76. blogg

Stórfrétt dagsins: Hundurinn Lúkas er hugsanlega á lífi. Svei mér þá. Ótrúlegt. Yfirþyrmandi.

Annars var ég klukkaður um daginn, en eftir ítarlega umhugsun hef ég áhveðið að taka ekki mark á því og láta sem óklukkaður sé.

Á föstudaginn í síðustu viku fórum við Áslaug til Hveragerðis og þar heimsóttum við Ingibjörgu og Hörð og líka Lísu og Bjössa.

Ég veit svosem ekki hvers vegna ég er að þessu bloggi. Mest af því sem ég heyri frá öðrum um þetta er fremur neikvætt. Margir þykjast of fínir til að skrifa blogg, eða eiga kannski ekki gott með að tjá sig með þessum hætti. En mér er fjandans sama. Ég skrifa um það sem mér sýnist, ekki til þess að geðjast einhverjum öðrum.

Eiginlega hef ég bara oft á tíðum gaman af að tjá mig með orðum á blaði. Sjá hlutina svart á hvítu eins og sagt var hérna áður og fyrr. Sumir bloggarar hafa einmitt snúið þessu við og láta stafina vera hvíta á svörtum grunni. Fyrir utan hvað mér finnst slíkt ljótt, þá er líka miklu verra að lesa slíkt letur og yfirleitt læt ég það vera að lesa slík blogg og heimsæki þau ekki oftar en einu sinni, nema óvart sé.

Vignir kláraði að leggja parkett á íbúðina hjá Benna í gærkvöldi eftir að hafa unnið við það um helgina. Benni setti hendina í sög sem notuð var til að taka neðan af hurðakörmum svo koma mætti parkettinu undir. Hann meiddist illa á einum fingri og þurfti að fara á slysvarðstofuna. Líklega hefur þetta þó ekki alvarleg eftirköst.

Bjarni er búinn að koma bókahillu einni mikilli og slatta af bókum til okkar í Kópavoginum og nú ætti að vera nóg að lesa á næstunni. Slatta af skákbókum og skákblöðum gaf hann Taflfélaginu. Hann er nú sem óðast að búa sig undir flutninginn til Bahama.

Veðrið heldur áfram að vera einstaklega gott eins og verið hefur undanfarnar vikur. Sólskin og blíða uppá hvern einasta dag.

Sigurður Þór Guðjónsson er nú kominn aftur úr ítarlegu sumarfríi og farinn að blogga. Mest um veður og þ.h. sýnist mér, en vonandi eitthvað fleira með tíð og tíma.

Harpa Hreins er líka farin að sýna lífsmark eftir að ekkert hafði heyrst frá henni síðan í síðasta mánuði.

Það fór eins og mig grunaði að allt fór upp í loft á skákhorninu og Snorri fór í fýlu og hætti að mestu að skrifa um Luxemborgarmótið. Áreiðanlega meðal annars vegna þess að honum fór að ganga hálfilla. Torfi og Sævar reyndu líka að pirra hann eins og þeir gátu. Það er alveg óhætt fyrir mig að skrifa um þessa skákmenn hérna því þeir munu áreiðanlega ekki lesa þetta. Annars væru þeir vísir til að ráðast á mig með látum.

Ingibjörg lánaði mér bók frá Sögufélagi Árnessýslu þar sem meðal annars er frásögn af engjaheyskap í Ölfusforum um miðja síðustu öld. Það er Tommi frá Þóroddsstöðum sem lengi var í lögreglunni á Selfossi sem skrifar þessa frásögn, sem er áhugaverð og merkileg að mörgu leyti.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband