2962 - Brúarhlöð

Nú er kominn tími til að ég bloggi smá. Já, við fórum í Hveragerði og í sumarhúsahverfið við Úthlíð um síðustu helgi. Maður hagar sér næstum eins og Covid-19 veirusýkingin sé bara vondur draumur. Sennilega veldur þessi faraldur talsverðum eða miklum þrengingum í efnahagslegu tilliti hér á Íslandi eins og annarsstaðar. Held samt að það að við virðumst hafa unnið nokkuð góðan sigur í fyrstu lotunni komi til með að hjálpa okkur að lokum. Þó er allsekki víst að ferðamennirnir komi aftur þegar við viljum. Líka er eftir að sjá hvernig stóra Flugleiðamálið leysist.

Kannski þessi veirufaraldur verði okkur á endanum til góðs. Auðvitað koma allsekki allir til með að græða á þessu. Ekki einu sinni óbeint. Þeir sem voru svo vitlausir að byggja Hótel fyrir alla sína peninga og treysta á ríka túrista koma ef til vill til með að tapa á þessu öllu saman. Sama eða svipað er að segja um allstóran hluta þeirra sem missa atvinnuna.

Vitanlega er afleitt að vera undir náð og miskunn útlendra flugfélaga kominn. En það er líka slæmt að henda milljarðatugum í illa rekið flugfélag bara af því að það er ekki frá útlandinu. Að sjálfsögðu þarf að finna atvinnu fyrir allt það fólk sem missir hana ef Icelandair fer á hausinn, en kannski má nota milljarðatugina sem sparast við að styrkja ekki þetta vonlausa félag, til að finna góða atvinnu fyrir það fólk.

Eins og ég sagði áðan fórum við hjónin til Hveragerðis og gistum á Hótel Örk í tvær nætur. Hittum í Hveragerði ættingja og borðuðum fínan kvöldverð í Skyrgerðinni, sem einu sinni var Hótel Hveragerði. Allt var upppantað til slíkra nota hjá Örkinni föstudags- og laugardagskvöld svo kannski þurfa eigendur þess ekki að kvarta. Á laugardag fórum við uppað Úthlíð og síðan að Brúarhlöðum. Fremur fáir voru á ferðinni við Geysi, og kannski vantar þar útlenda túrista. Ennþá færri voru við Brúarhlöð eða réttara sagt engir, en kannski eru túristarnir ekki búnir að finna þann stað.

IMG 5891Einhver mynd.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Þorsteinn Briem

Túristana treysta á,
telja milljarðana,
frú og Sæmi ferðast smá,
fór á Örk með hana.

Þorsteinn Briem, 25.5.2020 kl. 18:18

2 Smámynd: Sæmundur Bjarnason

Yrkir mikið Steini stuð
stríðir túrhestonum.
Trúir hann á gamla Guð
gríðarlega að vonum. 

Sæmundur Bjarnason, 26.5.2020 kl. 06:44

3 Smámynd: Þorsteinn Briem

Ferðast smá og flengist um,
fagra náttúruna,
ekkert er þar fát og fum,
fór á ball í Hruna.

Þorsteinn Briem, 26.5.2020 kl. 08:19

4 Smámynd: Sæmundur Bjarnason

Ball í Hruna bíða má
Brúarhlöðin seiða.
Fumið ekki fengu þá
fékk það Steina leiða.

Sæmundur Bjarnason, 27.5.2020 kl. 22:32

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband