3087 - Verslunarmannhelgi

Verslunarmannahelgarböll freista mín ekki núorðið. Þessvegna ætti ég að geta notað tímann til að blogga. Gæti vel trúað að ég verði fljótur á 50-listann aftur. Hins vegar hugnast mér ekki gauragangurinn og lætin á fésbókinni. Þó hef ég farið þangað nokkrum sinnum að undanförnu. Einkum til að láta vísnaljós mitt skína. Þ.e.a.s. ég hef sett eina og eina vísu á boðnarmjöðinn. Ég lendi nefnilega í því stundum að gera vísur sem mér finnst eiga erindi þangað. Sjaldan að vísu en..... Ég nenni samt ekki að taka þátt í umræðunum þar (á fésbókinni altsvo) og fylgist ekki einu sinni með því sem gerist þar um slóðir .

Ég ætti kannski að gera þetta blogg mitt persónulegra með því að segja frá því sem gerist í fjölskyldunni. Já, og meðal annarra orða. Roger er dauður. Hann var nú bara naggrís, að ég held svo kannski er eftirsjáin ekki svo mikil allsstaðar. Sums staðar kannski, en fráleitt er sú tilfinning almenn. Það minnir mig á annað. Í gær, á sjálfum aðfangadegi verslunarmannahelgarinnar keypti ég kjöt í Bónus og á kassakvittuninni var það kalla eitt stykki s.g. eldaður grísasni sem e.t.v. er svipaðrar merkingar og asnafolald. Annars held ég að þarna hafi átt að standa grísasnitsel eða eitthvað þessháttar. Bragðið var a.m.k. þesskonar.

Sennilega set ég þetta blogg upp í fyrrmálið. Þ.e. 1. ágúst. Og ætti það að vera sæmileg byrjun á þeim mánuði.

Bókin sem ég er að lesa um þessar mundir heitir 30. marz 1949 og ætti það varla að vefjast fyrir þeim sem eru með snefil af sagnfræðiáhuga að vita hverskonar bók það er. Að sumu leyti er þar um að ræða einskonar mótvægi við gamla kommúnistann sem ég ræddi um í síðasta bloggi.

Ein helsta trúarhátíð Íslendinga stendur nú sem hæst. Þarna ætlaði ég að reyna að vera fyndinn. Verst hvað ég skrifa hægt og hugsa hægt. Þetta er orðið alveg ófyndið þegar ég loksins er búinn að skrifa það. Vont þegar hugsunin (þó hæg sé) fer langar leiðir framúr skriftarhraðanum. Kannsi væri réttast að kalla þetta blogghraða eða blogghugsun, ég veit það ekki. Sko. Þarna fór hugsunin framúr skrifunum með þeim afleiðingum að...... Sleppum því annars. Ég þarf að koma þessu á bloggið mitt, enda er klukkan farin að ganga átta. Bless í bili.

IMG 4654Einhver mynd.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband