77. blogg

Arabar sumir hverjir eru sagðir kvíða þeim degi þegar jarðolía gengur til þurrðar eða svo dýrt verður að vinna hana að það borgar sig ekki.

 

Á sama hátt megum við Íslendingar kvíða þeim degi þegar allar veiðar úr sjó verða bannaðar eða verða hættar að borga sig. Þannig er með veiðar á landi, afurðir sem þær skapa eru fyrir löngu hættar að hafa efnahagslega þýðingu.

Það getur vel verið að þessi tími sé langt undan, en ég er sannfærður um að hann kemur. Ræktun og eldi allskyns sjávardýra og hvers kyns sjávargróðurs mun að sjálfsögðu koma í staðinn fyrir þær veiðar sem nú fara fram í hafinu og ekki er útilokað að Mörlandinn geti gert sig gildandi þar.

Auðvitað eru sjávarútvegsmálin mál málanna um þessar mundir og munu halda áfram að vera það a.m.k. öðru hvoru allt þar til bann við veiðum í sjó tekur gildi.

Það hvort kvótaveiðar svokallaðar séu skynsamlegur eða ekki og hvort brottkast sé mikið eða lítið kemur þess vegna til með að hafa því minni þýðingu sem tímar líða.

Hinsvegar hlýtur það að hafa mikil áhrif á afkomu fólks í sjávarbyggðum umhverfis landið hvernig veiðum er háttað og ekki er nein furða þó stuðningsmenn svokallaðra byggðarsjónarmiða hafi hátt um þessar mundir, þegar fiktað er við sjálfar undirstöður sumra byggðarlaga og það jafnvel með veikum rökum.

Mér finnst þó stundum skorta á skilning fólks sem ræðir þessi mál. Það er að sjálfsögðu lúxus að lifa úti á landi og ekkert óeðlilegt við að fólk greiði fyrir það beint eða óbeint. Þannig hefur það alltaf verið og þannig verður það áfram, hvað sem öllum mótvægisaðgerðum líður.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband