Bloggfærslur mánaðarins, apríl 2020

2945 - Er Kim dauður?

Kim Il Sung, Kim Jong Il og núna Kim Jong Un. Þeir eru víst hver undan öðrum. Sungarinn afi þess núverandi, sem sennilega er verstur. Blóðþyrstur harðstjóri eftir því sem sumir Bandaríkjamenn segja. Ekki þó Trump. Hann kallaði Unarann „Little Rocket Man“, ef ég man rétt. Eins gott að hafa þessi nöfn á hreinu, ef maður skyldi þurfa að skreppa til Norður-Kóreu. Sumir segja að Unarinn sé dauður, eða algjört grænmeti eftir misheppnaða hjartaskurðaðgerð. Kannski er Kim einskonar ættarnafn. Venjulega eru ættarnöfn ekki höfð fremst, en því ekki það? Ekki eru nafngiftarsiðir okkar Íslendinga álitnir sérlega skynsamlegir af öllum.

Ef spekúlerað er í heimspólitík er óhjákvæmilegt að velta Norður-Kóreu fyrir sér. Sennilega er Kíverjum illa við of mikinn óstöðugleika þar. Gæti trúað að þeim sé nákvæmlega sama um Kim Jong Un, en vildu samt síður að hann dræpist. Hann gæti svosem verið stöðugleikaímynd þeirra í öllum óstöðugleikanum. Kannski er hann svolítið truflaður. Bandarískir blaðamenn vilja reyndar meina að Trump sé það líka.

Sumir virðast trúa því í alvöru að Kínverjar hafi komið Covid-19 af stað bara til þess að klekkja á Bandaríkjamönnum. Ég á bágt með að trúa því. Þetta er greinilega alvörufaraldur. Aumingja WHO-kallinn sem Trump ætlar víst að skjóta. Ekki á hann sjö dagana sæla núna.

Ekki er ég að hugsa um að kaupa hlutabréf í Flugleiðum, þó það gæti alveg verið skynsamlegt. Enda mundi þá ekki muna mikið um þessar fáu krónur sem ég gæti hugsanlega skrapað saman. Þessi ólukkans veirufaraldur verður varla eilífur. Hvort heldur sem ríkið hendir peningum í þetta vonlausa fyrirtæki eða lífeyrissjóðirnir, þá verður það sennilega gert í mínu nafni. Þ.e.a.s. einhvern veginn verður þetta áreiðanlega tekið af okkur pöplinum. Hmm, ekki er nú samkvæminni mikið fyrir að fara hjá mér. Áðan var skynsamlegt að fjárfesta í þessu fyrirtæki, en nú er það orðið vonlaust.

Áhrifin af kórónuveirunni á Ísland verða eflaust mikil. Fá lönd eru sennilega eins háð ferðamönnum og Ísland. Spánn er það kannski og Ítalía hugsanlega. Bæði þau lönd og flest önnur hafa við fleira að styðjast en blessaða ferðamennina.

IMG 6089Einhver mynd.


2944 - Kína og Bandaríkin

Myndin sem ég birti með síðasta bloggi var af Þuríðarbúð á Stokkseyri. Einu sinni tók ég myndir af næstum öllu sem ég sá, en er að mestu hættur því núna. Þessi mynd var bara þarna og þessvegna notaði ég hana. Venjulega nota ég bara myndir sem eru frá fornu fari á Moggablogginu og sæki þær um leið og ég set upp bloggið. Það skrifa ég í Word. Hef semsagt notað þessar myndir áður.

Myndirnar sem ég hef birt að undanförnu eru frá Hveragerði og einhverjum kynni að finnast þær merkilegar. Ein er af Bláhver, sem einu sinni var fleytifullur af sjóðandi vatni. Önnur af ryðguðum krana sem einhverntíma hefur sennilega verið settur á holuna sem Eiríkur blindi á Hótelinu setti karbítinn í. Nú, hef ég ekki sagt þá sögu hér? Kannski ég geri það í næsta bloggi eða einhverntíma seinna.

Mikilvægasti eiginleiki þeirra sem gáfaðir þykjast vera er að þegja sem fastast. Samkvæmt því er ég alls ekki gáfaður, því ég get ekki án þess verið að láta ljós mitt skína. Oft er þetta ljós bölvuð týra og stundum argasta vitleysa. Við því er samt ekkert að gera. Ég er bara svona.

Á margan hátt er það að koma í ljós að baráttan sem átti sér stað í kalda stríðinu er að birtast aftur. Nú eru það ekki Bandaríkin og Sovétríkin sem eigast við. Heldur má segja að það séu USA og Kína sem gera það. Hvernig er best fyrir smáþjóðir einsog okkur Íslendinga að haga sér? Að mörgu leyti komumst við vel frá kalda stríðinu. Einkum með því að halla okkur til skiptis að stórþjóðunum. Landið okkar er eftirsóknarvert frá þeirra sjónarmiði. Trump bandaríkjaforseti er á margan hátt fulltrúi óánægjuaflanna í þessu víðfeðma og eftirsóknarverða ríki, sem Bandaríki Norður-Ameríku óneitanlega eru. Hann þekkir sitt heimafólk. Þessvegna getur kosningabaráttan í kosningunum þar í haust orðið tvísýn og spennandi.

IMG 6097Einhver mynd.


2943 - Sápa og hreinsiefni

Eins og flestir Íslendingar er ég smám saman að verða talsvert veirufróður. Man að þegar sonur hennar Ágústu á Refstað, sem býr víst í Ástralíu, varð skyndilega heimsfrægur fyrir að útskýra fyrir blaðamanni af hverju handþvottur væri svona áhrifaríkur í veiruvörnum, að þá þóttist ég vera voðalega fyndinn þegar ég sagði í mjög þröngum hóp að sennilega væri þá best að éta sápu í lækningarskyni. Trump Bandaríkjaforseti er kannski að komast á þetta andlega stig, en gallinn er sá að kannski sagði hann þetta ekki sem brandara.

Mér finnst það vera fyrst núna, þegar ég er að verða áttræður, að ég sé nógu þroskaður til að blogga af einhverju viti. Þetta með vitið er ofmetið. Allir eru með eitthvað vit. Það getur verið allskonar. Bara spurning um hvernig það hentar öðrum. Kóvítinn sem ég vil kalla svo, en sumir kalla kófið og enn aðrir covid-19, kemur sennilega til með að breyta því á margan hátt hvernig við hugsum.

Er fólk fífl? Á margan hátt er það sennilega mikilvægasta spurningin sem heimspekin fæst við. Ef hún fæst þá við hana.

Halldór Jónsson ráðlagði mér að skrifa stutt blogg. Þau væru fremur lesin en langlokur. Samt endurbirtir Halldór langloku eftir Davíð Oddsson.

Hvernig stendur á því að vinstri menn eru yfileitt grennri en þeir sem hægrisínnaðir eru? Það er óhollt að vera feitur. Þetta er fremur óheppileg tilraun til kaldhæðni.

IMG 6107Einhver mynd.


2941 - Stutt blogg

Það sem stendur mannskepnunni helst fyrir þrifum á þessum ofgnóttartímum sem við lifum núna, er að hún notar tíma sinn ekki nógu skynsamlega. Það er t.d. ekki skynsamlegt að vera sífellt að hugsa um mat. Fésbókin er eitt af þeim hálmstráum, sem margir grípa í sér til bjargar í óvinveittum heimi. Með henni má fá tímann til að líða, án þess að gera nokkuð af sér. Einhverntíma var sagt að ríkur maður gæti því aðeins orðið siðmenntaður að hann lærði að nota þann tíma sem hann hugsanlega hefði, vegna ríkidæmis síns, án þess að skaða sjálfan sig. Í þessu er mikill sannleikur fólginn. Með þessu verða þeir sem vegna aldurs hætta að vinna í svipuðum sporum staddir og geta helst ekki orðið siðmenntaðir. Sífelld og endurtekin hugsun um mat veldur löngun í hann og það veldur aftur þeirri offitu sem er eitt af helstu vandamálum nútímans hér á Vesturlöndum.

Sú áhersla sem er nú um stundir er á Covid-19 faraldrinum, undirstrikar á vissan hátt þetta með tímann. Með því að beina athyglinni að einhverju svo skelfilegu sem heimsfaraldri eru því engin takmörk sett hverju hægt er að áorka. Ef samkomulag er ekki um hvernig það skuli gert er stutt í rifrildið og þar með pólitíkina. Hugmyndir fólks eru ákaflega misjafnar og auðvelt er þeim sem því vilja sinna, að hafa áhrif á þær hugmyndir.

Ég hef valið bloggið framyfir fésbókina því mér finnst hún of hamlandi. Það sem þar er sagt hefur lítil áhrif og er í langfæstum tilvikum til þess gert að hafa mikil eða meiri áhrif. Sumum, eins og mér t.d., er það eiginlegt að predika. Kannski hef ég engin áhrif á neinn og það er allt í lagi. Það sem sagt er hér er sjálfum mér til hugarhægðar og ef til vill er það alveg nóg.

IMG 6123Einhver mynd.


2940 - Ú.S.V.B.

Af hverju þarf að tala um ævintýri hins seinheppna herra Beans? Af hverju má ekki segja hins vitlausa og klaufalega herra Beans? Mér finnst að krakkar eigi heimtingu á því að fá réttar og nákvæmar lýsingar á þýðingu orða, en ekki svona dauðhreinsaða tæpitungu. Að sjálfsögðu er þetta óttalegur tittlingaskítur, en skiptir máli samt.

Þegar ég rak kapalkerfið í Borgarnesi uppúr 1980 vorum við einu sinni með bingó í beinni útsendingu og kannski hefur það verið fyrsta bingóið í beinni á Íslandi. Ekki man ég eftir að tæknin hafi verið neitt að stríða okkur, en óttalegt vesen var þetta samt, enda gerðum við þetta aldrei aftur. Þó held ég að þetta hafi verið nokkuð vinsælt. Mér datt þetta svona í hug útaf vandræðunum hjá Stöð 2 í kvöld.

Á margan hátt held ég að kapalkerfið í Borgarnesi hafi verið dálítið merkilegt fyrirbrigði. Ég man eftir að hafa eitt sinn farið á fund eða ráðstefnu sem Alþýðubandalagið stóð fyrir í (eða á kannski að segja á) Ölfusborgum og flutt þar erindi um þessa merku stofnun. Björgvin Óskar Bjarnason var með mér í þessari ferð og ég man eftir að ÓRG (sem var ekki orðinn forseti þá) var á sífelldu rápi inn og út úr fundarsalnum  og gott ef Svavar Gestsson var ekki þarna líka.

Nýja stefnan er sú að hafa bloggin nógu stutt, svo það er best að hætta núna.

IMG 6158Einhver mynd.


2939 - Mannapar

Þegar ég kom í fyrsta skipti til Kanaríeyja heyrði ég mikið talað um Mannabar. (Jú, auðvitað líka um Klörubar, en ég ætlaði að tala hérna um misskilning) Mér fannst nefnilega að alltaf væri talað um mannapa en ekki Mannabar. Ég hélt semsagt að staðurinn héti Mannapar en ekki Mannabar. Það er svo fyrir utan þessa sögu að þessi svonefndi Mannabar olli mér talsverðum vonbrigðum, en það gerði Klörubar ekki. A.m.k. ekki í sama mæli. En sleppum því. Margt mætti sjálfsagt um Gran Canary og ekki síður Tenerife segja en ég er að hugsa um að gera það ekki að þessu sinni.

Eiginlega er varla hægt að blogga án þess að minnast á Covid-19. Þríeykið fræga sem stjórnar vinsælasta þættinum í Sjónvarpi Allra Landsmanna væri auðvitað hægt að minnast á líka, en fólk getur bara horft á þáttinn þeirra sem sýndur er á hverjum einasta degi. Heimsmetið sem Trump forseti slær um þessar mundir í dánartölu á hverjum degi er um þetta leyti sennilega á milli 40 og 50 þúsund. Mikilvægt væri sjálfsagt að losna við hann sem fyrst, en vitanlega er ekki hægt að endurtaka og leiðrétta allar vileysurnar sem hann gerði í upphafi farsóttarinnar.

Þetta er ískyggilegt. Þegar ég kíkti á 50 listann áðan á Moggablogginu var ég kominn niður í 45. sæti á vinsældalistanum. Tvennt eða jafnvel þrennt er hugsanleg skýring á þessum ósköpum. Ég var vanur að vera svona í 20. sæti eða svo. Það er að segja undanfarið. Upphaflega komst ég ekki einu sinni á 50 listann. Mögulegar skýringar á þessu eru þær að bloggið sé aftur að ná fyrri vinsældum. Sú skýring hugnast mér hvað best. Önnur skýring er sú að lesendum mínum sé að fækka og þeir séu ekki nógu duglegir við lesturinn. Hvað sem öllum heimsmetum a la „Sigmundur Davíð“ líður. Ég neita því þangað til annað sannast að ég skrifi ekki eins athyglisverð blogg og áður. Kannski eru þau of fá og ég hef verið að reyna að bæta úr því uppá síðkastið. (Sagan um stúlkuna sem var kölluð „síðkastið“ er þessu alveg óviðkomandi.)

Eitt get ég gert og það er að mestu sársaukalaust. (A.m.k fyrir mig, veit ekki um aðra) og það er að stytta bloggin verulega. Kannski ég hætti bara hér.

IMG 6162Einhver mynd.


2938 - Bondí-ströndin

Veit svosem ekki um aðra, en mér finnst það léleg skipti varðandi veðurfar, að fá rigningartíð í staðinn fyrir kuldatíð. Mér er semsagt verr við bleytu en frost. En enginn gerir svo öllum liki, ekki Guð í Himnaríki. Finnst alveg vera kominn tími á vorið núna þegar Sumardagurinn fyrsti er á næstu grösum. Alltaf er nú sama vanþakklætið í þessari Íslensku þjóð, kóvítinn hefði verið mun leiðinlegri en hann hefur þó verið, ef vorað hefði vel. Læt svo þessum veðurspeglasjónum og faraldursfræði lokið, enda kann ég ekkert á slíkt.

Tveir eru þeir menn í heiminum sem ég vildi gjarnan losna við. Ekki með því að drepa þá, en með því að gera þá óskaðlega. Þessir menn eru Donald Trump í Bandaríkjahreppi og Steingrímur J. Sigfússon í alþingishreppi á Íslandi. Á margan hátt væri landhreinsun að því að losna við þá báða úr áhrifastöðum. Ekki er mér neitt illa við þá persónulega, en ég held að stjórnmál öll yrðu léttari og meðfærilegri ef þeir segðu af sér. Alls ekki er samt loku fyrir það skotið að maður losni við þá fljótlega. Vonandi samt við kóvítann á undan.

Tromparinn virðist vera að trompa sjálfan sig núna með því að skora á Bandaríkjamenn að óhlýðnast lögum fylkjanna. Annars finnst mér réttast að líta á þetta sem einskonar örvæntingu útaf kosningunum í haust. Kannski vonast hann innst inni til þess að svokölluð seinni bylgja komi af faraldrinum í Bandaríkjunum svo hann geti frestað kosningunum og stjórnað bara með tilskipunum. Það held ég að mundi eiga vel við hann.

Andskotinn sjálfur. Lék mig í tveggja leikja mát í einni bréfskákinni núna rétt áðan. Var meira að segja með peð yfir, en hvað var kóngurinn eiginlega að þvælast útá miðju borði og drottningarnar aktívar. Spurning hvort maður getur ekki kennt kórónuveirunni um þetta. Segi bara svona. Annars er mér svosem sléttsama þó ég tapi í bréfskákinni. Þetta er bara uppá grínið og skemmtunina. Svo er ég kominn í 20 skákir samtímis svo þetta er ekki annað en það sem búast má við.

Auðvitað getur varla verið að nokkur Íslendingur sé svo vitlaus að hann viti ekki uppá hár hvar Bondí-ströndin er. A.m.k. gera þeir ekki ráð fyrir því sem setja saman dagskrárkynningarnar hjá RUV. Auðvitað er hægt að spyrja Gúgla að þessu og kannski er þetta auglýsing fyrir þá þjónustu, svona öðrum þræði. Ekki geri ég samt ráð fyrir að þeir (hjá Gúgla) hafi borgað fyrir þetta.

Einhver hafði orð á því við mig, fyrir langa löngu, að ég ætti að gera hverja klásúlu hjá mér að sjálfstæðu bloggi, en ég nenni því ekki. Sumir skrifa samt eða blogga þannig. Starta jafnvel þræði á fésbókinni með stuttri klausu. Svo er líka á það að líta að þessar klásúlur hjá mér eru ákaflega misjafnar. Sumar gætu kannski staðist sem sjálfstæð blogg en aðrað allsekki. Margar standa í einhverju sambandi við það sem á undan er komið eða það sem á eftir fer.

IMG 6180Einhver mynd.


2937 - Jón Loftur Árnason og Gennadi Sosonko

Draumar eru mikil heilsubót. Ekki er hægt að framkalla drauma. Hvorki hjá sjálfum sér eða öðrum. Þetta held ég a.m.k. að sé rétt. Þetta með haldið er athyglisvert, en ég ætla helst ekki að láta það afvegaleiða mig. Var að hugsa um að skrifa lítilsháttar um drauma. Virðist vera þannig að það sem skeður í draumi haldist þar og sé ekki að flækjast fyrir raunveruleikanum. Þegar þetta tvennt ruglast að einhverju leyti, er það kallað geðveiki. Hún er samt ekki alveg svona einföld. Þessi skýring á sennilega bara við um vissar tegundir geðveilu, en förum ekki lengra útí það.

Draumar eru líka óttalega fragmentaðir. Það er að segja sundurlausir. Ekki eins og raunveruleikinn sem hangir að mestu leyti saman og hefur vissan stíganda og getur farið batnandi eða versnandi eftir alvikum. Suma dreymir framhaldsdrauma. Það getur verið skemmtílegt. Engin leið er samt að vita hvenær framhaldið kemur. Skelfingar bull er þetta annars alltsmanan. Held ég ætti frekar að snúa mér að einhverju sem ég hef svolítið vit á. Kannski er það ekki svo margt, en það má prófa.

Í skákinni er ég orðinn mun lakari en ég var einu sinni. Eitt sinn keyrði ég með Jón L. Árnason og Gennadi Sosonko frá Reykjavík til Borgarness. Einhver held ég að hafi komið frá Stykkishólmi eða Grundarfirði í Borgarnes að sækja Sosonko, því hann átti að tefla fjöltefli þar. Auk þess minnir mig að mamma Jóns hafi verið með í bílnum. Gott ef hann var ekki á leiðinni í einhvern sumarbústað vestur við Arnarstapa. Held að þeir hafi báðir teflt á Reykjavíkurskákmóti þá Jón og Sosonko og að það hafi verið haldið á Loftleiðahótelinu. Til stóð að Jón L. tefldi líka fjölteflí í Borgarnesi en ekki varð úr því. Ég er eiginlega kominn dálitið frá því sem ég ætlaði segja.

Í bílnum á leiðinni höfðum við ekki um mikið að tala. Man samt eftir því að Jón og Sosonko fóru í huganum yfir einhverja skák sem báðir könnuðust við. Deildu meðal annars um einhverja ákveðna leiki í byrjuninni, en því miður gat ég lítið fylgst með því. Einhverjum hefði kannski fundist það skrítið að þeir gætu farið yfir einhverja skák í huganum frá upphafi til enda, en ekki honum mér.

Eins og mig minnir að ég hafi verið búinn að segja frá, stóð til að Jón L. Árnason tefldi fjöltefli í Borgarnesi. Af því varð ekki því aðsóknin var ekki nógu mikil. Einhver smáslatti af mannskap mætti þó, kannski svona 6-8 manns. Jón bauðst þá til að tefla blindskák við okkur alla samtímis og var það samþykkt. Ekki er að orðlengja það að stillt var upp á borðin og við settumst við þau, en Jón settist þar sem hann sá ekki á borðin. Einn okkar, sennilega hefur það verið Eyjólfur Torfi sem á þeim tíma var framkvæmdastjóri samkomuhússins, þar sem fjölteflið fór fram, náði jafntefli við Jón. Allar hinar skákirnar töpuðust. Það er að segja Jón vann þær allar án þess nokkurntíma að sjá taflið sjálft.

Eflaust hefði þetta einhverntíma verið álitið talsvert afrek. Svo var þó ekki þarna að þessu sinni. Veit ekki til þess að nokkurnstaðar hafi verið skrifaðar niður skákir sem þarna voru tefldar eða hverjir tóku þátt í þessu. Skákmeistarar hafa alltaf verið álitnir svolítið skrítnir.

IMG 6185Einhver mynd.


2936 - Lady Baden-Powell

2936 – Lady Baden-Powell

Fylgist nokkuð vel með vinsælasta sjónvarpsþættinum um þessar mundir. Líka því að þó Þórólfur og Alma fái einstöku sinnum frí, er því ekki að heilsa með Víði. Hann fær aldrei frí og satt að segja er maður farinn að vorkenna honum svolítið. Hann æsir sig líka stöku sinnum uppúr öllu valdi og reiður Víðir er ekki árennilegur.

Það er nú alveg ljóst að hvað ferðamenn snertir er komandi sumar alveg ónýtt. Einhverjir túristar munu sjálfsagt rekast hingað, en ekkert verður það í líkingu við það sem til þarf svo fyrirtækin öll sem sérhæft hafa sig í allskonar þjónusu við þá, geti starfað áfram. En hvað er að segja um næsta sumar? Sumarið 2021.

Ég er talsvert hræddur um að svipaða sögu verði að segja af því. Ferðmannaiðnaðurinn sem svo hefur verið nefndur nær sér áreiðanlega ekki á strik aftur fyrr en búið verður að finna upp og prófa fyllilega bóluefni gegn Covid-19 veirunni. Jafnvel þó bóluefni verði hægt að fá næsta sumar eða svo er afar ólíklegt að það nái að bjarga túrismasnum hér á Íslandi.

Til þess þarf að vera búið að ná fullkomnu hjarðónæmi hér á landi eða þá að allir ferðamenn sem hingað koma hafi verið bólusettir. Hvorugt er líklegt. Þessvegna er afar ólíklegt að ferðamanniðnaðurinn nái fyrri styrk fyrr en í fyrsta lagi árið 2022. Vissulega er þetta svartsýni, en mönnum er velkomið að vonast eftir öflugu bóluefni miklu fyrr en hér er gert ráð fyrir.

Man vel eftir Ólafi Ólafssyni kristiboða. Að hann væri afi Egils Helgasonar vissi ég ekki. Hann var fyrstur til að sýna mér hvernig Kíverjar væru vanir að heilsast. Þeir tækju í hendina á sjálfum sér og hneigðu sig svolítið um leið. Það var svo ekki fyrr en all-löngu seinna sem ég heyrði brandarann um það hvernig Kínverjar skeindu sig og hvaða áhrif liklegt væri að það hefði á pappírsframleiðslu heimsins ef þeir tækju uppá því að nota klósettpappír.

Man líka vel eftir Hannesi Jóhannssyni sem var tæknistjóri á Stöð 2. Hann var fæddur í Hong Kong vegna þess að sjúkrahúsin þar voru nauðalík þeim vestrænu. Foreldrar hans voru á þeim tíma starfandi í Kína. Ýmsar minnisstæðar sögur gæti ég sagt eftir honum, en sleppi því að þessu sinni.

Sumir hafi haldið því fram að handabönd leggist alveg af hér á landi. Það held ég ekki að verði. Líklegt er samt að þau verði ekki alveg jafn sjálfsögð á næstunni eins og þau hafa löngum verið.

Eitt af allra fyrstu skátamótum sem ég sótti var haldið í Hagavík við Þingvallavatn. Þar átti Helgi Tómasson geðlæknir og faðir Ragnhildar Helgdóttur síðar menntamálaráðherra sumarbústað og e.t.v. fleira. Man eftir því að kennarar við Laugargerðisskóla höfðu það í flimtingum, þegar ég var þar prófdómari, að einhverntíma gæti sá tími komið að Ragnhildur yrði menntamálaráðherra, og hlógu ógeðslega um leið.

Man að á þessu skátamóti, sem ég minntist áðan á, kom eiginkona Roberts Baden-Powells stofnanda skátahreyfingarinnar í heimsókn og við skátarnir sem vorum á mótinu mynduðum langa röð til þess að fá að taka í hendina á henni. Ég hef semsagt tekið í hendina á Lady Baden Powell og man vel að mér þótti það talsvert merkilegt á þeim tíma.

Hélt endilega að mér mundi líða miklu betur ef ég fengi að vita hvað Bolungarvíkursvindlarinn heitir. Svo var þó ekki.

Einhver mynd.IMG 6199


2935 - Enn um kóvítann. (Hvað annað?)

Tvennt er það sem veldur mér nokkrum heilabrotum í sambandi við þennan árans vírus. Það er ofuráhersla sú sem sumir leggja á að andlitsgríma sé notuð og svo líka þetta með malaríulyfið, sem á að vera svo hættulegt fyrir kóvítann.

Er annars ekki sjálfsagt að kalla þennan óvin mannkynsins númer eitt kóvíta. Sumir tala reyndar um nýju kórónuveiruna, en mér finnst það of vingjarnlegt.

Kóvíti minnir á ansvíti, jafnvel helvíti. Að ekki sé minnst á víti og vítaspyrnu, sem flestir þekkja. Sumir gætu rekist á bévítans kóvítann eða orðið fyrir honum.Vítavert er í öllu falli að mæla með honum.

Það hlýtur að vera ömurlegt að drepast um þessar mundir. Jarðarförinni frestað og allt eftir því. Skrokkurinn sennilega settur í kæligeymslu, ef þær eru ekki allar fullar. Minningarathöfn haldin einhverntíma seinna, ef aðstandendum finnst taka því. Eins vist að þær verði legíó. Nei takk, ég vil ómögulega drepast núna. Kannski seinna.

Tökum nú upp léttara hjal. T.d. mætti minnast á veðrið. Samt er óvíst að það sé nokkuð léttmeti. Hugsanlega er einhver dulin merking í því hjá sjónvarpinu að hafa Spaugstofugrín strax á eftir kóvít-fréttum. Hver veit?

Annars er ekkert vitlaust að hafa léttmeti á boðstólum á eftir alvörunni sjálfri. Þeir sem ekki sjá alvöruna í Covid-19 er ekki við bjargandi. Sennilega er þetta mesta alvaran á eftir heimsstyrjöldunum tveimur á síðustu öld. Ansi fáir þeirra sem núlifandi eru muna eftir þeirri alvöru sem þeim fylgdi.

Hrunið fyrir svona rúmlega 10 árum var óttalega smáskítlegt í samanburði við þessi ósköp sem við erum nú að lenda í.

Á margan hátt er þetta samt ekki svo mikið mál fyrir mig. Það er að segja ef veiruskrattinn nær mér ekki eða þeim sem næst mér standa. Líkurnar á því fara snarminnkandi, sem betur fer.

Ef sumarið verður dægilegt eins og alveg er leyfilegt að vona verð ég nokkurnvegin ánægður. Eflaust er samt ekki öllum svo farið. Líka getur vel farið svo að lífskjör mín versni verulega í kjölfar þessarar veiru. Það er þó ekki neitt verulega fyrirkvíðanlegt fyrir mig, því líf mitt er af ýmsum orsökum farið að styttast talsvert í annan endann.

Ég er samt fjarri því að fyllast einhverri Þórðargleði útaf þessu öllu saman. Til þess þykir mér alltof vænt um afkomendur mína og þá sem standa mér næst af ýmsum ástæðum. Jafnvel get ég ósköp vel skilið þá sem vegna föðurlandsástar eða einhverra slíkra tilfinninga vilja veg eftirlifenda sinna sem mestan.

IMG 6208Einhver mynd.


Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband