Færsluflokkur: Vinir og fjölskylda

85. blogg

Um rabbarbara og gamlar minningar.

Undarlegt með þessar minningar. Stundum flykkjast þær að manni og ætla allt að kæfa, en svo þegar maður reynir að festa á þeim hendur þá er eins og þær leggi strax á flótta.

Síðan er það einfaldlega svo að gamlar minningar eiga það til að vera rangar. Það er ekki skemmtilegt að uppgötva að eitthvað sem maður trúir að sé satt og rétt reynist vera tóm vitleysa þegar til á að taka. Samt er nauðsynlegt að vera við því búinn að svo sé.

Sumar minningar eru eins og myndir. Það er hægt að skoða þær og velta fyrir sér raunveruleika þeirra. Reyna að lagfæra það sem maður er ekki alveg viss um að sé rétt.

Aðrar minningar geta verið einstök orð, lykt, tilfinning eða óljós mynd sem kannski er í einhverju sambandi við aðrar myndir og kannski ekki.

Mér finnst eins og ég sé staddur í húsinu vesturfrá þar sem við vorum árið eftir að brann. Mér finnst eins og ég sé staddur í einskonar þvottahúsi í norðvesturhorni hússins og að þar séu bakdyr.

Þetta með þvottahúsið og bakdyrnar getur þó vel verið tóm vitleysa því það er einmitt svo í húsinu við Hveramörk 6, að í norðvesturhorni þess eru bakdyr og þvottahús.

Á gólfinu liggur allstórt knippi af rabbarbara. Um það er bundið snæri og búið er að skera blöðin af leggjunum. Vel getur verið að þetta séu tíu kíló eða svo, jafnvel meira. Einhver strákur er með mér og ég veit að mamma ætlar að nota rabbarbarann til þess að gera úr honum sultu.

Strákurinn spyr mig hvort ég haldi að við megum fá okkur rabbarbara. Ég gef lítið út á það og langar ekkert sérstaklega mikið í hann, en kalla þó til mömmu:

"Mamma, megum við fá rabbarbara?"

"Já, já."

Við tökum sitt hvorn rabbarbaralegginn og göngum út á götu.

Eiginlega er minningin ekki lengri en þetta. Þó er önnur mynd sem örugglega tengist þessari og er um það að strákurinn segir við mig:

"Mikið er mamma þín góð!"

Þetta gerist eflaust nokkru seinna og kannski þar sem við röltum eftir götunni og nögum okkar rabbarbara.

Af hverju þessi minning er svona föst í huga mér, er mér ekki nokkur leið að skilja. Á sínum tíma man ég að mér fannst þessi athugasemd stráksins í mesta lagi undarleg, en eiginlega ekki neitt til að gera veður útaf.

Mér finnst líka undarlegt að ég get ekki með nokkru móti munað hvaða strákur þetta var.

Seinna man ég að ég velti því fyrir mér hvort virkilega væru til mæður sem ekki vildu gefa börnum sínum rabbarbara jafnvel þó þær nóg af honum.

 

Jæja, þá er komið að því. Bjarni fer af stað í ævintýraleit sína til Karíbahafsins í fyrramálið. Klukkan hálfellefu eða svo fer hann af stað frá Keflavík. Fyrst til Boston, þaðan til Fort Lauderdale og svo samdægurs til Nassau á Bahamaeyjum.

Það er örugglega ekki lítið átak að hefja svona algjörlega nýtt líf eins og hann gerir. Gifta sig og flytjast síðan í nýtt land í annarri heimsálfu.

Samt er þetta eflaust minna átak nú en áður var. Mér verður t.d. hugsað til Vesturfaranna svonefndu, sem fluttu til Bandaríkjanna og Kanada um og nokkru fyrir aldamótin 1900. Þá var fólk beinlínis að flýja sult þann og seyru sem beið þess hér á landi.

Það er ekki alltaf viðurkennt af öllum, en í raun var á þessum tíma hungursneyð á Íslandi. Gjarnan er reynt að fegra aðstæður og framan af var reynt að gera lítið úr Vesturfara-agentum og þessháttar fólki. Samt er hafið yfir allan vafa að þetta fólk komst ágætlega af, þó fyrstu árin hafi eflaust verið mjög erfið.

Einkennilegt finnst mér alltaf að svo virðist sem sama fólkið lofsyngi viðleitni til viðhalds þjóðernis ef við erum réttu megin borðsins, en sé tilbúið til að fordæma samskonar viðleitni hjá innflytjendum til Íslands nútímans.


84. blogg

Mál málanna í dag er greinilega framlagning skattskráa.

Ég hef litla samúð með þeim Heimdellingum, sem berjast gegn því að skattskrár séu lagðar fram. Þetta hefur lengi tíðkast hér og engin ástæða er til að breyta því eingöngu breytinganna vegna.

Rökin um að þetta sé hvergi annars staðar gert bíta afar lítið á mig. Ef við Íslendingar höfum ekki efni á því að vera öðruvísi en aðrir, hverju í ósköpunum höfum við þá efni á.

Mér finnst þetta á margan hátt vera skylt umræðunni um launaleyndina. Þeir sem launaleyndina styðja halda því gjarnan fram að hún sé stjórntæki í fyrirtækjunum.

Ég sé ekki annað en vel sé hægt að setja lög um að bannað sé að banna fólki að segja frá launum sínum. Þar með yrðu ákvæði um slíkt í ráðningarsamningum ógild og fólk mætti segja frá launum sínum ef það kærði sig um.

Hvort fólk kærir sig um það er síðan mál sem hver verður að eiga við sjálfan sig og vel er hugsanlegt að fyrirtæki geti með tíð og tíma ráðið einhverju um það.

Þeim rökum að svona eða hinsegin sé þetta jafnan í útlöndum er líka óspart beitt þegar reynt er að telja fólki trú um að nauðsynlegt sé að selja bjór og léttvín í matvöruverslunum og að útlendingum þyki áfengi hér á landi mjög dýrt.

Mér finnst þessi rök ákaflega léttvæg og hef tilhneigingu til að láta þau hafa öfug áhrif á mig. Oft er til bóta að vera öðruvísi en aðrir.

Svo ég haldi áfram að agnúast út í allt og alla þá finnst mér það ansi lélegt hjá stjórnendum Akureyrarbæjar að ætla sér að banna ungu fólki frá 18 - 23 ára að tjalda á tjaldstæðum bæjarins. Þetta er augljós mismunun og ólíklegt að þeir komist upp með þetta.

Í mínum augum er þetta prinsippatriði og ég tel engu máli skipti þó miklar fjárhæðir séu í húfi. Annað hvort á að banna öllum að tjalda eða engum.


83. blogg

Um epli og kavíar.

Fyrir allmörgum árum (gæti hafa verið svona um 1990) fór ég í gönguferð eftir Laugaveginum. Já, ég er að meina Laugaveginn sem liggur milli Landmannalauga og Þórsmerkur.

Kannski var eitt það merkilegasta við þessa ferð að við vorum 13 saman í hóp (minnir mig endilega) og ekkert okkar hafði farið þessa leið áður. Þetta gekk nú samt allt saman vel og við komumst slysalaust á leiðarenda.

Í þessari ferð tók þátt starfsfólk af Heilsuhæli Náttúrulækningafélags Íslands í Hveragerði og fleiri. Bróðir minn var þarna á meðal þátttakenda enda vann hann um þær mundir á Náttúrulækningahælinu og það var hann sem bauð mér með.

Árið eftir fór ég þarna aftur og í það skipti með fjölskyldu minni, systkinum, ættingjum og fleirum. Í það sinn, var það að ég held einungis ég sem hafði farið leiðina áður.

En ég ætlaði víst að skrifa um epli og kavíar. Það var í þessari ferð sem ég sá slíkar aðfarir í fyrsta sinn.

Ég held að það hafi verið við skálann í Emstrum sem ég sá þetta. Þar voru nokkrir útlendingar í hóp og þeirra á meðal stúlka um tvítugt. Hún var að borða epli sem auðvitað er ekki í frásögur færandi nema fyrir það að hún hélt á opinni túpu af rauðum kavíar í annarri hendinni og eplinu í hinni.

Í hvert skipti sem hún fékk sér bita af eplinu sprautaði hún vænum slurk af kavíar á þann stað á eplinu sem hún ætlaði að bíta í. Þetta hafði ég aldrei séð áður og ákvað á stundinni að þetta þyrfti ég einhvern tíma að prófa. Einkum með hliðsjón af því að ég er þónokkuð fyrir kavíar í túpum.

Í öll þessi ár sem liðin eru, síðan þetta var, hefur þetta atvik staðið mér ljóslifandi fyrir hugskotssjónum, en samt hefur ekki orðið úr því að ég prófaði þetta.

Þangað til fyrir fáeinum dögum. Þá vildi svo heppilega til að ég var með epli í annarri hendinni og kavíartúpu í hinni og mundi þá eftir þessu atviki.

Svona geta nú litlir hlutir kallað á langt mál og lítt merkilegar sögur spannað langan tíma.


82. blogg

Ég var að enda við að lesa bókina óvinir ríkisins eftir Guðna Th. Jóhannesson.

Þetta er um margt athyglisverð bók og það kemur mér satt að segja ekki á óvart að þessi mál og bók Guðna skuli einmitt vera í fréttum í dag.

Mér finnst þó standa uppúr að menn eins og Jón Baldvin Hannibalsson og fleiri hafa haldið því fram að mun meira hafi verið hlerað á kaldastríðsárunum en hægt er að segja að sé staðfest í bók Guðna.

Ef mönnum sem líklegt er að hafi ítarlegri vitneskju um þessi mál en fram hefur komið, væru fyrirfram gefnar upp sakir hvað varðar hugsanleg trúnaðarbrot, ætti að koma í ljós hvort hleranir hafi verið umfangsmeiri en Guðni telur sannað.

Skiljanlegt er að núverandi dómsmálaráðherra skuli reyna að koma í veg fyrir ítarlegri athuganir á þessum málum og e.t.v. er þetta mál ekki nógu stórt til að koma til kasta ríkisstjórnarinnar allrar, en þó gæti vel átt eftir að gerast eitthvað í þessum málum á næstunni.

Einnig er mjög athyglisvert að sannað virðist vera að frumgögn í þessum málum hafi verið eyðilögð og enn hefur enginn verið látinn gjalda þess.

Sitthvað fleira í sambandi við þetta allt er líka með öðrum hætti en vera ætti. T.d. hvað snertir aðgengi aðila að upplýsingum um þessi mál og þáttur Þjóðskjalasafns og hvenær og hvernig gögnum er komið þangað.


81. blogg

Mér sýnist Hlynur Þór Magnússon vera búinn að yfirgefa pleisið. Myndin af honum er nú samt þarna ennþá.

Ég hef reynt að gera það að vana mínum að líta öðru hvoru á blogg allra minna bloggvina og nú bregður svo við að það gefur engan árangur að ýta á myndina af Hlyni. Það finnst ekki neitt.

Það getur svosem vel verið að sumum ofbjóði vitleysan sem hér veður uppi en mér finnst vel hægt að láta hana ekki trufla sig. Bloggsvæðið sjálft virðist mér vera mjög notendavænt og þó sumir bloggararnir hér séu dálítið skrýtnir þá finnst mér það ekki gera neitt til. Ég þarf ekkert að lesa það sem þeir skrifa.

Ritræpan hér á Moggablogginu er nú samt alveg óskapleg. Það er ekki nokkur leið að fylgjast með því öllu. Sem betur fer eru bloggvinir mínir ekki það margir að þó ég reyni að líta á bloggin þeirra sem oftast þá tekur það ekki ýkja langan tíma. Helst að Bjarni Harðarson missi sig í pólitíska langhunda.

Einnig reyni ég sem oftast að líta á þau blogg sem linkar eru á af síðunni minni. Þar fyrir utan er það miklum tilviljunum háð hvað blogg ég skoða hverju sinni. Oft verða einfaldlega þau vinsælustu eða nýjustu fyrir valinu og stundum klikka ég á blogg sem tengjast fréttum á mbl.is.

Ég hef nú fremur lítið bloggað undanfarið þó ýmislegt hafi svosem ég dagana drifið. Nýr ísskápur er kominn í notkun heimilinu. Afburðaflottur og með tvær hurðir enda frystiskápur að neðanverðu. Eru kóngar alltaf með upphaus og niðurhaus spurði Benni eitt sinn fyrir margt löngu eftir að hafa skoðað spilastokk vel og lengi.

Á sunnudaginn fyrir rúmri viku vorum við plötuð í afmælisveislu til Hafdísar Ben. og þar hitti ég meðal annars Þóri E. Gunnarsson og svei mér ef hann kom ekki inn hjá mér löngun til að fara í bekkjarferð næsta sumar með Bifrastarbekknum mínum.

Keyrði Jóa nokkrum sinnum um helgina uppá spítala þar sem hann fékk sýklalyf í æð. Borðuðum hjá Benna á laugardaginn og þar var Siggi Grétars. Bjarni er svo farinn að sofa á Auðbrekkunni því ekki eru nema nokkrir dagar þangað til hann fer til Bahamas.

Á sunnudaginn var fórum við í brúðkaupsafmæli til Ellu og Sævars. Þangað kom Kiddy og var fremur brugðið enda eflaust ekki skemmtilegt að lenda í því sem hún lenti í, það er að taka á móti deyjandi manni niður við Sundlaugar.


80. blogg

Fyrir nokkrum árum var haldið á Íslandi hjá Háskólanum í Reykjavík heimsmeistaramót tölvuforrita í skák.

Flestir viðurkenna núorðið að tölvuforrit séu betri í skák en bestu stórmeistarar. Jafnvel ódýr forrit sem hægt er að nota á hvaða sæmilegri tölvu sem er standa stórmeisturum á sporði. A.m.k. gera þau ekki stórfelld glappaskot, þó eflaust megi sitthvað segja um snilldina.

Á þessu móti var það Yngvi Björnsson sem bar hitann og þungann af undirbúningnum. Ég kynntist honum svolítið í sambandi við þetta mót því tvö af þeim skákforritum sem tóku þátt í því voru munaðarlaus.

Það er að segja: Eigendur þeirra eða forritarar gátu af ýmsum ástæðum ekki fylgt þeim til Reykjavíkur, en vildu samt sem áður að þau tækju þátt í mótinu og þess vegna þurfti að útvega menn sem gætu fært mennina fyrir þau og stjórnað skákklukkunni ásamt því að tala við skákstjórann þegar þess þurfti með.

Eftir ábendingu frá Bjarna syni mínum var ég beðinn að sjá um að stjórna öðru af þessum forritum. Reyndin varð þó sú að ég stjórnaði þeim til skiptis ásamt nokkrum öðrum.

Ætli ég hafi ekki setið við skákborðið í svona sex eða sjö umferðum af níu eða tíu. Ég man þetta ekki nákvæmlega, en áreiðanlega er þetta eina heimsmeistaramótið sem ég hef tekið þátt í.

Fram að þessu hefur verið talið að tölvuforrit væru vel til þess fallin að hjálpa skákmönnum. Í þessu tilfelli var hlutunum snúið við þar sem það voru tölvuforritin sem þurftu smáhjálp, sem reyndar tengdist bara ytri umgerð mótsins. Forritin sjálf sáu alfarið um að ákveða leikina.

Það hefur áreiðanlega kostað bæði fé og fyrirhöfn að fá þetta mót hingað til lands. Ástæðan fyrir því að Háskólinn í Reykjavík og Yngvi Björnsson lögðu það á sig að fá mótið til Íslands var einkum sú að við skólann voru og eru stundaðar markverðar rannsóknir á gervigreind.

Nú hefur það komið í ljós að þetta hefur ekki verið til einskis gert. Það var einmitt alveg nýlega sem skýrt var frá því í fréttum að tekist hefði að leysa gátuna um dammið, sem er talsvert einfaldari leikur en skák og áðurnefndur Yngvi Björnsson var einn af aðalhöfundum greinar þeirrar sem birtist um málið í þekktu vísindatímariti.

Reyndar er damm svo einfaldur leikur að margra áliti að það er ekki spennandi lengur að halda mót í dammi. Sú hefur þó ekki alltaf verið raunin, því ég man eftir því að fyrir allöngu síðan voru menn sem lögðu talsvert á sig við að spila þetta spil. Mót voru haldin og meistarar útnefndir.

Þó nú hafi tekist að sýna fram á hvernig spila skal damm held ég að talsvert langt sé í að það sama verði gert við skákina. Ég ímynda mér a.m.k. að hún sé töluvert flóknari en damm. Margir mundu eflaust segja að hún væri margfalt flóknari, en hvað veit ég. Mín vegna gæti verið búið að leysa gátuna um skákina eftir svona 20 - 50 ár.

Gaman væri ef Yngvi Björnsson eða einhverjir aðrir mundu skrifa grein um hvernig þetta altsaman var gert og um þetta tölvuforrit sem fann það út að með bestu spilamennsku er ekki hægt að vinna í dammi. Því hlýtur alltaf að ljúka með jafntefli, ef báðir aðilar leika ætíð besta leikinn.


79. blogg

Jæja, þá er Bjarni frændi minn Harðarson lentur í klónum á kjaftaskinum Össuri.

Ég sá viðtalið við Bjarna á Stöð 2 og datt strax í hug að vel mætti búast við athugasemdum við sumt af því sem hann sagði, en ég átti ekki von á þeirri dembu sem Össur sendir frá sér.

Mér finnst eins og Bjarna að svonalagað sæmi ekki ráðherra. Hann lætur eins og einhver andskotans bestía. En þetta er hans háttur. Auk þess að vera kjaftaskur þá er maðurinn ritfær í besta lagi.

Mér finnst Össur hafa breyst talsvert eftir að hann beið lægri hlut fyrir Ingibjörgu Sólrúnu. Jafnvel að hann sé orðinn vandamál fyrir Samfylkinguna.

Ég er ekkert viss um að ágreiningur milli manna í þessu Valhallarmáli sé mikill. Þingvallanefnd er ekki hafin yfir gagnrýni og mörg vitleysan hefur þar verið gerð.

 

Starfsemi Netútgáfunnar sem ég stjórnaði ásamt Bjarna, Benna og Hafdísi hófst í janúar árið 1997. Ég man eftir því að á afmælisdag Jónasar Hallgrímssonar 16. nóvember árið áður var heilmikið húllumhæ og dagurinn kallaður "dagur íslenskrar tungu". Það munaði ekki miklu að okkur tækist að hefja starfsemina þá en það tókst þó ekki, svo það drógst fram í janúar 1997.

Það var Hafdís sem átti hugmyndina að Netútgáfunni og nafninu á henni. Upphaflega var hugmyndin sú að vinna að þessum málum í samvinnu við Ísmennt þar sem ég var félagi, en þá varð það fyrirtæki gjaldþrota og fékk því aðeins að halda áfram að eingöngu væri þar skólafólk. Björn Davíðsson sem þá stjórnaði Snerpu á Ísafirði leyfði mér að hafa skrár Netútgáfunnar á tölvu fyrirtækisins og þannig komst útgáfan á Netið.

Margs er að minnast frá þeim árum þegar starfsemi Netútgáfunnar stóð sem hæst. Lengi vel settum við alltaf eitthvert efni á vefsetur útgáfunnar í hverjum mánuði. Yfirleitt var það svo að Benni skannaði efni og ég las það yfir og leiðrétti, html-aði það síðan, sem við kölluðum, og setti svo með ftp-forriti á vefsetrið. Í þá daga þurfti að setja html merki handvirkt inn í textann og einnig þurfti ég í hverjum mánuði að breyta svo og svo mörgum menú-um sem voru í sérstökum skrám.

Það var síðan um haustið 2001, ef ég man rétt, sem starfsemi Netútgáfunnar lauk, ef svo má segja. Það hefur ekkert nýtt efni verið sett síðan þá, en að sjálfsögðu er efnið þarna ennþá og ég held að það sé eitthvað notað.

Margir kannast við Netútgáfuna og það er örugglega með því merkasta sem ég hef gert, að koma henni á laggirnar. Hún var þó auðvitað barn síns tíma og þó ég mundi gjarnan vilja taka þráðinn upp aftur, þá þyrfti mörgu að breyta þar.


78. blogg

Í sjónvarpsfréttum í kvöld var hvað eftir annað staglast á orðinu íturvaxinn og ég sá ekki betur en það orð væri notað um Hómer Simpson. Í mínum augum er sá karakter langt frá því að vera íturvaxinn. Hann er beinlínis feitur.

Ef það er raunverulega svo að orðið íturvaxinn er í huga fólks farið að tákna feitur eins og ég hef lúmskan grun um að sé, þá er þar um athyglisverðan viðsnúning.

Mér heyrðist líka vera minnst á kanínur í fréttum í kvöld og það minnir mig á að mér kom á óvart að Benni er greinilega fluttur nánast út fyrir bæinn (Norðlingaholt - Helluvað) því þar virðast vera kanínur á hverju strái. Eflaust lifa þær villtar í skóginum í kringum Elliðavatn og  koma sennilega inn í byggðina í forvitnisskyni.

Og svo eru það skák-krakkarnir. Þau stóðu sig reglulega vel og rétt er að minna á að Salaskóli er að sjálfsögðu í Kópavogi.

Ég hjó eftir því að í fréttum voru nöfn krakkanna lesin upp og nafn einu stelpunnar í hópnum var lesið síðast. Ég  hef samt trú á því að Jóhanna Björg hafi verið á fyrsta borði í sveitinni. Systir hennar sem er 8 ára gömul og heitir Hildur Berglind fer væntanlega á heimsmeistaramót í skák í haust.

Hvurslags er þetta? Eintómar tilvitnanir í fréttir, eða hvað? Nei, nú skulum við hætta.

 

Það er merkilegt hvað maður gat unað sér við lítið hér áður og fyrr. Í mínu ungdæmi var ekki sími á heimilinu, sjónvarpið var ekki komið, en hægt var að hlusta á útvarp og fyrir utan dagblöðin (þ.e.a.s. Moggann) var það eiginlega eina daglega tilbreytingin. Bíósýningar voru í hótelinu svona tvisvar í viku, en ég hafði ekki efni á að fara þangað nema stöku sinnum.

Vinsælt var að leika sér við hitt og þetta heimavið.

Ég man vel eftir einum leik sem mamma (eða amma) kenndi okkur, en hann var svona: Tveir þátttakendur setjast flötum beinum á gólf, spyrna saman iljum, takast í hendur, vagga sér fram og aftur og kyrja vísuna:

Við skulum róa á selabát

fyrst við erum fjórir.

Það eru bæði þú og ég

stýrimaður og stjóri.

 

Ég man að mér þótti vísan fyndin, einkum fjöldaósamræmið.

Að flá kött var líka vinsælt. Þá átti að halda sér uppi á bita með fótunum og fara úr einhverri flík meðan hangið var þannig, án þess að taka með höndum í bitann.

Eitt enn var að „rífa ræfil upp af svelli". Þá var einhver reistur upp sem lá á gólfi með því einu að taka um hnakka hans.


77. blogg

Arabar sumir hverjir eru sagðir kvíða þeim degi þegar jarðolía gengur til þurrðar eða svo dýrt verður að vinna hana að það borgar sig ekki.

 

Á sama hátt megum við Íslendingar kvíða þeim degi þegar allar veiðar úr sjó verða bannaðar eða verða hættar að borga sig. Þannig er með veiðar á landi, afurðir sem þær skapa eru fyrir löngu hættar að hafa efnahagslega þýðingu.

Það getur vel verið að þessi tími sé langt undan, en ég er sannfærður um að hann kemur. Ræktun og eldi allskyns sjávardýra og hvers kyns sjávargróðurs mun að sjálfsögðu koma í staðinn fyrir þær veiðar sem nú fara fram í hafinu og ekki er útilokað að Mörlandinn geti gert sig gildandi þar.

Auðvitað eru sjávarútvegsmálin mál málanna um þessar mundir og munu halda áfram að vera það a.m.k. öðru hvoru allt þar til bann við veiðum í sjó tekur gildi.

Það hvort kvótaveiðar svokallaðar séu skynsamlegur eða ekki og hvort brottkast sé mikið eða lítið kemur þess vegna til með að hafa því minni þýðingu sem tímar líða.

Hinsvegar hlýtur það að hafa mikil áhrif á afkomu fólks í sjávarbyggðum umhverfis landið hvernig veiðum er háttað og ekki er nein furða þó stuðningsmenn svokallaðra byggðarsjónarmiða hafi hátt um þessar mundir, þegar fiktað er við sjálfar undirstöður sumra byggðarlaga og það jafnvel með veikum rökum.

Mér finnst þó stundum skorta á skilning fólks sem ræðir þessi mál. Það er að sjálfsögðu lúxus að lifa úti á landi og ekkert óeðlilegt við að fólk greiði fyrir það beint eða óbeint. Þannig hefur það alltaf verið og þannig verður það áfram, hvað sem öllum mótvægisaðgerðum líður.


76. blogg

Stórfrétt dagsins: Hundurinn Lúkas er hugsanlega á lífi. Svei mér þá. Ótrúlegt. Yfirþyrmandi.

Annars var ég klukkaður um daginn, en eftir ítarlega umhugsun hef ég áhveðið að taka ekki mark á því og láta sem óklukkaður sé.

Á föstudaginn í síðustu viku fórum við Áslaug til Hveragerðis og þar heimsóttum við Ingibjörgu og Hörð og líka Lísu og Bjössa.

Ég veit svosem ekki hvers vegna ég er að þessu bloggi. Mest af því sem ég heyri frá öðrum um þetta er fremur neikvætt. Margir þykjast of fínir til að skrifa blogg, eða eiga kannski ekki gott með að tjá sig með þessum hætti. En mér er fjandans sama. Ég skrifa um það sem mér sýnist, ekki til þess að geðjast einhverjum öðrum.

Eiginlega hef ég bara oft á tíðum gaman af að tjá mig með orðum á blaði. Sjá hlutina svart á hvítu eins og sagt var hérna áður og fyrr. Sumir bloggarar hafa einmitt snúið þessu við og láta stafina vera hvíta á svörtum grunni. Fyrir utan hvað mér finnst slíkt ljótt, þá er líka miklu verra að lesa slíkt letur og yfirleitt læt ég það vera að lesa slík blogg og heimsæki þau ekki oftar en einu sinni, nema óvart sé.

Vignir kláraði að leggja parkett á íbúðina hjá Benna í gærkvöldi eftir að hafa unnið við það um helgina. Benni setti hendina í sög sem notuð var til að taka neðan af hurðakörmum svo koma mætti parkettinu undir. Hann meiddist illa á einum fingri og þurfti að fara á slysvarðstofuna. Líklega hefur þetta þó ekki alvarleg eftirköst.

Bjarni er búinn að koma bókahillu einni mikilli og slatta af bókum til okkar í Kópavoginum og nú ætti að vera nóg að lesa á næstunni. Slatta af skákbókum og skákblöðum gaf hann Taflfélaginu. Hann er nú sem óðast að búa sig undir flutninginn til Bahama.

Veðrið heldur áfram að vera einstaklega gott eins og verið hefur undanfarnar vikur. Sólskin og blíða uppá hvern einasta dag.

Sigurður Þór Guðjónsson er nú kominn aftur úr ítarlegu sumarfríi og farinn að blogga. Mest um veður og þ.h. sýnist mér, en vonandi eitthvað fleira með tíð og tíma.

Harpa Hreins er líka farin að sýna lífsmark eftir að ekkert hafði heyrst frá henni síðan í síðasta mánuði.

Það fór eins og mig grunaði að allt fór upp í loft á skákhorninu og Snorri fór í fýlu og hætti að mestu að skrifa um Luxemborgarmótið. Áreiðanlega meðal annars vegna þess að honum fór að ganga hálfilla. Torfi og Sævar reyndu líka að pirra hann eins og þeir gátu. Það er alveg óhætt fyrir mig að skrifa um þessa skákmenn hérna því þeir munu áreiðanlega ekki lesa þetta. Annars væru þeir vísir til að ráðast á mig með látum.

Ingibjörg lánaði mér bók frá Sögufélagi Árnessýslu þar sem meðal annars er frásögn af engjaheyskap í Ölfusforum um miðja síðustu öld. Það er Tommi frá Þóroddsstöðum sem lengi var í lögreglunni á Selfossi sem skrifar þessa frásögn, sem er áhugaverð og merkileg að mörgu leyti.


« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband