41. blogg

Oftast blogga ég á kvöldin en nú er sunnudagur og ekki komið hádegi. Úr því að ég er tilbúinn með færslu er best að láta hana flakka.

Þetta blogg mitt væri sennilega réttast að kalla minningablogg. Mér finnst auðveldast og skemmtilegast að setja saman þessi minningabrot sem ég hef verið að setja hér á blað (eða réttara sagt, breyta í rafeindamerki - blöð koma hér ekkert við sögu). Ekki er útilokað að þeir sem ólust upp í Hveragerði um miðja síðustu öld finni hér eitt og annað sem þeim finnst áhugavert.

Það eru hugleiðingarnar sem geta kostað heilabrot, minningarnar koma næstum af sjálfu sér. Oftast rifjast hlutirnir upp fyrir mér með einstökum myndum sem þó eru ekki alltaf fullkomlega skýrar. Vandinn er svo einkum fólginn í því að finna réttu orðin til að lýsa hlutunum.  Vel getur verið að minningarnar séu ekki alltaf nákvæmlega réttar, en við því er ekkert að gera. Þetta er eins og ég man hlutina. Margt getur hafa skolast til á löngum tíma.

Vorið heldur sínu striki nokkuð vel. Sífellt grænkar meir og meir og bráðum hætti ég að geta séð í gegnum hekkið hérna fyrir utan. Pólitískur æsingur eykst líka dag frá degi eftir því sem nær dregur kosningum. Árangur flokkanna sveiflast fram og aftur ef miðað er við skoðanakannanir,  sem eru orðnar svo margar og mismunandi að ekki er nokkur leið að fylgjast með þeim öllum.

 

Eina íþróttin sem ég hef einhverntíma getað eitthvað í er skák. Auðvitað þykjast allir karlmann líka geta eitthvað í fótbolta, en það er önnur saga sem ég fer kannski nánar út í seinna. Sumir halda því reyndar fram að skák sé ekki íþrótt, en ég fer ekki ofan af því að skák sé a.m.k. að hluta til íþrótt.

Ég lærði mannganginn hjá þeim Skaftasonum Jósef og Jóhannesi ef ég man rétt. Við vorum stundum að leika okkur með taflborð og menn en kunnum næsta lítið fyrir okkur. T.d. man ég vel að við kunnum ekki að þrengja markvisst að einmana kóngi með kóng og hrók. Við fundum þetta síðan út af eigin hyggjuviti og þóttumst hafa gert mikla uppgötvun.

Pabbi kunni að tefla en hans hugmyndir um skákreglur stönguðust svolítið á við það sem viðurkennt var af öðrum. Tvennt er það sem ég man vel eftir að var öðruvísi hjá honum en algengast var og er.

Hann hélt því fram að einungis mætti nota átta leiki til þess að máta beran kóng, annars væri skákin jafntefli. Hann hélt því líka fram að þegar peð kæmist upp í borð væri aðeins hægt að vekja upp mann af þeirri gerð sem þar var þegar skákin hófst. Þannig að ef peð kæmist upp í borð á A eða H línu þá væri einungis hægt að vekja upp hrók. Á D línunni væri hins vegar hægt að vekja upp drottningu. Ég man bara ekki hvað átti að gerast ef vakið var upp á E línu. Örugglega var ekki vakinn upp annar kóngur. Ástæðan fyrir því að ég man þetta ekki er sennilega sú að ég tók aldrei mark á þessum reglum. Aðrir sögðu annað og ég trúði því betur.

Pabbi taldi líka að svonefnd valdskák væri nokkurn vegin jafnmerkileg og venjulega skák og hefði verið mikið iðkuð áður fyrr. Valdskák er það nefnt þegar bannað er að drepa valdaðan mann en venjulegar skákreglur gilda að öðru leyti.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband