38. blogg

 Gott er blessað veðrið og engu líkara en sumarið hafi ákveðið skyndilega að koma bara strax og sleppa vorinu. Það er alveg ótrúlegt hve mikið getur grænkað í umhverfinu á stuttum tíma og þetta er alveg áreiðanlega hvorki vinstri né hægri grænum að þakka.

Þessi dagur er haldinn hátíðlegur víða um heim og ekki að ófyrirsynju. Rússar og fleiri þjóðir hafa reyndar komið óorði á hann með hersýningum og öðru brambolti, en saga hátíðahalda á þessum degi er löng og merk bæði hér á Íslandi og víða annars staðar.

Langt er síðan ég hef farið í kröfugöngu en ég held að þær hafi á sínum tíma verið af hinu góða. Að mörgu leyti held á að fólk sé að upplifa það núna hve rangt það hefur verið á undanförnum áratugum að leggja megináherslu á yfirborganir en vanrækja grunnlaunin ásamt því að afneita verkalýðsfélögum og treysta á mátt sinn og megin.

 

Um daginn sá ég í blaði að Berþóra Árnadóttir væri dáin. Þegar við áttum heima vesturfrá eftir brunann voru hún og systkini hennar meðal leikfélaga okkar. Ég minnist sérstaklega Jóns Sverris bróður hennar. Hann átti það til að sjást ekki fyrir þegar hann reiddist og slíka krakka kölluðum við gjarnan grjótkastara. Eitt sinn henti hann steini beint í hausinn á mér svo það kom stærðar kúla. Foreldrar þeirra þau Alla Magga og Árni voru eftirminnileg og skiptu sér líklega meira af okkur en aðrir foreldrar.

Yfirleitt held ég að okkur krökkunum hafi komið ágætlega saman. M.a. man ég eftir gamalli og hálfhruninni sundlaug einhvers staðar í nágrenninu, sem var full af fúlu vatni. Þar sátum við löngum stundum og fylgdumst með brunnklukkunum sem þar var mikið af. Skemmtilegt var að fylgjast með þeim þar sem þær skriðu um botninn en komu öðru hvoru upp og settu afturendann uppúr vatninu til að taka loft undir skelina.

Við þessa sundlaug fann ég líka einu sinni ónotað riffilskot. Ég setti það á sundlaugarbarminn og lamdi á það með stórum steini. Vissulega kom hvellur af þessu, en ég er ekki viss um að þetta hafi verið mjög gáfulegt.

Jón Sverrir fórst fáum árum eftir þetta í hörmulegu bílslysi þar sem hann var á reiðhjóli á þjóðveginum fyrir neðan þorp, skammt frá réttunum sem þar voru.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband