248. - Auglýsingar, íslenska, Fischer og fleira

Þessi nova-mál eru enn að bögga blogglesendur.

Ef auglýsingar trufla fólk finnst mér einboðið að það reyni að losa sig við þær. Til þess eru margar leiðir. Guðbjörg Hildur Kolbeins bendir t.d. á eina, sem er að mjókka gluggann sem bloggin eru skoðuð í. Þetta er ekkert verri leið en hver önnur.

Niðurstaðan úr þessum pælingum öllum finnst mér vera sú að hver og einn blogglesandi ræður því sjálfur hvernig auglýsingar og annað rusl birtist á skjánum hjá honum og hvort það birtist. Bloggskrifarar sem skrifa á ókeypis blogg ráða engu um það.

Ef þeir skrifa t.d. í blöð ráða þeir ekki heldur hvaða efni annað birtist í viðkomandi blaði þó þeir hafi oftast einhverjar væntingar um það. Sama er að segja um bækur. Þeir sem þær skrifa ráða litlu um hvernig þær eru lesnar, en þeir geta samt ráðið einhverju eða jafnvel miklu um útlit þeirra. Þessi mál öll eru fremur flókin og mér finnst Morgunblaðið alls ekki hafa farið með nægilegri gát hér.

"Félagar hans komu í veg fyrir að ekki fór verr", sagði Þórhallur í Kastljósinu í kvöld. Með öðrum orðum: Félagar hans sáu um að þetta fór eins illa og mögulegt var. Svona tekur fólk oft til orða þó það meini oftast allt annað. Þetta er ósköp einfaldlega sú sama tvöfalda neitun sem Íslendingar þreytast yfirleitt ekki á að gera grín að hjá enskumælandi fólki. Oft væri þeim nær að huga að sinni eigin vitleysu.

Vilhjálmur Örn Vilhjálmsson heldur áfram að þykjast vera sérfræðingur í erfðarétti. Hann er nú hættur að tala um líkrán og þessháttar en getur ekki stillt sig að blogga þindarlaust og af miklu þekkingarleysi um Bobby Fischer.

Vilhjálmur lætur sem hann beri einkum fyrir brjósti arf sem fallið gæti meintri dóttur Fischers í skaut. Eftir því sem ég kemst næst munu það einkum vera 4 aðilar sem reyna að næla sér í eitthvað af þeim auði sem sagt er að Fischer hafi látið eftir sig.

(1) Japönsk kona sem segist hafa verið gift honum og kann að hafa rétt fyrir sér í því.

(2) Kona frá Filippseyjum sem segist hafa átt barn með Fischer fyrir um sjö árum. Hún gerir þá kröfuna væntanlega fyrir hönd ólögráða dóttur sinnar. Gæti einnig vel verið rétt.

(3) Eftirlifandi eiginmaður systur Bobbys ásamt börnum sínum. Þessi krafa er ólíklegt að nái fram að ganga.

(4) Bandarísk stjórnvöld, sem hafa lengi talið að Fischer skuldaði háar upphæðir í ógreiddum sköttum. Ómögulegt er að segja til um réttmæti þessarar kröfu.

Hvernig úr þessum málum öllum greiðist að lokum sé ég ekki að komi mér neitt við og Vilhjálmi Erni ekki heldur.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband