2775 - Steini og Jón

Eitt það mikilvægasta sem góður bloggari þarf að venja sig á er að skrifa aldrei nema hluta af því sem hann/hún veit um viðkomandi efni, en samt að vera ekki að geyma það til betri tíma sem manni þó dettur í hug. Þykist ég þá sjálfur vera góður bloggari? Kannski. A.m.k. er ég talsvert reynslumikill á þessu sviði. Ekki kann ég þó þá list að verða vinsæll. Hvað þá frægur. Kalla það samt ágætan árangur að ná því að hafa á annað hundrað daglega lesendur án auglýsinga. Tel það varla auglýsingu þó ég láti vita af því á fésbókinni að ég hafi bloggað. Ekki hef ég kynnt mér neitt hvert fésbókarguðirnir hafa beint þeim tilkynningum.

Ég hef vanið mig á að það sem ég skrifa sé opið öllum, ef þeir á annað borð hafa einhvern minnsta áhuga á að lesa það sem ég skrifa. Að undanförnu hefur athugasemdum við bloggið mitt fjölgað nokkuð. Ekki græt ég það. Andsvörin við þeim eru öllum sýnileg og yfirleitt fremur lítt yfirlesin. Samt er ég ekki að afsaka á neinn hátt það sem ég skrifa þar. Athugasemdirnar eru yfirleitt ekki svo margar eða langar að ég þurfi neitt að agnúast útí þær. Hef aldrei stundað það að eyða athugasemdum eða takmarka það á nokkurn hátt sem ég skrifa, en það kemur fyrir að ég leiðrétti augljós pennaglöp í blogginu sjálfu. Kann ekkert á að breyta eða eyða athugasemdum.

Get ekki neitað því að þær athugasemdir sem ég hef fengið að undanförnu fá mig til að hugsa. Annars geri ég yfirleitt fremur lítið af því. Sennilega er bara best að halda sínu striki og halda áfram að bölva fésbókinni (hún er samt ómissandi) og Trump. Minn stíll er að ræða aldrei lengi um sama efnið. Í blaðagreinum finnst mér oft sem höfundar teygji lopann of mikið og haldi áfram að endurtaka næstum það sama aftur og aftur. Stundum finnast einhver ný sjónarhorn en yfirleitt ekki.

Í ljósi þeirra umræðna sem orðið hafa hér á mínu bloggi að undanförnu bíð ég spenntur eftir því að Steini Briem láti í sér heyra. Svo get ég hæglega búist við að Jón Valur hafi eitthvað við þetta alltsaman að athuga. Samt sem áður er ekki örgrannt um að ég hafi svolítið gaman af þessu öllu saman. Verst hvað Jón er oft langorður.

Untitled Scanned 61Einhver mynd.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 identicon

Tja, ég hef allavega gaman af að lesa blogg frá gömlum skólabróður Ekki skemmir myndin, sem fylgir. Hvaða ár voru það sem þú varst þarna, Sæmundur?

Þorkell Guðbrands 2.10.2018 kl. 12:14

2 Smámynd: Sæmundur Bjarnason

Já Keli. Myndirnar með þessu bloggi og því síðasta eru frá Vegamótum. Ég var þar árin 1970 til 1978. Sennilega er til síða á fésbókinni sem heitir Vegamótaliðið. Ég hef samt ekki farið þangað nýlega.

Sæmundur Bjarnason, 2.10.2018 kl. 12:59

3 Smámynd: Þorsteinn Briem

Ekki sjón að sjá hann Jón,
syndum ljótum hlaðinn,
óskeint hann er ferlegt flón,
en fésið mesti skaðinn.

Þorsteinn Briem, 2.10.2018 kl. 13:50

4 Smámynd: Sæmundur Bjarnason

Briemarinn er betri en Jón
bersyndugur þó hann sé.
Ekki mikið árans flón.
Út í bláinn vaskur mé.

Sæmundur Bjarnason, 2.10.2018 kl. 16:48

5 Smámynd: Þorsteinn Siglaugsson

Ekki lætur sjá sig sá,

sem hér er mest um fjallað.

Jón Valur með hýrri há

hoppar um og segir mjá,

er með öllum mjalla.

Þorsteinn Siglaugsson, 2.10.2018 kl. 23:45

6 Smámynd: Halldór Egill Guðnason

 Síbabílúlla, hel og síðan vá,

seytlar um bloggheim víðan.

 Fulllítið fannat mér brímið fá,

 frá Jóni, um færslu svíðan.

 Sæmundur algerlega saklaus er,

 svíði komment og komment.

 Heldur velli heilsteyptur,

 held svona almennt, almennt.

Halldór Egill Guðnason, 3.10.2018 kl. 03:10

7 Smámynd: Jón Valur Jensson

Enn hefur ESB-Steini ræfillinn ekki hunzkazt til að draga til baka örgustu níðvísuna sem sézt hefur á Moggabloggi, á næstu færsluslóð Sæma hér á undan, hvað þá að hann biðjist afsökunar -- svo bágt á hann, að hér lék hann sér áfram að því að tæma úr sálarkoppi sínum, og sýndi sú vísa hans innrætið glögglega, með ljótu innvolsi og augljósu hatrinu, þótt ei væri vísan sú jafn-glæpsamleg og hin fyrri.

Tapsárt hefur greyið ugglaust verið vegna þeirrar vísu sem hann hafði fengið frá mér á vefsetri Halldórs verkfræðings Jónssonar 26. fyrra mánaðar, í kjölfar sífelldra raðinnleggja Steina Briem á þeirri slóð:

 

Brussel þjónarðu, briemarinn,

og breimar eins og læða.

Áróðursbragur er allur þinn

Evrópusambandsræða.

 

Jón Valur Jensson, 3.10.2018 kl. 04:10

8 Smámynd: Sæmundur Bjarnason

Jú, jú. Þorsteinn og Halldór. Jón Valur kom að lokum. Þó klukkan væri að ganga fimm s.l. nótt. Hvenær ferðu eiginlega að sofa, Jón minn góður? Eða vaknarðu bara svona snemma?

Sæmundur Bjarnason, 3.10.2018 kl. 13:34

9 Smámynd: Sæmundur Bjarnason

Það getur vel verið að ég sé með Trump á heilanum. Fjölmiðlarnir sem ég fylgist með hafa líka mikinn áhuga á honum.

En þú, Jón minn Valur virðist vera með Evrópusambandið og Steina Briem á heilanum. Steini Briem er enginn óvinur minn þó honum virðist vera uppsigað við þig.

Sæmundur Bjarnason, 3.10.2018 kl. 13:43

10 Smámynd: Jón Valur Jensson

Ég er alls ekki með Steina þennan, ef hann þá heitir það, á heilanum. Mátulegar skammarvísur á hann eru líka ágætis aðferð til að losa út úr kerfinu gremju út íbifandi er ég í því að vilja halda í fullt íslenzkt sjálfstæði -- hvað með þig, Sæmi?

Og nú þessa dagana þykir mér brýnast að berjast gegn nýju árásarfrumvarpi gegn ófæddum börnum, skrifa sitthvað um það á Facebók, einkum á Stjórnmálaspjallið, en á þó eftir að standa mig betur í baráttunni gegn fordæðufrumvarpi heilbrigðisráðherrans, vona ég. Á meðan er nýjasti félagi minn í Kristnum stjórnmálasamtökum kominn með þessa frábæru grein á Krist.bloggið: Hugleið­ing­ar um nýja fóst­ur­eyð­inga­frum­varp­ið.

Jón Valur Jensson, 3.10.2018 kl. 14:52

11 Smámynd: Jón Valur Jensson

Hér datt partur af innlegginu óviljandi út, 2.-3. setningin átti að vera svona:

Mátulegar skammarvísur á hann eru líka ágætis aðferð til að losa út úr kerfinu gremju út í sífelld ESB-innlegg hans. Og ekki er ég með ESB á heilanum, heldur er ég stöðuglyndur og óbifandi í því að vilja halda í fullt íslenzkt sjálfstæði -- hvað með þig, Sæmi?

PS. Tók ekki eftir spurningu þinni, en svefntími minn er óreglulegur.

Jón Valur Jensson, 3.10.2018 kl. 14:57

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband