17.9.2020 | 15:13
3009 - Örsögur og ýmislegt annað
Kannski er ég vitlaus. Eða að minnsta kosti pínulítið skrýtinn. En eru það ekki allir? Hugsanlegt er að ég sé verri en flestir. Þó er það allsekki víst. Steini Briem er talsvert skrítinn líka. Ætti ég nokkuð að vera að sálgreina hann eftir þessum kommentum sem hann lætur svo lítið að skrifa hér. Hann leggur greinilega talsverða vinnu í þetta og þó hann hugsi mikið um vexti gera það alls ekki allir. Það er nú bæði kostur og galli að ekki eru nærri allir eins. Í vissum tilfellum eru vextir mikilvægir en þeir ráða ekki öllu. Heldur ekki það sem ég skrifa. Þessvegna reyni ég að hafa þetta stutt.
Örsögurnar, sem ég kalla svo, eru líka stuttar. Þá er líklegra að menn þreytist ekki á því að lesa þær. Þorsteinn Siglaugsson er sá eini sem kommentar á þessar sögur og les þær greinilega. Ekkert skil ég í þeim sem lesa langar sögur. Þær þreyta mig. Ef hægt er að koma í stuttu máli orðum að því sem maður vill segja er það miklu betra en að teygja lopann sem allra mest. Þetta er það sem ég hef einkum á móti krimmunum. Oft væri hægt að koma plottinu fyrir á fáeinum blaðsíðum. En, nei. Það verður að hafa þetta heila bók. Stundum hafa höfundarnir heilmikið að segja fyrir utan plottið og vitanlega verður að virða það. En oft hljómar það sem uppfylling, einkum hjá Yrsu.
Ekki veit ég almennilega hvernig á því stendur að bloggin hjá mér, auk þess að vera fleiri og fleiri, eru að verða á þá lund að í upphafi eru hugleiðingar um allan fjandann, en svo lýkur þeir gjarnan á einhverri örsögu sem ég kalla svo. Sumar þeirra eru kannski einhvers virði en aðallega eru þær bölvað bull. Svona á maður alls ekki að tala um sín eigin verk. Best er að segja sem minnst um þau. Aðrir gætu haldið að þau væru afar merkileg og túlkað þau út og suður.
Út og suður og norður og niður eru annars merkileg orðatiltæki og ekki eins auðskýranleg og í fyrstu virðist. Íslenskan hefur alltaf heillað mig og orð og orðtiltæki eru að sumu leyti mínar ær og kýr. Hef jafnvel stundum íhugað að skrifa leikrik sem væri ekkert nema orðatiltæki. Kannski geri ég einhverntíma örsögu sem er svona. Ekki ætti það að vera mikill vandi. Jæja-ð og ha-ið eru líka merkileg orð sem geta þýtt ýmislegt.
Svo kemur sagan:
Sú síðasta var stutt. Kannski ég reyni að hafa þá næstu svolítið lengri. Annars ræð ég þessu ekki alfarið. Það er andinn, sem er að flækjast hérna út og suður. Þegar hann er fyrir ofan mig þá bætast við fáein orð eða að minnsta kosti nokkrir stafir. Auðvitað get ég haft á það einhver áhrif, en þau eru takmörkuð.
Þegar Jón bóndi kom út á hlað og hafði signt sig leit hann til veðurs. Bakkinn í austri hafði stækkað til muna og hann var ekki í neinum vafa um að óveður var í aðsigi. Hóaði saman rollunum og sendi hundinn á eftir þeim óþekkustu. Sennilega boðaði þessi bakki bæði rok og rigningu. Best að vera við öllu búinn. Jón setti á sig höfuðljósið og startaði snjallsímanum sem gekk nefnilega fyrir olíu en ekki bensíni.
Um leið og hann hafði lokið því opnaði hann dyrnar á fjárhúsinu með rafknúnu fjarstýringunni sinni. Hann hafði nefnilega fengið þessa dýrindis fjarstýringu frá Mumma á Grjóti um síðustu jól. Þegar hann var búinn að öllu þessu tók hann til við að lemba ærnar, ég meina rollurnar. Ekki fer miklum sögum af því hvernig hann gerði það en svokölluð Nokia-aðferð var notuð. Þetta var einmitt nokkru áður en Nokia farsímarnir urðu algengir. Veðurspána var ekkert að marka frekar en venjulega og líka var frá því sagt að símasambandið við tunglið var ekki nógu gott.
Í sjónvarpsfréttum var sagt frá því í smáatriðum hvernig símasambandinu við tunglið leið. Yfirleitt leið því illa. Sífelldar truflanir og brak og brestir þess á milli. Helst ekki mátti segja neitt frá öðru en þessu símasambandi, því hugsanlega gæti það verið ríkisleyndarmál.
Jóni var alveg sama um það. Hann þekkti hvort eð var engan á tunglinu og þurfti ekkert að hringja þangað. Samt sem áður snerist allt um símasambandið við tunglið. Kannski voru menn hræddir um að þar færu menn sér að voða. Verst er að vita ekkert um hvort þessar smásögur eða örsögur eru einhvers virði. Að bulla svona endalaust er ekkert gaman. Það hlýtur samt að vera ennþá leiðinlegra að lesa þessi ósköp.
Allt í einu varð mikil sprenging á tunglinu. Svo mikil að hún sást með allsberum augum frá Jörðinni. Kannski er hægt að segja að það hafi sprungið í loft upp en þó er það vafasamt. Getur hlutur sem er í lofttómu rúmi sprungið í loft upp? Og ef útí það er farið hvað er þá upp og hvað niður. Allavega rofnaði símasambandið fljótlega eftir sprenginguna. Hvers vegna varð þessi sprenging? Og hvað varð um mennina sem þar voru? Þetta var erfitt verkefni fyrir lögregluna. Hún lét samt ekki hugfallast og fékk lánaða aflóga geimflaug hjá Space-X fyrirtækinu. Hún fór síðan að leka á miðri leið og þá varð einum lögregluþjóninum að orði: Ja, mikill andskoti. Hinir sögðu ekki orð en fóru strax að reyna að gera við. Það tókst ekki og verðum við því að ljúka þessari sögu hér.
Athugasemdir
Undirritaður fer nú létt með að birta hér eina vísu eða skrif um fjármál og það tekur nú ekki langan tíma, elsku kallinn minn.
Þegar undirritaður var blaðamaður á Mogganum skrifaði ég yfirleitt um tíu fréttir á dag um alls kyns málefni og gaf þar að auki út sérblað um sjávarútveg einu sinni í viku, oftast við annan mann en stundum einn.
Þú heldur náttúrlega að heimurinn hverfist um þig, Sæmi minn.
En undirritaður hefur skrifað athugasemdir á mörgum bloggsíðum hér á Moggablogginu síðastliðin fjórtán ár og einnig í þessari viku, enda á ég hér um tvö hundruð bloggvini og fimm þúsund vini á Facebook.
Og ég er mjög ánægður með þróun langflestra þeirra mála sem ég hef skrifað um.
Þar má til dæmis nefna þróun miðbæjarins og Vatnsmýrarsvæðisins hér í Reykjavík, Borgarlínuna, mikla fjölgun erlendra ferðamanna hér á Íslandi, hlutabréfakaup í Icelandair í þessari viku og úrsögn Rósu Bjarkar Brynjólfsdóttur úr Vinstri grænum í dag.
Þorsteinn Briem, 17.9.2020 kl. 16:48
Ég hef á tilfinningunni að sögurnar þínar endi þegar þú nennir ekki að skrifa meira, eða þarft bara að fara á klóið eða eitthvað. Sem er í sjálfu sér bara fínt.
Eftir lestur þessarar sögu situr sú spurning eftir hvort hann hafi verið í Nokia stígvélum og hvort Nokia aðferðin við að barna sauðfé tengist stígvélunum eða símanum. En kannski er þetta algert aukaatriði.
Þorsteinn Siglaugsson, 17.9.2020 kl. 17:25
Þorsteinn Siglaugsson. Sé að þú ert að ná feiklega góðum árangri á Moggablogginu. Verður fljótlega þar meðal efstu og vinsælustu manna. Var að lesa svolítið í blogginu þínu og þar að auki að kíkja í þjóðskrána. Þú ert sennilega fæddur 1967, en ég er gamalmenni og hugsa hægt. Kannski fer þetta til þín og fárra annarra. Gangi þér vel.
Sæmundur Bjarnason, 21.9.2020 kl. 06:18
Las yfir eftir að ég var búinn að senda. feiklega á að vera feikilega. Hitt er svolítið í Trump-anda.
Sæmundur Bjarnason, 21.9.2020 kl. 06:24
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.