarnir í FF sáluga hafa aldrei komið til greina í mínum huga; vonandi er sá flokkur dauður forever.

Það hefði líklega verið betra að bíða fram á haust með kosningarnar til að gefa nýjum framboðum meiri tíma til að skipuleggja sig.  Það var eiginlega of snemmt að kjósa í vor.

Kama Sutra, 10.8.2009 kl. 23:40

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband