956 - "Nú skyldi ég hlæja, væri ég ekki dauður"

Sumar þjóðsögur er ekki hægt að stytta. Þessi er dæmi um það. Jón Þ. Árnason er beðinn velvirðingar þó dauður sé. Þessi saga er af Netútgáfunni en ég þykist hafa rétt á að nota efni þaðan eins og mér sýnist. Þessi saga heitir: Nú skyldi ég hlæja, væri ég ekki dauður og er svona: 

Einu sinni voru tvær konur að þrætast á um það hvor þeirra ætti heimskari mann. Loksins kom þeim saman um að þær skyldu nú reyna hvort þeir væru eins heimskir og þeir sýndust vera.

Tók þá önnur konan það til bragðs þegar maður hennar kom frá vinnu sinni að hún tók kamba og rokk, sest niður og fer að kemba og spinna en þó sá hvorki bóndi né aðrir að hún hefði neina ull handa á milli.

Þegar maðurinn sér þetta spyr hann konu sína hvort hún sé gengin frá vitinu að vera að arga kömbunum og þeyta rokkinn án þess að hafa ull og biður hana að segja sér hvað þetta eigi að þýða. Hún segir að það sé varla von að hann sjái það sem hún sé að spinna því það sé híalín og eigi að vera í föt handa honum. Hann lætur það þá svo vera og er einlægt að furða sig á hvað kona sín sé vel að sér og hlakkar mjög til að fá þessi föt sem verði svo afbragðs smágjör og falleg.

Þegar konan læst vera búin að spinna nóg í fötin fer hún og festir voðarefnið upp í vefstólinn og þykist svo fara að vefa. Maðurinn er að smávitja um hana og dást að kunnáttu hennar. Hún hefur mikið gaman af þessu og flýtir sér að koma öllu þessu laglega í kring. Nú þykist hún taka voðina úr vefstólnum og fer fyrst að þvo það og þæfa og seinast fer hún að sníða og sauma.

Þegar hún er búin að öllu þessu biður hún mann sinn að koma og fara í fötin en segist ekki þora að láta hann fara einsamlan í og skuli hún hjálpa honum. Nú læst hún færa hann í þau og þó manntetrið væri reyndar nakinn hafði hann þá ímyndun að konan sín hefði búið sér til svona smágjör föt og var svo hjartans feginn yfir þessu að hann réð sér ekki fyrir gleði.

Nú er að segja frá hinni konunni að þegar maður hennar kemur heim spyr hún hann því hann sé á fótum. Manninum þykir þetta undarleg spurning og spyr hana hvers vegna hún tali svona.

Hún telur honum trú um að hann sé sárveikur og honum sé langbest að fara upp í rúm. Hann trúir öllu þessu og fer sem fljótast að hátta.

Þegar nokkur tími er liðinn segist hún ætla að fara að leggja hann til. Hann spyr hvernig standi á því og biður hana blessaða að gera það ekki. Hún spyr hvernig hann láti, hann sem hafi dáið í morgun og það eigi að fara að smíða utan um hann.

Svona liggur þá mannskepnan þangað til hann er kistulagður. Síðan ákveður hún greftrunardaginn og tekur til sex líkmenn og biður nú hin hjónin að fylgja manni sínum til grafarinnar.

Kona dauða mannsins hafði látið gera glugga á aðra hliðina á kistunni þar sem hann gæti séð það er bæri við. Þegar á að fara að hefja líkið út kemur þar bóndinn nakti og hélt að allir mundu dást að smáunnu fötunum sínum.

En það varð nokkuð á annan veg því þó líkmönnum væri annað í hug gat enginn stillt sig fyrir hlátri er sá hann og þegar sá sem í kistunni var kom auga á hann kallaði hann upp svo hátt sem hann gat og segir:

"Nú skyldi ég hlæja, væri ég ekki dauður."

Var nú hætt við greftrunina og manninum hleypt út úr kistunni. Komst það þá upp að konurnar höfðu gabbað og ginnt menn sína þannig og voru báðar hýddar á þingi fyrir tiltækið.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Þorsteinn Briem

Sæmi Bjarna síðast hló,
er Samfylkingin öll hún dó,
úr kistu sinni kíkti þar,
kallinn ber og alveg snar.

Þorsteinn Briem, 11.3.2010 kl. 08:08

2 Smámynd: Jóhannes Laxdal Baldvinsson

Þú kemur alltaf á óvart Sæmi. Man samt ekki eftir orðasambandinu "að þrætast á".

Enginn skilur Íslending
upp hér spretta klíkur
Sendir íhald inná þing
afturbatapíkur

Þingmenn eru að þrætast á
um það hvað skal gera,
en Erla Ósk og Unnur Brá
enga ábyrgð bera.

Jóhannes Laxdal Baldvinsson, 11.3.2010 kl. 11:47

3 Smámynd: Þorsteinn Briem

Litla Jói á sér ósk,
upp á vill hann fara,
varaskeifu Erlu Ósk,
undurfagra bara.

Þorsteinn Briem, 11.3.2010 kl. 12:06

4 Smámynd: Jóhannes Laxdal Baldvinsson

Enga varaskeifu vil
vart þó hylji þvengur
Óra þína ekki skil
ertu vitlaus drengur?

Jóhannes Laxdal Baldvinsson, 11.3.2010 kl. 12:59

5 Smámynd: Sæmundur Bjarnason

Frábærar vísur, strákar. Meira svona. Get ekkert ort sjálfur.

Sæmundur Bjarnason, 11.3.2010 kl. 13:34

6 Smámynd: Sæmundur Bjarnason

Annars datt mér nú strax í hug ein sem gæti verið svona um Alþingi yfirleitt.

Arg og garg og ekkert vit
er í þessum sölum.
Enda margir alveg bit
yfir þessum tölum.

Sæmundur Bjarnason, 11.3.2010 kl. 13:41

7 identicon

Það sem auðvitað er fyrir mestu er að sagan endaði vel og kvensniftirnar hlutu makleg málagjöld "á þingi fyrir tiltækið"!

Haukur 11.3.2010 kl. 14:01

8 Smámynd: Þorsteinn Briem

Jói vill nú Erlu Ósk,
á Alþingi í fríðu,
enda þótt sé bara brjósk,
úr Bjarnasonar síðu.

Þorsteinn Briem, 11.3.2010 kl. 14:11

9 Smámynd: Theódór Norðkvist

Best að hella sér í slaginn.

Þingheimur þrasar á meðan hér
mótmælt er á götum
eins og karlinn heimski er
ekki í neinum fötum.

Jói og Steini hér sig láta
ljúft um fáklæddar meyjar dreyma.
Í þjóðsögu konur af því státa,
að karlana á asnaeyrunum teyma.

(Tókst því miður ekki að láta stuðla og höfuðstafi passa hér á þessum vísnavef Sæmundar.)

Theódór Norðkvist, 11.3.2010 kl. 14:47

10 Smámynd: Þorsteinn Briem

Ljúft nú Norðkvist lætur sig dreyma,
ljósið er kveikt og álfkonan heima,
á eyrunum mun hún Theódór teyma,
og talsvert undir beddanum geyma.

Þorsteinn Briem, 11.3.2010 kl. 15:29

11 Smámynd: Sæmundur Bjarnason

Ja, hér er fjör.

Konur hýða kannski blítt,
karlar sér nú fróa.
Allt er nú sem orðið nýtt
undir Steina og Jóa.

Sæmundur Bjarnason, 11.3.2010 kl. 15:53

12 Smámynd: Þorsteinn Briem

Á skarfinum er skeggið sítt,
skítur í það lóa,
á Sæma ekkert sjá má nýtt,
samt er komin Góa.

Þorsteinn Briem, 11.3.2010 kl. 16:11

13 Smámynd: Theódór Norðkvist

Þið eruð hressir. Eflaust mun álfkonan reyna að tæla mig, en af því að nú er ESB-umræðan að magnast er auðvelt að snúa vísunni hans Steina upp á þá umræðu.

Af því að sjónin er ekki jafn skörp og áður hjá mér sýndist mér standa evrunum þar sem stóð eyrunum. ESB maddaman reynir að tæla litla Ísland til fylgilags við sig vegna vandræðum okkar út af hruni krónunnar og þá hljóðar stakan hans Steina svona:

Ljúft nú þjóðin lætur sig dreyma,
ljósið er kveikt og álfkonan heima,
á EVRUNUM mun hún Ísland teyma,
og talsvert undir beddanum geyma.

Theódór Norðkvist, 11.3.2010 kl. 16:18

14 Smámynd: Sæmundur Bjarnason

Í skeggið mitt skítur víst lóa,
skömm er að öllu þar.
Skilur sig skáldið frá Jóa
og skammast sín ekki par.

Sæmundur Bjarnason, 11.3.2010 kl. 16:40

15 Smámynd: Jóhannes Laxdal Baldvinsson

Þeirra makleg málagjöld
munu eflaust bíða
sem eiga mök við álfafjöld
og álfkonunum ríða

Jóhannes Laxdal Baldvinsson, 11.3.2010 kl. 16:48

16 Smámynd: Þorsteinn Briem

Evróvisjón afar slæm,
í Osló rokkar feitt þar mæm,
tökum það með trukki og stæl,
Theódór þolir ekkert væl.

Þorsteinn Briem, 11.3.2010 kl. 16:48

17 Smámynd: Sigmar Þór Sveinbjörnsson

Heill og sæll Sæmundur, þetta er skemmtileg saga

Alltaf gaman að þessum þjóðsögum.

Kær kveðja

Sigmar Þór Sveinbjörnsson, 11.3.2010 kl. 23:32

18 Smámynd: Sæmundur Bjarnason

Takk Sigmar. Hef oft skoðað bloggið þitt og dáðst að gömlu Vestmanneyjamyndunum og öðrum myndum. Verulega gaman að þessu bloggveseni

Sæmundur Bjarnason, 11.3.2010 kl. 23:47

19 Smámynd: Sigmar Þór Sveinbjörnsson

Heill og sæll Sæmundur, já það er gaman að blogginu og ég er nokkuð duglegur að heimsækja síður bloggvina minna, en maður mætti vera duglegri að kvitta og setja inn athugasemdir. Sérstaklega finnst mér skemmtilegt þegar menn taka svona vísnaspretti eins og hér fyrir ofan. Við íslendingar eigum mörg góð vísna og ljóðskáld, og enn fleiri sem kunna mikið af vísum og geta svarðað í vísum eins og hér fyrir ofan.

Sæmundur hefur þú verið í Eyjum ?

Kær kveðja

Sigmar Þór Sveinbjörnsson, 15.3.2010 kl. 21:06

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband