2109 - Lestur er langbestur

Ásgautsstaðir, Ásgautsstaðir, Ásgautsstaðir. Ég er orðinn hundleiður á þessu sífellda stagli. Lesendur eflaust líka. Gæti svosem hætt að minnast á það en með þessu móti finnst mér ég vera að gera eitthvert gagn. Ef svo fer á endanum að svonefndur Sýslumaður Árnesinga svarar bréfum frá lögfræðingnum um þetta mál (þau eru víst orðin fjögur talsins) get ég kannski þakkað mér það.

Skrif og myndir eru einu samskiptin sem við getum haft við hina dauðu. Myndir segja meira en mörg orð er oft sagt. Orðin eru samt undirstaða alls. Orðin eru það sem skilur okkur frá dýrunum. Skrif og bækur eru að því leyti æðri myndunum að þau gera ráð fyrir „þúinu“. Þú getur skapað þá veröld sem þér sýnist úr orðalýsingum en ekki úr myndum. Þær gera allt fyrir þig og koma í veg fyrir að þú hugsir sjálfur. Frumleiki og ímyndunarafl er það mikilvægasta í heiminum.

Lestur er mikilvægur. Gott ef hann verður ekki sífellt mikilvægari. Táknin sem við notum fyrir bókstafi og á hvaða hátt við notum orð er eitt af því merkilegasta sem við gerum. Vel má bæta myndum allskonar við, því þannig má oft flýta fyrir, en þær geta aldrei komið að fullu í staðinn fyrir orð. Hvers vegna dettur mönnum í hug að semja útskýringar (í orðum) við myndir allskonar? Segja myndirnar ekki það sem segja þarf?

Ef álit erlendra fjárfesta á Sigmundi Davíð Gunnlaugssyni, forsætisráðherra landsins, er yfirleitt eins slæmt og Jónas Kristjánsson vill vera láta erum við Íslendingar í vondum málum. Á ýmsan hátt eru útlendingar betur færir um að dæma Sigmund en við veslingarnir sem höfum orðið fyrir barðinu á honum. Vel getur samt verið að hann sé alls ekki eins slæmur og Jónas Kristjánsson og DV segja. Eiginlega getum við ekki annað en beðið og vonað.

Kynþáttafordómar vaða uppi. Ef „strákunum okkar“ er líkt við nasistalýð og heilu þjóðunum „slátrað“ í handbolta þá eru það bara mistök sem leiðréttast auðveldlega með afsökunarbeiðni. Mikið að hann sagði bara ekki „sorry“ í lokin. Hugsanlega er þetta samt afsakanlegt vegna ungs aldurs og heimsku. DV segir að Geir Haarde hafi sem unglingur verið mjög á móti negrum og ekkert vitað hræðilegra en að þeir kynnu að blandast hinum snjóhvítu Íslendingum. Hann vitkaðist talsvert með árunum og kannski gera fleiri það.

Já, ég er svo gamall að ég man vel eftir Útvarpi Matthildi. Atriðið með fugl dagsins (sem var hundur) er mér sérstaklega minnisstætt. Reyndar man ég líka eftir þessum fræga fugli dagsins sem entist auðvitað ekki endalaust. Margir voru þeir samt og vaninn var að spila hljóðin úr þeim rétt fyrir hádegisfréttir. Samt var það ekki síðasta lag fyrir fréttir sem var annar þáttur sem var mjög vindsæll. Næstum eins vinsæll og lunga fólksins. (Sem átti víst að vera lög unga fólksins.) Þá þótti nóg að hafa einn þátt á viku með helvítis poppinu. Þess á milli voru fluttar alvöru sinfóníur.

IMG 5858Víking gylltur.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband