1984 - Þjóðremba og Dorrit

Ég er eiginlega búinn að skrifa yfir mig um stjórnmál. Ætla að reyna að hætta því. Það er einskonar megrunarkúr. Heitustu málin þar snúast um flugvöllinn í Vatnsmýrinni og fangelsið á Hólmsheiðinni. Annað er til og hitt ekki. Einfaldast væri náttúrlega að skipta, en það er víst ekki hægt. Verst er að ég hef næstum engan áhuga. Þá skrifa ég bara um eitthvað annað. Aðalmunurinn á mér og öðrum bloggurum er að ég get aldrei þagnað. Aðrir skrifa einkum ef þeir hafa eitthvað að segja, ég er hinsvegar sískrifandi. Get ekki hætt.

Úr því ég er hættur að tala um stjórnmál er hægt að tala t.d. um vísindalega aðferð. Mér finnst Persónuvernd seilast of langt ef Íslensk Erfðagreining má ekki nota tilreiknuð gögn. Minn skilningur er sá að „tilreiknuð gögn“ sé aðeins hægt að nota á hópa en ekki einstaklinga og séu í grundvallaratriðum frábrugðin raunverulegum gögnum. Upplýst samþykki sé hinsvegar aðeins hægt að fá hjá einstaklingum, en ekki hópum. Kannski er þetta skelfing óskýrt hjá mér, en ég held semsagt meira með Kára Stefánssyni en Persónuvernd í deilu sem ég kann ekki mikil skil á.

Mér finnst þjóðremban vera það hættulegasta hjá Sigmundi Davíð og held allsekki að framsóknarflokkurinn sé einhuga á bakvið hann í öllu þar. Hinsvegar er hin blinda kapítalíska sýn á markaðinn á margan hátt akkillesarhæll Bjarna Benediktssonar og sjálfstæðisflokksins. Nú er ég kominn útí pólitískar hugleiðingar sem ég ætlaði að forðast. Það er bara svo merkilegt að hugsa um þetta alltsaman að ég get ekki stillt mig.

Í yfirlýsingu frá Facebook segir að fyrirtækið verji persónuupplýsingar notenda sinna „af hörku“. „Reglulega höfnum við slíkum beiðnum, krefjum stjórnvöld um að draga úr kröfum sínum eða veitum þeim einfaldlega mun minni upplýsingar en farið var fram á. Og við svörum þessum kröfum aðeins eins og okkur ber skylda til lögum samkvæmt,“ segir í yfirlýsingu Facebook.

Svo segir í frétt á mbl.is. Já, en hver skilgreinir þá skyldu. Ætli það séu ekki starfsmenn fyrirtækisins, eða eru það kannski stjórnvöld?

Mamma var aldrei feitlagin. Þetta get ég sagt af því að ég er sjálfur orðinn gamall og feitlaginn og hún löngu dáin. Einhverju sinni var hún spurð hvernig hún héldi sér svona grannri. Hún svaraði: „Með því að borða alltaf heldur minna en mig langar í.“ Þetta svar er mér mjög minnisstætt. Gott ef það gæti ekki komið í staðinn fyrir margan megrunarkúrinn. Segi bara svona. Margir borða alltaf heldur meira en þá langar í.

Fiskurinn í sjónum er víst ýmist uppsjávarfiskur eða bolfiskur. Þeir landkrabbar sem ekki hafa þetta á hreinu geta ekki fylgst með umræðum um auðlindamál. Stjórnvöld og LÍÚ reyna sífellt að gera þessi mál sem allra flóknust og hefur eiginlega tekist það. Jafnvel fulltrúar Alþjóða Gjaldeyrissjóðsins láta snúa útúr fyrir sér.

Sagt er að Dorrit forsetafrú sé ekki lengur með lögheimili á Íslandi. Mér finnst hún hafa sett talsvert niður við það. Sagt er að hún hafi flutt lögheimili sitt 27. desember s.l. þegar búist var við að Ólafur yrði ekki forseti lengur. Léleg afsökun. Og var Ólafur ekki endurkjörinn sumarið 2012. Mér finnst þurfa að athuga þessar dagsetningar betur. Er hún kannski búin að vera útlendingur í eitt og hálft ár?

IMG 3305Fallegur köttur.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband