Bloggfærslur mánaðarins, júlí 2019
29.7.2019 | 09:52
2869 - Þriðji orkupakkinn
Í mínum huga eru Íslendingasögurnar bara þrjár: Njála, Laxdæla og Eyrbyggja. Flestir mundu þó telja Hrafnkötlu, Egilssögu og Grettissögu þarna með. Þessar sögur eru samdar sem bókmenntaverk. Allt annað finnst mér vera samtíningur og sitthvað. Auðvitað eru fáir á sama máli og ég um þetta. Sem betur fer hef ég lítið vit á þessu og ég var einn af þeim sem var næstum alveg farinn að trúa Bergsveini Birgissyni þegar hann í sínum langa formála beitti allri sinni kunnáttu og færni til þess að telja saklausum lesendum sínum trú um að fundist hefði ein Íslendingasaga til viðbótar og fjallaði hún um svarta víkinginn sem hann nefndi svo.
Eina bloggið sem ég les næstum daglega eru bakþankar Fréttablaðsins. Stundum er ég sammála því sem þar er sagt, en sundum með öllu ósammála. Aðalkostur þess bloggs er að það eru hinir og þessir sem skrifa það. Öfugt við forystugreinar blaðsins er það ekki alltaf ýkja hátíðlegt. Stundum er það beinlíkis skemmtilegt, en það eru forystugreinarnar aldrei. Tveir Guðmundar eru mínir uppáhaldsbloggarar um þessar mundir. Steingrímsson og Brynjólfsson báðir skrifa þeir öðru hvoru í Fréttablaðið. Ég viðurkenni þó að oftast er Mogginn efnismeiri en Fréttablaðið, en hann er líka ekki ókeypis.
Tveimur vísum man ég eftir sem fjalla um presta. Sú fyrri er svona.
Séra Magnús settist uppá Skjóna
sá var ekki líkur neinum dóna.
Hann var glaður.
hátt agtaður
Höfðingsmaður.
Honum ber að þjóna.
Hin er þannig.
Mér er sem ég sjái hann Kossút
með svipu í hendi reka hross út.
Sína gerir hann svipu upp vega
séra Stefán á Mosfelli-lega.
Enga hugmynd hef ég um eftir hverja þessar vísur eru. Enda finnst mér það lítlu máli skipta. Báðar eru vísurnar samt góðar og falla mér fremur vel í geð. Unglingum dagsins finnst sjálfsagt lítið til þeirra koma en það segir afar lítið um gæði vísnanna.
Ekki er ég Miðflokksmaður og seint mundi ég styðja Sigmund Davíð í öllum hans vitleysum. Ekki er ég heldur neinn stjórnkerfisfræðingur. Hinsvegar finnst mér Sigmundur og samflokksmenn hans hafa dálítið fyrir sér í sambandi við O3. Ekki gengur að hægt sé að smeygja ýmsu sem hefur lagagildi framhjá forsetanum með því að segja bara að það séu þingsályktanir en ekki lög og honum komi það ekkert við. Sá held ég að hafi ekki verið skilningur þeirra sem samþykktu núverandi stjórnarskrá. Samt er ég alveg viss um að Guðni forseti mundi ekki senda O3 í þjóðaratkvæðagreiðslu. Samt eru þær of fáar og þar að auki ekki neitt sem skyldar alþingi til að taka mark á þeim, enda gerist það ekki. A.m.k. ekki alltaf. Stundum eru þær líka svo klaufalega orðaðar að leggja má margskonar skilning í þær. Já, ég er að tala um nýju stjórnarskrána til dæmis. Minn skilningur er sá að alþingisfólk séu þjónar almennings en ekki öfugt.
Einhver mynd.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (14)
22.7.2019 | 13:52
2868 - Alþjóðastjórnmál
Eiginlega ætti ég óverðugur allsekki að vera að skipta mér af heimsstjórnmálum eða skrifa um þau. Trump Bandaríkjaforseti er heldur ekki hæfur til að fjalla um þau. Hann er fyrst og fremst orðhákur og besservisser, sem hefur komist langt á því að eltast alla tíð við það sem hann heldur að sé vinsælt. Þannig haga margir sér sem vilja ná langt í stjórnmálum dagsins. Ef nógu mikil vitleysa er sögð og haft nógu hátt er ekki flókið að ná talsverðri athygli og hún getur dugað til þess að öðlast völd, ef þátttaka almennings í lýðræðislegum kosningum er ekki mikil.
Gott dæmi um þetta er Gnarr okkar Íslendinga og grínistinn og leikarinn sem náði ávænt völdum í Ukrainu. Ekki var fyrirfram vitað hvern mann þeir höfðu að geyma. Kjör þeirra var fyrst og fremst mótmæli við ríkjandi ástandi. Kannski var kjör Trumps á sömu bókina lært. Að hluta a.m.k. Engum blandast hugur um að sitthvað má að stjórnmálaástandi þessara ríkja finna. Þó er það svo að einungis með samvinnu og sátt um þau málefni sem hæst ber hverju sinni næst verulegur árangur.
Fjölmiðlar og álitsgjafar geta hér gengt mikilsverðu hlutverki. Samskipti fólks hafa þó breyst mikið á undanförnum árum fyrir tilverknað hinna svonefndu félagslegu miðla. Hefðbundnir miðlar hafa víða átt við mikla erfileika að stríða og reyna allt til að hafa hærra en hinir félagslegu. Stundum taka þeir pólitíska afstöðu en oft þykjast þeir yfir aðra miðla hafnir. Eins og allsstaðar hefur fjármagnið hér mikil að segja. Með því að borga þeim vel sem þeim finnst styðja sinn málstað hefur þeim víða tekist að tryggja sér allmikil völd. Alþjóðlegu fyrirtækin skipta einnig miklu máli í þessu sambandi.
Ekki hef ég þá þekkinu eða menntun sem nauðsynleg er til að ná til fólks. Ef ég hefði haldið að ég hefði það hefði ég vaflaust hefa hærra þegar ég var yngri. Alþingi nýtur lítils álits og ríkisstjórn Íslands sömuleiðis. Hér á landi ættu því að vera nokkuð góðar aðstæður fyrir populista til að athafna sig. Almenn kosningaþátttka er þeim helst fjötur um fót. Nú þegar stefnir í það að á alþingi verði samsafn smáflokka gæti þó tiltölulega lítill flokkur náð völdum.
Fyrst og síðast getur þessi flokkur spilað á föðurlandsást og spillinguna í stjórnkerfinu. Hún er þó að verlegu leyti falin, en engu að síður raunveruleg. Að slá fram fullyrðingum a la trump gæti komið sér vel. Þó ég óttist mest að þessi þróun gæti sem hægast komið frá hægri, er því ekki að neita að hún gæti svosem komið frá vinstri einnig.
Oft hef ég undrast hve stutt bilið getur verið á milli öfgahægri og öfgavinstri. Það er helst í sambandi við alþjóðahyggju og flóttamenn sem línur skarast. Engu að síður erum við Íslendingar ekki bólusettir gagnvart populisma frekar en aðrif, hvort sem þeir nálgast okkur frá hægri eða vinstri. Þessi flokkun í hægri og vinstri er þó að mestu leyti úrelt. Getur þó gagnast í einstöku málum.
Ég ætlaði að skrifa um eitthvað alltannað en sennilega er best að láta þetta duga að sinni.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)
21.7.2019 | 22:03
2867 - The martian
Aldrei eða næstum aldrei eru gestir sem koma við hérna á síðunni fleiri en nokkur hundruð á dag þegar ég læt svo lítið að skrifa, en mér er alveg sama. Mín vegna mættu þeir svosem vera fleiri. Ekki hef ég neina hugmynd um hverjir þetta eru og eiginlega er mér alveg sama. Auðvitað veit ég um þá sem skrifa athugasemdir hjá mér og vitanlega reikna ég með að þeir skoði bloggið mitt næstum alltaf. Auðvitað mætti svosem skrifa á hverjum degi, jafnvel oft á dag eins og sumir gera. Mér finnst samt ekki taka því.
Já, alveg rétt. Ég var víst að tala um geimferðir um daginn. Þessi tími er vel valinn til þess. Þó ætla ég ekki að skrifa um tunglgönguna sem væri þó vert að gera. Ég ætlaði að minnast á bók sem ég las um daginn. Original bók var þetta þó ekki, heldur fremur ítarleg endursögn á allfrægri bók eftir Andy Weir. Bók þessi heitir The Martian og er á ensku. Amazon bauð uppá hana án endurgjalds fyrir nokkru og að sjálfsögðu nýtti ég mér það.
Bók þessi fjallar um mann sem fyrir slysni er skilinn eftir á Mars. Hann er þáttakandi í þriðju mönnuðu geimferðinni þangað og slasast í miklu roki þar og er álitinn dauður af félögum sínum sem flýta sér í burtu. Gert hafði verið ráð fyrir að nokkrir menn gætu verið þarna í daga eða vikur og gert ýmsar tilraunir.
Öll er þessi saga með miklum raunveruleikablæ, m.a. vegna þess að höfundurinn hefur kynnt sér þessi mál öll ítarlega og er vel að sér um þau vísindi sem þarf að kunna skil á, til þess að svona ferð geti tekist. Og hann kemur því svo vel frá sér að allir ættu að geta skilið hann auðveldlega.
Í bókinni, sem naut mikilla vinsælda þegar hún kom út fyrir nokkrum árum, er svo öllu sem fyrir þennan óheppna geimfara kom og tilraunum til að bjarga honum, lýst í miklum smáatriðum. Úr þess verður svo hin mesta spennusaga, sem gaman er að lesa, en ég ætla ekki að segja hvernig hún endar til að eyðilegga ekki fyrir væntanlegum lesendum.
Gerð hefur verið kvikmynd eftir sögunni og leikur Matt Damon aðalhlutverkið. Upphaflega var gert ráð fyrir að kvikmynd þessi yrði frumsýnd haustið 2015, en ég veit ekki hvort það hefur staðist.
Svo er ég að lesa núna bókina 2052, Svipmyndir úr framtíðinni. Sú bók er frá bókasafninu hér á Skaganum. Hún er á islensku og hefur inni að halda einar 24 smásögur eftir ýmsa höfunda. Ég er ekki búinn með nema rétt um helminginn af henni, en mér finnst sögurnar í henni vera ansi misjafnar og flestar í lélegri kantinum. En ég er nú oftast svo neikvæður að það er ekki að marka.
Af öðrum bókum sem ég fékk lánaðar á bóksafninu í gær eða fyrradag má nefna Dyr opnast eftir Hermann Stefánsson. Kannski geri ég henni einhver skil í næsta bloggi.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (1)
18.7.2019 | 21:44
2866 - Langisandur
Kapphlaup ALC og isavia um WOW-flugvélina. Auðvitað finnst okkur fráleitt að isavia geti tekið veð í flugvél, sem aðrir eiga fyrir öllum skuldum WOW og látið þær bara safnast upp. Ef lögin segja þetta samt verður líklega að fara eftir því. Lagasetning alþingis og dómaframkvæmd hérlendis er ekki hátt skrifuð allsstaðar. Hefði ekki verið farið eftir þessum úrskurði og flugvélinni semsagt ekki sleppt fyrr en eftir svo og svo langan tíma hefði það jafngilt yfilýsingu um að ALC væri ekki treystandi. Kannski fer það fyrirtæki eftir úrskurði Hæstaréttar og kannski ekki.
Þeir sem létu smíða Herjólf hinn nýja virðast ekki hafa kunnað almennilega á tommustokk. Vestmanneygingar hefðu átt að ganga úr skugga um málin á bryggjunni og skipinu áður en farið var að láta illa. Líklega verður samt að taka þessu eins og hverju öðru hundsbiti.
Sagt er að litlir og ófyrirleitnir eiturlyfjabarónar í Mexíkó drepi fleiri eftir að sá stutti var handtekinn. Svo er að sjá að þetta stríð sé víðast hvar tapað. Sennilega vilja ráðandi stéttir bara hafa þetta svona. Íslendingar ættu kannski ekki að blanda sér í þetta stríð. Eflaust hefur Gulla bara verið sagt að hallmæla Duterte og flytja þessa tillögu. Virðist vera sárasaklaust og ekki stoppa neinn. Alveg er ég hissa á hvað margir sátu þrátt fyrir allt hjá. Allavega var þetta samþykkt þó naumt væri.
Af hverju skyldi ég vera að viðra á þennan hátt skoðanir mínar á fréttum dagsins. Ekki er lílegt að það hafi nokkur áhrif. Þar að auki er ekki mikil eftirspurn eftir þeim. Hvað ætti ég þá að skrifa um. Ekki þori ég að skrifa um heimilislífið hér á Hagaflötinni. Konan mín og jafnvel fleiri kynnu að taka það illa upp. Kannski væri sniðugast að endursegja þær bækur sem ég er að lesa.
Já, kannski ég byrji bara á því. Nú um stundir er ég að lesa í Kyndlinum mínum um mann sem var skilinn eftir óvart á Mars. Þetta er einskonar endursögn á frægri bók sem upphaflega var framhaldssaga á bloggi einu. Kannski væri bara best að hafa þetta eins og nokkurskonar cliffhanger og skrifa bara meira um þessa bók í næsta bloggi. Kannski ég geri það bara. Svo get ég haft einhvað fleira svona innanum og samanvið.
Kannski gæti ég sagt frá Hreystigarðinum (ekki hreisikettinum) hér á Akranesi. Hann er rétt fyrir neðan Ærslabelginn niður við Langasand. Það er víst liðin tíð að þar sé fótbolti æfður. Altsvo á Langasandi. Akraneshöllin er þarna rétt hjá sundlauginni og Norðurálsvellinum sem er aftur á móti rétt hjá Guðlaugu. Þetta er nú svolítið ruglinslegt hjá mér, en staðkunnugir ættu samt að geta áttað sig á þessu öllu saman. Samfellt tún með mörgun mörkum og þessháttar er nú komið alla leið útað Sólmundarhöfða og þar spriklar ungviðið þegar gott er veður.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)
17.7.2019 | 08:54
2865 - Um Tromparann og stjórnmál í USA
Sagt er að afi Donalds Trumps Bandaríkjaforseta hafi verið rekinn úr landi vegna þess að hann hafi reynt að koma sér undan herskyldu. Sennilega er þetta eins og hver önnur fake-news enda höfð eftir CNN. Trump virðist halda að enn á ný sé hægt í Bandaríkjunum að veifa rasistaspjaldinu og með því fá nægilega mörg atkvæði til þess að vera áfram við völd. Svo er þó ekki. Sú stefna sem kennd er við Skandinavíu er komin til Ameríku. Ekki er hægt fyrir hann að búast við því að kvenfyrirlitning hans og rasismi fleyti honum áfram í næstu kosningum.
Ofanritaða klausu setti ég á fésbókina og ekki stóð á viðbrögðunum. Siggi Grétars var mér sammála að þessu sinni eins og oft áður, en ekki átti ég von á að sá maður taki upp hanskann fyrir Trump, sem það gerði. Margt og mikið gæti ég skrifað um Trump en mér finnst hann ekki vera þess virði. Þeir eru til, jafvel hér á Íslandi, sem lepja allt upp sem stuðingsmenn hans í USA og hann sjálfur halda fram. En ekki hann ég.
Oft hef ég skrifað um stjórnmál og jafnvel um Trump Bandaríkjaforseta. Undarlegur er sá misskilingur margra að Sjálfstæðisflokkurinn eigi margt að sækja til Repúblikanaflokksins í Bandaríkjunum. Sem best gætu þeir stutt Demókrataflokkinn þar og verið samt eins hægri sinnaðir og þeim sýnist. Öfgasinnaðir hægri menn, eins og t.d. Davíð Oddsson hafa átt sér skjól og griðastað lengi í sjálfstæðisflokknum, en eru nú hugsanlega á förum þaðan. Þeir sem ekki gera sér grein fyrir hve gagntæk sú bylting er sem kennd er við samfélagsmiðla og metoo-byltinguna, verða bara að bíta í það súra epli að vera orðnir úreltir. Lítill vafi er t.d. á því að Doddsson er kominn langt framyfir síðasta söludag.
Oft hefur það verið sagt um þá sem blogga eða skrifa í samfélagsmiðla, að þeir sjáist ekki fyrir í málflutningi sínum. Sumir eru greinilega orðljótari en aðrir. Samt hef ég hingað til ekki álitið mig vera orðljótari en þörf er á. Vissulega er oft þörf á gætni í orðavali. En líka getur verið hættulegt að forðast um of að styggja þá sem styggja þarf.
Því er ekki hægt að neita að með gjörðum sínum hefur Trump Bandaríkjaforseti gengið gegn stjórnkerfinu, en hann hefur líka gengið gegn öllu velsæmi. Samt þykist hann stundum vera voðalega forsetalegur, hátíðlegur og reffilegur. Einkum virðist það vera gert til að auka trú pöpulsins í Bandaríkjunum á að Kanverjar séu Guðs útvalda þjóð. Hugsanlega breytist þetta, en ég er hræddur um að það gerist mjög hægt og taki langan tíma. Óvinsældir Trumps utan Bandaríkjanna eru miklar, en meðan hann nýtur stuðnings Repúblikanaflokksins í USA er honum óhætt. A.m.k. fram að næstu kosningum þar.
Þetta blogg snýst að mestu leyti um Tromparann og við því er lítið að gera. Ég hugsa bara svona. Uppáhalds pistlahöfundur minn í Fréttablaðinu um þessar mundir er Guðmundur Steingrímsson. Mér er alveg sama í hvaða flokki hann er núna. Ef hann byði sig fram get ég vel trúað að ég mundi kjósa hann. Síðast kaus ég Píratana og ekki held ég að hann sé á leiðinni þangað.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (9)
15.7.2019 | 06:37
2864 - Blessað bloggið
Það hefur alltaf verið mitt vandamál í sambandi við þessi blessuð bloggskrif að ég hef átt í vandræðum með að takmarka mig. Þó hef ég bloggað ansi lengi eða síðan 2006 að því er Mogginn heldur fram og ekki efast ég um það. Talan í fyrirsögn bloggsins er áframhaldandi raðtala og það er sennilega markverðasta einkennið á mínu bloggi. Alla tíð hef ég bloggað á Moggablogginu. Meira að segja þegar Davíð Oddsson varð ritstjóri á Moggasneplinum þá hélt ég áfram þar. Enda er hann skyldur mér eða ég honum. En förum ekki lengra útí það.
Ættfræðigrúsk er ekki mín sterkasta hlið. Þó ég hafi, eða þykist hafa, vit á mörgu hefur mér gengið illa að takmarka mig við eitthvað ákveðið í blogginu. Mér finnst ég hafa smávegis vit á svo mörgu. Þetta á ég kannski sameiginlegt með flestum öðrum. Mínir mentorar í þessum efnum falla nú frá eða hætta að blogga í löngum bunum. Hafði t.d. mikið álit á Jónasi Kristjánssyni fyrrum ritstjóra og pólitískri þekkingu hans á mönnum og málefnum. Hans blogg las ég reglulega. Hann bloggaði að vísu eingöngu um stjórnmál og var stundum orðljótur og ákveðinn þar. Í mörgu öðru var hann einnig vel heima og skrifaði t.d. margar bækur. Svo dó hann, en sjálfur er ég unglingurinn ekki nema 76 ára. Það er víst ekki einu sinni meðalævilengd íslenskra karlmanna, en þangað er ég áveðinn í að komast.
Þó ég viðurkenni alveg gagnsemi samfélagsmiðlanna svokölluðu og geti hæglega skrifað uppá að þeir séu einhver mikilsverðasta uppgötvun samtímans og breyti með róttæknum hætti öllum samskiptum fólks, er ég sannfærður um að hættan sem af þeim stafar sé raunveruleg. Auðvelt er og þægilegt að láta fésbókina, símann, tölvuna og allt þetta nýmóðins dót taka yfir líf sitt. En hvers virði er það eiginlega? Er ekki skömminni skárra að fást bara við það sem maður þekkir sæmilega. Mér finnst það. En ég er nú svo gamall, að það er ekki að marka.
Eiginlega hef ég, eða réttara sagt við, það á margan hátt betra fjáhagslega eftir að við komumst á eftirlaun og hættum að vinna. Auðvitað veit ég vel að þetta á ekki við um alla. Sumir hafa það meira að segja andskoti skítt. Fyrir þessari sæmilegu afkomu eru einkum tvær ástæður. Sú fyrri er að við þurfum ekki að greiða himinháa húsaleigu vegna þess að við eigum, a.m.k. að verulegu leyti, það húsnæði sem við búum í. Hin er sú að við eyðum afar litlu. Almennilegan ellistyrk frá ríkinu er alls ekki um að ræða. Eftirlaunin sem við höfum verið skylduð til að borga lífeyrissjóðunum svotil allt okkar líf, eru mun mikilvægari en sú hungurlús sem ríkisvaldið skammtar okkur eins og skít úr hnefa.
Að sumu leyti vorkenni ég þeim sem þurfa að vinna fyrir hverjum eyri sem þeir/þær/þau fá í sinn hlut. Aldrei, eða a.m.k. sjaldan, finnst mér að laun fyrir líkamlega vinnu séu of há. Afkoma fólks hefur batnað mjög verulega á þeim árum sem ég hef lifað. Sumir virðast þó taka sér mun hærri hlut en þeir þurfa án þess að hafa mikið fyrir því. Það er allsekki rétt að jafnaðarstefnan svo ekki sé nú talað um sósíalismann eða sjálfan kommúnismann, byggist á öfund í garð þeirra sem betri kjör og meiri peninga hafa. Á sama hátt er það alls ekki rétt að allir sem hafa það sæmilegt séu hið svokallaða góða fólk. Þetta er glósa sem hægrisinnar hér á landi hafa fundið upp. Vissulega er hún snjöll, en stjórnmál virðast núorðið mest snúast (a.m.k. hér á Vesturlöndum) um það hvernig taka beri á straumi flóttamanna. Þeir sem fyrir þeim ósköpum verða að þurfa (að eigin mati) að gerast flóttamenn eiga sjaldan val um annað. Og þó svo væri er engin leið að greina að hve miklu leyti efnahagur ræður því að fólk gerist flóttamenn.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)
12.7.2019 | 16:56
2863 - Jórunn og Rósa
Fram eftir öllum aldri var ég, eins og margir fleiri, sannfærður um að karlmenn réðu heiminum. Sú trú mín beið talsverðan hnekki þegar ég las um helstu kvenhetjur Íslendingasagnanna, eins og t.d. Hallgerði Langbrók og Guðrúnu Ósvífursdóttur. Endanlega urðu svo þær Golda Meir og Madelaine Albright til þess að sannfæra mig um að þessi skoðun mín um karlmennina væri alröng. Sterkar konur hafa alla tíð ráðið því sem þær vilja.
Þetta get ég sagt sem afkomandi Rósu á Bláfelli og Stóru-Jóku í Gvendarkoti. Jórunn missti unnusta sinn um tvítugt og tók saman við Guðlaug frá Látalátun á Landi, sem var um það bil tvöfalt eldri en hún. Þó Guðlaugur afi hafi eflaust ekki verið mikill fyrir mann að sjá (ég sá hann aldrei) og ekki hár í loftinu samanborið við Jórunni ömmu, hefur hann eflaust verið búinn að gera sér grein fyrir þessu með karlmennina og konurnar, áður en hann dó.
Jórunn amma er fyrir margra hluta sakir eftirminnileg. Hún náði háum aldri og féll að ég held aldrei verk úr hendi. Að vísu var hún að ýmsu leyti fulltrúi annars Íslands en ég þekkti best. Gamlar vísur, bænir og ýmislegt annað skipaði þar háan sess. Ingibjörg systir kann sumar vísurnar ennþá. Um móðir mína ræði ég ekki. Báðar þessar konur held ég að hafi verið trúaðar í bestu merkingu þess orðs. Sennilega þætti þeim lítið til þess Íslands koma sem blasa mundi við þeim núna.
Mengun sú og sýking sem kennd er við Suðurland og E-coli sýnir betur en margt annað hve vernd sú sem þjóðfélagið veitir okkur smælingjunum er lítils virði og þunn. Auðvitað má kenna mjög í brjósti um þau börn og fjölskyldur þeirra sem fyrir þessu urðu. Ekki síður má vorkenna þeim sem búsettir eru á bænum þar sem sýkingin kom upp eða vinna þar, vegna þess að vel er hugsanlegt að bærinn sá eða eigendur hans nái sér aldrei eftir þessa uppákomu. Á flestan hátt er þetta hið versta mál. Faraldrar af þessu tagi eru sem betur fyrr afar sjaldgæfir á Íslandi. En Ísland er nú svo lítið og fámennt að það er ekki að marka.
Ekki veit ég eftir hverju þeir eru að leita, sem lesa þetta blogg. Stundum skrifa ég um sjálfan mig og stundum ekki. Stundum fjargviðrast ég útaf hinu og þessu. Stundum ræði ég fram og aftur um minningar, pólitík eða eitthvað annað. Stundum þykist ég vera voða gáfaður, en er það kannski ekki. Hugsanelega ætti ég að reyna að sérhæfa mig meira í þessum bloggskrifum mínum.
Að mestu er ég hættur að skrifa um Trump Bandaríkjaforseta, enda er það að æra óstöðugan að tala um þann vingul. Sennilega er heimsfriðnum ekki hættara nú en oft áður. Þó Trump sé fremur óvinsæll í útlöndum (þ.e.a.s. utan Bandaríkjanna) er hann líklega ekki hættulegri en aðrir bandarískir forsetar. Að öll ríki USA skuli hafa sammælst um það að hafa einn forseta, sem greinilega ræður ýmsu í utanríkismálum er grunnurinn að veldi bandaríkjamanna og áhrifum. Þar kemur ekkert Brexit til greina. Að því kemur samt á endanum að veldi þeirra lýkur. Vitanlega verð ég þá ekki ofar moldu og mun engin áhrif hafa á það.
Kannski er það einmitt fjölbreytileikinn sem gerir þetta blogg vinsælt. Já, mér finnst það furðu vinsælt, þó ekki sé það í flokki með þeim vinsælustu. Auðvitað reyni ég oft að vanda mig í þessum skrifum, en aðallega eru þetta marklitlar hugleiðingar. Ekki hef ég aðgang að neinni fréttastofu eða neinu þessháttar og sérþekkingu hef ég enga og menntun litla. Reyni þó að láta ljós mitt skína.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)
7.7.2019 | 13:21
2862 - Cultural imperialism
Menningarleg heimsvaldastefna (cultural imperialism) kallast það á ensku. Nú er hægrimanninum skríta og skemmtilega Boris Johnson aðallega legið það á hálsi að ætlast til þess að allir sem á Englandi búa tali ensku sem sitt fyrsta og mikilvægasta mál. Þetta minnir mann óþægilega á þá hægrimenn og einangrunarsinna hér á landi sem ætlast til þess að allir sem hingað koma tali lýtalausa íslensku. Jafnvel systir Borisar gerir grín að honum fyrir þetta með því að segja að heima fyrir tali þau að sjálfsögðu forngrísku.
Tungumál eru á margan hátt mál málanna hér á ísa köldu landi. Sú árátta einangrunarsinna að eigna sér sem allra mest allt þjóðlegt og sérkennilegt er beinlínis hlægileg í þessu ljósi. Þjóðerniskennd má ekki vera fólgin í því að gera allt sem alþjóðlegan eða annarlegan blæ ber útlægt í samfélaginu. Slík neikvæðni er hættulegri en virðist vera í fljótu bragði. Nú á tímum er hið alþjóðlega, auk þess að auka skilning þjóða á milli, ekki síður oft merkilegt, en hið þjóðlega og hallærislega.
Stundum er það sem ég skrifa fremst í bloggin mín það merkilegasta og það sem mesta hugsunin liggur á bakvið. Oft er það sem á eftir kemur meira og minna til uppfyllingar. Svo er þó ekki alltaf. Þessar hugleiðingar mínar um tungumál spruttu mjög skyndilega upp, en eru ekkert verri fyrir það. Kannski finnst mér þær vera svo sannar og góðar að ég flýti mér að ná sæmilegri lengd á bloggið. Sjáum til.
Þessar tvær málsgreinar sem ég skrifaði um Boris Johnson og tungumál þótti mér nógu merkilegar til þess að setja þær líka á fésbókina. Þetta segi ég m.a. til þess að þeir sem séð hafa þær þar finnst að sjálfsögðu að þeir kannist við þessi skrif. Auk þess er fésbókin, hvort sem manni líka betur eða verr, sá staður sem flestir eru tengdir.
Af hverju finnst mér að þessar fyrrnefndu hugleiðingar mínar þurfi á fleiri lesendum að halda en annað sem ég skrifa? Veit það eiginlega ekki, en kannski finnst mér að ég hafi komist svo vel að orði að fleiri þurfi að sjá snilldina.
Fór í gær í giftingarveislu með Atla frænda. Samtals vorum við fjögur í bílnum. Áslaug að sjálfsögðu og Sigrún systir að auki. Fórum þegar veislunni var að ljúka. Dansinn og drykkjan þó eftir. Atli vildi fara sem fyrst og það hentaði okkur gamalmennunum ágætlega. Giftingin sjálf fór fram í Hrunakirkju og að sjálfsögðu minnti það mig á þjóðsöguna um Dansinn í Hruna. Á eftir var veisla í félagsheimilinu á Flúðum. Nú veit ég semsagt að Hrunakirkja er rétt hjá Flúðum. Það var Kristín systir Atla sem var að gifta sig og svei mér ef hún ljómaði bara ekki bókstaflega. Af hverju fá sumir að gifta sig tvisvar, en aðrir bara einu sinni eða jafnvel aldrei? sagði einhver af þeim fjölmörgu ræðumönnum sem tóku til máls í veislunni.
Þegar við komun heim á Akranes voru írsku dagarnir í algleymingi og mér finnst Akranes þá vera alþjóðlegri en oftast nær. Sumir mundu kannski segja túristalegri en það orð finnst mér hafa neikvæða merkingu. Í öllu falli ómaði bærinn af drykkjulátum.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (11)
3.7.2019 | 00:32
2861 - Kvöldroðinn vætir, en morgunroðinn bætir (eða var það öfugt?)
Málaferli eru í uppsiglingu gegn flugvélaframleiðandanum Boeing útaf Max 737 vélunum sem fórust. Auðvitað væri sanngjarnast að fyrirtækið yrði selt (ef einhver vill kaupa það) og því sem fengist fyrir það skipt á milli aðstandenda þeirra sem fórust.
Sérfræðiþekkingu á flugmálum hef ég enga og þvi ætla ég ekki að fjölyrða meira um þetta.
Að ein af fjölmennustu og tvímælalaust ein allra ríkasta þjóð veraldar skuli láta það um sig spyrjast að börn hælisleitanda séu aðskilin frá foreldrum sínum og hrúgað á staði, sem margir kalla óviðunandi og heilsuspillandi, er stjórnvöldum þar til stórkostlegrar skammar. Fleiri orð er óþarfi um það að hafa. Já, ég á við Bandaríki Norður-Ameríku.
Í bókinni Medieval History Dummies sem ætti líklega að heita medieval history for dummies segir á einum stað:
Whatever else the Viking Age produced, it may be that one of the Beatles was a Viking descendant!
Hvaða bítill skyldi það vera? Ef einhver af mínum lesendum hefur hugmynd um það væri ég alveg til í að frétta af því.
Í gær fór ég gamla fimm kílómetra hringinn minn sem ég hef ekki farið nokkuð lengi. Sennilega er þetta fyrsta Fitbit-ferðin mín eftrir þessum hring. Ferðir gekk nokkuð vel að öðru leyti en því að fimm kílómetrarnir reyndust vera 5,5 kílómetrar skv. Fitbit-gervitunglinu sem ég veit ekki hvort er það sama og Caledostunglið.
Eiginlega líkar mér betur við Fitbitið en Caledosið. Það er nú ekki bara vegna þess að kílómetrarnir virðast vera styttri þar, heldur lætur það mig vita um meðalhraðann á hverjum tíma til viðbótar við allt annað.
Um daginn var ég að lesa gömul eigin blogg (aðrir gera það víst ekki) og það er að mörgu leyti dálítið skemmtilegt beskæftigelse. Alveg er ég hissa á því hvað mér hefur dottið margt í hug til þess að skrifa um.
Kvöldroðinn er fallegur í kvöld. Ég horfi einmitt á hann út um gluggann hjá mér núna og þarf ekki nema að snúa höfðinu dálítið til þess. Allur himininn virðist vera rauður. Svo tekur morgunroðinn víst við eftir smástund, en ég er að hugsa um að fara að sofa.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)