Færsluflokkur: Bloggar
25.1.2020 | 10:37
2908 - Hálendisþjóðgarður
Falin er í illspá hverri,
ósk um hrakför sýnu verri.
Þannig orti Stephen G. Stephenson í kvæðinu um Jón Hrak. Í spádómum um úrslit í málsókninni gegn Trump forseta, sem vel má kalla illspá gagnvart bandarísku þjóðinni, ber mikið á þessu. Trump er spáð sigri í þessu máli af flestum málsmetandi mönnum í heiminum. Þessvegna eru miklar líkur á því að bandaríska þjóðin sitji uppi með misheppnaðan forseta enn um sinn. Strax næsta haust verða forsetakosningar og eflaust mun Trump tapa þar. Biden, Sanders og Warren, sem meðal annarra bítast um réttinn til að sigra Trump, deila einkum um það hvert þeirra hafi mestar líkur á sigri í kosningunum. Á þessu stigi benda skoðanakannanir til að þau gætu öll gert það. Könnunum af þessu tagi er þó ekki treystandi.
Talað er um að virðing alþingis sé ekki mikil. Hvaða virðing? Greinilegt er að landsmenn bera litla virðingu fyrir þessari stofnum, sem í orði kveðnu, hefur svo mikil völd. Þingmenn sjálfir bera afar litla virðingu fyrir alþingi. Þingforseti þarf að hringja inn ef atkvæðagreiðslur eru. Með öðrum orðum. Til þess að fá þingmenn til að sinna störfum sínum þarf að meðhöndla þá eins og óþekka skólakrakka.
Í fleiri efnum haga þeir sér eins og skólanemendur gjarnan gera ef þeir komst upp með það. Eru með allskonar dót til að leika sér að meðan á þingfundum stendur. Sjálfsagt væri að banna í þingsal notkun á símum, tölvum og hverskyns rafeinadóti. Þingmenn eru ekkert of góðir til að fylgjast með.
Hver ætti á geta skipað þeim fyrir? Ekki er við því að búast að þeir sjái þetta sjálfir. Auðvitað ætti forseti lýðveldisins eða þingsins að geta ráðið þessu. Alltof oft hengja þingmenn sig í þýðingarlaus formsatriði og lengja mál sitt sem mest þeir mega til að aðrir komist ekki að. Oftast nær er þetta alveg að óþörfu. Sjónvarp frá þingfundum hefur þannig orðið til þess að nú á tímum sjá allir hvernig þetta veslings fólk hagar sér. Að vísu segjast þingmenn flestir haga sér almennilega á nefndarfundum, sem yfirleitt er ekki sjónvarpað frá.
Skelfing eru margir orðnir háðir þessum fésbókarfjára. Hafdís var hérna í gærkvöldi og tók meðal annars mynd af plokkfiski, sem hún setti per strax á fésbókina. Samstundis (eða a.m.k. hérumbil) voru komin 40 eða 50 læk á þá mynd. Hinn möguleikinn hjá flestum er að lesa ómerkilega krimma eða eitthvað þessháttar. Nær væri að gera eitthvað uppbyggilegt, eins og t.d. að liggja í leti.
Miðgarðshugmyndin er frekar slæm. Að vísu hef ég ekki kynnt mér hana út í hörgul, en aðalröksemdin virðist vera sú að með því verði enn eitt Evópu eða heimsmetið slegið. Satt að segja eru það engin rök. Auðvitað getur þetta orðið til þess að auka og bæta náttúruvernd, en að láta einn umhverfisráðherra ráða öllu eða næstum öllu á 40 prósentum landsins er afleit ráðstöfun.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)
19.1.2020 | 05:13
2907- Viðrekstur er hraustleikamerki
Andvökur geta sem best verið pródúktívar. Nú er rigning úti og klukkan að verða fjögur að nóttu til. Sé ekki betur en snjórinn sé svotil horfinn og vonandi svellbúnkarnir einnig. Tinna Alexandra er búin að vera veik. Annars var það í gær sem við áttum að fara í matarboðið og sjá bíómyndina. Sem ég veit svosem ekki hver er. Yfirleitt er ég nú í seinni tíð ekki mikið fyrir bíómyndir.
Farþegaþotan sem Rússar skutu niður 1983. Vera Illugadóttir sagði frá þessu atviki í þætti sínum Í ljósi sögunnar í Ríkisútvarpinu í gærkvöldi (Laugardag) meðan við vorum að borða. Kannski var þetta endurflutningur. Man að þegar þetta var vorum við á ferðalagi með fornlegri járnbrautarlest á Mallorca á Spáni. Eða kannski á bílaleigubíl. Hafdís hefur líklega verið með okkur. Stoppuðum í einhverju smáþorpi uppi í fjöllunum á Mallorca og fengum okkur eitthvað í svanginn. Allir töluðu spæsku þar og við skildum ekki baun í því máli. Varð litið á risafyrirsögn í einhverju dagblaði og okkur skildist, á myndum og örfáum kunnulegum nöfnum, að farþegaþota hefði verið skotin niður. Man að ég var svolítið rogginn yfir að hafa þó skilið þetta mikið í spænskunni, þrátt fyrir enga kunnáttu í því máli.
Maduro er enn við völd í Venezúela þrátt fyrir öll lætin í fyrra. Held að Trump og Co. ættu að vera örlítið stilltari. Annars er það skiljanlegra að Bandaríkjamenn skipti sér af málum í Suður-Ameríku en hinum megin á hnettinum. Annars finnst mér, sem Evrópumanni, að ESB sé ögn skárra en USA. Minnir samt að á þeim bæ hafi Maduro lika verið fordæmdur. Ástandið í Venezúela er alveg óskaplegt engu að síður, skilst mér. Hverjum það er að kenna fyrir utan forsetann veit ég að sjálfsögðu ekki. Hugo Sanches var á sínum tíma mjög vinsæll.
Ákæra fulltrúadeildarinna á hendur Trump forseta er auðvitað mál málanna í Bandarískum stjórnmálum þessa dagana. Ukraina blandast að sjálfsögðu inní það mál alltsaman. Þar er allt þjóðlífið heldur vanþróað. Spilling mikil og stjórnmál skrítin. Á þeim nafla Alheimsins, sem Bandaríkin óneitanlega eru, eru stjórnmálin hinsvegar mitt aðaláhugamál núna. Mitt vit á þeim málum er einkum frá stórblöðunum þar í landi komið. Á þriðjudaginn kemur hefjast réttarhöldin í Öldungadeildinni og svo er farið að styttast í prófkjör Demókrata fyrir forsetakosningarnar í haust. Þó Biden sé þar sigurstranglegastur gætu Warren eða Sanders gert honum skráveifu.
Ótíð, snjóflóð, slysfarir og aðrar hörmungar setja svip sinn á fréttir dagsins hér á þessu kalda landi. Auvitað er við því að búast að einhverjir taki loftlagsvinkilinn á þetta alltsaman, en ég held að þess þurfi ekki. Á þessum árstíma má búast við hverju sem er. Sama er að segja um heimsmálin. Þau eru ekkert frábrugðin því sem vanalegt er. Fréttaflutningur er samt annar og meiri nú á þessum síðustu of verstu tímum. Heimurinn fer hlýnandi, ekki er nokkur leið að neita því, og sú ógn sem af því stafar er engu skárri en kjarnorkuógnin sem fyrri kynslóðir þurftu að búa við.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (1)
13.1.2020 | 10:33
2906 - Um fésbók og fleira
Einu sinni prófaði ég að linka reglulega í fréttir á mbl.is, en gafst upp á því vegna þess að mér fannst að ég þyrfi einhvern vegin að nota meðal annars það sem sagt var frá í fréttinni, sem linkað var í. Man ekki hve lengi ég hélt slíkt út. Líklega var þetta þegar ég bloggaði daglega, en það gerði ég um eitt skeið.
Þessi hugmynd margra um að bara eigi að nota fésbókina til að segja frá og birta myndir af krúttlegum kettlingum, auk persónulegra tilkynninga um týnt og fundið er svolítið frumleg. Sumum finnst að allt, sem gert er á Netinu (með stórum staf) eigi að vera á jákvæðum nótum.
Þessi hugmynd er eiginlega alveg út í hött. Hvernig ættu hlutirnir að geta batnað ef enginn fyndi að þeim? Samskipti fólks í víðum skilningi eru í raun og veru lífið sjálft. Anna í Holti lýsti því einu sinni vel í bloggi sínu hve hjákátlegt það er að hitta fólk og fara að segja því frá einhverju sem viðkomandi er nýbúinn að lýsa nákvæmlega í bloggi sínu.
Þetta er viðvarandi sjónarmið einnig á fésbókinni. Er nokkur ástæða til þess að segja frá því sem búið er að setja á fésbókina? Auðvitað má segja það með öðrum orðum og aldrei er hægt að vera viss um að innlegg manns séu lesin. Lækin eiga samt kannski að bera vott um það. Ýmislegt les ég samt á fésbókinni án þess að læka það. Kannski er það afbrot.
Á fésbókinni er hægt að vera eins og maður vill. Draslið í stofunni sést ekki þar. Þar með breytast samskipti fólks. Eru þeir ekki alveg ómarktækir sem ekki hafa aðgang að tölvu? Og hvað með kaffispjallið og kjaftasögurnar? Er ekki óþarfi að hitta fólk í kjötheimum?
Fjasið í mér snýst að mestu leyti um fésbókina að þessu sinni. Eiginlega hentar hún mér ekki nógu vel. Bloggið er betra. Þar er hægt að láta móðann mása og enginn getur tekið af manni orðið. Fyrir utan allt annað þá heldur það sem skrifað er þar hugsanlega áfram að vera til. Sagt er að milljarðar fólks tengist fésbókinni og öðrum smfélagsmiðlum með einhverjum hætti. Skyldu allir þessir milljarðar vita að tölvur fylgjast með öllu sem gert er á Netinu og þar með fésbókinni. Ansi er þetta stórabróðurlegt.
Þó Nancy Pelosi hafi sigrað sjálfan Trump Bandaríkjaforseta í störukeppni fyrir skemmstu virðist henni ekki ætla að takast það sama gagnvart Mitch McConnell leiðtoga repúblikana í öldungadeildinni. Honum virðist aftur á móti hafa tekist að snúa Trump forseta á sitt band. En það er ekki að marka. Í mörgum málum er Trump eins og skopparakringla og hefur eina skoðun í dag og aðra á morgun. Kæra demókrata á hendur forsetanum verður sennilega felld í öldungadeildinni. Úrslit þess máls verða líklega eftir flokkslínum, þó svo hafi ekki verið þegar Clinton var ákærður. Áhrif þessa máls á kosningarnar í haust eru óviss.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (6)
12.1.2020 | 17:02
2905 - Handbolti og dvergakast
Ekki veit ég hvernig á því stendur, en lestur þessa bloggs hefur aukist svolitið að undanförnu. Kannski er það ótíðin sem þessu veldur. Kannski eitthvað alltannað. Við síðasta blogg mitt komu heilar 7 athugasemdir. Auðvitað skrifaði ég flestar þeirra sjálfur, en það er alveg sama. Þetta er óvenju mikið. Það eru ekki bara athugasemdirnar sem ég tel vandlega heldur fæ ég líka upplýsingar frá Moggabloggsteljaranum um fjölda þeirra sem heimsækja bloggið mitt á hverjum degi. Útbær á þær upplýsingar er ég sjaldan núorðið, en var það einu sinni. Við skulum minnast þess að hvernig við högum okkur á Netinu er alltsaman grandskoðað og skilgreint af snjalltölvum og hægt væri að fá, með mikilli fyrirhöfn þó fyrir mig a.m.k., upplýsingar um tölvur, sem notaðar hafa verið og nákvæmar tímasetningar. Nenni ekki að fást við slíkt. Get þó upplýst að undanfarna daga hafa heimsóknir verið á þriðja hundrað á dag og telst það fremur mikið á minni íhalds- og úreltu síðu.
Vinsælast er stjórnmálaþras. Segja má það sama um fyrirsagnir, ef þær eru nógu krassandi og forvitnilegar, má búast við einhverjum forvitnisheimsóknum. Það er samt ekki mitt að dæma eða sálgreina þá sem mín skrif lesa. Sumir gera það eflaust vegna skorts á einhverju skárra, sumir af einhverri annarri ástæðu. Sumum líkar kannski bara vel við það sem ég skrifa. Ég hef komist uppá lag með að lesa einkum fyrirsagnir Bandarískra blaða og þó þau séu hliðholl lýðræði, í orði kveðnu, fer ekki hjá því að skoðunin Amríku allt á mikinn hljómgrunn þar, auk þess sem auglýsingum er í sífellu grautað samanvið fréttir þar og peningar virðist ráða flestu.
Vinstrisinnar hafa hátt um þessar mundir og Pressan næstum öll. Auðvitað er Trump óvinsæll allstaðar nema í Bandaríkjunum. Fjölmiðlar virðast næstum allir vera á móti honum og er það engin furða. Bandaríkjamenn hafa í krafti stærðar sinnar og auðs lengi verið nokkurskonar lögregla heimsins. Trump hagar sér allsekki eins og lögreglustjórar eiga að gera og verður að fara varlega því Kínverjar vilja ólmir taka að sér lögreglustörf, svo ekki sé minnst á Pútín. Gott ef Trump dregur ekki taum þeirra sem kusu hann. Hugsanlegt er meira að segja að þeir geri það aftur á þessu ári. Einu sinni skutu Bandaríkjamenn sjálfir óvart niður farþegaþotu. Ekki man ég glögglega hvaða afleiðingar það hafði, en Írönsk stjórnvöld munu eflaust gjalda þess að hafa skotið niður Ukrainsku flugvélina. Lifi lýðræðið.
Þó margt sé í skötulíki hér á Íslandi er því ekki að neita að margt er okkur hagstætt hvað varðar staðsetningu okkar á jarðarkringlunni. Þeim fækkar óðum sem sætta sig við það ófullkomna stjórnarfar sem hér ríkir, vegna þess m.a. að sífellt fleiri kynnast því hvernig kaupin gerast á eyrinni í þeim vestrænu löndum sem við berum okkur sífellt saman við. Þó landslið okkar í handbolta hafi unnið samskonar lið frá Danmörku skulum við ekki ofmentast. E.t.v. er handbolti vinsælli íþróttagrein á heimsvísu en t.d. dvergakast. Sagt hefur t.d. verið að Evrópumeistaramót í handbolta séu mun sterkari en heimsmeistarmót í sömu íþróttagrein. Þetta minnir mig á heimsmeistaramót íslenska hestsins, en ekki hyggst ég fara lengra út í þá sálma nú.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (1)
10.1.2020 | 07:53
2904 - Jónas Kristjánsson
Sú bylting hefur nú orðið í mínu lífi að ég er farinn að nota gulan uppþvottalög í staðinn fyrir þann græna. Kannski er þetta samt ekki sú grundvallarbreyting sem öllu máli skiptir. Við bloggskrif er nauðsynlegt að gera greinarmun á því persónulega, sem flestum hættir við að gera of mikið úr, og því almenna, sem venjulega snýst um það að þykjast vera ógn gáfaður. Eða a.m.k. betrur að sér en flestir aðrir. Google hefur að mestu leyti gert útaf við besservissera eins og mig, en samt er hægt að láta tölvutæknina vinna með sér, ef grannt er skoðað. Ég hef langa og mikla æfingu í því að skrifa um allan skrattann. Google er örugglega verri í því en ég.
Man ekki gjörla hvort ég hef sagt frá intermittent fasting hér á blogginu en reikna samt með að flestir viti hvað það er. Sú aðferð virðist henta mér nokkuð vel. Að vísu hefur veðrið verið nokkuð óstöðugt að undanförnu, en ekki er víst að það stafi af þessu. Ísing, vindur og hálka hentar mér illa á mínum næstum því daglegu gönguferðum. Þessvegna hef ég sleppt þeim meira og minna undanfarið. Áslaug er búin frá áramótum að hafa vinnustofu á leigu nirði á Ægisgötu og kannski hefur það meiri áhrif á mitt líf en liturinn á uppþvottaleginum.
Einu sinni bloggaði ég daglega. Ekki fjölgaði lesendum mínum við það. Þó eru einhverjir sem stunda að lesa það sem ég skrifa. Mest áhrif á slíkt hefur fyrirsögnin. Áhrifavaldur er ég samt allsekki og vil ekki vera. Gamalmennablogg sem sumir introvertar eins og ég lesa sér til hugarhægðar vil ég gjarnan skrifa. Á það til að þykjast vera ósköp gáfaður og skrifa þá fyrst og fremst um mikilvæg málefni einsog alþjóðamál og Trump Bandaríkjaforseta sem allir hljóta að kannst við.
Jónas heitinn Kristjánsson fyrrverandi ritstjóri var að mörgu leyti minn mentor í netheimum. Hann skrifaði þó fyrst og fremst um fréttir og pólitík. Þ.e.a.s. í blogginu. Ýmislegt fleira skrifaði hann um m.a. um hesta, sem ég hef engan áhuga fyrir. Margt af því sem hann sagði hef ég reynt að tileinka mér í blogginu. Hann var bæði orðhvatur og feiknarlega vel að sér. Það skortir marga (og mig líka) tilfinnanlega, sem eru þó áhrifamikilir í íslensku þjóðlífi.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (11)
9.1.2020 | 10:19
2903 - Er fólk fífl?
Hvað er varið í að verða gamall og þurfa sífellt að óttast hjartasjúkdóma, sykursýki og krabbamein? Öll deyjum við einhverntíma. Samt heldur maður áfram að lifa, hneykslast á stjórnvöldum og hrósa happi yfir því að hafa ekki fæðst inní þriðja heiminn. Sú allra helsta breyting sem orðið hefur á síðustu árum er sú að núorðið erum við meira og meira háð tækninni. Ástin á snjalla farsímanum verður sífellt augljósari. Samskipti fólks færast að mestu leyti yfir í farsímann og mjög tíðkast að kenna honum um allt sem miður fer. Ekki er hægt að segja að það sé að öllu leyti sanngjarnt, en einhverju verður að kenna um. Eigin ófullkomleiki er ekki í boði, eins og sagt er.
Markverðasta heimspekilega spurningin er þessi: Er fólk fífl? Það er erfitt nútildags að vera frumlegur án þess að hljóma eins og biluð plata. Ekki er samt búið að segja allt. Gera þarf greinarmun á því að skrifa bara til að skemmta, eða til þess að fá fólk til þess að hugsa. Þeir sem snjallasir eru í þessu, jafvel snjallari en snjallsímarnir, geta þó með árangri blandað þessu tvennu saman. Því miður er ég ekki í þessum hópi. Þó ég hafi skrifað mikið um dagana er ég sífellt að hugsa og skrifa hægar og hægar. Á endanum hætti ég sjálfsagt alveg að skrifa. Þar að auki er ritað mál á sífelldu undanhaldi. Myndir og videó eru sífellt að vinna á. Alveg er það liðin tíð að fréttir séu t.d. skrifaðar án þess að mynd fylgi. Stundum eru gamlar myndir dregnar fram, en þá má helst ekki vera búið að birta þær áður.
Minnir að ég hafi í síðasta bloggi talið að ekki yrði úr stríði milli Íran og U.S.A. Þetta virðist ætla að ganga eftir. Tveir spádómar mínir eru tengdir Bandaríkjunum. Ég reikna ekki með að samþykkt verði í Bandarísku Öldungadeildinni að svipta Trump forsetaembættinu. Þetta er samhljóða áliti flestra sem um þetta mál fjalla. Hætt er samt við að atkvæði falli að mestu leyti eftir flokkslínum. Hinn spádómurinn er um að Trump tapi í kosningunum sem verða í nóvember næstkomandi. Andstaða við þennan spádóm er mikil hjá mörgum. Að sumu leyti kann þetta að vera einskonar óskhyggja, en ég vil nefnilega miklu fremur styðja demókrata þar en repúblikana. Stjórnmá í U.S.A. og heimspólitík eru nefnilega mitt áhugamál þessa stundina.
Á sínum tíma spáði ég því að Klausturhávaðinn mundi ekki hafa mikil eftirköst fyrir þá sem tóku þátt í honum. Þetta hefur greinlega gegnið eftir. Innlend stjórnmál eru heldur þýðingarlítil á alþjóðlegan mælikvarða. Líklegt er að Katrínarstjórnin lifi af kjörtímabílið, hvort sem kosið verður næst um haustið 2021 eða á vormánuðum sama árs. Lengur getur þessi verklitla ríkisstjórn varla setið.
Þegar ég var að alast upp hræddust börn kjarnorkusprengjuna. Nú er reynt að hræða börn með loftslagsvánni. Samt er hún raunveruleg. Þó er ekki víst að spádómar þeirra sem sífellt eru með vísindasamfélagið á vörunum hafi rétt fyrir sér í öllum atriðum. Lífið snýst um að taka ákvarðanir. Sumar þeirra eru réttar, aðrar ekki. Ég man t.d. vel eftir því að þrátt fyrir öll óþægindi sem því fylgdu var nauðsynlegt einu sinni að venja sig á að reykja. Öðruvísi var maður ekki maður með mönnum. Ákvarðanir hafa alltaf afleiðingar. Hvort við hendum plastinu frá okkur eða látum það í réttan gám kann að hafa afleiðingar einhverntíma í framtíðinni. Ekki er samt víst að allir taki réttar ákvarðanir í öllum tilfellum. Nauðsynlegt er að taka rangar ákvarðanir öðru hvoru.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
6.1.2020 | 01:35
2902 - Þriðja heimsstyrjöldin
Á hvaða hátt munu ferðalög breytast á næstu árum? Enginn vafi er á því að loftslagsvá sú sem sífellt er predikuð mun hafa áhrif á ferðavenjur okkar. Munum við í vaxandi mæli snúa okkur aftur að skipum? Rafknúnum eða seglknúnum skipum vel að merkja. Mér finnst mun líklegra að skipaflutningar muni leysa orkuvandann með endurnýjanlegri orku, en að flugvélar muni gera það. Annars væri hægt að fabúlera endalaust um þetta. Þróun farþegaflugvéla hefur staðið nánast í stað í marga áratugi. Miðað við breyttar forsendur vegna loftslagsmála og margs annars er vissulega kominn tími til markverða breytinga.
Allt er nú að verða vitlaust útaf þessu morði á Súleiman hershöfðigja. Ég hef samt litla trú á að þetta leiði til stríðs. Auðvitað er Trump afleitur. Jafnvel Bandaríkjamenn viðurkenna það, margir hverjir, meira að segja án þess að vera Demókratar. Ég held samt að ég skilji orðið nokkurnvegin hans hugsanagang. Auðvitað er aðgerðin sem slík vanhugsuð mjög og leiðir á endanum til aukins vantrausts á Trump um allan heim ef ekki til annars verra. Hann er reyndar mjög óvinsæll víðast hvar í heiminum. Ekki bara í Miðausturlöndum. Sé haldið áfram með þessa hugsun um Bandaríkin gæti það síðan leitt til aukinnar einangrunar landsins (sem raunar er heil heimsálfa) og þar með til minnkandi líkinda á þúsund ára ríkinu, sem ég er ekki í vafa um að marga í Bandaríkjunum dreymir um, Trump meðtalinn. Gott ef hann reynir ekki eitthvað til að lengja forsetatíð sína. Sjálfsdýrkun hans og fljótfærni á sennilega eftir að verða honum að falli.
Að setja smágat með nál fremst á snuðið hjá smábörnum til að fá svolitinn frið fyrir þeim og venja þau af snuðinu, er nýjasta trixið í bókinni. Af hverju kemur þetta næst á eftir hugleiðingum um Trump karlinn? Jú, hann er einmitt afskaplega barnalegur stundum.
Ég er núna önnum kafinn við að gera tilraunir á sjálfum mér með megrunaraðferðinni sem er kölluð Intermittent fasting. Hún er þannig að ég má ekki borða neitt í eina 16 tíma, en svo má ég borða eins og mér sýnist og ég er vanur í 8 klukkutíma. Skipti um hádegið dag hvern. Það er svolítið erfitt að vera andvaka og mega ekki fá sér neitt. Morgnarnir eru ekki nærri eins mikið vandamál, því ég er vanur að sleppa morgunmat. Annars er þetta ekki fyrst og fremst í megrunarskyni gert, heldur hef ég þá trú að þetta sé hollt. Tvær nætur eru búnar með andvökum og tilheyrandi.
Hef að undanförnu ekki farið í morgungöngu eins og ég er vanur. Helst er veðrinu um að kenna. Umhleypingarnir og hálkan eru erfið fyrir gamalmenni eins og mig.
Þetta er fremur stutt blogg, en ég nenni bara ekki að hafa það lengra. Þar að auki virðist lesendum mínum (samkvæmt Moggabloggsteljaranum) fara fækkandi, enda engin furða því ég er víst svo leiðinlegur.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (4)
2.1.2020 | 14:12
2901 - Loftslag um áramót
Síðasta blogginnlegg frá mér var kannski aðallega í sparnaðarskyni gert. Þá þurfti ég ekki að skrifa neitt en gat samt sett upp sæmilega langt blogg. Annars er meðvirkandi ástæða kannski sú að ég hef verið að lesa gömul blogg eftir sjálfan mig og satt að segja hafa þau, stundum a.m.k., talsverð áhrif á mig. Kannski er ég einn um að sýnast þau oft vera ansi góð. Verst af öllu þykir mér ef lesendum mínum finnst ég endurtaka mig um of. Skrítinn vil ég samt gjarnan vera.
Í fyrsta skipti í áratugi, og jafnvel í marga mannsaldra, sér unga kynslóðin nú um stundir ekki fram á að hafa það betra en foreldrarnir. Þetta er mikilvægur punktur vegna þess að flestir líta sér næst og hafa litla sem enga möguleika til að skilgreina heiminn útfrá hagfræðilegum forsendum. Augljóst er samt að heimsmálin stefna í þessa átt.
Skýrasta og svívirðilegasta birtingarmynd þessa er þegar hinir ríku láta sig hverfa inn í eigin himnaríki, skjól eða verndarsvæði, hvort heldur er um að ræða innmúraðaðar lúxusvillur með vopnuðum vörðum- eða það sem verra er: Aflandsfélög og skattaskjól, sem eru í raun hagkerfi fyrir útvalda.
Einhvers staðar rakst ég á þessa skáletruðu klásúlu og tek mér það Bessaleyfi að birta hana hér. Ég treysti mér ómögulega til að orða þetta betur. Þess vegna tek ég þá áhættu að birta þetta eins og það kemur af skepnunni. Þetta er með öðrum orðum mín skoðun og afstaða.
Meðan pöpullinn sækir hins vegar fast að komast í þessi skattaskjól og hagkerfi fyrir útvalda er ekki von á miklum framförum í jafnræðisátt. Sem betur fer er sá úrelti hugsunarháttur á undanhaldi a.m.k. hér á Vesturlöndum og er framsókn þeirra Warren og Sanders í bandarísku forsetakosningunum eitt skýrasta dæmið til marks um það.
Vissulega er það svo að t.d. Bretland, Sviss og Luxemburg hafa byggt stóran hluta auðs síns á þjónustu og þjónkun við það þjófræði sem þrífst á Tortóluríkjum um allan heim. Á þennan þjófnað þarf að koma böndum. Engin meining er í því að þeir sem nægilega ríkir eru komist hjá því með öllu, eða að hluta, að borga sinn hluta til sameigilegra þarfa. Enginn á að þykja fínn fyrir það eitt að stela meira en aðrir.
Fyrir nokkrum árum (fyrir 2016 samt) fór ég í gönguferð á Nýársdag og fór af einhverjum ástæðum út í Nauthólsvík. Þá kom mér mjög á óvart að harðsnúinn hópur manna fór í sjóinn þrátt fyrir kalsaveður (eins og núna). Nú virðist þetta hafa snúist uppí einhverskonar furðufataball og sjónvapsatburð. Ekki tel ég það samt vera til neins álitshnekkis fyrir þetta framtak, en bendi aðallega á þetta sem dæmi um það hve fljótt siðir og venjur geta breyst.
Nú er semsagt komið nýtt ár og flestir eru uppfullir af kjaftavaðli af því tilefni. En ekki hann ég. Hélt satt að segja að ég væri búinn að skrifa meira en raun ber vitni til að setja á bloggið mitt. Þar sem þetta skrifelsi er ekki mjög bundið þeim tíma sem það er skrifað á læt ég það þó flakka núna. Í dag er annar í nýári og þessvegn ágætt að blogga svolítið. Skaupið var svosem ágætt. Mest fabúlerað um loftslagsmál, eins og gera mátti ráð fyrir.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)
20.12.2019 | 09:24
2900 - Endurbirting
2900 Endurbirting
Held að það hafi verið árið 2013 sem ég skrifaði eftirfarandi blogg:
Það var síðastliðið sumar sem um það var talað að gera Stóra-Ásgautsstaðamálið opinbert. Ekki svo að skilja að ekki hafi verið talað um það áður. Aldrei hefur samt orðið neitt úr því að opinberlega væri um málið rætt. Bloggið mitt er í þeim skilningi opinbert að þónokkuð margir eru vanir að lesa það. Jafnvel væri hægt að kalla það fjölmiðil af einhverju tagi, ef löngun væri til.
Eftir talsverðar rökræður var ákveðið að ég sendi Láru Hönnu Einarsdóttur, sem er fyrrverandi vinnufélagi minn, bréf um þetta. Hún er vissulega orðin allþekkt og dregur yfirleitt hvergi af sér í málsvörn sinni fyrir lítilmagnann. Úr varð að ég skrifaði henni eftirfarandi bréf á Facebook:
Sæl og blessuð Lára Hanna.
Þú hefur svo sannarlega staðið þig vel í blogginu. Ert á margan hátt orðin málsvari lítilmagnans í íslensku þjóðfélagi. En ég er ekki að skrifa þér þess vegna. Svo er mál með vexti að ég er með bréf sem mig langar að senda þér. Í því eru upplýsingar sem kunna að vera viðkvæmar. Það sem ég er fyrst og fremst að velta fyrir mér er hvert þú vilt að ég sendi það. Netfangið altsvo. Helst vildi ég bara fá svarið hérna á fésbók, því ég fer svo sjaldan að skoða póstinn minn á Snerpu að meiri líkur eru á að slíkt fari framhjá mér þar.
Sæmundur Bjarnason
Þetta bréf var sent og samið í júlí í sumar. Lára Hanna svarað því strax um hæl og gaf mér upp netfangið sitt. Bréfið sem ég sendi henni þá var svona:
Ég sný mér bara beint að efninu og er ekkert með neinar krúsidúllur varðandi það.
Konan mín og systkini hennar eru erfingjar að níunda hluta jarðarinnar Ásgautsstaðir við Stokkseyri. Lögfræðingurinn Sigurður Sigurjónsson hrl. (í Kringlunni í Reykjavík ath. þeir eru tveir hrl. alnafnarnir) hefur verið með mál í gangi í mörg ár útaf misnotkun sveitarfélgsins Árborgar (og áður Stokkseyrar) á jörðinni. Fulltrúar sveitarfélagsins virðast leggja áherslu á að tefja þetta mál eftir megni. Það er ekki útaf vantrausti á lögfræðingnum sem ég sný mér til þín með þetta mál. Þarna er um sakamál að ræða sem á sér langa sögu og tengist húsbyggingum á Stokkseyri, sýslumannsembættinu á Selfossi og Bæjarstjórn Árborgar. Um er að ræða óheimila notkun lands, ólöglegar byggingar, skjalafals og hugsanlega ýmislegt annað.
Spurningin sem við erum að velta fyrir okkur núna tengist því hvort gera eigi mál þetta opinbert eða ekki. Hugsanlega mundum við gera það með opnun bloggsíðu eða Facebook-síðu um málið eða jafnvel með upplýsingum og ljósritum til fjölmiðla, ef þeir hefðu áhuga á að fjalla um málið.
Þar sem ég veit að þú kannar mjög vandlega þau mál sem þú hefur áhuga á, áður en þú hefst handa, vil ég gjarnan fá álit þitt á því hvað væri réttast að gera og hvernig væri best að undirbúa það. Hugsanlega er þetta mál mjög viðkvæmt á svæðinu sem um ræðir og þess vegna bið ég þig að sjálfsögðu að segja ekki öðrum frá þessu án þess að hafa fyrst samband við mig eða konu mína.
Lára Hanna svaraði því strax daginn eftir þannig:
Má ég bera málið undir Inga Frey hjá DV - án þess að nefna nein nöfn? Því miður er Kastljós í fríi fram í september, annars myndi ég kynna málið fyrir strákunum þar.
Mér finnst að þið eigið að gera þetta opinbert - alveg hiklaust.
Ég svaraði henni nokkru seinna og sagði:
Sæl Lára Hanna. Við höfum ennþá ekki gert neitt í málinu sem ég sagði þér frá fyrr í sumar. Mér skilst að Kastljós sé að koma úr fríi á næstunni og við værum mjög fegin ef þú vildir minnast á þetta við fólkið þar. Gagnvart þeim mundir þú ekki þurfa að gæta neinnar sérstakrar varúðar varðandi staðreyndir málsins, enda eru hálfkveðnar vísur ekki þeirra stíll. Ég er alls ekki að reka neitt á eftir þér, en ef Kastljós vill ekkert sinna þessu þá býst ég við að við reynum einhverja aðra leið og þessvegna vildum við gjarnan fá að vita um það eins fljótt og hentugt er.
Seinna reyndi ég svo að hafa samband við Láru Hönnu útaf þessu máli en það gekk ekki. Ég býst við að stórir fjölmiðlar hafi lítinn áhuga á þessu máli. Þetta skiptir mig samt nokkru og bloggið mitt er a.m.k. einskonar gluggaveggur þar sem ég get látið það sem mér sýnist. Og núna sýnist mér einmitt að setja þetta þar.
Eiginlega vilja þau systkinin bara vita hvers vegna sýslumaðurinn á Selfossi svari ekki bréfum sem til hans eru sannanlega send. Þarna á ég við bréf sem lögfræðingur meginhluta erfingjanna að jörðinni hefur sent honum. Svo virðist sem málið sé strand þar núna og hafi verið alllengi.
Allar þær fullyrðingar sem fram koma í þessari bloggfærslu er hægt að færa fullkomnar sönnur á með ljósritum og staðfestum afritum úr embættisbókum.
Kannski er núna sjö árum síðar kominn tími til að minna á þetta aftur. Ekki minnkar spillingin hér á landi.
Því miður á ég ekki von á því að margir nenni að lesa þessi ósköp. Kannski verður þetta til þess að þeim fækkar að mun þessum fáeinu föstu lesendum sem mér hefur tekist að koma upp með stanzlausu bloggi í fjölda ára, en það verður bara að hafa það.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (1)
14.12.2019 | 11:17
2899 - Hvað er það sem þeir hjá Toyota vita, en við ekki?
Einu sinni var sagt að Volkswagen hefðu reynt að snúa galla upp í kost. Þannig var að hurðirnar á Bjöllunni voru svo léttar að ekki var auðveldlega hægt að skella þeim aftur. Þannig var og er bílhurðum yfirleitt lokað. Þeir hjá Volkswagen sögðu þá að þetta sýndi hve þéttir bílarnir væru. Ekki held ég þó að prófað hafi verið að keyra þá útí sjó, til að ganga úr skugga um þetta.
Minn fyrsti bíll var Volkswagen bjalla árgerð 1959. Sá bíll hafði verið keyptur í Þýskalandi og var með teinabremsum. Ekki þótti taka því að setja vökvabremsur á bíla fyrir innanlandsmarkað. Slíkar bremsur voru samt í þá tíð komnar í flesta bíla á Íslandi. Enginn bensínmælir var í bílnum heldur var hægt að færa hnapp sem færði úrtakið úr bensíntanknum svolítið neðar. Þetta var kallað varatankur.
Nú auglýsa þeir hjá Toyota Hybrid bíla sem ekki þarf (eða er hægt) að setja í samband við rafmagn. Vissulega er þetta nokkur framför frá varatanknum svokallaða, en hugsunin er sú sama. Toyota virðist ekki ætla að taka þátt í kapphlaupinu um rafmagnsbílana eins og aðrir bílaframleiðendur. Það hlýtur að stafa af því að þeir reikna ekki með að núverandi rafvæðing bílaflota heimsins verði varanleg. Metangas er hugsanlega lausnin. Ef bílafloti heimsins gengur fyrir slíku gasi og skyndilega eykst matarmenning stórlega, ja, hvað gera Danir þá?
Eldfjöll drepa. Það ættum við Íslendingar að þekkja, betur en margir aðrir. Samt er það svolítið undarlegt hve mikil fjölmiðlaumfjöllun er um sprengigosið á Hvíteyju í Indónesíu. Árið 2014 fórust eitthvað yfir 60 manns í svipuðu sprengigosi í Japan. Ekki man ég eftir neitt svipaðri umfjöllun um þann atburð í fjölmiðlum. Er þetta til marks um breytta fjölmiðlun, eða hvað? Ef svo er finnst mér hún gerast með miklum hraða. Mun hraðar en ég hefði ímyndað mér. Kannski er þetta útaf einhverju allt öðru, en mér finnst þetta athugunarefni.
Að efast um eigið ágæti, er vísasta leiðin til glötunar. Að heimilismatur sé betri en veitingahúsamatur er sjálfgefið, en að svið séu betri en hamborgarhryggur liggur ekki i augum uppi. Spakmæli á borð við þessi eru gjarnan það fyrsta sem mér dettur í hug á morgnana, þetta eða annað svipað á ég til að tauta fyrir munni mér með stírurnar í augunum, nývaknaður og grænn af pilluleysi. Þegar ég aftur á móti er orðinn sæmilega pillaður og búinn að fá mér lýsi og tilheyrandi dettur mér gjarnan ekkert í hug.
Samkvæmt frétt í Fréttablaðinu um að vopnasala hafi gengið vel á árinu sem er að líða ber að athuga að ekki eru allir sammála um að sú frétt sé jákvæð. Vissulega er það gott útaf fyrir sig að einhver atvinnugrein gangi vel, en gera má ráð fyrir að einhverjir gjaldi fyrir að vopnaframleiðslan og salan gangi vel. Þó stríð séu talin vera ein 27 um þessar mundir er ekki svo, held ég a.m.k., að stríðsógnir og hermdarverk fari vaxandi svona yfirleitt. Kannski er þetta ár, 2019 með þeim verri í þessu tilliti en ef réttar og vinsælli viðmiðanir eru notaðar, eins og t.d. heimssyrjaldirar tvær á síðustu öld er hægt að telja sér trú um að friðvænlegra sé í heiminum núna en oftast áður. Trump virðist að vísu gera sitt til þess að æsa menn upp, en kannski er það ekkert að marka, hugsanlegt er að hann sé friðelskandi inn við beinið.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (4)