1698 - Kindle-bækur á íslensku

Untitled Scanned 09Gamla myndin.
Stökkpallurinn í Laugaskarði enn og aftur.

Á kyndlinum mínum þykir mér einna mest gaman að leita að bókum og lesa umsagnir um þær. Stundum bið ég líka um sýnishorn (sample) af þeim því þau eru alltaf ókeypis. Þá leita ég líka eftir allskyns orðum, en verð auðvitað að gæta þess að hafa þau á ensku. Útgáfa öll er að verða svo einföld að það er líklega mikið viðskiptatækifæri að henda sér útí þá sundlaug. (Jafnvel djúpu laugina.) Rafbókaútgáfa er þó enn einfaldari því þar er ekki þörf á neinum efnislegum hlutum. Eins og flestir vita er Kindle afkvæmi Amazon og þeir stefna að heimsyfirráðum eins og fleiri.

Ekki er enn gott að sjá hvaða format verður ofaná við rafbókaútgáfu. Líklegt er samt að það verði Kindle. Ég geng að minnsta kosti út frá því í bili.

Gefnar hafa verið út rafbækur um ótrúlegustu hluti og hægt er að leita á kyndlinum að þeim. Ef leitað er þar að bókum sem skrifaðar hafa verið um hvernig nota megi forritið Wordpress þá eru þær á fjórða hundrað. Leiti ég hinsvegar að orðinu Dropbox þá eru aðeins 7 bækur sem hafa verið skrifaðar um það. Sé leitað að orðunum Kindle og publish saman skilar sú leit á fimmtándahundrað niðurstöðum. Kindle eitt og sér skilar milljónum.

Eitt virðist vera sameiginlegt með öllum þessum bókum. Þær kosta aðeins fáeina dollara. Ef nógu margar seljast er samt áreiðanlega hægt að græða vel á þessu. Yfirleitt virðast þær samt ekki vera ókeypis en hægt er að fá fullt af bókum, sem formattaðar hafa verið fyrir Kindle lesvélar, fyrir ekki neitt. Oftast er þá um að ræða bækur sem eru komnar úr höfundarrétti og sem aðeins hefur verið breytt úr PDF-skjali eða hreinni textaskrá í kindle-format.

Með Internetinu, fésbók og þ.h., farsímum, rafbókum, bloggi og ýmsu öðru er heimurinn að breytast með síauknum hraða. Til að fylgjast sæmilega með þurfa flestir á öllu sínu að halda. Mikill fjöldi dregst þó afturúr eða festist í einhverju ákveðnu (eins og ég er fastur í blogginu) og þeim þarf líka að sinna. Mín hugsjón er að allar þær sjálfshjálparbækur (eða þær skástu þeirra) verði ókeypis og öllum aðgengilegar. Það gerist samt ekki samstundis og á einhverju þurfa þeir að lifa sem eru sífellt að finna uppá einhverju nýju og spennandi til að gera veröldina skemmtilegri og einfaldari.

Það er að líkindum útkljáð mál að ÓRG vinnur forsetakosningarnar sem haldnar verða í lok þessa mánaðar. Við því er ekkert að gera. Varla getur það talist til stórtíðinda. Ekki er ég nú samt svo langt leiddur að ég fari að kjósa hann útaf því einu. Hættan sem stafað getur af því að hann sópi í sífellu til sín öllum þeim völdum sem hann mögulega getur er kannski einhver en varla stórkostleg. Ekki er að sjá að Þóra Arnórsdóttir veiti honum þá keppni sem vonast var eftir. Sú áætlun að tengja hana sem mest við Samfylkinguna, ríkisstjórnina, ESB o.fl. virðist hafa tekist.

IMG 0364Veit ekki hvað þetta er.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband