149. blogg

Auðvitað veit ég afar lítið um bloggþol lesenda minna en ekki hefur verið mikið kvartað undan óhóflegri lengd bloggsins frá í gær.

Þetta er annars ágætis grein og á vel við núna, en þegar skrunað er yfir bloggin sem maður vill heimsækja þá er þessi grein nú í lengra lagi að mínu áliti.

Það er enginn efi á því að haustið er komið. Trén að mestu orðin lauflaus og farið að kólna í veðri. Oft hemað á pollum á morgnana og annað eftir því. Ég hef samt ekki ennþá þurft að skafa ísingu af bílrúðum á þessu hausti en í margra augum táknar það komu vetrar. Eftir gott sumar í sumar hef ég það á tilfinningunni að haustið hafi verið óvenju rigningasamt. Ekki veit ég þó hvort nákvæmnisrannsóknir styðja þessa tilfinningu mína því enginn er veðurdellukarl.

Miklar framkvæmdir eru hér í grennd við gatnamót Auðbrekku og Nýbýlavegar og út um gluggana má oft sjá alls kyns jarðvinnslutæki og vörubíla á ferð og flugi. Verst þykir mér hve umferðin hér um Auðbrekkuna hefur aukist gríðarlega og svo líka að svæðið skuli ekki vera almennilega upplýst. Götuljósin við Nýbýlaveginn voru bara fjarlægð langleiðina upp að Laufbrekku. (Það er að segja götunni upp að 10 - 11 frá Nýbýlaveginum) Mér finnst nú lágmarkið að menn flýti sér, svo hægt sé að setja götuljósin upp aftur, en það er ekki að sjá að þeir geri það. Vona bara að breytingarnar takist vel.

Húsið sem ég bý í hér við Auðbrekkuna er svo hundgamalt að hér í tölvuherberginu sem alls ekki er stórt og er úti í horni á eftir hæðinni eru gluggar bæði á vestur- og suðurvegg. Auðvitað er ekki dónalegt að hafa glugga í tvær áttir þó útsýnið úr þeim sé ekkert sérstakt (Toyota og aftur Toyota og fátt annað) Gallinn er hins vegar sá að erfitt er að koma tölvuskarninu fyrir nema við glugga. Það þýðir síðan að þegar sólin er lágt á lofti skín hún beint framan í mig þannig að ég á í vandræðum með að sjá hvað um er að vera á skjánum.

Til að ráða bót á þessu keyptum við rúllugardínu úr einhverskonar þykku flugnanetsefni í Rúmfatalagernum fyrir nokkru síðan. Síðan gerðist votviðarasamt svo þörfin fyrir þetta gardínudjásn varð lítil. Þegar sólin lét síðan sjá sig um daginn fannst rúllugardínan ekki fyrr en eftir ítarlega og margendurtekna leit um allt húsið. Nú er þetta fínirí komið upp or reynist sæmilega.

Blogg eru svo fjölbreytt að allir hljóta að finna eitthvað við sitt hæfi. Ég held líka að blogglesendum sé alltaf að fjölga. Enn þykir þó svolítið niðurlægjandi að viðurkenna að maður lesi blogg. Sjálfur les ég alltaf það sem bloggvinir mínir skrifa á sín blogg, en verð að viðurkenna að þeir eru misskemmtilegir. Önnur blogg les ég líka talsvert oft og satt að segja Moggablogg frekar en önnur einkum vegna þess að það er svo þægilegt og auðvelt eftir að maður er kominn upp á lag með það. Það eru ekki sérlega mörg blogg utan Moggabloggsins sem ég les reglulega. Slík blogg eru þó til.

Sigurður Þór Guðjónsson stingur upp á því á sínu bloggi, í tilefni kirkjuþings, að kirkjan verði háeffuð. Þetta er ljómandi hugmynd hjá Sigurði en þó er hætt við að sumum þætti gerast þröngt fyrir sínum durum þegar farið yrði að selja inn á guðsþjónustur í kirkjum landsins. Einnig gæti kostnaður við útfarir rokið upp úr öllu valdi.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband