2031 - Kjarninn.is

Það er margt athyglisvert í nýja tímaritinu „kjarninn.is“. Hugleiðingin hér á eftir um netsjálfið kviknaði t.d. eftir lestur greinar þar. Upplýsingar þær sem lúta að framferði stjórnar Sparisjóðs Keflavíkur eru þegar farnar að valda úlfúð. Bandaríkjastjórn fær heldur ekki neitt sérstaklega vinsamlega meðhöndlun hjá ritinu. Ég vil bara hvetja sem flesta til að kynna sér það sem skrifað er í þetta rit. Það gæti vel orðið með því merkasta sem finnanlegt er á netinu. Blaðamenn vita oft ýmislegt. Segja kannski ekki frá því og eru kannski innst inni talsvert vinstri sinnaðir.

Jónas Kristjánsson hefur hingað til verið mín skyldulesning á netinu. Eyjan stundum einnig og einkum þá Egill Helgason. Kannski verður Kjarninn það með tímanum líka. Yfirleitt hefur það haft öfug áhrif á mig ef einhver hefur haldið því fram að grein (sem ég hef ekki lesið) væri skyldulesning. Einkum forðast ég slíkar greinar ef þær eru mér óaðgengilegar í Morgunblaðinu eða DV. Þessi blöð virðast enn ganga útfrá því að áskrift sé lausnarorðið. Stríðið milli netmiðlanna, fríblaðanna og áskriftarblaðanna er löngu búið. Netmiðlarnir unnu frækinn sigur þar. Að menn skuli enn ekki hafa gert sér grein fyrir því er stórfurðulegt.

Hver á þitt stafræna sjálf? Já, hver á tölvupóstinn þinn og myndirnar sem þú hefur tekið? Að ég tali nú ekki um allt sem þú hefur bloggað, ef þú hefur gert þig sekan um slíkt athæfi. Þetta er vandamál sem sífellt er að verða mikilvægara. Hingað til hefur það verið álitið augljóst að eftirlifandi ættingjar ættu allt sem hinum láta tilheyrði. En er það svo? Hvað verður um öll þau spor sem skilin eru eftir á netinu? Það getur jafnvel skipt máli hvað þú hefur lækað á fésbókinni eða skoðað á Internetinu og hvenær. Allt er hægt að grafa upp ef áhugi er fyrir hendi. Netlíf einstaklinga (og fyrirtækja og stjórnvalda) verður í auknum mæli viðfangsefni sagnfræðinga framtíðarinnar. Kunnátta í notkun netsins verður þeim sífellt mikilvægari.

Sumar ríkisstjórnir hugsa til kjörtímabilsins alls. Allsekki lengra. Sumar ríkisstjórnir hugsa til ákaflega skammst tíma og satt að segja virðist núverandi ríkisstjórn ekki síður vera því marki brennd en þær síðustu. Ef kjör ellilífeyrisþega verða ekki bætt í nóvember n.k. eða fyrr og einhver markverður áfangi næst ekki fljótlega í skuldaleiðréttingarmálunum þá er hætt við að líf þessarar ríkisstjórnar verði í styttra lagi og langtímasjónarmið með öllu óþörf. Í staðinn fyrir að læra að veifa með konunglegum hætti ætti Simmi að vinda að því bráðan bug að koma undirsátum sínum (ráðherrunum) til verka. Ekki veitir af því margt þarf að gera.

Ætli hraðahindranir séu ekki það sem mest slítur þeim bílum núorðið sem halda sig á mabilki? Ein slík hefur nú séð dagsins ljós fyrir utan gluggann minn. Ef ég lít upp úr þessu skrifelsi mínu þá sé ég að vissulega hægja bílstjórarnir talsvert á sér þegar þeir sjá þessi ósköp. Nú er Auðbrekkan semsagt ekki lengur hraðahindranalaus og ég er feginn því. Það eru nefnilega svo margir sem fara hraðar en ég. Auðvitað finnst mér þeir fara alltof hratt.

Hér á heimilinu er á flækingi bók sem heitir „Veruleiki draumanna.“ Í mínum huga eru draumar tvenns konar. Annars vegar eru dagdraumar eða ímyndanir sem maður ræður yfir að einhverju (mestu) leyti. Hinsvegar er um að ræða raunverulega drauma sem koma til manns í svefni og maður ræður oftast engu um. Þeir fyrrnefndu eru nauðsynlegir (í hófi) því hvernig á maður að ná einhverjum árangri án þess að láta sig dreyma um að hann verði enn meiri. Þeir síðarnefndu gleymast oft nema þeir séu annaðhvort skrifaðir niður eða sagðir öðrum. Semsagt rifjaðir upp.

Nú er menningarnóttinni að ljúka. Hún hefur staðið í allan dag en þyrfti ef vel ætti að vera að standa yfir frá föstudegi til sunnudags. Vitanlega spilar veðrið stóra rullu, en hvað er betra en að rölta um bæinn og vera séfellt boðið eitthvað sem manni hafði ekki dottið í hug.

IMG 3591Reynitré á réttum stað.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband