2689 - Tinni og Tolkien

Ég er svolítið hissa á því hverskonar hreðjataki þeir hafa sýnilega náð á öllum íslenskum fjölmiðlum, sem álíta teiknimyndasögur og Tolkien moðsuður úr miðaldabókum merkilegustu bókmenntir sem skrifaðar hafa verið síðustu árþúsundin. Væntanlega eru þeir sárafáir en það afsakar ekki neitt. Ég er satt að segja búinn að fá leið á þessum Tinna-sérfræðingum og Hringadróttins-helgislepju-menntamönnum, sem vaða uppi allsstaðar og ekki síst í útvarpi og sjónvarpi allra landsmanna.

Mitt sjónarmið er að þetta séu í mesta lagi miðlungsbókmenntir. Því er samt ekki að leyna að vinsældir þessara bóka hafa leitt marga til betri og fullkomnari bókmennta. Svipað er að segja um Harry greyið Potter. Vinsældir hans hafa orðið til þess að fleiri og fleiri hafa farið að lesa alvöru-bókmenntir. Þessvegna má segja að þessar vinsældabækur séu jákvæðs eðlis. Hversvegna að berjast þá gegn þeim? Eiginlega er ég allsekki að gera það. Eða það finnst mér ekki. Mér finnst þeim bara of mikið hampað á kostnað annarra bókmennta.

Mikið er fjargviðrast útaf umskurði þessa dagana. Mig minnir að ég hafi í síðasta bloggi mælt með því að leyfa slíka ósvinnu. Á margan hátt er ég búinn að skipta um skoðum á þessu. Mér finnst að frumvarpið mætti að ósekju samþykkja. Á hinn bóginn finnst mér að þó erlendir aðilar skipti sér af þessu máli þá skipti það óskaplega litlu máli. Samt sem áður finnst mér rétt að gera þetta. Auðvitað er þetta fyrst og fremst auglýsing fyrir Ísland, enda er þetta ekkert vandamál hér, og Alþingi veitir alls ekki af auglýsingu.

Bókaútgáfan Sæmundur hefur stofnað til bókaklúbbs að mér skilst. Hafdís dóttir mín hefur gerst þar meðlimur og ég fékk lánaða bókina „Mörður“ eftir frænda minn Bjarna Harðarson hjá henni. Þó skömm sé frá að segja hef ég ekki lesið þá bók áður. Hélt reyndar að hún væri stærri, þykkari og torlesnari en reyndin var. Hún er fljótlesin, auðskilin og athyglisverð. Fjallar að sjálfsögðu einkum um Njálu og segja má að hún varpi nýju ljósi á söguþráð þeirrar bókar allan og satt að segja varð mér hugsað við lesturinn að mér veitti ekki af að lesa Njálu einu sinni enn. Satt að segja las ég ættartölurnar, sem þar eru, með lítilli athygli á sínum tíma, en vera má að þar sé fólginn einn athyglisverðasti hluti þessarar frægu sögu.

Eiginlega ætti ég að skrifa svosem eins og eina klausu í viðbót hér, til þess að hafa þetta nógu langt, en ég nenni því bara ekki og læt þetta duga. Enda er nokkuð langt síðan ég hef bloggað.

IMG 8315Einhver mynd.

 


Bloggfærslur 27. febrúar 2018

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband