461. - Að skíta í austur

Friðrik Þór Guðmundsson kann að spila á Moggabloggið enda fjölmiðlamenntaður. Núna lofsyngur hann til dæmis gömlu krónuna sem er svo sem allt í lagi. Ég man bara að þegar núllin tvö voru strikuð út var ég að vinna hjá Kaupfélagi Borgfirðinga í Borgarnesi og launin voru eitthvað að nálgast milljónina á mánuði.

Eitt er það sem Friðrik notar mikið og það eru skoðanakannanirnar. Þetta er fúnksjón hjá Moggablogginu sem vert væri að nota meira. Mig minnir að ég hafi gert þetta einu sinni og kannski geri ég það fljótlega aftur.

Ég sá líka hjá Friðriki (af því að ég les yfirleitt ekki blöðin) að vistrýmum fyrir aldraða fer fækkandi. Þetta finnst mér vera í ósamræmi við það sem ríkisstjórnin og ríkisstjórnarflokkarnir hrósa sér af. Ástæðan er ef til vill sú að sjaldgæfara er að verða en áður að margir aldraðir kúldrist saman í herbergi. Einhvern tíma var sagt að menningarstig þjóða mætti sjá á því hvernig komið væri fram við gamalt fólk. Samkvæmt því skora Íslendingar ekki mjög hátt.

Einhverjir voru að fjölyrða um klósett sem sneru í átt frá Mekka. Mér er eiginlega skítsama en minni á að áttir geta skipt máli í trúmálum. Ég hafði ekki gert mér grein fyrir þessu fyrr en ég las (og lærði jafnvel líka) kvæðið um Jón hrak eftir Stephan G. Stephanson. Í kvæðinu stendur:

Kalt er við kórbak,
kúrir þar Jón hrak.
Ýtar snúa austur og vestur.
Allir nema Jón hrak

Það er víst eitthvað til í þessu. Ég held svei mér þá að grafir séu alltaf teknar með þetta í huga. Líka eru kirkjur víst alltaf látnar snúa á vissan hátt. Man bara ekki hvern.

Sagt er að þegar hola átti Jóni ofan í jörðina hafi hún verið gaddfreðin og grafararnir ákveðið að láta hann bara snúa út og suður þó það mætti eiginlega ekki. Ástæðan var meðal annars sú að....

Kirkjubækur þar um þegja.
Þó er fyrst af Jóni að segja
hann skaust inn í ættir landsins
utanveltu hjónabandsins

og þótti alls ekki merkilegur pappír. Það getur vel verið að sumum múslimum þyki það ekki gott til afspurnar að skíta í klósett sem snýr ekki rétt. Hvað veit ég.

Ungu skáldin yrkja kvæði
án þess að geta það.
Í Ingólfskaffi er ég í fæði
án þess að éta það.

Þegar ég heyrði þessa vísu fyrst er ég viss um að með fylgdi hver hefði ort þetta og af hvaða tilefni. Jafnvel útskýring á ýmsu í vísunni. Þessu er ég öllu búinn að gleyma. Veit þó vel hvar Ingólfskaffi var og að kostgangarar voru þar einhvern tíma. Vísan er samt góð finnst mér og stendur alveg fyrir sínu.

Hugsað get ég um himinn og jörð
en hvougt smíðað.
Vantar líka efnið í það.

Mér finnst eins og ég hafi einhverntíma heyrt Tómasi Sæmundssyni eignað þetta, en er þó allsekki viss.

Svo var mikill Satans kraftur
að saltaðir þorskar gengu aftur.

Þetta er eftir Grím Thomsen og úr miklu lengra kvæði. Margt kraftmikið kom úr penna Gríms.

Sá fyrir skemmstu DV frá 1992. Þar var sagt frá því að í útvarpshúsinu við Efstaleiti grasseraði hermannaveiki. Spýttist yfir mannskapinn með einu sérlega vönduðu loftræstikerfi. Einnig að Héðinn Steingrímsson hefði fallið í yfirlið í síðustu umferð skákmóts í Kaupmannahöfn. Þar var hitabylgja, engin loftræsting í skáksalnum og í ofanálag leyft að reykja þar inni. Fyrir bragðið tapaði Héðinn skákinni og missti af því að verða Alþjóðlegur meistari í það skiptið.

Á Bifröst stunduðu menn það að þykjast vera veikir þó þeir væru það ekki í rauninni. Þannig mun þetta hafa verið víðar. Skólastjóri nokkur var orðinn svo hvekktur á þessu að hann fór jafnan sjálfur og athugaði málið. Einn illa fárveikur rétti honum rasshitamæli til sannindamerkis um hann væri við dauðans dyr. Stjóri hummaði nokkuð. Leit á mælinn. Gekk út að glugga og skoðaði mælinn vandlega. Sagði síðan: "Það mætti ef til vill segja að það örlaði fyrir ofurlitlum hitavotti."

Bráðskemmtileg er frásögn Kristjönu frá Stakkhamri af ferð til gömlu Sovétríkjanna. Þangað hefur mig alltaf langað til að fara. Bjöggi bróðir fór einhvern tíma í ferðalag þangað austur og mér er minnisstætt að hann sagði frá því að hann og fleiri fóru yfir eitthvert strik á flugvellinum og allt varð vitlaust.

 

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Beturvitringur

Þetta er opinberun. Takk, hætti héðan í frá að skíta í norður!

Beturvitringur, 27.9.2008 kl. 00:55

2 Smámynd: Ben.Ax. (Benedikt  Jóhannes Axelsson)

Dyr kirkna snúa í vestur og eru að því leyti ágætur áttaviti að þá veit maður hvar austur er. Um norður og suður gegnir öðru máli ef maður er ekki vel að sér í landafræðinni. Vísan um ungu skáldin var á sínum tíma eignuð Steini en er vafalaust rangfeðruð eins og fleira. Mig hefur stundum langað til að skreppa til Finnlands því að einhvern tímann las ég það á vodkapela að það væri svo sem hægt að læra finnsku með því móti að fara á námskeið en þegar búið væri úr pelanum gæti maður talað hvaða tungumál sem væri. Aito kirkas. Það eina sem ég kann í finnsku þessa stundina er Mika Hakkinen. Hafðu það gott.

Ben.Ax. (Benedikt Jóhannes Axelsson), 27.9.2008 kl. 12:04

3 Smámynd: Vilhjálmur Örn Vilhjálmsson

Ég sé að þú hefur verið að lesa um klósettin á blogginu hjá mér, nema að aðrir séu búnir að stela þeim og kúka á minn "copyright", og vitnar svo í náfrænda minn Stephan G. Þetta er mikil virðing. Enn hefur þú ekki samt þorað að koma með komment á setuna hjá mér, bloggvinur minn góður. Ætli Stephan G. hefði bloggað, hefði hann haft ráð á tölvu?

Takk fyrir vísnaskemmtun. Það er svo þjóðlegt að koma inn á bloggið hjá þér. Var ekki eitthvað af þessu eftir Laxness?

Vilhjálmur Örn Vilhjálmsson, 27.9.2008 kl. 12:40

4 Smámynd: Ben.Ax. (Benedikt  Jóhannes Axelsson)

Mér er sagt að vísan um Ingólfskaffi sé eftir Vilhjálm frá Skáholti. Vísur eru sem betur fer yfirleitt rangfeðraðar. Þessi er sögð eftir mig um samvinnu á kennaraþingi þar sem talað var um að samvinna þyrfti að vera rétt og helst lóðrétt svo að árangur næðist.

Mikill er kraftur vors kennarablóðs

ef kraftana stillum til samans.

Sé samvinnan lóðrétt hún leiðir til góðs

en sú lárétta er meira til gamans.

Kveðja

Ben.Ax.

Ben.Ax. (Benedikt Jóhannes Axelsson), 27.9.2008 kl. 13:01

5 Smámynd: Sæmundur Bjarnason

Villi minn auðvitað ÞORI ég ekki að skrifa um setuna þína nema vita eitthvað um hana. Ég hugsa að sum skáld hefðu bloggað ef þau hefðu haft tækifæri til. Man til dæmis eftir að hafa lesið bloggbók efitr Guðmund Daníelsson.

Benni: Takk fyrir tilskrifin. Vísan er fín. Ef þú vilt fá vísuorðin betur saman þá notarðu shift-enter í stað enter.

Sæmundur Bjarnason, 27.9.2008 kl. 15:14

6 identicon

Vísan um Ingólfskaffi er eftir Leif Haraldsson.

Eiður Guðnason 27.9.2008 kl. 15:19

7 Smámynd: Ben.Ax. (Benedikt  Jóhannes Axelsson)

Hver var Leifur Haraldsson?. Þakka fyrir shitt og enter. Prófa það hér með.

Ei yfir klámi er kvartað.
Því er kirjað til dýrðar og lofs.
Heilann menn vantar og hjartað
og höfða því stanslaust til klofs.

Úr því að þú ert búinn að kenna mér á shittið og enterið læt ég fylgja með vísu um Bubba sem vildi á sínum tíma lögleiða box.

Ofbeldi magnast enn um sinn.
Allt lýtur breyttum högum.
Nú vill blessaður Bubbi minn
láta berja sig samkvæmt lögum.

Kveðja

Ben.Ax. (án shitt og enters, greinilega)

Ben.Ax. (Benedikt Jóhannes Axelsson), 27.9.2008 kl. 15:44

8 Smámynd: Sæmundur Bjarnason

Með "copyright" á klósettum
kemur Villi gloppa.
Ef mikið er af múslimum
mætir hann með koppa.

Sæmundur Bjarnason, 27.9.2008 kl. 16:28

9 Smámynd: Friðrik Þór Guðmundsson

"Lofsöngurinn" um krónuna er öfugmæla"vísa" Sæmundur og ég myndi miklu heldur lofsyngja Kaupfélag Borgfirðinga. Afa minn Friðrik Þorvaldsson þekktur þú áreiðanlega þegar þú varst milljón króna maður. Þótt hann væri kannski fluttur suður að stýra afgreiðslu Akraborgarinnar. Í Borgarnesi fékk maður bestu vínarbrauð landsins (heimsins), að ég hygg í bakaríi KB. Er KB með bakarí í dagÐ Er eitthvað varið í vínarbrauðin þar?

Friðrik Þór Guðmundsson, 27.9.2008 kl. 18:34

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband