Bloggfærslur mánaðarins, apríl 2021
23.4.2021 | 14:14
3059 - Það er best að halda áfram
Það hefur svo sannarlega verið ætlum mín að blogga oftar en ég hef gert að undanförnu. Mér finnst afar fátt gerast nú um stundir. Það er þá helst að eitthvað gerist sem mig snertir en það má mikið vera ef sjálfmiðun mín hefur ekki farið minnkandi að undanförnu. Samt er það ekkert sérlega vitlaust að segja einkum frá sjálfum sér í blogginu sínu.
Búið er að bólusetja mig í bak og fyrir og það með fizer í bæði skiptin. Rafveningu átti ég að fara í síðastliðinn þriðjudag en þegar ég var búinn að leggjast í aðgerðarrúmið og búið að tengja mig við allskonar vélar og tæki þá var því lýst yfir að ég væri í takti og þarflaust væri að venda mér. Með það fór ég og beið svo eftir Áslaugu fyrir utan Lansann.
Eiginlega er ekkert í fréttum nema bóluefni og eldgos. Ég var eiginlega bólusettur við eldgosum í Skjólkvíargosinu í Hekluhlíðum árið 1970. Já ég var þar og það var að mörgu leyti fyrsta túristagosið á landinu. Ógleymanlegur atburður. Surtseyjargosinu man ég líka eftir og öllu af þessu taginu sem gerst hefur síðan. Ég ætla ekkert að fjalla um mína upplifun núna, en skil þessar vinsældir vel og skora á alla sem treysta sér til að fara og sjá Reykjanesgosið sem nú stendur yfir.
Einu sinni hafði ég svo mikinn áhuga á Formúlu eitt að mér fannst að allir ættu að þekkja á munstrinu á hjálmunum hvaða ökumenn um væri að ræða. Ökumenn liggja (eða lágu þá) á því lúalagi að fá stundum lánaðan hjálm hjá öðrum ökumönnum. Það gat ruglað mann og auglýsendur voru væntanlega ekki alltaf hrifnir. Að þekkja á litnum hvaða lið ætti hvern bíl, fannst mér vera líkt og að þekkja muninn á hægri og vinstri.
Stjórnmálin eru ekkert spennandi núna og verða það sennilega ekki fyrr en nær dregur kosningum. Framboðslistarnir vekja þó stundum athygli og umræður.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
9.4.2021 | 08:10
3058 - Um Villa Vill einu sinni enn
Svolítið er það nú aum útivera að fara bara út á lokaðar svalir, miðað við að fara í klukkutíma morgungöngu eins og ég er vanur. Annars er frábært gluggaveður núna og morgunganga hafin hjá hundaeigendum og fleirum.
Uppgötvaði í gær að Vilhjálmur Örn í Köben hefur gert mér þann heiður að vitna í mín bloggskrif og meira að segja seilst um hurð til að styðja mál sitt:
Í Hveragerði vann Wolf von Seefeld hjá Gunnari Björnssyni í Álfafelli, efst í bænum. Hjá Gunnari unnu margir útlendingar og reyndar fleiri gyðingar en nasistar. Sæmundur Bjarnason, sem er með áhugaverðari bloggarum landsins, vegna stíls og innihalds, minntist lettneska barónsins á bloggi sínu 14.11.2012:
Þetta skrifar Vilhjámur og vitnar í mig:
Þann 1. september 1958 vann ég í Álfafelli hjá Gunnari Björnssyni og hef verið 15 ára gamall þá. Ástæðan fyrir því að ég man þetta svona vel er að þennan dag var íslenska fiskveiðilögsagan færð út í 12 mílur, ef ég man rétt. Þann dag var starf mitt m.a. að þvo skyggingu af rúðunum í blokkinni sem var áföst vinnuskúrnum. Í Álfafelli vann konan hans Eyjólfs hennar Svanborgar. Hún var þýsk og oftast kölluð Eyfa mín. Af öðrum sem unnu hjá Gunnari um þetta leyti man ég best eftir Hansi Gústafssyni og Lettneska baróninum. Hann var nú víst bara af barónsættum og talaði svolitla íslensku. Einhverntíma var ég að tala um barónstitilinn við hann og hann gerði heldur lítið úr honum og sagði að íslendingar væru allir af barónsættum. Þetta datt mér í hug þegar ég las um ættrakningu the King of SÍS.
Já, svo gekk þessi SS-doktor í Félag Íslenskra fornleifafræðinga, sem enn hefur ekki veitt honum neinn heiður sem öðrum íslenska ríkisborgaranum með doktorspróf í einhvers konar fornleifafræði. Líklega engin þörf á því.
Ekki veit ég hvað ég hef átt við með þessu the King of SÍS en þetta hlýtur að vera rétt hjá Villa. Sjálfur hef ég forðast að vitna í sjálfan mig. Álít mig ekki ennþá vera kominn á forleifastigið þó ég sé farinn að eldast.
Annars finnst mér margt athyglisvert í skrifum Vilhjálms, en samt álít ég hann óhóflega sjálfmiðaðan og gyðingasýki hans jaðra við áráttu.
Um fréttir dagsins og fleiri smámuni ræði ég ekki. Hvað þá um stjórnmál eins og tíðkast mjög hér um slóðir. Jafnvel að menn fái línuna sína hérna. Villi í Köben hefur ekki alltaf skrifað lofsamlega um mig svo þetta er líklega tilraun hans til að viðurkenna að fleira sé til í lífinu en fornleifafræði.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
8.4.2021 | 06:53
3057 - Bara að láta vita af mér
Það er svosem heilmikið að gerast þessa dagana. Nenni ekki að skrifa um það sem allir skrifa um: Eldgos, bóluefni og þess háttar. Þó hef ég skoðanir á því öllu. Verst hvað þær breytast ört. Þegar ég lít út um gluggann er all hvítt. Þetta er alvöru páskahret. Metra að segja hér á Akranesi er svolítill snjór. Vorandi fer hann fljótlega. Snjór og hálka eru mínir verstu óvinir. Ég er orðinn svo gamall.
Horfði í gærkvöldi á þáttinn í sjónvarpinu um Skúla Helgason. Á bókina Saga Kolviðarhóls. Mamma vann nefnilega einu sinni þar, að ég held. Annars veit ég fremur lítið um foreldra mína. Eiginlega alveg skammarlega lítið.
Vilhjálmur Örn í Köben skrifaði mér um daginn um lettneska baróninn í Álfafelli. Einhver tók viðtal við mig um Concordiu Jónatansdóttur fyrir nokkru. Veit ekki hver það var, en held að hann hafi tekið það upp.
Ég ætti kannski að halda áfram að blogga. Fer sennilega í rafvendingu í næstu viku. Veit svosem ekki hvað það þýðir. Ætti kannski að fræðast svolítið um það á Netinu.
Sem betur fer eru það ekki margir sem lesa þettta bull í mér. Einhverjir virðast samt gera það.
Best að hafa þetta sem allra styst, þá talar maður síður af sér.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (8)