2874 - Introvert

Vissulega er viskiptastríð Kína og Bandaríkjanna að harðna. Allir munu tapa á því stríði. Bandaríkin þó örugglega meiru en Kínverjar. Það er af þeirri einföldu meginástæðu að þeir hafa meiri stjórn á sínu fólki einmitt í krafti kommúnismans. Vestrænar þjóðir eru u.þ.b. að tapa viðskiptastríði sínu við Rússland og þessvegna er ekki ástæða til að fara einnig í samskonar eða svipað stríð við Kína. Á þá að láta Kínverja bara vaða yfir okkur? Svo er allsekki, okkur vantar sárlega skárri forseta yfir öflugasta viðskiptaveldi hins vestræan heims, en Trump ræfilinn. Hann veður bara áfram og hugsar mest um eigin hag. Kannski endrum og eins um hag Repúblikanaflokksins, en um vestrænt lýðræði og mannréttindi er honum skítsama. Annars ætti ég kannski ekki að vera að úttala mig um alheimsstjórnmál, en ég get bara ekki hamið mig þegar Trump gerir mestu vitleysurnar.

Sennilega er ég introvert eins og það er kallað á fræðimannajargoni. Mér finnst ég oft hugsa eftir alltöðrum brautum, ef svo má segja, en annað fólk. Með öðrum orðum: ég er ekkert skrítinn haldur bara allir hinir. En hvað er að vera introvert? Samkvæmt mínum skilningi er það að vera einrænn og sjáfum sér nógur. Samt er ekki hægt að komast hjá því að álykta að það sé samband manns við aðrar manneskjur, sem mestu máli skiptir í lífinu. „Enginn er eyland“ er stundum sagt og sennilega er mikill sannleikur fólginn í því. Annars er þetta efni sem er margflókið og erfitt að komast að nokkurri niðurstöðu.

Það er ekki þannig að mér sé að detta þetta í hug núna á gamals aldri. Hingað til hef ég þó afar lítið skrifað um þetta. Kannski er ég bara að verða skrítnari núna en ég hef áður verið. Hvernig er það hægt? Kynni einhver að segja. Mér finnst álit annarra afar litlu máli skipta. Samt sem áður kemur þetta afskiptaleysi mitt oft þannig út að ég sé að eðlisfari feiminnn. Það held ég samt að sé ekki rétt. Ég þoli samt illa margmenni og finnst annað fólk oftast standa mér að baki í flestum efnum. Svo getur þó varla verið því ekki hef ég náð neinum árangri sem talandi er um í neinu efni.

Mér leiðast skáldsögur og þó sérstaklega krimmar. Í fornöld hefði þetta verið kallað lygisögur eða Fornaldarsögur Norðurlanda. Það er ekki laust við að einhver fótur sé fyrir ýmsu í Íslendingasögunum. Sturlunga er hins vegar fræðirit. Eða a.m.k. hugsuð þannig af höfundunum, sem sennilega eru fjölmargir. Annars ætti ég ekki að vera að spekúlera í þessu því ég er enginn Íslenskufræðingur. Komst ekki einu sinni í Menntaskóla á sínum tíma. Kristnisögu og ýmis forn guðræknileg rit hef ég allsekki lesið enda ekki ginnkeyptur fyrir svoleiðis löguðu.

Bækur, fræðilegs eðlis, eru oftast þeim annmörkum háðar að venjulega er þar aðeins um að ræða það sem einum (eða í mesta lagi fáeinum) finnst merkilegt. Fjölmargir kunna að vera allt annarrar skoðunar. Mér finnst ég hafa áhuga á fjölmörgu, en öðrum finnst sennilega að ég hafi áhuga á fremur fáu. Sennilega er það vegna þess að ég hef ekki snefil af áhuga á tónlist eða matargerð af neinu tagi og er þar að auki er ég fremur andsnúinn fésbókinni.

IMG 6693Einhver mynd.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband