2730 - Arnarsetur

Sagt er að nokkurnvegin á móts við Arnarbæli í Ölfusi sé í Ölfusá klettur sem Arnarsetur sé kallaður. Hvort þetta er rétt hef ég ekki hugmynd um. Sennilega væri samt hægt að komast að því. Í einhverri þjóðsögu er sagt að prestur nokkur sem eitt sinn hafi þjónað í Arnarbæli hafi mælt fram þessa vísu við dreng einn sem ráðinn hafði verið sem smali þangað á bæinn. Ekki held ég að það fylgi sögunni hver réði hann. Kannski hefur það verið presturinn sjálfur, en þó er það ekki víst og ekki er að sjá að það skipti máli í sögunni. Vísan áminnsta var þannig:

Drengur minn þú deyrð í vetur
dettur fyrir Arnarsetur.
Kríuskítur og kamrafretur
kveddu á móti ef þú getur.

Og drengurinn á að hafa svarað samstundis:

Þú er prestur sómasæll
syngur hátt í messu
en vesalmenni og vinnuþræll
verðurðu upp frá þessu.

Og eins og í öllum góðum sögum á hvorttveggja að hafa ræst.

Satt að segja finnst mér þetta ekki merkileg saga. Samt er þetta nokkurn vegin eins og ég man hana. Ekki er ólíklegt að ég hafi minnst á hana áður í þessu bloggi mínu. Nenni bara ekki að gá að því. Vel getur svosem líka verið að hún sé einhvern staðar til á prenti (líklegast er að þannig hafi ég komist á snoðir um hana) og ítarlegri þá býst ég við. En um það veit ég ekkert, enda er ég enginn sérfræðingur um þessi mál.

Mér hefur alltaf þótt vísa stráksins of  meinlaus og það væri kraftmeira að hafa söguna þannig að þeir dræpust báðir. Kannski hefur þessi saga bara verið búin til utanum vísurnar og þar hafi hagyrðingurinn semsagt fyrst og fremst viljað koma á framfæri orðunum í þriðju ljóðlínu fyrri vísunnar. Með því verður sagan frá okkar sjónarmiði óttalega barnaleg. En eins og allir vita hafa börn á vissum aldri afskalega gaman af öllu neðan þindar, sérstaklega fretum kannski.

Ástæða þess að ég fjölyrði svo mikið um þetta einmitt núna er sú að ég hef takmarkaðan áhuga á því sem tröllríður öllum fjölmiðlum nú um stundir, en það eru fundirnir í Singarpore og heimsmeistarakeppnin í fótbolta.

Ekki er ég þó að hugsa um að gera þetta blogg að þjóðsagnabloggi þó þessháttar hafi mér fundist alveg vanta í bloggflóruna.

Vitanlega gæti ég svosem skrifað um eitthvað annað en þjóðsögur því á ýmsu hef ég áhuga. Held t.d. að ég hafi tvívegis skrifað um Bjarna-Dísu, sem mér þykir og þótti á þeim tíma sem ég heyrði hana fyrst einhver sú hrikalegast draugasaga sem ég nokkru sinni heyrt. Ekki hef ég þó hugsað mér að segja hana einu sinni enn. Þeir sem hafa áhuga á henni geta sem hægast gúglað hana. Þar að auki held ég að út hafi komið bók nýlega um þessa sögu.

IMG 8082Einhver mynd.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband