2531 - Trumplandia

Einu sinni var svonefnt „þingfararkaup“ þingmanna mjög lágt. Allskyns aukasporslur voru þá auðvitað þeim mun hærri. Kaupið var samt lélegt. Man að á einhverju tímabili hafði ég hærri laun en þingfararkaupið var. Svo stóð ekki lengi. Ríkisstjórnir og alþingi hafa komist upp með að stela af mér og flestum öðrum hluta þeirra eftirlauna sem ég hélt að ég væri að safna með því að borga í lífeyrissjóð á langri ævi. Það sem almennar tryggingar ákveða í samráði við yfirvöld á hverjum tíma að greiða öllum ætti alls ekki að koma þeim eftirlaunum sem ég hef skrapað saman, nokkurn skapaðan hlut við.

Mér finnst raunar ekki nein goðgá að alþingismenn hafi góð laun, en þegar föstu launin þeirra eru u.þ.b. fimm eða sex sinnum hærri en yfirvöld skammta mér í óstolnum eftirlaunum og ellistyrk þá fyndist mér réttlátt að afnema eða minnka stórlega aukasporslurnar.

Þessa klausu setti ég á fésbókina því ég er eða var ekki búinn að skrifa neitt meira og fannst að þessi hugleiðing ætti erindi þangað. Slæm þróun ef ég fer að setja öll mín skrifa bæði á fésbókina og moggabloggið. Takið vandlega eftir því að ég nota ekki stóran staf í fésbókina né árans moggann og reyni a.m.k. alltaf að muna eftir að gera það ekki heldur ef ég minnist á alþingi í miðri setninu. Dægurmálefni og pólitík eru samt ekki mínar ær og kýr, þó sumir geti varla án þess verið að hugsa mikið um slíkt.

Auðvitað veit ég mætavel að til eru reglur um hvar nota skuli stóra stafi. Mér finnst bara að hver og einn eigi að ráða því. Vitanlega er þetta líka vegna þess að ég kann þær reglur ekki. Að nota stóra stafi eingöngu er að hrópa eða öskra og það vil ég auðvitað helst ekki gera. Ég er einnig ákaflega óviss um hvernig eigi að nota kommur og önnur greinarmerki. Aftur á móti þykist ég vera allgóður í stafsetningu. Geri t.d. fremur sjaldan upsilonvillur og var á sínum tíma guðslifandi feginn þegar setunni var útrýmt. Sennilega eitt besta verk Sverris Hermannssonar. Annars var hann furðu sjálfstæður og forn í hugsun miðað við að fylgja jafnvitlausum flokki og hann gerði.

Trumplandia er nýjasta orðið sem demókratar í Bandaríkjunum hafa fundið upp um FBI (alríkislögregluna). Þeir segja að þeir sem vinna hjá FBI séu mjög andsnúnir Hillary Clinton. Ég er eiginlega spenntari fyrir forsetakosningunum í Bandaríkjunum á þriðjudaginn kemur, en kosningunum sem hér fóru fram um daginn. Hlutirnir breytast afar hægt hér á Íslandi og ég yrði ekki vitund hissa þó Bjarni Benediktsson mundi mynda ríkisstjórn með Framsókn og Viðreisn. Ég trúi því varla á Bjarta Framtíð að taka þátt í slíku. Þó FBI hafi snúist á sveif með Trump er ég samt ekkert að hugsa um að breyta spádómi mínum um sigur Hillary Clinton. Held að það séu meiri líkur á að Bandaríkin nálgist Evrópu pólitískt séð ef Clinton vinnur. Hræddur er ég um að Bandaríkin mundu einangrast meira ef Trump ynni.

Þó Brexit sé staðreynd (sem ég spáði vilaust um) er það svo að sú þjóðaratkvæðagreiðsla sem haldin var í Bretlandi og þar sem samþykkt var að ganga úr ESB var strangt tiltekið aðeins ráðgefandi. Forsætisráðherrann sagði af sér og nýr tók við. Hans/hennar hugmynd var að óska formlega eftir útgöngu í lok mars á næsta ári. Samningar um hvernig að útgöngunni yrði staðið tækju síðan u.þ.b. 2 ár. Nú er allt útlit fyrir að lagalegar flækjur tefji þetta mál verulega. Kannski liðast Bretland í sundur í alvörunni eins og á knattspyrnuvöllunum.

IMG 3013Einhver mynd.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband