Bloggfærslur mánaðarins, maí 2020

2655 - Bóluefni

Er einhver sérstök ástæða til að bjarga Flugleiðum? Mér finnst það ekki. Að vandræði þeirra séu flugfreyjum að kenna eða flugmönnum er fjarstæðukennt í meira lagi. Fyrirtækið er sennilega bara illa rekið. Öll flugfélög í heiminum eiga í miklum vandræðum um þessar mundir. Áðan sá ég þotustrik á himninum, en þau eru jafnsjaldséð núorðið og sumir fuglar. Að Flugleiðir, eða Icelandair eins og þeir kjósa víst að láta kalla sig, geti e.t.v. bjargað þeim sem látið hafa peninga sína í hótelbyggingar að undanförnu er vonarpeningur í besta falli.

Þær þrengingar sem kunna að vera í vændum fyrir okkur Íslendinga kunna að vera miklar og margvíslegar. En hvort sem þær verða af efnahagslegum toga eða öðrum er ekki um annað að ræða en að standa saman þar til þær eru að mestu yfirstaðnar. Pólitískar hræringar kunna að verða miklar og engin leið er að spá neinu um hvernig þær verða. En hvernig sem allt veltist og snýst munum við komast út úr þessum þrengingum og takast á við framtíðina.

Engir svelta á Íslandi (skilst mér) og alltaf er hægt að fara uppávið með kröfurnar og á margan hátt höfum við það bara fjandi gott hérna. Jafnvel í Bandaríkjunum, sem margir álíta himnaríki á jörð, er faraldursaðstoð við almenning meiri en samskonar aðstoð við fyrirtæki. Að flestu leyti höfum við Íslendingar farið ótrúlega vel útúr þeim hremmingum sem Covid-19 hefur valdið í veröldinni. Ef bóluefni finnst fljótlega, og við höfum efni á að kaupa það, gætum við vel flotið ofaná.

Framtíðin verður ef til vill talsvert öðruvísi en við gerðum ráð fyrir, en við þvi er ekkert að gera. Hvernig hún verður, að loknum þessum veirufaraldri er ekki nokkur leið að vita. Við sem elst erum munum hverfa héðan áður en mjög langt um líður. Þegar við vorum að alast upp um miðja síðustu öld var tuttugasta og fyrsta öldin langt í fjarska og mörg okkar gerðum ráð fyrir að hún yrði með öllu áhyggjulaus og vissulega er hún það, ef miðað er við þau gildi sem þá var notast við.

IMG 5931Einhver mynd.


2954 - Ramadan

Menn láta núna eins og faraldurinn sem kvalið hefur okkur að undanförnu, sé liðinn hjá. Svo er ekki og eins og Þórólfur segir, þá má alltaf búast við að hann blossi upp aftur. Á meðan er upplagt að æfa sig á því að láta eins of ekkert sé. Jafnvel að bæta sig eitthvað. Sérstaklega þó í almennum sóttvörnum og bakteríuhræðslu.

Mestra vinsælda í blogginu virðist pólitíkin njóta. Þetta hef ég þráfaldlega rekið mig á. Ef fyrirsagnirnar benda til þess að um stjórnmálaerjur sé að ræða eru miklu fleiri sem áhuga virðasta hafa. Tala nú ekki um ef í fyrirsögninni er nafn sem tengist pólitískum  deilum eða einhverju þessháttar. Kannski á þetta einkum við um Moggabloggið. Ég veit það ekki.

Minnir að það hafi verið Sigurður Þór Guðjónsson, sem hrósaði fésbókinni ótæpilega fyrir alllöngu síðan. Hann var mjög öflugur á Moggablogginu þá. Hann sagði það lítinn vanda að komast hátt í vinsældum á Moggablogginu. Á fésbókinni væri hinsvegar mesta fjörið. Þó Moggabloggið sé um margt gallað, er mjög gott hve einfalt það er.

Með “intermittent fasting“. Já, ég veit ósköp vel að þetta er enskusletta, en skilst vonandi. Er hægt að láta eins og það sé ekki megrunarkúr. Samt er ég ekki eins feitur og ég var. Ef maður fer snemma á fætur, eins og ég geri oft, er ansi langur tími til hádegis. Oftast borða ég óþarflega mikil þá, en ég er að ná tökum á þessu. Ramadan er óneitanlega ágætishugmynd. Og henni er oftast hlýtt. Stjórnmál og trú blandast samt yfirleitt illa.

IMG 0005aEinhver mynd.


2953 - Tobbi og Gróa

Sennilega er stórhættulegt að vera frægur. Þeir sem eru frægir eða þekktir eru oft sakaðir um allan fjárann. Stundum eiga þeir fullt í fangi með að verja sig. Sumir þurfa ekki að verja sig. Þetta fer nú að líkjast þulunni frægu hjá mér.

Ef sumir væru við suma
eins og sumir eru við suma
þegar sumir eru frá.
Væru sumir betri við suma
en sumir eru við suma.
þegar sumir eru hjá.

Ekki veit ég hvort Gróa á Leiti hefur samið þetta. Æri-Tobbi gerði líka oft skemmtilegar vísur.

Urgara surgara urra rum,
illt er að vera í Flóanum.
Þambara vambara þeysings klið,
þó er enn verra Ölfusið.

Sko. Þetta mundi ég. Næst er ég að hugsa um að fjalla um bakteríuhræðslu. Hún stendur sumum fyrir þrifum og getur hæglega farið útí öfgar. Sagt er að hinn frægi Howard Hughes hafi undir lokin verið svo bakteríuhræddur að nálgaðist sturlun. Veit samt ekki mikið um hann. Allt má gúgla. Allir geta verið besservisserar ef þeir komast einhvernstaðar í tölvu. Í framtíðinni verða öflugar tölvur svo smáar að hægt verður að fela þær í lófa sínum og tala við þar. Gott ef þær verða ekki hugsanalesarar líka. Las nýlega um mann sem hvort eð er var með gerviauga öðru megin og í stað þess setti hann þar litla videotökuvél. Þetta er framtíðin.

Sóttvarnaráðherrann sjálfur hefur sagt að ef ástandið í Svíþjóð væri heimfært uppá litla Ísland hefðu ca. 70 drepist hér en ekki 10 úr kórónuveiru-veikinni. Kannski er þetta alveg rétt. Hugsanlegt er að eitthvað að þeim fjármunum sem þessi faraldur hefur kostað okkur hefði sparast með slíkri aðferðafræði. En hefði það svarað kostnaði?

IMG 0018Einhver mynd.

 


2952 - Hinn nýi fjórflokkur

Samkvæmt nýjustu skoðanakönnun er hinn nýi fjórflokkur samsettur úr Sjálfstæðisflokki, Samfylkingu, Pírötum og Vinstri grænum (einkennisstfir, einhver.) Miðflokkurinn og Viðreisn koma næst á eftir. Hvar er Framsóknarflokkurinn eiginlega? Er Sigmundur alveg búinn að drepa hann? Sósíalistaflokkurinn og Flokkur fólksins koma svo í humáttina.

Vírusinn er sennilega á undanhaldi. Samt er það svo að smit fannst um daginn í Heiðaskóla í Hvalfjarðarsveit, en af því Kári fann það eða Íslensk erfðagreining, er ekki lögð ofuráhersla á það. Sjálfskipaðri sóttkví verður kannski haldið eitthvað áfram, en ekki er hún eins afgerandi og áður. Veiran er samt hættuleg. Sóttvarnalæknir er einskonar einvaldur á landinu. Andstyggð hans á grímum er undarleg. Kannski veitir hún falskt öryggi, en ég mundi samt halda að hún drægi eitthvað úr líkum á því aðrir mundu smitast og auk þess er hún einskomar auglýsing.

Minnir að Þorsteinn Antonsson rithöfundur hafi skilgreint sjálfan sig með asperger-heilkenni. Ekki er það á allra færi að sjúkdómsgreina sjálfa sig. Einu sinni las ég allt eftir hann sem ég náði í og hafði mikinn áhuga á því sem hann skrifaði. Sumt af því sem sagt er að sé hægt að nota til skilgreinigar á asperger heilkenninu gæti átt við mig, en allsekki allt.  Eitt af þessum atriðum er að vera með undarleg áhugamál. Einu sinni var ég algerlega gagntekinn af skák. Sama er að segja um frímerki. Einnig bókmenntir. Þetta finnst mér allsekki undarlegt. Auðvitað er betra að sálgreina aðra.

IMG 6044Einhver mynd.


2951 - Litla land

Nú er klukkan að verða tíu á miðvikudagsmorgni. Að mörgu leyti er þetta fyrsta vikan í veirulausu (eða hérumbil) Akranesi. Á mánudaginn fór ég á bókasafnið. Er nú byrjaður að lesa bók sem heitir „Litla land“. Veit ekkert um hana annað en það að þetta er skáldsaga og fjallar að einhverju leyti um þjóðarmorðin í Rúanda og Búrúndí. Ég hef aldrei getað greint almennilega þar á milli og heldur ekki á milli Tútsa og Hútúa. Ég rugla þessu oft saman. Kannski hætti ég því ef mér tekst að lesa þessa bók til enda.

Í gær, eða var það í fyrradag, fór ég í fyrsta sinn eftir sjálfskipuðu sóttkvína út í Bónus. Þar hitti ég Guðmund Vésteinsson, en gat lítið við hann talað vegna tveggja metra reglunnar. Var semsagt við kassann. Eitthvað var hann að tala um Lilju, sennilega ætti maður að fara að athuga meira með þá sem óforvarendis voru skikkaðir til að vera með manni í bekk á Bifröst.

Kannski ætti maður að blogga núna þrátt fyrir allt. Fésbókin er kannski vanmetin af okkur sem ekki erum verseraðir í henni. Markverðustu umræðurnar fara sennilega fram í hópum, en ég hef aldrei komist upp á lag með að nota þá. Bloggið er víst bara fyrir ellibelgi sem vilja láta taka eftir sér. Fésbókin verður það sennilega á endanum líka. Þeir sem bera virðingu fyrir þessari fjárans bók kalla hana Fasbók eða eitthvað þaðan af verra. Einfaldast er sennilega að bregða bara fyrir sig enskunni og kalla hana Facebook. Kært barn hefur mörg nöfn segir í einhverjum fornum málshætti.

IMG 6050Einhver mynd.


2950 - Fimmti maí

Bandarískir ráðamenn halda því fram að Kínverjar hafi leynt því hve skæð og smitnæm Covid-19 veiran væri í raun og veru, til þess að geta náð áhrifum sem víðast og okrað á útbúnaði til þess að takast á við hana. Hvort sem okkur líkar það betur eða verr er greinilegt að hið nýja kalda stríð sem í uppsiglingu er mun verða milli Bandaríkjanna og Kína fyrst og fremst. Rússland og Efnahagsbandalagið munu verða á hliðarlínunni. Aðrar þjóðir og samtök skipta minna máli. Einangrunarstefna Trumps mun bíða hnekki, hvort sem það verður í kosningunum í haust eða eftir 4 ár.

Þetta hlýtur að vera einhver vitleysa. Þegar ég skoðaði Moggabloggslistann síðast var ég í níunda sæti á vinsældalistanum. Þangað ætlaði ég mér allsekki. Mér finnst óþægilegt að hugsa til þess að einhverjir taki mark á því sem ég skrifa. Þetta er hugsað sem einskonar dagbók. Þessar hugleiðingar mínar um heimsmálin og þjóðmálin eru engum ætlaðar. Þetta er opið öllum, en ekkert auglýst. Hugsanlega hafa aðrir samt áhuga á þessu. Kannski er leikurinn til þess gerður hjá mér að tekið sé mark á mér. Sínum eigin hug er erfiðast að botna í.  Í dag er 5. maí. Það er á margan hátt merkilegur dagur. En um það ætla ég ekki að fjölyrða hér.

IMG 6049Einhver mynd.


2949 - Sólskin og hiti á Sunnudagsmorgni

Dagurinn í dag er talsverður hátíðisdagur. Þetta er vonandi upphafið að því að við losnum við veiruskrattann. Í gærmorgun eftir að ég var búinn að blogga svolítið, fór ég í 5 kílómetra langa morgungöngu. Hún var næstum of löng fyrir mig. Var dauðþreyttur eftir hana. Venjulega fer ég ekki nema 3 kílómetra. Alltaf hrekkur maður jafnmikið við þegar mávahláturinn skellur á manni eða brjálað hjólreiðafólk þeysir framúr manni á 60 til 70 kílómetra hraða, þegar maður heldur sig vera einan í heiminum. Auðvitað er maður það ekki.

Í flestum hefðbundnum distópíusögum eru faraldrar yfirleitt mun mannskæðari en þessi Covid-19 virðist vera. Oftast verða stjórnvöld alveg óvirk o.s.frv. og býður það heim hvers konar mótmælum og óaldarflokkum. Þessi faraldur er samt alveg nógu skæður. Ég fellst allsekki á að hann sé eins og hver önnur flensa. Hve há dánartalan er í raun og veru og hve alvarlega fólk veikist sem fær þessa veiki á að mestu eftir að koma í ljós.

Það er alls ekki rétt að Svíar hafi ekki gert neitt til að hefta útbreiðslu sjúkdómsins og vernda þá sem veikastir voru. Aðferðir þeirra voru kannski mun afslappaðri en flestra annarra. Samt er talið að þeir hafi ekki náð nema um 30% ónæmi. Það er ekki nærri nógu mikið til að kallast almennilegt hjarðónæmi eftir því sem Þórólfur æðstiprestur segir. Það væri kannski í lagi ef bóluefni gegn þessum sjúkdómi væri fyrir hendi. Ekki er loku fyrir það skotið að fordæmi þeirra verði fylgt í framtíðinni þegar búið er að hanna nógu gott bóluefni. Ef það kemur fljótlega er við því að búast að slegist verði um það. Den tid, den sorg.

Gísli Ásgeirsson er ágætis bloggari og er reyndur þýðandi með sérstakt vefsetur sem hann kallar „Málbeinið“, Að mörgu leyti má segja að hann hafi orðið fyrir barðinu á fésbókinni en kannski hefur hann aldrei bloggað á Moggablogginu. Stefán Pálsson sagnfræðinur og Ágúst Borgþór Sverrisson rithöfundur voru á sínum tíma líka öflugir bloggarar og ég er ekki frá því að ég hafi lært talsvert af þeim.

IMG 6051Einhver mynd.


2948 - Kórónufaraldurinn og afleiðingar hans

Þessi blessaður kórónuveiki faraldur mun á margan hátt breyta öllu. Persónulega hefur hann samt nær engu breytt hjá mér. Ferðalög og fjöldasamkomur munu verða lengi að ná sér að nýju. Afreksíþróttir munu seint bíða hans bætur og þannig mætti lengi telja.

Á margan hátt er skjól í þeim lifnaðarháttum sem við höfum tamið okkur. T.d. hefðum við hjónin, sem einstaklingar vel getað farið illa útúr kórónuveirufaraldrinum ef við hefðum ekki haft skjól af íbúðinni okkar og afkomendum. Hjá öllum okkar blundar ævintýraþrá. Hvað ef við hefðum nú gert þetta eða hitt. Þegar komið er á efri ár verður okkur ljóst að það hefði verið hægt að lifa lífinu allt öðru vísi.

Nú fer ég víst bráðum að útskrifast úr skóla lífsins. Ekki svo að skilja að ég sé að drepast. Maður er bara alltaf, alveg fram á gamalsaldur, að læra eitthvað nýtt. Eiginlega er ég dauðfeginn að veiruskrattinn skuli hafa komið núna eftir að ég er hættur að vinna. Allt sem maður þó lærir af Þórólfi og þeim í þríeykinu er fullseint að komast að núna. Jú jú, Trump er svosem vitlaus þó þau vilji ekki viðurkenna það. En af hverju er hann vitlaus? Er það vegna þess að Pressan er á móti honum. Stundum er hann hafður fyrir rangri sök. Annars ætla ég ekki að fjölyrða mikið um hann núna. Eiginlega er hann núll og nix. Pólitíkin líka.

Einhverntíma var ort svo um Sölva Helgason, sem oft var á ferðinni sem umrenningur:

Heimspkekingur hér kom einn á húsgangsklæðum.
Með gleraugu hann gekk á skíðum.
Gæfuleysið féll að síðum.

Þetta er vel sagt. Hálfkæringur og hótfyndni nútímas nær þessu ekkert betur. Allir, og ég meðtalinn, reyna að sýnast voða gáfaðir, en eru það ekki. Sumir hafa sína Jósefínu til að taka á sig allar vitleysurnar og skammsýnina og svo eru sumir áhrifavaldar í smátíma, þó þeir hafi ekkert (eða lítið) til þess unnið. Auglýsendur verða einhvernvegin að koma sínum boðskap að. Sumir eru alla sína tíð gangandi sundlaugar án þess að vita það.

IMG 6052Einhver mynd.


2947 - Aldís Hafsteinsdóttir

Segja má að það sé ráðherraígildi að vera formaður Sambands Sveitarfélaga á landinu. Aldís hans Hafsteins í Ísgerðinni í Hveragerði er nú komin í það óeftirsóknarverða embætti. Strax lendir þeim saman henni og Sólveigu dóttur hans Jóns Múla Árnasonar sem ég held að sé sannfærður sósíalisti. Voru þeir það ekki bræðurnir hann og Jónas? Ekki ætla ég mér að taka afstöðu í því máli sem þær deila um, þekki það einfaldlega ekki nógu vel til þess, en fróðlegt verður að fylgjast með því. 1.maí var víst í gær og það og veirufaraldurinn gera þetta mál sennilega athylisverðara en ella. Almennt tek ég þó fremur afststöðu með launafólki en atvinnurekendum. Litlar framfarir í verkalýðsmálum hefðu orðið hér á landi ef alltaf hefði verið farið eftir lögum og lögfræðiálitum. Þó veit ég ósköp vel að ekki eru allir vinnuveitendur slæmir.

Kannski er ég allur í ættfræðinni því einu sinni vann ég í Steingerði í afar stuttan tíma. Þar vann pabbi og Bjarni Tomm var verkstjóri þar. Man ekki betur en ísgerðin hafi fyrst verið til húsa í gamla og fræga frystihúsinu sem Holsteinaverksmiðjan var í, og sem Teitur frá Eyvindartungu stjórnaði. Já, ég er gamall Hvergerðingur og skammast mín ekki vitund fyrir það.

Kyndillinn minn eða spjaldtölvan er helsta samband mitt við umheiminn hvað bækur snertir. Og svo auðvitað bókasafnið, bækur kaupi ég helst ekki núorðið. Skáldsögur, svo ég tali nú ekki um krimma les ég helst ekki. Sagnfræði og almenn vísindi má segja að séu mitt aðaláhugamál. Þar er ég kannski sumsstaðar sæmilega heima. Pólitík leiðist mér yfirleitt. Les þó talsvert um bandarísk stjórnmál. Aðallega vegna þess að þau eru svo skrýtin.

Sumir eru snoknir fyrir langlokum. Vilhjálmur Örn Vilhjálmsson bloggar nú sem aldrei fyrr undir nafninu Fornleifur og langlokur henta honum bærilega. Það er allsekki hans veikleiki að bloggin hans eru yfirleitt löng. Þau eru oft mjög fróðleg og athyglisverð. Hann er samt leiðinlega mikill besservisser og að hans áliti eru allir aðrir óttalegir fábjánar. Sjálfsálit hans virðist vera a la Trump. Að vísu, og kannski sem betur fer, er hann aktívur á takmarkaðra sviði en Trumpsi. Bloggið hans er samt yfleitt alltaf neikvætt í garð annarra.

Það sem ég hef kannski komist spakmæli næst er þessi setning mín: Þú átt ekki að leita að fréttum, þær eiga að finna þig.

IMG 6066Einhver mynd.


2946 - Krumminn hjá Byko

Nú er ég meira og minna að detta í þann gírinn að blogga daglega. Ekki er það efnilegt. Varla get ég stytt bloggin mín meira. Gæti jafnvel farið að skrifa á fésbókina, ef þetta heldur áfram svona. Segi bara svona. Held að ég sé ekki svoo langt leiddur. Meina ekkert með þessu. Man eftir vörubílstjóra sem skrifaði eitt sinn á Imbu. Imba var tölva á Menntanetinu. Sagðist hafa meirapróf. Kannski sagðist hann bara vera meiraprófsbílstjóri. Er ekki viss. Gott ef hann hét ekki (eða heitir) Guðmundur Ólafsson. Svo var líka einhver Þór Eysteinsson alltaf að flækjast þarna, á Imbunni hans Péturs á Kópaskeri. Páll Baldvin sagðist vera skólabróðir hans. Altsvo Péturs. Sennilega eru allir þessir menn skrifsjúkir eins og ég. Hvort sem þeir hafa eitthvað að segja eða ekki. Ekki hef ég neitt að segja. Samt er ég sískrifandi. Bloggskrifin lærði ég að mestu af Hörpu Hreins og Jónasi Kristjánssyni. Ýmsir fleiri komu þar við sögu.

Eiginlega er ekki á nokkurn mann leggjandi að skrifa eingöngu á fésbókina. Sjáið hvernig það hefur farið með efnilega menn eins og Björn Birgisson í Grindavík og Sigurð Þór Guðjónsson. Þeir eru greinilega báðir skrifsjúkir eins og fleiri og gera varla annað en skrifa á fésbókina. Ekki held ég að þeir hafi samt hent mér af vinalistanum. Það hlýtur bara að vera einhver yfirsjón. Sennilega væri mér hollast að hætta þessu „name dropping“. Er ekki nógu góður í því.

Íhaldshrókur afleitur
innan sviga graður.
Þrammar áfram þrefaldur
Þorsteinn kvæðamaður.

Það var að ég held Þór Benediksson (bróðir Áslaugar) sem kenndi mér þessa vísu. Veit ekkert eftir hvern hún er.Gæti samt sem best átt við Þorstein Siglaugsson sem hefur gert talsvert af því undanfarið að kommenta á þetta blogg hjá mér. Jafnvel Steina Briem, sem einu sinni kommentaði oft hjá mér, en er talsvert fælinn og fór víst eitthvert annað.

Krummi hjá Byko á Selfossi er búinn að unga út eggjunum sínum. Sá í gærmorgun að hann var að éta eggjaskurn og skömmu seinna sá ég að hann var að sinna einum fimm ungum, sem voru komnir í hreiðrið hjá honum. Nóg að gera við að finna einhverja fæðu handa þeim.

IMG 6073Einhver mynd.


« Fyrri síða

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband