1105 - Hávaði sem leit að þögn

Fór áðan í gönguferð út á Kársnesið norðanvert. Greinilega var eitthvað af fólki í Nauthólsvíkinni enda veðrið gott. Ekki heyrðist í því enda yfirgnæfði tónlistin það. Skil ekki af hverju það er nauðsynlegt að spila tónlist af miklum styrk á stað sem þessum. Hef líka tekið eftir því að ungt fólk virðist þurfa að hafa glymjandi tónlist einhvers staðar nálægt sér til að geta lært. Er hugsanlegt að það fólk sé að útiloka truflandi hljóð? Datt þetta bara svona í hug. Ærandi þögn er eitthvað það besta sem ég veit, en sjaldgæf mjög. 

Lokanir á Moggablogginu eru að ganga af því dauðu. Það þarf ekki nema áttatíu og fimm vikuheimsóknir til að komast á 400 listann núna. Öðru vísi mér áður brá þegar meira en 300 slíkar heimsóknir þurfti til að komast á nefndan lista. Sú hugmynd að allir geti bloggað ókeypis er góð. Kannski er það samt hún sem er að ganga endanlega frá þessu bloggsvæði.

Reglurnar sem settar hafa verið upp hérna á Moggablogginu eru ekkert galnar. Það er framkvæmd þeirra sem er ekki eins og hún ætti að vera. Það er ekki góð latína að loka bara hægri vinstri. Það þarf að gera vinsælum bloggurum það ljóst að þeir geta ekki sagt allt sem þeim dettur í hug á þann hátt sem þeim dettur í hug. Aðrir skipta ekki máli. Þeir sem stjórna Moggablogginu eru alveg hættir að koma með nýjungar og er það skaði. Annað hvort skilar manni áfram eða fer aftur. Það er ekki hægt að standa í stað í þessum efnum.

Eiginlega er ég hissa á því að ég skuli endast til að blogga á hverjum degi. Þetta verður samt sífellt auðveldara. Finnst þetta afar lítið mál núorðið. Sú var tíðin að þetta var beinlínis fyrirkvíðanlegt. Svo er ekki nú. Reyndar ætti ég að fara að gera eitthvað að gagni en nenni því ekki. Mest er ég hissa á að nokkur skuli nenna að lesa þetta.

Stundum eru einfaldir hlutir gerðir svo flóknir að það tekur marga bloggmetra að úskýra þá. Þannig er því oft varið með hrunfréttir enda er ég að mestu hættur að reyna að skilja þær og get því ekki bloggað um slík vísindi lengur. Marínó G. Njálsson er meistari í þessu. Skrifar óralangar hrungreinar eins og ekkert sé.

Í bloggheimum sé ég að badabing sjálfur er að skrifa ævisögu Miðbaugs-Katalínu og svo er Sölvi á handahlaupum í detoxinu hennar Jónínu Ben. Jólabókaflóðið ætlar að verða athyglisvert að þessu sinni. Áherslurnar koma ekki á óvart.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 identicon

Sæll Sæmundur.

Það er alltaf gaman að lesa bloggið þitt ... sem er eiginlega dagbók.

Talandi um jólabókaflóðið þá lítur út fyrir að maður verði með þrjár bækur í briminu að þessu sinni:

Ofbeldi á Netinu: Hverjir stunda það og hvernig?

Trúleysi: Öfgar og æðstuprestar.

+ ein sem er enn ekki búin að fá heiti.

Grefillinn Sjálfur 9.8.2010 kl. 02:54

2 Smámynd: Sigurður Hreiðar

Sammála þér um þessar endalausu langlokur sem sumir skrifa á bloggið. Endist sjaldnast til að lesa þær enda á milli, svona langt mál -- ef það á annað borð getur haldið manni við efnið -- á að vera þannig að maður geti farið með það á góðan stað og lesið liggjandi á bakinu.

Þeir sem gera þetta vel setja málið niður fyrir sér og skrifa einn kafla í dag en annan á morgun -- þó það sé um sama málefni. Buna ekki allir lokunni úr sér í einu.

Sigurður Hreiðar, 9.8.2010 kl. 11:43

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband