Fjórða blogg

 

Þá er komið að fjórða bloggi.

 

Ótæpt nú ýmsir blogga

álnarlangt þvers og kruss.

Meðvitað styrktir af Mogga.

Margir því gera fuss.

 

Mér finnst ekki neitt pólitískt við að blogga og sé ekkert athugavert við að Mogginn stuðli að því að sem flestir geri það. Hinsvegar má gera ráð fyrir að öll þau frétta og dægurmálablogg sem nú tröllríða öllu í bloggheimum verði til þess að aðrir miðlar og einkum þó prentmiðlar fari halloka. Það er svo kannski bara eðlilegt, þó sumir mundu kannski kalla það fjörbrot, að óvenjuleg gróska virðist vera að hlaupa í prentmiðla í landinu einmitt núna.

Mér finnst merkilegt að hægt  skuli vera að fá fólk  til að borga fyrir það sem hægt er að fá  nóg af ókeypis á Netinu. Auðvitað eiga sumir meira af peningum en þeir hafa gott af og það að kaupa sér það sem maður vill lesa er auðvitað val. Það sem merkilegast er að frétta úr sölumiðlum ratar þó alltaf fyrr eða síðar á Netið, en auðvitað stundum svolítið afbakað.

Það sem mér finnst merkilegast að ræða um á bloggi er  bloggið sjálft.  Ég er sannfærður um að það er eitthvað það merkilegasta sem Netið hefur skilað. Athugasemdir eða komment  við það sem aðrir hafa skrifað tryggja þegar vel tekst til áhugaverðar samræður. Auðvitað er mjög margt af því sem bloggað er um nauðaómerkilegt eða þá dægurþras sem alls ekki allir hafa áhuga á, en það má þá leiða hjá sér. Flestir hljóta að finna sér þar eitthvað við hæfi ef þeir hafa næga þolinmæði til að leita.

Varðandi fríblöðin sem mjög er í tísku að fjölyrða  um núna vil ég bara taka fram að Fréttablaðið berst mjög oft til mín en Blaðið aldrei. Meðan Blaðinu var dreift með póstinum kom það þónokkuð oft til okkar á þeim  hjara veraldar sem heitir Kópavogur. Eftir að því var hætt barst það af og til framanaf en núna síðustu mánuðina alls ekki. Morgunblaðið hættum við að kaupa fyrir nokkrum árum.

sb


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband