Bloggfærslur mánaðarins, apríl 2020

2934 - Langtímaáhrif veirunnar

Fréttir eru alveg ömurlegt áhugamál. Að „venjulegar“ fréttir skuli á einu andartaki (eða einum mánuði) geta breyst í covidfréttir er hryllingur. Kannski eru venjulegar fréttir ekkert skárri. Oftast nær fjalla þær um einhverskonar ömurleika. Þær eru samt fjarlægari. Nú finnur maður greinilega hvað það gæti verið gott að eiga sér áhugamál sem hægt væri að sökkva sér í. Gleyma öllu þessu kovitakjaftæði og hugsa bara um eitthvað annað, eða jafnvel ekki neitt.

Ég var að hugsa um að gera þetta „intermittent fasting“ að mínu áhugamáli númer eitt, en er snarhættur við það. Alltof margir virðast líta á þetta sem einn megrunarkúrinn til viðbótar. Ekki geri ég það. Lít fremur á þetta sem lífstílsbreytingu. Sá 16/8 fésbókarhóp um þetta og leist ekkert á. Svo maður fari nú aftur að tala um bölvaða kovítveiruna þá er ekki að sjá að hún láti yngra fólk neitt í friði þó því hafi verið haldið fram. Mest stansar mig á því að hvergi skuli hafa komið til óeirða, einsog venjulega gerist í dystópíubókum. Bókmenntir eru nú eiginlega einn ömurleikinn til viðbótar. Ekki er hægt með góðu móti að hafa áhuga á lygasögum þegar raunveruleikinn er miklu magnaðri. Kannski er veðrið bara best sem áhugamál. Það er samt ömurlegt eins og er. Batnar samt kannski á undan kovitfjandanum.

Mér virðist allt benda til þess að í fyrsta lagi muni íþróttalíf svotil allt endurfæðast seint næsta haust í fyrsta lagi. Fyrsta íþróttakeppnin verður væntanlega forsetakosningarnar í Bandaríkjunum. Auðvitað er það ekki hefðbundin íþróttakeppni, en spennandi samt. Kannski verður þeim frestað líka. Allar líkur eru á að fram að þeim tíma, semsagt til byrjunar nóvember næsta haust, verði ekkert að gerast á íþróttasviðinu né annarsstaðar. Í hæsta lagi að sagt verði frá því með heimsstyrjaldarletri að hinum og þessum leiðist aðgerðarleysið. Svo verður náttúrulega efnahagslífið í rúst.

Íþróttafrík munu sennilega sakna ýmislegs, en við því er ekkert að gera, mannslíf eru víst mikilvægari. Ekki hef ég orðið var við spádóma um að sumarið sé ónýtt til allra meiriháttar boltaleikja, en mjög hætt er við því að sú verði raunin. Íslandsmeistarmótið í krass-spyrnu mun ekki fara fram, en hugsanlegt er að golfmót fari fram, áhorfendalaus samt.

Lúsmýið mun ráða alfarið á helstu sumarleyfisstöðum. Einstaka þöngulhausar munu fara í skógarferðir einir saman og koma aftur lúsbitnir mjög. Á sama hátt og tjaldferðir lögðust af í hitteðfyrra mun útilegumaðurinn í Mosfellssveit fara á hausinn. Tjaldvagnar og fellihýsi munu komast í tísku aftur. Ég er semsagt strax farinn að hugsa um sumarið og haustið. Ekki er ráð nema í tíma sé tekið. Kannski hverfur snjórinn einhverntíma.

Hugsanlega lærir mannkynið eitthvað á þess vírusævintýri sínu. Mér er svosem sléttsama þó ég komist lítið útúr húsi. Mér leiðist aftur á móti þetta sífellda óveður. Er ekki kominn tími til að leggja veðurstofuna niður. Óvitlaust er að setja svona fáránlega fullyrðingu á blað, eins og þetta með niðurlagningu veðurstofunnar. Þar með er það næstum öruggt að enginn tekur neina aðra vitleysu, sem sett er í þetta blogg, alvarlega. Getur virkilega hver sem er skrifað hvaða vitleysu sem honum eða henni dettur í hug? Já, þannig virkar ritfrelsið. Ekki lætur það að sér hæða.

IMG 6216Einhver (ömurleg) mynd.


2933 - Duterte

Eiginlega kemur það ekkert á óvart þó Duterte á Filippseyjum hafi að sögn hótað að skjóta þá sem ekki virða sóttkvína sem þar hefur verið komið á. Víðir hefur alls ekki viljað ganga svo langt. Jafnvel að hann hafi viljað taka með silkihönskum á þeim sem ekki „hlýða Víði“.

Hvort er ég að smita aðra, eða aðrir að smita mig? Þessari spurningu er vandsvarað. Mér finnst einhvernvegin að ég geti ekki verið að smita aðra, en í sjálfu sér veit ég ekkert um það og sennilega finnst öðrum að ég sé að því.

Nokkrar spurningar eru það varðandi þessa veiru sem ég vildi gjarnan fá svör við. T.d. langar mig til að vita hvort þeir sem farið hafa í sóttkví, geti átt von á því að fara aftur í samskonar sóttkví. Einnig langar mig að vita hvort þeir sem sýkst hafa geti átt það á hættu að sýkjast aftur. Er eitthvað vitað um mögulegt ónæmi og þá einnig hvort þeir sem ónæmir eru taldir vera sýni einhvers konar svörun við sýnatöku. Mundi mótefnamæling gera það?

Eiginlega ætti maður að skrifa um eitthvað annað en bévítans veiruskrattann. T.d. fótbolta. Já, vel á minnst ég gæti einmitt minnst á fótboltann.

Ég er nú enginn stuðningsmaður Liverpool í fótboltanum. Langt frá því, frekar að ég sé á móti þeim. Samt er það svo að ég verð að viðurkenna a væri ósanngjarnt gagnvart þeim ef þessu yfirburðaliði yrði neitað um opinbera viðurkenningu á því að vera Englandsmeistarar í þessum vinsæla boltaleik þetta árið. Þeir hafa einmitt sýnt fáheyrða yfirburði í því sambandi. Annars leiðist mér núorðið allt tuðruspark þó ég hafi í eina tíð þóst hafa einhverja hæfileika á því sviði.

Nú sé ég tvær blaðsíður í einu á tölvuskjánum og kann ekki að breyta því til baka. Annars er skjárinn sá arna allur á breiddina svo kannski er þetta bara til bóta. Þarf sennilega svolitið að venjast því samt.

-Nú ætla ég að drífa í þvi að yrkja eitt órímað prósaljóð.

  • Af hverju prósaljóð?
  • Af því að ég kann ekki annað. Einu sinni kunti ég eða kunni að yrkja undir fáeinum rímnaháttum en ég kann ekkert í snonnettusmíði eða þessháttar.
  • Já, haltu þá áfram.
  • Sko, einu sinni hélt ég að með því að klæða aðra eða þriðju hverja hugsun í orð þá mætti nálgast einhvers konar skáldskap.
  • En ertu hættur að halda það.
  • Já, að mestu leyti. En nú ætla ég að hugsa pínulítið áður en ég set næstu orð á blað.
  • En ekki er vert að hugsa of mikið.
  • Þá er að varast það.
  • Af hverju ætli wordið hagi sér svona undarlega?
  • Ekki veit ek þat.  

IMG 6222Einhver mynd.


2932 - Drífa Snædal

Held að það sé talsvert mikið ofílagt að halda að eitt til tvöhundruð þúsund muni deyja í Bandaríkjunum af völdum Covid-19 veirunnar. Alltaf þegar ég sé eitthvað tölulegt um US þá heimfæri ég það uppá Ísland alveg ósjálfrátt. Það er fremur auðvelt því Bandaríkjamenn eru u.þ.b. þúsund sinnum fleiri en við. Samkvæmt þessari kenningu ættum við Íslendingar að missa svona 100 til 200 manns í þessari plágu. Það finnst mér afar ótrúlegt. Kannski koma andlát nokkurra tuga Íslendinga til greina, en allsekki meir. Því neita ég alfarið að trúa.

Þorsteinn Siglaugsson var vanur að kommenta mikið á þessa síðu. Hann er alveg hættur því. Stuðningsmaður Frosta er hann orðið mikill. Honum finnst Þórólfur og Co. vera að gera tóma vitleysu. Það held ég allsekki. Það er raunar hálfskrýtið að manni eins og honum (Þórólfi) skuli hafa verið þrýst í það að taka svona veigamiklar ákvarðanir eins og hann hefur óneitanlega gert eða þurft að gera. Þó er hann eiginlega bara starfsmaður Landlæknisembættisins. Að vísu yfirmaður sóttvarna þar. Stjórnmálamenn hafa að mestu leyti kúplað sér útúr því að taka ákvarðanir varðandi farsóttina sjálfa og er það vel. Nóg er nú samt. Vissulega má deila um ýmsar efnahagslegar ákvarðanir ríkisstjórnarinnar. Þó samstaða um þær sé mikið umtöluð fer allsekki hjá því að menn búi sig undir miklar deilur hvað það snertir. Sjálf þykist ríkisstjórnin  hafa gert vel, en flestir hallast að því að of lítið sé að gert. Þó virðist samkvæmt skoðanakönnunum að vinsældir hennar hafi aukist.

Eitt helsta vandmál mitt í sambandi við þessi bloggskrif er að mér leiðist óttalega að þykjast alltaf vera svona gáfaður. Þetta er bara eðli mitt. Ég get ekki öðruvísi verið né að þessu gert. Að miklu leyti er allt okkar líf einn allsherjar þykjustuleikur. Innsta eðli sitt lætur enginn í ljós. Allt okkar líf er um dauðann. Hann litar allt saman. Þessvegna er það mikilvægt þroskastig hjá börnum þegar þau gera sér grein fyrir því að þau eru ekki ódauðleg. Þeim getur fundist að dauðinn sé mjög fjarlægur, en samt er hann alltaf til staðar. Þegar maður gerist gamall færist hann að sjálfsögðu nær og nær. Auðvitað sér maður eftir ýmsu, sem maður hefur gert eða vanrækt að gera. Vel hefði verið hægt að lifa lífinu allt öðruvísi.

Stend með Drífu í ASÍ-málinu. Verkalýðurinn á fyrst og fremst að hugsa um sjálfan sig, ekki fyrirtækin. Þó Vilhjálmur sé Akurnesingur og Ragnar Þór hafi frelsað VR undan ofurvaldi Sjálfstæðisflokksins er ég þeirrar skoðunar að þeir séu bara fúlir yfir því að hafa tapað fyrir Drífu. Hún er forseti ASÍ og stendur sig bara vel þar.

IMG 6226Einhver mynd.


« Fyrri síða

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband