2754 - Hitt og þetta um allan fjárann

Brauðmolakenningin svonefnda hefur afsannast í þeirri eymd og niðurlægingu sem víða þrífst í Bandaríkjunum. Vissulega eru margir ríkir þar, en fátæklingarnir eru líka margir og reyndar miklu fleiri. Mér finnst mestu máli skipta á hvaða leið menn eru, ekki hvort hægt er að finna torleyst vandamál. Þau má allsstaðar finna. Mér finnst ESB vera á betri leið en USA. Sú fyrirætlun Trumps að loka ríkin sem mest af, er röng að mínum dómi og mun að lokum leiða til ófarnaðar. Evrópska leiðin er farsælli. Samvinna og samstarf er betra þegar til lengdar lætur. Gallar eru samt augljósir á þeirri leið. T.d. eru flóttamannamálin til þess fallin að valda sífelldri úlfúð og vandræðum.

Öfgar í veðri eru að ég held ekkert meiri nú en oft áður. Rigningarsumur hafa komið áður hér á Íslandi. Ef aldrei væru sett veðurmet væri veðrið fyrst óvenjulegt. Ef hægt væri að leysa flóttamannamálin og hnatthlýnunina með því móti að skrifa um þann vanda, væri áreiðanlega búið að gera það fyrir löngu. Svartagallsraus leysir engan vanda. Vissulega eru skógareldar og flóttamannadrukknanir hræðilegir atburðir. Hugsanlega stafa þeir þó fyrst og fremst af auknum mannfjölda og sívaxandi fjölmiðlun. Kannski erum við að nálgast þolmörkin þar. Enginn vafi er að mannkynið þarf á allri sinni snilli að halda til að leysa brýnustu mál.

Fésbókarvinum mínum fjölgar um þessar mundir sem aldrei fyrr. Mest eru það útlendingar (eftir nöfnunum að dæma) sem sækjast eftir slíku. Sennilega hef ég lent á einhverju lista yfir þá sem líklegir eru til að samþykkja vináttu. Sjálfur sækist ég nær aldrei eftir slíku. Þegar ég var kominn í u.þ.b. 500 hætti ég þessháttar söfnun. Hef það fyrir reglu að samþykkja aldrei fésbókarvináttu nem um svo og svo marga sameiginlega vini sé að ræða og að ég kannist eitthvað við þá. Því er ekki að neita að sömu nöfnin koma aftur og aftur fyrir. Annars finnst mér fésbókin vera að verða sífellt leiðinlegri og leiðinlegri. Ágætlega hentar hún þó til myndasýninga fyrir ættingja og kannski er best að vera ekkert að hafa áhyggjur af henni. Sá fjölmiðill sem bloggið er finnst mér henta ágætlega til skrifelsis. Ágætt er að vera sem mest laus við pólitíkina og guðsorðastaglið. Moggabloggið gæti sem best tekið við sér aftur.

Minn stíll í bloggskrifum er sá að skrifa stuttar athugasemdir um flest milli himins og jarðar. Svona svipað og Jónas heitinn Kristjánsson gerði. Hann skrifaði reyndar fyrst og fremst um pólitík og þær fréttir sem hæst bar á hverjum tíma. Reynsla hans og þekking kom þar að góðum notum og hann hafði greinilega fjölmarga lesendur. Sama er reyndar að segja um marga aðra. Þó ekki mig, enda er engin regla á því hve oft ég skrifa né um hvað. Mér finnst sjálfum að mest af því sem ég sendi frá mér á þessu bloggi vera óttalegt gaspur. Orðaval mitt og umfjöllunarefni er kannski oft sérvitringslegt.

Vel getur verið að þessi skrif mín séu óttalega þreytandi, en svo getur líka verið að þau hjálpi einhverjum að halda sönsum í þeirri vitfyrringu hraða og ofstækis sem mér finnst stundum vera að ganga alltof nærri þeim sem eldri eru. Gamall er ég vissulega en reyni að fylgjast með því sem hæst ber í þjóðfélaginu. Tinna segir að við séum bæði hjónin fréttasjúk. Henni leiðast fréttir og vill helst vera án þeirra. Helsti kosturinn við að eiga heima hérna á Akranesi er hve rólegheitin og afskiptaleysið eru yfirþyrmandi. Umferðin í Reykjavík er líka orðin svo mikil að til vandræða horfir að mínum dómi. Bjarni týndi símanum sínum í gær, en hann finnst væntanlega fljótlega. Að sumu leyti eru þessi bloggskrif mín að verða eins og nokkurskonar dagbókarfærslur. A.m.k. stundum.

IMG 7914Einhver mynd.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Þorsteinn Briem

Ferleg þjóðin fréttasjúk,
fátt er þar af viti,
ef ég nægan ætti kúk,
á allflest það ég skiti.

Þorsteinn Briem, 31.7.2018 kl. 13:46

2 Smámynd: Sæmundur Bjarnason

Uppá fríðu fjallinu
er ferðalangur sjúki.
En Steini er á stellinu
stútfullur af kúki.

Sæmundur Bjarnason, 1.8.2018 kl. 09:46

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband