2010 - Allt fram streymir endalaust

Heitasta umræðuefnið í dag eru ummæli Þorbjargar Helgu um Ólaf F. Magnússon og ýmislegt sem komið hefur í ljós í framhaldi af þeim. Satt að segja hef ég meira álit á Ólafi en Þorbjörgu. Hvorugt þekki ég reyndar persónulega en verð bara að styðjast við myndir af þeim og það sem ég hef lesið um þau, eftir þau og það sem eftir þeim hefur verið haft. Eflaust er það ekki tæmandi og hvorugt þeirra er í borgarstjórn lengur eða eins miklir þátttakendur í opinberu lífi og áður var.

Einhverjir virðast ætla að nota þetta mál og peningauppgjör sem tengdust frjálslynda flokknum og Ólafi Magnússyni til að sverta Jón Gnarr, en ekki er víst að það takist. Ég ber virðingu fyrir skoðunum hans varðandi mannréttindamál og margt annað. Ekki vil ég trúa neinu misjöfnu um hann. Ég er mjög ósammála mörgum skoðunum Ólafs F. Magnússonar, en held ekki að sjúkdómur hans hafi haft áhrif á þær. Held að hann hafi verið einn af bestu borgarstjórum Reykjavíkur. Annars er málefni þetta allt svo margflókið að engin leið er að átta sig almennilega á því. Allt er það þó heldur óhagstætt núverandi stjórnarflokkum.

Ekki get ég skilist svo við pólitíkina að ég minnist ekki á fjórmenningaklíkuna nýju. Þar á ég við svonefndan hagræðingarhóp ríkisstjórnarinnar. Í honum sitja að því er mér hefur skilist: Ásmundur Einar Daðason, Vigdís Hauksdóttir, Unnur Brá Konráðsdóttir og Guðlaugur Þór Þórðarson. Ég er nú svo andstyggilegur í hugsun að mér hefur dottið í hug að þetta sé einmitt fólkið sem Sigmundur og Bjarni vilji helst gera óskaðlegt. Fyrir utan ráðherrana að sjálfsögðu. Er þá eitthvað betra að þeir tveir ráði öllu? Það er ég ekki viss um. Rjómapönnuköku- og sumarbústaðaævintýri þeirra gætu þó bent til að þá langi til þess. Bjarni leyfði Sigmundi að vera forsætis m.a. vegna þess að ÓRG vildi það og hefur eflaust fengið ýmislegt í staðinn.

Svo er það blessuð Samfylkingin. Hún hlaut hörmulega útreið í kosningunum og nú er rifist mjög um það útaf hverju það hafi verið. Ríkisstjórnarflokkarnir stóðu sig báðir mjög illa áróðurslega séð og gerðu það í öllum aðdraganda kosninganna. Alltof seint var skipt um formann hjá Samfó og hann fékk ekki þau tækifæri sem hann þurfti.

Hvernig notar maður fésbókina? Mér finnst ég nota hana skynsamlega. Þó nota ég hana eflaust öðruvísi en flestir aðrir. Oft er furðulegt að fylgjast með tölvuhegðun fólks. Ekki bara hvað það lætur frá sér fara, heldur líka hvernig það nálgast hlutina. Hvernig vandamál eru leyst o.s.frv. Hverjum þykir sinn fugl fagur í því efni og sem betur fer er oftast hægt að framkvæma tölvutengda hluti á margan hátt. Ég hef stundum líkt tölvumálum við bílamál og vissulega er margt líkt með þeim.

Áður fyrr þurftu bílstjórar að leysa mörg vélfræðileg og allskyns önnur vandamál sjálfir. Bílarnir voru oftast mjög ófullkomnir og bílstjórar fáir. Nú er þetta breytt. Allir, eða a.m.k. allflestir geta auðveldlega keyrt bíl. Þeir eru orðnir afar fullkomnir og vandamál fá sem glíma þarf við.

Tölvutæknin breytist jafnvel enn hraðar en bílarnir gerðu á sínum tíma. Helsta ógæfa gamals fólks núorðið er hve ósýnt því flestu er um allskyns tækni sem þó gerir líf nútímamannsins miklu auðveldara en áður var, en um leið mun flóknara.

Í dag er föstudagur og allir eiga að vera kátir því nú er að byrja helgi. Fyrir gamalmenni eins mig sem er með öllu hættur að vinna er helgin þó ekki eins mikilvæg og áður var. Þar að auki er veðrið ekkert sérlega gott hér á Stór-Kópavogssvæðinu. Kannski rignir samt lítið í dag.

IMG 3494Með húsið á bakinu.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband