1329 - Gamlar myndir og fleira

Hér eru fjórar gamlar myndir.

gömul 1Mynd númer eitt. Þetta sýnist mér vera Jóhannes Finnur Skaftason og líklega er myndin tekin í Seldal sem er eiginlega uppá Reykjafjalli. Held að þetta sé frá útilegunni þar sem við Lalli Kristjáns sváfum úti vegna plássleysis í tjaldinu þeirra Jobba og Jóhannesar. Fengum þó lánaðan hjá þeim tjaldbotninn.

gömul 2Mynd númer tvö. Þetta munum vera við bræðurnir ég og Bjöggi fyrir utan nýja húsið að Hveramörk 6.

gömul 3Mynd númer þrjú. Hef bara einfaldlega enga hugmynd um hver þetta er né hvar myndin er tekin. Hjálp óskast.

gömul 4Mynd númer fjögur. Þetta er greinilega Bjössi bróðir. Sennilega hef ég tekið myndina og hún er greinilega tekin fyrir utan Hveramörk 6.

Kannski verður þetta blogg ekkert lengra. Sumum finnst gaman að sjá gamlar myndir. Nóg á ég af þeim þó sumar séu lélegar og fátt á þeim að sjá.

Kannski er það merki um hve elliær ég er að verða að ég skuli vera farinn að forðast hugleiðingar um nútímann. Margt er þó að gerast t.d. í stjórnmálum. Hálftíma hálfvitanna horfi ég oft á en í vaxandi mæli leiðist mér hann og þegar þingmennirnir fara að tala um ákveðin mál gefst ég oftast upp nema ég hafi sérstakan áhuga á því sem um er rætt.

Nú virðist t.d. vera komin af stað ný undirskriftasöfnun með áskorun til forsetans um að skrifa ekki undir fjölmiðlalögin. Á síðunni sem þessari undirskriftasöfnun fylgir er vísað á lögin í pdf-skjali. Þetta skjal er svo óra- óralangt (376 blaðsíður) að ég nenni ómögulega að lesa það. Hef ég þó áhuga á fjölmiðlum. Kannski meiri en algengast er. Hef heyrt að Sögu-fólki er eitthvað uppsigað við frumvarpið og kannski er það gallagripur. Ég hef samt tilhneygingu til að treysta þingmönnum stöku sinnum.

Í umsögn Blaðamannafélags Íslands á síðu undirskriftasafnara, sem blessunarlega er ekki nema þrjár blaðsíður og því vel hægt að lesa, segir á einum stað (með leyfi forseta) og er þar verið að tala um ríkisútvarpið. „Engar takmarkanir eru á umfangi þess á auglýsingamarkaði aðrar en þær sem greinir í 5. tl. 64. gr., sem eru litlar sem engar frá því sem nú er." Hvaða takmarkanir eru það? Má ekki segja frá því? Annars skil ég þessa setningu ekki almennilega og finnst hún hálfgölluð.

Umsögn Blaðamannafélagsins er í heild alls ekki mjög neikvæð og ekki er að sjá að þeir séu sammála þeim sem  fara fram á að ÓRG neiti að skrifa undir lögin ef frumvarpið verður samþykkt.

Og svo er víst búið að leggja fram þingsályktunartillögu um vantraust á ríkisstjórnina. Held að hún komi fljótt til umræðu og verði ekki samþykkt. Hins vegar langar Bjarna Ben að verða ráðherra, á því er enginn vafi. Nú er rétta tækifærið. Ef hann bíður lengur er hætt við að búið verði að varpa honum út í ystu myrkur þegar næsta tækifæri kemur.

Af reiðhjólum og bílum

IMG 5411Hér er mynd af bílventli. Man að þegar ég var strákur stunduðum við hjólamennsku grimmt. Samt voru allar götur í Hveragerði malargötur. Man að ég hjólaði þó eitt sinn án þess að snerta stýrið með höndunum allar götur eftir Heiðmörkinni frá bakaríinu og niður undir Árnýjarhús. Það þótti mér sjálfum mikið afrek.

Oft þurfti að pumpa í dekkin og ef pumpurnar voru ekki þeim mun betri var það óttalegt puð og tók langan tíma. Ef svikist var um að pumpa og halda hæfilegum þrýstingi í dekkjunum mátti búast við að gat kæmi á slönguna fljótlega. Þá var ekki um annað að gera en bæta hana og það var enn meira verk en að pumpa. Ekkert var hugsað um okkur stráklingana varðandi loft en á einum eða tveimur stöðum í þorpinu var hægt að pumpa í bíldekk með vélrænum hætti.

Einhver okkar strákanna fann þá uppá því snjallræði að taka ventil úr gamalli bílslöngu og nota hann til að pumpa í reiðhjólsdekkin. Þetta var mikill munur. Nú þurftum við lítið að hafa fyrir lífinu og vorum skotfljótir að pumpa í dekkin. Einkum þurfti að gæta þess að pumpa ekki of mikið.

Það minnir mig á að í fyrsta skipti sem ég þurfti að pumpa í dekk á fólksvagningum sem við Vignir keyptum af Gunnari í Álfafelli þá var ég staddur á Selfossi og pumpaði allt of mikið í árans dekkið og þegar ég fór af stað var eins og járnhjól væri undir bílnum.

Einu sinni þegar við bjuggum í Borgarnesi þurfti Áslaug að fara til Reykjavíkur. Ég keyrði hana á Saabinum til Akraness í veg fyrir Akraborgina. Eitthvað var að  bílnum og ég þurfti sífellt að vera að bæta vatni á vatnskassann. Þegar ég kom á Akranes var ég auðvitað orðinn of seinn en flýtti mér samt niður á bryggju með reykjarstrókinn uppúr bílnum. Akraborgin var farin af stað en skipstjórinn hefur kennt í brjósti um mig og stöðvaði skipið við hornið á bryggjunni og Áslaug gat farið um borð og gott ef strákarnir voru ekki líka með.

IMG 5113Nei, ég held ekki að það sé búið þarna.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband