1104 - Dalalíf

Er að lesa „Dalalíf" Guðrúnar frá Lundi þessa dagana. (Miðbindið að ég held) Það er átakalítill og þægilegur lestur. Guðrún er ekkert að fara í launkofa með það hvaða sögupersónur eru innundir hjá henni eða hverjar henni er í nöp við. Það er allt í lagi. Áhrifin sem það hefur á framvindu sögunnar liggja ekki nærri alltaf í augum uppi og eru ekki spennusagnahöfundar nútímans einmitt alltaf að reyna að leyna því hvernig þeim líkar við sögupersónurnar? 

Jú, jú. Framvindan er hæg en það hentar mér ekkert illa. Sagan er skrifuð fyrir fólk sem á minningar frá fyrstu áratugum tuttugustu aldar og eflaust er margt í sögunni sem það mundi kannast við. Orðaval Guðrúnar er stundum þannig að ég skil hana illa en það er svo sjaldan að það gerir lítið til. Sími, tölvupóstur og þess háttar nýmóðins dót er ekki að flækjast fyrir söguhetjum Guðrúnar og gott ef það er ekki bara til bóta. Ketilríður og fleiri þurfa kannski þess vegna að bregða sér oftar af bæ en annars mundi vera. Allt gott um það samt að segja.

Margir hafa fárast yfir því hve mikið kaffi er drukkið í sögum Guðrúnar frá Lundi. Ekki finnst mér það. Verri finnst mér bílavöntunin. Fólk getur ekki farið neitt nema gangandi eða á hestum.

Orðaval fólks segir margt um tíðarandann. Ekki hefði Guðrún frá Lundi talað um valdstjórnina. Hið opinbera hefði hún frekar sagt. Nú til dags eru lögregluþjónar kallaðir lögreglumenn. Ekki veit ég af hverju. Það var Skorrdal sem benti á þetta í athugasemd einhvers staðar minnir mig.

ESB-umræðan er að harðna. Einum LÍÚ-forkólfi varð það á að gefa í skyn að kannski væri óráð að hætta við ESB-viðræðurnar. Hann var samstundis tekinn í gegn og hefur nú beðist afsökunar á ósómanum. Samkeppniseftirlitið svonefnda vogaði sér líka að hafa skoðun á samkeppnismálum og sagði að frumvarp um sektir fyrir mjólkurframleiðslu drægi úr samkeppni. Slík afglöp eftirlitsins voru að sjálfsögðu stöðvuð í fæðingu.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Jóhannes Laxdal Baldvinsson

Ég las allt þegar ég var yngri, meira að segja Guðrúnu frá Lundi   Núna þyrfti að borga mér pening fyrir að lesa þessar bækur.....

Jóhannes Laxdal Baldvinsson, 8.8.2010 kl. 15:27

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband