262. - Moggabloggari vinnur meiðyrðamál gegn öðrum Moggabloggara og lyfleysa tekur lyfjum fram

Það eru hugsanlega vatnaskil að bloggari skuli dæmdur fyrir ummæli um annan bloggara og það á bloggi sínu.

Að því leyti er þetta sigur fyrir bloggið og bloggnáttúru manna sem orðin er ansi mikil hjá sumum. Að þetta skuli svo hafa verið Moggabloggarar er bara ennþá betra.

Hvorugur þessara manna er bloggvinur minn og það þýðir að ég les ekki bloggin þeirra reglulega. Þar af leiðandi veit ég alls ekki nógu mikið um þetta mál. Samt ætla ég að hætta mér út í að leggja útaf því.

Gaukur Úlfarsson mun vera sonur Úlfars Þormóðssonar sem frægur varð fyrir ritstjórn sína á Speglinum sáluga og margt fleira. Gaukur átti að sagt er mikinn þátt í því að gera Sylvíu Nótt að því fyrirbrigði sem hún varð. Ómar R. Valdimarsson var fjölmiðlafulltrúi Impreglio og er kannski enn. Hann var áður eitthvað í blaðamennsku ef ég man rétt.

Í mínum huga hefur Ómar R. Valdimarsson lengi verið sérlegur fulltrúi Impreglio á Moggablogginu á sama hátt og ég lít á Vilhjálm Örn Vilhjálmsson sem sérlegan fulltrúa Ísraelsstjórnar hér. Þetta þarf alls ekki að vera neitt slæmt. Væntanlega tryggir það að mismunandi skoðanir um mörg málefni eiga greiðari leið til Moggabloggara en annars væri.

Eftir því sem mér sýnist um tilvitnaðar klausur og dóminn í heild þá sýnist mér hann vera ansi harður, en vissulega má segja að tími hafi verið til kominn að dæmt yrði útaf ummælum á bloggi. Það er óþolandi að fjöldi bloggara skuli halda að hægt sé að komast upp með hvað sem er bara ef það er á bloggi.

Sumir segja að hér sé vegið að málfrelsinu svokallaða en ég get ekki samþykkt það. Í augum sumra er leyfilegt að segja hvað sem er svo framarlega sem menn eru tilbúnir að standa við sitt mál. Ábyrgð þeirra sem reka blogg eins og Moggabloggið er svo sér kapítuli. Vel má halda því fram að þeir ættu að bera ábyrgð á sínum gestum. Það gæti þó orðið ansi snúið í framkvæmd og ókeypisblogg gætu með öllu lagst af.

Svo er bara að bíða eftir úrslitum í þvagleggsmálinu og stóra Lúkasarmálinu. Allt að gerast í bloggheimum. Kjötheimar eru að verða eins og sýndarheimur við hliðina á bloggheimum.

Rannsóknir leiða í ljós að mörg geðlyf gagnast ekkert betur en lyfleysa flestum þeirra sem taldir eru þurfa þeirra með. Ef þau gagnast samt finnst mér sjálfsagt að halda áfram að gefa þau. Lyfleysan er þó eflaust ódýrari svo líklega væri betra að halla sér að henni. Þetta hlýtur þó alltaf að verða úrskurðarefni lækna sem sérhæft hafa sig í þessum fræðum. Skottulæknum hef ég enga samúð með.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband