166. blogg

Nú eru bankarnir búnir að kasta grímunni.

Með því að gera fólki sem erfiðast fyrir með að selja íbúðir sínar, festist það þeim mun betur á öngli auðsafnaranna. Sú tilskipun að fólk geti ekki látið hagstæð lán fylgja íbúðum sínum við sölu nema borga Kaupþingi eða öðrum afætum stórfé fyrir er augljóslega gerð með hag fyrirtækisins eingöngu í huga, en algjörri fyrirlitningu á hag viðskiptavinanna. Er ekki sjálfgert að hætta viðskiptum við svona okurfyrirtæki? Þriðja september síðastliðinn bloggaði ég eftirfarandi:

"Í Svíþjóð er maður sem ævinlega brýtur rúðu í banka þegar hann er ekki í fangelsi. Hann hefur gert þetta í mörg ár. Þegar hann er látinn laus er hann vanur að hafa samband við fjölmiðla og tilkynna þeim að nú ætli hann að brjóta rúðu í einhverjum tilteknum banka. Svo mætir hann þar, hendir sínu grjóti, brýtur eina rúðu, fréttamenn taka sínar myndir og lögreglan, sem auðvitað mætir líka á staðinn, tekur hann fastan. Hann segist vera að mótmæla yfirgangi og frekju bankanna. Mótmæli sín séu fyrst og fremst táknræn. Ekkert sé af sér að taka. Hann eigi ekki neitt og eina ráð lögreglunnar sé að læsa sig inni. Þegar hann er svo að lokum látinn laus aftur hringir hann í fjölmiðla og hringrásin hefst á ný."

Er þetta ekki bara nokkuð gott hjá manninum? Margir telja bankana upphaf og endi alls ills í þjóðfélaginu.

Á sunnudagskvöldið byrjaði ég einhvern tíma seint um kvöldið að horfa á sjónvarpið og datt þá inn í heimildarmynd um Guðberg Bergsson. Guðbergur er höfundur sem ég hef alltaf haft áhuga fyrir alveg síðan hann skrifaði bókina Tómas Jónsson metsölubók. Reyndar las ég um svipað leyti bók eftir hann sem heitir Músin sem læðist og hún er á sinn hátt ekki síður eftirminnileg.

Þar minnir mig að hann hafi verið að lýsa uppvaxtarárum sínum í Grindavík. Eitt það eftirminnilegasta í þeirri bók eru lýsingar hans á þeim hræðilega leyndardómi sem krabbameinið var og er. Hann var svo ungur þarna að hann skildi ekki allt sem fram fór en skildi þó að þetta var alveg hræðilegur sjúkdómur. Mér er nær að halda að enn eimi eftir af því sjónarmiði að krabbamein sé svo hræðilegur sjúkdómur að það megi helst ekki tala um hann. A.m.k. ekki upphátt.

Ég er ekki frá því að Stóra Ásgautsstaðamálið sé að taka sig upp. Áslaug fékk á mánudaginn bréf frá sýslumanninum á Selfossi og það getur vel verið að eitthvað fari að gerast í sambandi við þetta mál. Það er samt svo margflókið að ég ætla ekki einu sinni að reyna að blogga um það. Ég mundi bara týna mér í álnarlöngum útskýringum.

Svolítið um Kiljuna. Ég held að Egill sé betri í bókmenntunum en stjórnmálunum. Föstu liðirnir þarna eru líka nokkuð að mínu skapi. Kolbrún þó langsíst. Flissið í henni og augnagoturnar á Pál Baldvin fara í taugarnar á mér.

Eflaust finnst sumum Páll Baldvin Baldvinsson vera bæði fúll og hrokafullur, en ég kann samt ágætlega við hann. Einkum vegna þess að ég kynntist honum vel þegar hann vann á Stöð 2. Bæði meðan hann var þar fyrst sem einskonar aðstoðarmaður Goða Sveinssonar og svo þegar hann kom þangað sem dagskrárstjóri.

Braga Kristjónsson, bróður Jóhönnu kann ég líka alltaf nokkuð vel við og því er ekki að leyna að hann er naskur við að grafa upp áhugaverða hluti.

Og í lokin eru svo 2 gamlar myndir.

Á þessari erum við Ingibjörg með Bjögga á milli okkar sitjandi á tröppunum á Hveramörk 6. Þetta gæti verið tekið fljótlega eftir að það hús var byggt. Þetta er ágætis mynd. Eiginlega alveg furðugóð.

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

Hér erum við hinsvegar fjögur systkinin og þessi mynd er greinilega tekin þónokkrum árum fyrr. Talið frá vinstri: Sigrún, Ingibjörg, ég og Vignir. Eflaust tekin fyrir framan gamla húsið á Bláfelli. Sérkennilegt hvað tröppugangurinn á hæð okkar er jafn og reglulegur.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Fríða Eyland

Alveg snilldar færsla..þú kemur fyrst inná peningamaskínuna og hvernig fólkið missir ofan af sér þökin...ekki alls fyrir löngu eða í ágúst var met slegið á fjölda nauðungaruppboða á, íbúða húsnæði, þá voru ekki teknar með eignirnar sem bankarnir tóku uppí skuldir eins og greint var frá í blaðinu....Íbúðalánamarkaðurinn undanfarin ár hefur gjörbreyst, áður sat ríkið eitt og óáreitt um kjötketilinn en nú eru aðrir tímar heldur betur, eigendur bankanna (einstaklingar eins og ég og þú ) eru lánadrottnar skuldunautanna æi æ ríkara máli en áður þekktist. Það væri gott að fá tölur frá bönkunum um það hvað margar fjölskyldur afhentu þeim húsnæði sitt í formi nauðungar í metmánuðinum ágúst.

Þá er það sænski mótmælandinn, hann minnir á Helga Hóseasson sem mótmælir trúlega fram í rauðan dauðan að hann fái ekki skírn sína ógilta. Hvernig má það vera að ritað orð verður ósnertanlegt og svo heilagt að það verði sterkara en frelsi einstaklingsins til trúarbragða sem er jú stjórnarskrábundinn réttur hans.

Sjónvarpsrýni með bókarýni tekur við, gaman af því hvernig þú ert þenkjandi og kryddar með ættfræði..

Síðan þessar dásamlegu gömlu myndir, ég hef alltaf gaman af ljósmyndum og gamlar myndir eru fjarsjóður. Takk fyrir mig  

Kveðja 

Fríða Eyland, 8.11.2007 kl. 00:03

2 Smámynd: Sæmundur Bjarnason

Þakka hrósið. Mér finnst líka gaman að gömlum myndum. Sérstaklega ef þær eru af einhverjum sem ég þekki.

Sæmundur Bjarnason, 8.11.2007 kl. 04:23

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband