18.4.2022 | 10:52
3134 - Margir Þorsteinar
Kannski ég sé að detta í það að blogga mun oftar en að undanförnu. Ef mér verður það á að skrifa um Ukrainu er einn Þorsteinninn ennþá óðar mættur. Þar á ég að sjálfsögðu við Þorstein Sch. Ég les ekki einu sinni langlokur hans. Briemarinn má eiga hann. Sch. er greinlega mikill stuðningsmaður Pútíns hins rússneska. Kannski Briemarinn, ég og fleiri séum undir áhrifum frá Soros og Gates. Mér bara dettur þetta svona í hug. Trumparar held ég að við séum ekki. Steini vann einu sinni á Morgunblaðinu hefur mér skilist. Ég vann lengi á Stöð 2 og fleira get ég kannski talið upp ef ég verð manaður til þess.
Ég er búinn að blogga mikið og lengi. Hef einhverntíma að ég held kallað Jón Val Jensson öfgahægrisinna en er að öðru leyti spar á stóryrðin. Sé ekki eftir því. Er á móti öllum öfgum.
Um að gera að hafa bloggin stutt. Þá eru þau frekar lesin. Kannski væri Twitter hentugur fyrir mig. Nenni samt ekki að skipta. Hef talsverðan ýmigust á Facebook en auglýsi samt bloggið mitt þar.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)
17.4.2022 | 09:42
3133 - Mannkynssaga
Þegar maðurinn komst að því að hann gat ráðið við eða forðast öll dýr merkurinnar, gerði hann sér grein fyrir því, að hann var orðinn herra jarðarinnar og nýtti sér það út í ystu æsar.
Þau tímamót í sögu heimsins gerðust að sjálfsögðu í fyrndinni og eftir það er saga mannsins í vissum skilningi saga þróunar lífsins, sem vissulega hefur nokkrum sinnum verið ógnað og þá helst af síendurteknum heimsstyrjöldum og tortímingarþrá mannsins sjálfs.
Þegar maðurinn hefur sigrast að þeirri þrá sinni að drepa sem flesta menn aðra en sjálfan sig er von til þess að mannkynið þróist áfram.
Þeirri þróun eru engin takmörk sett önnur en þau að maðurinn þrói smátt og smátt vélar sem taki völdin af honum. Takist að koma í veg fyrir það er ekkert sem kemur í veg fyrir að mannkynið leggi geiminn allan undir sig.
Það er þá helst að eitthvað annað mannkyn eða lífsform sé í rauninni komið lengra á þróunarbrautinni og útrými mannkyninu. Sú hætta er vissulega fyrir hendi, því við vitum ekki neitt um það hvort líf á öðrum hnöttum er fjandsamlegt eða vinsamlegt. Höfum samt leyfi til að vona hið síðarnefnda.
Þetta blogg er svosem alveg orðið nógu langt og ekki er hægt að segja að það fjalli um einskisverða hluti.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (5)
16.4.2022 | 12:20
3132 - Rússarnir koma
3132 Rússarnir koma
Nú er komið talsvert fram í Apríl og ég er að mestu leyti kominn í þann farveg að ég skrifa (blogga) mánaðarlega til þess að geta bent á að ég hafi bloggað í hverjum mánuði alveg hreint óralengi. Hægt er að ganga úr skugga um slíkt útvortis á blogginu mínu. Svolítið vanda ég mig þegar ég skrifa hér og og breyti litlu sem engu eftirá. Þegar ég skrifa í hina dagbókina, sem ég geri svona öðru hvoru, læt ég mun meira vaða á súðum. Þau skrif má e.t.v. nota seinna meir til að staðsetja á tímalínu ýmsa fjölskylduatburði. Myndirnar sem ég hef tekið er líka hægt að nota til þess. (Ath. Þetta var skrifað í síðustu viku)
Á mánudaginn kemur eða þriðjudaginn er væntanlegur maður til að laga og breyta ýmsu á baðherberginu. Svo held ég að Benni og Co. fari til Tenerife fljótlega.
Af hverju í ósköpunum er ég að þessu bloggi? Sennilega er það merkilegasta varðandi mig hvað ég er í rauninni hrikalega venjulegur. Stundum finnst mér samt að ég sé afskaplega merkilegur. Líki mér jafnvel í huganum við meistara Þórberg. Hann ræktaði þó sína sérvisku og steinhætti að vinna venjulega launavinnu á unga aldri. Auk þess sem hann var greinilega langt á undan sinni samtíð í flestu eða öllu. Kannski var hann í rauninni ákaflega venjulegur að öðru leyti. Hvað veit ég?
Síðast þegar ég bloggaði fjasaði ég eihvað um Ukrainu-stríðið og þóttist voða gáfaður eins og venjulega. Kannski ég haldi því áfram. Ekki nenni ég að skrifa um kynþáttafordóma eða bankahneyksli einsog mest er í tísku þessa dagana. Sú mikla samúð sem Ukrinubúar fá um þessar mundir er ekki öruggt að þeir fái endalaust. Því miður. Ekki er líklegt að Pútín og hyski hans hætti öllum stríðsrekstri bara sísvona. Þó gæti verið að þeir sæju fljótlega hve tilgangslaust þetta er. Allir virðast vera á móti Rússum.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (9)
12.3.2022 | 22:57
3131 - Facebook og Ukraina
Auðvitað veit ég ekki, frekar en aðrir, hvað Pútín og þeir sem styðja hann sem ákafast, hugsa. En ég held að hann geri sér alveg grein fyrir því að hernaður hans í Ukrainu er ákaflega óvinsæll um heim allan. Rússland er annars flokks stórveldi sem nú er í fjörbrotunum. Það er einkum þessvegna sem Pútín og Rússland eru hættuleg. Þau stórveldi sem munu bítast af sem mestum krafti í því kalda stríði sem nú er að hefjast eru að sjálfsögðu Bandaríkin og Kína.
Kína stendur Bandaríkjunum að líkindum svolítið að baki hernaðarlega ennþá. En það mun ekki standa lengi. Kína mun líklega halda fremur með Rússum en Ukrainumönnum í yfirstandandi stríði og tengjast Rússum í vaxandi mæli viðskiptalega og ef ESB (sem á margan hátt er einnig annars flokks stórveldi) mun halla sér að USA, eins og flest bendir til, eru komin tvö super-stórveldi sem munu kljást á mörgum sviðum í því kalda stríði sem væntanlegt er.
Það eru þá helst Japan og Suður-Kórea, ásamt Taiwan og Austurlöndum nær, sem einkum má gera ráð fyrir að bitist verði um á síðari hluta þessarar aldar. Það er að segja ef mannkynið verður ekki búið að tortíma sjálfu sér í heildsölu áður.
Undanfarið hef ég gagnrýnt fésbókina mjög og farið að langmestu leyti í frí frá henni. Þetta hef ég gert þó ég geri mér fulla grein fyrir vinsældum hennar og að margir af notendum hennar geri sér alveg grein fyrir áróðri hennar og takmörkunum. Þó Moggabloggið og Morgunblaðið sé mjög langt frá því að vera gallalaust og að Páll Vilhjálmsson sé eins og hann er (ég fékk mjög margar heimsóknir þegar ég skrifaði um hann um daginn) dettur mér ekki í hug að gerast áskrifandi að blaðinu sjálfu. Læt mér mbl.is nægja, en viðurkenni samt með sjálfum mér að Morgunblaðið er langbesta fréttablaðið á landinu. Vísir og DV eru einfaldlega ekki marktæk og Fréttablaðið er ósköp takmarkað þrátt fyrir að það sé ókeypis.
Internetið í heild er svipuðu marki brennt og fésbókin. Það þarf stórlega að vara sig á því og unglingum getur það beinlínis verið hættulegt. Stríðið um sálir mannanna fer einkum fram á Netinu.
Ég nenni bókstaflega ekki að blogga daglega og er alveg sama (að mestu leyti) þó fáir lesi þetta blogg. Þó er það frekar lesið ef það er stutt.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (3)
4.3.2022 | 09:38
3130 - Páll Vilhjálmsson
Það ánægjulegasta við stríðið í Úkrainu (ef hægt er að tala um ánægju í því sambandi) er hve mikil samstaða er um fordæmingu á því. Augljóst er líka að fyrri stjórnmálaværingar eru lagðar til hliðar í bili af flestun a.m.k., þegar minnst er á þessi mál. Þó er um einstaka hjáróma raddir að ræða.
Af því að ég hef hingað til hneigst til gagnrýni á Facebook (sem ég kalla næstum alltaf fésbók) og haldið áfram að blogga á Moggablogginu þó það sé undarlega samsett, og hafi einu sinni verið afar vinsælt ætla ég að halda mig þar.
Mér finnst það blasa við að langvinsælasti bloggarinn þar, sem eins og flestir vita heitir Páll Vilhjálmsson, sé sannur öfgahægrimaður. Hann skrifar einkum um pólitík. Ekki veit ég hvort þeir sem lesa hans innlegg séu yfirleitt sammála honum. Svo kann þó að vera. Hann hefur að undanförnu aðallega beitt sér gegn þeim sem skrifað hafa og flutt fréttir um Samherja á Akureyri. Þar hefur hann hvað eftir annað látið í veðri vaka að hann viti miklu meira um það mál alltsaman en nokkur lögreglumaður eða fréttamaður. Helst er að sjá að hann hafi mikla trú á hverskonar samsæriskenningum. Þegar hann hefur getað litið uppúr skrifum sínum um fyrrnefnt útgerðarfyrirtæki hefur hann skrifað um Úkrainumálið á heldur ókræsilegan hátt.
Eiginlega er það að æra óstöðugan að tilfæra hér einhver séstök ummæli sem hann hefur sett á bloggið sitt um Úkrainu og Rússland ásamt undarlegum skrifum um NATO og ESB. Hentugast er bara að fara þangað og fá beint í æð helstu samsæriskenningarnar sem haldið er fram um þessar mundir.
Auðvitað hefði ég getað sett þetta sem athugasemd á bloggið hans, því þrátt fyrir allt virðist hann ekki gera eins og sumir af svipuðu sauðahúsi gera oft, en það er að eyða óvinsamlegum athugasemdum. Það hefði kannski komið fyrir fleiri augu þar. Þetta er full-langt sem athugasemd, þó það sé ekki langt sem blogg.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (27)
3.3.2022 | 04:53
3129 - Úkraina 3
Nú eru Gyðingarnir orðnir að Nasistum. En það skiptir engu máli hvernig Pútín lætur, hann er arftaki Hitlers í nútímanum og lýgur a.m.k. jafnmikið og hann, ef ekki meira. Hann verður alveg áreiðanlega kærður fyrir stríðsglæpastólnum og líklega dæmdur þar. Nú er það allt í einu orðið utanríkisráðherra Breta að kenna að hann hafi hótað að nota kjarnorkuvopn, ef ekki er í einu og öllu farið eftir hans kröfum. Rússar hljóta að losa sig við þetta skemmda epli fyrr en seinna.
Fimmtudagsmorgunn.
Nú er það staðfest að Alþjóðlegi glæpadómstóllinn mun rannsaka Úkrainu-málið og sennilega ákæra allmarga vegna stríðsglæpa. Þrjátíu og níu þjóðir hafa skorað á dómstólinn að hefja nú þegar rannsókn á þessu máli. Sú er trú þeirra sem það hafa gert að það séu einkum Rússar sem þessa glæpi hafa framið. Dómstóllinn mun þó rannsaka þessi mál frá öllum hliðum og án fyrirfram myndaðra skoðana.
Hugsanlega munu Rússar ekki leggja undir sig Úkrainu alla en stjórn á landinu munu þeir eflaust ætla sér að ná og haldið verður til streitu stofnun sjálfstjórnarlýðveldanna svokölluðu í austanverðri Úkrainu. Friðarumleitanir munu varla bera árangur fyrr en Rússar hafa náð völdum í fleiri eða flestum af stærstu borgum landsins.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
1.3.2022 | 07:07
3128 - Úkraina 2
Bloggaði smávegis um Úkrainumálið í gær og það hefur fengið svolítinn lestur (nærri 300, síðast þegar ég vissi.) Kannski ég haldi eitthvað áfram að skrifa um það mál.
Margt má eflaust segja um það altsaman. Sumir spekúlera í hvað Pútín og Rússum almennt gangi til og aðrir dást mjög að Úkraníumönnum fyrir baráttu sína við ofureflið. Enginn vafi er á að þetta stríð mun hafa mikil áhrif. Ekki óttast ég svo mikið allsherjar kjarnorkustríð, þó Pútín hafi nánast beinlínis hótað því, en búast má við miklu meiri og almennari fordæmingu á Rússum en átti sér stað þegar Krímskaginn var innlimaður.
Af einhverjum ástæðum held ég að óttinn við allsherjar kjarnorkustríð hafi verið almennari árið 1962 þegar stefndi í það að Rússar, eða réttara sagt Sovétríkin,, kæmu sér upp eldflaugum á Kúbu og sá ótti hafi ráðið því að NATO ríkin hafi ekki viljað taka beinan þátt í átökunum núna. En þá var kalda stríðið í algleymingi og hörmungar heimsstyrjaldarinnar í fersku minni flestra.
Hefðu Rússar látið sér nægja að innlima Donbass héruðin í austri, hefðu eftirköstin orðið miklu minni á alþjóðavísu, hygg ég.
Ekki er hægt annað en búast við sigri Rússa í yfirstandandi stríði, en alþjóðleg fordæming á því er mikil.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (3)
28.2.2022 | 11:04
3127 - Úkraina
Aldrei í veraldarsögunni hefur stríðshetja orðið til með jafn skjótum og afgerandi hætti og nú á undanförnum dögum. Það getur verið að Rússar leggi undir sig Úkrainu alla og drepi jafnvel Zelensky sjálfan, en með athöfnum sínum síðustu daga hefur hann a.m.k. breytt hugsunarhætti allra Evrópubúa og losað okkur endanlega við svínið Pútín. Sú bylting sem gjörbreytt hefur fjölmiðlun allri á án vafa einhvern hlut að máli, en þáttur Zelenskys er mikill. Hann hefur reynst sannur fulltrúi sinnar þjóðar og engum vafa er undirorpið að varnarviðbrögð Úkraníubúa hafa vakið aðdáun allra Evrópubúa og valdið Pútín og hirð hans miklum vonbrigðum. Margt á að vísu eftir að gerast í þessu stríði en þetta er ljóst nú á þessari stundu, sem er nokkuð snemma á mánudagsmorgni 28. febrúar á Íslandi.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (1)
2.2.2022 | 08:53
3126 - Ein örsagan enn
Einkennilegt með þetta bloggstand á mér. Örsögurnar virðast njóta mestra vinsælda. Þó legg ég mig ekkert sérstaklega fram við þær. Ef einhverjir bláþræðir koma í ljós við skrifin er einfalt að skrifa sig framhjá þeim. Við yfirlesturinn bæti ég fyrst og fremst greinaskilum og gæsalöppum við en breyti að öðru leyti sem minnstu. Kannski eru þessar svokölluðu örsögur einhvers virði. Hvað veit ég? Það er ekkert erfitt finnst mér að skrifa bæði blogg og dagbókarfærslur um svotil sama efnið. Ef einhver skyldi í framtíðinni lesa þetta gæti orðið mesta gestaþraut að púsla þessu saman. En mér er nú sama um það. Þar að auki skrifa ég ekki um nærri því allt sem mér dettur í hug. Skárra væri það nú.
Eiginlega er hundleiðinlegt að vera gamall. Það er svo margt sem maður gat auðveldlega hér áður fyrr, en getur ekki nú. Samt sem áður er það nú svo að flestir eða næstum allir koma vel fram við mann og af kurteisi og væntumþykju. Ekki er hægt að neita því. Þó á að sleppa veirufjandanum lausum núna og er það í samræmi við óskir þeirra sem mest hafa orðið fyrir barðinu á honum. Nú verðum við gamla fólkið að sjá um okkur sjálf að þessu leyti. Við erum ekki óvön því. Og ekki er til mikils ætlast. Við leikum okkur að því að vara okkur og erum vön því. Einkum með því að gera sem minnst og fara sér sem hægast að öllu. Verst er að sætta sig við að dauðinn situr um mann og ekki má slaka mikið á til þess að hann eiri manni ekki.
Ég er að ég held búinn að skrifa eina örsöguna til. Kannski ég láti þetta verða febrúarskrifin. Ég er ekki vitlausari en það að ég veit mætavel að kominn er febrúar. Á morgun á ég tíma hjá augnlækninum og ég er alveg fær um að aka bílnum til Reykjavíkur. Hér er semsagt sagan:
Guðmundur leit framaf hengifluginu. Alltaf fékk hann núorðið undarlega tilkenningu í hnésbæturnar ef hann leit framaf svölum á háhýsi eða framaf þverhnípri klettasnös. Þetta var ekki svona. Áður fyrr lék hann sér að því að horfa framaf mörg hundrum metra lóðréttum hamravegg án nokkurra aukaverkana. Ellin hafði að þessu leyti náð tökum á honum rúmlega sextugum. Þó fann hann sáralítinn mun á sér hvað þol og snerpu varðaði. Hann hafði jafnvel komið með þá tillögu í góðra vina hópi að vel mætti breyta spakmælinu: Allt er fertugum fært í Allt er sextugum fært. Það stuðlaði að vísu ekki eins og hið fyrrnefnda gerði, en við því var lítið að gera.
Nú var hann í fjallgöngu með nokkrum öðrum, sem hann þekkti ekki mikið. Útivistarklúbburinn sem hann var þátttakandi í hafði fyrir skemmstu auglýst ferðalag á Öræfajökul og þar sem Guðmund hafði lengi langað að fara þangað ákvað hann að slá til. Honum til nokkurra vonbrigða voru félagar hans uppteknir við annað á þeim tíma sem ferðin var ákveðin. Hann ákvað nú samt að fara.
Hópurinn taldi samtals 13 manns. Auðvitað vissi Guðmundur að margir litu á það sem óhappatölu, en hann taldi sig allsekki vera hjátrúarfullan. Þegar hann var markmaður í fótboltanum í eldgamla daga vildi hann helst vera númer þrettán. Það fékk hann nú ekki nema stöku sinnm. Að vísu náði hann aldrei neitt sérlega langt í markvörslunni. Það taldi hann þó ekki stafa af skyrtunúmerinu, heldur áleit hann sig ekki nærri nógu góðan í markinu. Og hætti því.
Það voru semsagt þrettán alls sem ætluðu sér að ganga á Öræfajökul að þessu sinni. Guðmundur áleit sig allsekki sísta göngumanninn þó hann væri sennilega elstur. Einn af ungu mönnunum var svo glænepjulega klæddur að Guðmundur var viss um að hann mundi gefast fljótlega upp.
Þeir þrömmuðu nú af stað og eftir 10 tíma voru þeir komnir ansi hátt. Þá varð á vegi þeirra jökulsprunga bæði stór og mikil.
Sá glænepjulegi var þegar þarna var komið fremstur, aldrei slíku vant. Hann stökk léttilega yfir sprunguna og beið svo eftir hinum. Þeir komu ekki en reyndu hver á eftir öðrum að stökkva yfir, en hurfi jafnskjótt í hyldýpi sprungunnar. Að lokum var enginn eftir nema Guðmundur, sem eftir langt tilhlaup stökk vandræðalaust yfir sprunguna.
Nú voru þeir bara tveir eftir; Glænepjan og Guðmundur. Þeir héldu nú áfram því þeir töldu sig engan tíma mega missa. Fyrr en varði komu þeir á topp jökulsins. Eftir myndatökur og ýmislegt sýsl sneru þeir við og fóru í slóðina sína, sem var vel sjáanleg, þrátt fyrir svolítinn skafrenning.
Þegar þeir komu að sprungunni biðu þeirra ellefu draugar og tóku þá og hentu þeim ofan í jökulinn og lýkur þar með þessari sögu, enda var enginn eftir.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
12.1.2022 | 14:10
3125 - Örsaga númer eitthvað
Hef víst klúðrað myndinni með síðasta bloggi. A.m.k. stækkaði ég hana ekki. Alltof mikið er á þessari síðu skrifað um pólitík. Kannski er það engin furða miðað við hvar þetta er. Líka er mikið fjasað um Covid-veiruna. Sumir vilja skrifa um eitthvað annað. En af því að bloggið er sagt dautt og grafið eru það bara sérvitringar og sannfærðir sjálfstæðismenn sem skrifa hérna. Heldur vil ég vera áltinn sérvitringur hinn mesti, en að vera svo sannfærður sjálfstæðismaður að ég álíta að þeir geti ekkert rangt gert. A.m.k ekki BB hvort sem átt er við Bjarna Ben eða Björn Bjarnason. Eða jafnvel einhvern alltannan.
Eiginlega ætlaði ég ekki að semja fleiri örsögur. Það er ekkert víst að þetta verði einhver saga. Ekki er ég búinn að finna uppá neinu til að skrifa um.
Það var ekki nærri kominn fótaferðartími.
Samtsem áður var frú Ásgerður á fótum.
Það kom ekki til af góðu. Hún vaknaði við brak í stiganum. Það var að vísu hætt núna, en hún var dálítið myrkfælin svona einsömul. Sigurbergur hafði farið í útkall skömmu eftir minætti. Það var víst útaf einhverjum túristum sem voru fastir uppá heiði. Nú brakaði aftur í stiganum. Það var næstum eins og einhver væri að koma upp. En þó ekki alveg. Auðvitað var fólk mismunandi léttstígt, en þetta var þó ekki alveg eins.
Kannski var það draugur. Hvernig skyldi braka í stiga eftir draug. Þetta var áhugaverð spurning og Ásgerður velti þessu fyrir sér dálitla stund. Það ætti eiginlega ekki að braka neitt. Draugar ættu að geta svifið þyngdarlaust í loftinu. Ef það brakaði hlaut það vera vegna þess að hann (draugurinn) vildi láta braka. Eða einhver væri að koma. Kannski hafði draugnum ekki tekist alveg að hafa það innbrotsþjófsbrak en það mátti alveg laga seinna meir.
Hugsanlega var þetta bara einhver sem kunni ekki að láta braka í stiga. Ásgerði rann kalt vatn milli skinns og hörunda og sveipaði sloppnum fastar að sér. Kannski var hann að koma til þess að nauðga henni. Aftur brakaði í stiganum og nú sá hún að hurðarhúnninn hreyfðist. Henni varð ekki um sel. Einhver var greinilega að koma. Bagalegt að vera ekki í neinu innan undir sloppnum. En við því var ekkert að gera. Hún sagði því stundarhátt:
Hvurslags er þetta? Af hverju ertu að læðast svona?
Hurðarhúnninn snarstansaði.
Ef til vill var þetta ekki Gísli.
Hver skyldi þetta þá vera? Kannski bara venjulegur innbrotsþjófur. En af hverju var hann að brjótast inn núna? Sennilega hafði hann séð Sigurberg fara og haldið að hann væri eini íbúi hússins. En hversvegna þá að læðast? Þetta var beinlínis dularfullt.
Hún hafði þó munað eftir að hafa byssuhólkinn með sér. Hún var ekki vitund hrædd. Frekar að hún vorkenndi þessum vesæla innbrotsþjófi, sem nú gat átt von á því að verða skotinn. Nú fjarlægðist brakið. Það var ekki um neitt að villast. Þetta brak var fjarri því að vera eðlilegt.
Skyndilega hljóp skot úr byssunni. Hún hafði alveg óvart komið við gikkinn og hann var svo kvikur að skotið hafði hlaupið úr byssunni samstundis. Verst ef þetta var eina skotið í byssunni. Hún var ekkert viss um að mörg skot hefðu verið látin í byssuna. Strax og skotið hafði hlaupið úr byssunni þagnaði brakið og nú jókst það um allan helming. Það var eins og eitthvað ylti niður stigann.
Skyndilega sá hún að byssan hafði beinst að hurðinni. Kannski hafði hún skotið það sem var í stiganum. Hún fór hiklaust að hurðinni og opnaði hana og sá að hún hafð skotið manninn sinn. Með veikum burðum sagði hann henni að hann hefði gleymt gleraugunuum sínum og ekki viljað vekja hana. Svo dó hann. Ekki fer miklum sögum að túristunum en enginn þeirra dó.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)