2781 - Um hálftíma hálfvitanna

Katrín forsætis virðist alltaf vera að bíða eftir því að einhver starfshópur, öðru nafni nefnd skili einhverju af sér. Misjafnlega langur tími á að líða þangað til svo verður. Ef nefndin skyldi ekki skila af sér á réttum tíma má alltaf fresta því dálítið. Svo á eftir að skipa aðra nefnd til þess að semja frumvarp til laga um það málefni sem til umræðu er. Síðan gæti það frumvarp velst um á alþingi í talsverðan tíma. Að lokum gæti svo vandamálið sem leysa átti verið horfið eða verið komin ný ríkisstjórn. Þetta virðist vera nokkuð staðlað svar hjá henni. Sama hvað spurt er um.

Stundum horfi ég á sjónvarp frá alþingi. Einkum og sér í lagi á hálftíma hálfvitanna, sem Jónas heitinn Kristjánsson fyrrum ritstjóri kallaði svo. Ekki hef ég komist hjá því að veita því athygli að bæði Katrín forsætis og Steingrímur Jóhann sem á að heita forseti alþingis leitast jafnan við að ýta frá sér öllu sem óþægilegt er. Vitanlega er það ekki nema mannlegt og stundum er gagnrýni á ríkisstjórnina, sem vissulega er legíó, þannig framsett að hún er varla svaraverð. Forsætisráðherra ætti þó að temja sér að svara efnislega þeim spurningum sem til hennar er beint, en ekki eyða tíma sínum í persónulegt skítkast. Þingforseti þykist yfirleitt, og kannski með réttu, vera hærra settur en óbreyttir þingmenn og gætir sín betur að þessu leyti. Segist í hæsta lagi ætla að athuga málið, sem við vitum ekkert um hvort hann gerir. Fer þó að mestu leyti eftir þingskaparreglum eftir því sem mér sýnist.

Sennilega fækkar túristum hér á Íslandi á næstu árum. Hótel, Veitingahús og ferðaseljendur allskonar, sem hafa rokkað feitt undanfarið og grætt vel, eru nú að búa sig undir að kenna aumingja stéttarfélögunum um þessar fyrirsjáanlegu afleiðingar græðgi sinnar, og ókeypis notkunar á náttúruauðlindum landsins. Svo má alveg reikna með því að Wow-air fari á hausinn. Þá munu margir fara að væla. Ekki er ólíklegt að það gjaldþrot setji af stað einhverskonar hrun. Væntanlega verður það samt ekki nærri eins slæmt og bankahrunið fyrir 10 árum.

Svokölluð bankaleynd er upphaf alls ills. Að leyfa stjórnendum banka með eða án aðstoðar sýslumanna að ráða því á eigin spýtur, hvað fellur undir þessa leynd er algjörlega fráleitt. Að ráðherrar skuli kinnroðalaust styðja fremur flokkinn sinn en almenning í landinu er sömuleiðis út úr kú. Óbreyttum alþingismönnum er vorkunn þó þeir taki sér ráðherrana til fyrirmyndar. Traust almennings á alþingi er í núlli. Traust á dómstólum hefur einnig beðið talsverðan hnekki. Sjálfur hæstiréttur hefur tilfært það sem rök fyrir niðurstöðu sinni, sem yfirleitt er í anda ríkisstjórnar, að stefndi (ríkissjóður) hefði kannski tæplega efni á því að gera það sem réttast væri samkvæmt lögum. Man vel eftir slíku í sambandi við gjöld til landbúnaðarmafíunnar. Að vísu er nokkuð langt um liðið frá þessu máli.

Að þessu sinni hef ég ekkert rætt um heimsmálin sem þó eru með versta móti nú um stundir og ekki minnst á Trump, Khashoggi eða Saudi-svínin. Það er þó ekki vegna þess að ég velti þeim ekki fyrir mér og kannski er Khashoggi-málið ekki það sem hættulegast er heimsfriðnum. T.d. eru flóttamenn frá Honduras og Guatemala þúsundum saman á leið til Bandaríkjanna. Innlend stjórnmál eru mér þó hugleiknari akkúrat núna.

IMG 7722Einhver mynd.


Bloggfærslur 18. október 2018

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband