Bloggfærslur mánaðarins, desember 2019

2900 - Endurbirting

2900 – Endurbirting

Held að það hafi verið árið 2013 sem ég skrifaði eftirfarandi blogg:

Það var síðastliðið sumar sem um það var talað að gera Stóra-Ásgautsstaðamálið opinbert. Ekki svo að skilja að ekki hafi verið talað um það áður. Aldrei hefur samt orðið neitt úr því að opinberlega væri um málið rætt. Bloggið mitt er í þeim skilningi opinbert að þónokkuð margir eru vanir að lesa það. Jafnvel væri hægt að kalla það fjölmiðil af einhverju tagi, ef löngun væri til.

Eftir talsverðar rökræður var ákveðið að ég sendi Láru Hönnu Einarsdóttur, sem er fyrrverandi vinnufélagi minn, bréf um þetta. Hún er vissulega orðin allþekkt og dregur yfirleitt hvergi af sér í málsvörn sinni fyrir lítilmagnann. Úr varð að ég skrifaði henni eftirfarandi bréf á Facebook:

Sæl og blessuð Lára Hanna.

Þú hefur svo sannarlega staðið þig vel í blogginu. Ert á margan hátt orðin málsvari lítilmagnans í íslensku þjóðfélagi. En ég er ekki að skrifa þér þess vegna. Svo er mál með vexti að ég er með bréf sem mig langar að senda þér. Í því eru upplýsingar sem kunna að vera viðkvæmar. Það sem ég er fyrst og fremst að velta fyrir mér er hvert þú vilt að ég sendi það. Netfangið altsvo. Helst vildi ég bara fá svarið hérna á fésbók, því ég fer svo sjaldan að skoða póstinn minn á Snerpu að meiri líkur eru á að slíkt fari framhjá mér þar.

Sæmundur Bjarnason


Þetta bréf var sent og samið í júlí í sumar. Lára Hanna svarað því strax um hæl og gaf mér upp netfangið sitt. Bréfið sem ég sendi henni þá var svona:

Ég sný mér bara beint að efninu og er ekkert með neinar krúsidúllur varðandi það.

Konan mín og systkini hennar eru erfingjar að níunda hluta jarðarinnar Ásgautsstaðir við Stokkseyri. Lögfræðingurinn Sigurður Sigurjónsson hrl. (í Kringlunni í Reykjavík – ath. þeir eru tveir hrl. alnafnarnir) hefur verið með mál í gangi í mörg ár útaf misnotkun sveitarfélgsins Árborgar (og áður Stokkseyrar) á jörðinni. Fulltrúar sveitarfélagsins virðast leggja áherslu á að tefja þetta mál eftir megni. Það er ekki útaf vantrausti á lögfræðingnum sem ég sný mér til þín með þetta mál. Þarna er um sakamál að ræða sem á sér langa sögu og tengist húsbyggingum á Stokkseyri, sýslumannsembættinu á Selfossi og Bæjarstjórn Árborgar. Um er að ræða óheimila notkun lands, ólöglegar byggingar, skjalafals og hugsanlega ýmislegt annað.

Spurningin sem við erum að velta fyrir okkur núna tengist því hvort gera eigi mál þetta opinbert eða ekki. Hugsanlega mundum við gera það með opnun bloggsíðu eða Facebook-síðu um málið eða jafnvel með upplýsingum og ljósritum til fjölmiðla, ef þeir hefðu áhuga á að fjalla um málið.

Þar sem ég veit að þú kannar mjög vandlega þau mál sem þú hefur áhuga á, áður en þú hefst handa, vil ég gjarnan fá álit þitt á því hvað væri réttast að gera og hvernig væri best að undirbúa það. Hugsanlega er þetta mál mjög viðkvæmt á svæðinu sem um ræðir og þess vegna bið ég þig að sjálfsögðu að segja ekki öðrum frá þessu án þess að hafa fyrst samband við mig eða konu mína.

Lára Hanna svaraði því strax daginn eftir þannig:

Má ég bera málið undir Inga Frey hjá DV - án þess að nefna nein nöfn? Því miður er Kastljós í fríi fram í september, annars myndi ég kynna málið fyrir strákunum þar.

Mér finnst að þið eigið að gera þetta opinbert - alveg hiklaust.

Ég svaraði henni nokkru seinna og sagði:

Sæl Lára Hanna. Við höfum ennþá ekki gert neitt í málinu sem ég sagði þér frá fyrr í sumar. Mér skilst að Kastljós sé að koma úr fríi á næstunni og við værum mjög fegin ef þú vildir minnast á þetta við fólkið þar. Gagnvart þeim mundir þú ekki þurfa að gæta neinnar sérstakrar varúðar varðandi staðreyndir málsins, enda eru hálfkveðnar vísur ekki þeirra stíll. Ég er alls ekki að reka neitt á eftir þér, en ef Kastljós vill ekkert sinna þessu þá býst ég við að við reynum einhverja aðra leið og þessvegna vildum við gjarnan fá að vita um það eins fljótt og hentugt er.

Seinna reyndi ég svo að hafa samband við Láru Hönnu útaf þessu máli en það gekk ekki. Ég býst við að stórir fjölmiðlar hafi lítinn áhuga á þessu máli. Þetta skiptir mig samt nokkru og bloggið mitt er a.m.k. einskonar gluggaveggur þar sem ég get látið það sem mér sýnist. Og núna sýnist mér einmitt að setja þetta þar.

Eiginlega vilja þau systkinin bara vita hvers vegna sýslumaðurinn á Selfossi svari ekki bréfum sem til hans eru sannanlega send. Þarna á ég við bréf sem lögfræðingur meginhluta erfingjanna að jörðinni hefur sent honum. Svo virðist sem málið sé strand þar núna og hafi verið alllengi.

Allar þær fullyrðingar sem fram koma í þessari bloggfærslu er hægt að færa fullkomnar sönnur á með ljósritum og staðfestum afritum úr embættisbókum.

 

Kannski er núna sjö árum síðar kominn tími til að minna á þetta aftur. Ekki minnkar spillingin hér á landi.

Því miður á ég ekki von á því að margir nenni að lesa þessi ósköp. Kannski verður þetta til þess að þeim fækkar að mun þessum fáeinu föstu lesendum sem mér hefur tekist að koma upp með stanzlausu bloggi í fjölda ára, en það verður bara að hafa það.

Einhver mynd.IMG 6452


2899 - Hvað er það sem þeir hjá Toyota vita, en við ekki?

Einu sinni var sagt að Volkswagen hefðu reynt að snúa galla upp í kost. Þannig var að hurðirnar á Bjöllunni voru svo léttar að ekki var auðveldlega hægt að skella þeim aftur. Þannig var og er bílhurðum yfirleitt lokað. Þeir hjá Volkswagen sögðu þá að þetta sýndi hve þéttir bílarnir væru. Ekki held ég þó að prófað hafi verið að keyra þá útí sjó, til að ganga úr skugga um þetta.

Minn fyrsti bíll var Volkswagen bjalla árgerð 1959. Sá bíll hafði verið keyptur í Þýskalandi og var með teinabremsum. Ekki þótti taka því að setja vökvabremsur á bíla fyrir innanlandsmarkað. Slíkar bremsur voru samt í þá tíð komnar í flesta bíla á Íslandi. Enginn bensínmælir var í bílnum heldur var hægt að færa hnapp sem færði úrtakið úr bensíntanknum svolítið neðar. Þetta var kallað varatankur.

Nú auglýsa þeir hjá Toyota Hybrid bíla sem ekki þarf (eða er hægt) að setja í samband við rafmagn. Vissulega er þetta nokkur framför frá varatanknum svokallaða, en hugsunin er sú sama. Toyota virðist ekki ætla að taka þátt í kapphlaupinu um rafmagnsbílana eins og aðrir bílaframleiðendur. Það hlýtur að stafa af því að þeir reikna ekki með að núverandi rafvæðing bílaflota heimsins verði varanleg. Metangas er hugsanlega lausnin. Ef bílafloti heimsins gengur fyrir slíku gasi og skyndilega eykst matarmenning stórlega, ja, hvað gera Danir þá?

Eldfjöll drepa. Það ættum við Íslendingar að þekkja, betur en margir aðrir. Samt er það svolítið undarlegt hve mikil fjölmiðlaumfjöllun er um sprengigosið á Hvíteyju í Indónesíu. Árið 2014 fórust eitthvað yfir 60 manns í svipuðu sprengigosi í Japan. Ekki man ég eftir neitt svipaðri umfjöllun um þann atburð í fjölmiðlum. Er þetta til marks um breytta fjölmiðlun, eða hvað? Ef svo er finnst mér hún gerast með miklum hraða. Mun hraðar en ég hefði ímyndað mér. Kannski er þetta útaf einhverju allt öðru, en mér finnst þetta athugunarefni.

Að efast um eigið ágæti, er vísasta leiðin til glötunar. Að heimilismatur sé betri en veitingahúsamatur er sjálfgefið, en að svið séu betri en hamborgarhryggur liggur ekki i augum uppi. Spakmæli á borð við þessi eru gjarnan það fyrsta sem mér dettur í hug á morgnana, þetta eða annað svipað á ég til að tauta fyrir munni mér með stírurnar í augunum, nývaknaður og grænn af pilluleysi. Þegar ég aftur á móti er orðinn sæmilega pillaður og búinn að fá mér lýsi og tilheyrandi dettur mér gjarnan ekkert í hug.

Samkvæmt frétt í Fréttablaðinu um að vopnasala hafi gengið vel á árinu sem er að líða ber að athuga að ekki eru allir sammála um að sú frétt sé jákvæð. Vissulega er það gott útaf fyrir sig að einhver atvinnugrein gangi vel, en gera má ráð fyrir að einhverjir gjaldi fyrir að vopnaframleiðslan og salan gangi vel. Þó stríð séu talin vera ein 27 um þessar mundir er ekki svo, held ég a.m.k., að stríðsógnir og hermdarverk fari vaxandi svona yfirleitt. Kannski er þetta ár, 2019 með þeim verri í þessu tilliti en ef réttar og vinsælli viðmiðanir eru notaðar, eins og t.d. heimssyrjaldirar tvær á síðustu öld er hægt að telja sér trú um að friðvænlegra sé í heiminum núna en oftast áður. Trump virðist að vísu gera sitt til þess að æsa menn upp, en kannski er það ekkert að marka, hugsanlegt er að hann sé friðelskandi inn við beinið.

IMG 6458Einhver mynd.


2898 - Um Moggabloggið o.fl.

Er hægt að vera eðlilega óeðlilegur. Hvað er eðli og hvað er óeðli. Þessu er erfitt að svara. Kannski er betra að vera óeðlilega eðlilegur. En nútímamenn sækjast mjög eftir því að vera sem eðlilegastir. Það er að segja að vera sem líkastir öllum hinum. Með aldrinum hefur mér þó tekist að verða smám saman eðlilegri og eðlilegri. Það er að segja að vera sem ólíkastur öllum hinum.

Kannski er ég þarna kominn í mótsögn við sjálfan mig. En það verður bara að hafa það. Er tískan eðlileg eða óeðlileg. Með orðinu sjálfu er reynt að gera það tíðkanlegt sem alls ekki er það. Ekki veit ég hvort tíska merki nákvæmlega það sem tíðkanlegt er, en mig grunar að svo sé. Þeim sem vinna við tískusýningar finnst sjálfsagt að tískan sé eðlileg. Öðrum, sérstaklega þó að likindum karlmönnum, finnst hún eflaust óeðlileg.

Andskoti er ég búinn að blogga mikið um dagana. Var áðan að lesa gömul blogg. Sumt sem þar er að finna væri alveg verið ástæða til að minnast á aftur. Verst að vita ekkert um hver hefur lesið hvað. Gott væri að vita hvort þessi fáeinu hundruð eða svo sem virðast lesa bloggið mitt reglulega hafa gert það lengi. Ekki get ég lagt það á nokkurn mann (eða réttara sagt nokkra menn – því ég mundi ekki sýta það mikið þó örfáir yrðu að sætta sig við að fá í hausinn gömul blogg) að lesa aftur það sem þeir hafa áður lesið.

Sjálfur er ég búinn að gleyma alveg mörgu af því sem ég hef bloggað. Alveg eru þau merkilega góð (þó ég segi sjálfur frá) sum af þessum gömlu bloggum mínum. Kannski get ég tekið hugmyndir úr þeim og fært þær í nýstárlegri búning. Reyndar hef ég oft gert það. Stundum meðvitað og stundum ómeðvitað. Til dæmis man ég ekki hvort ég hef sett þessa frásögn áður á bloggið. Ég fann hana alveg óvænt á tölvunni minni:

Þegar ég fór í rörið. Nei, ég á ekki við Hvalfjarðargöngin. Rörið sem ég er að tala um hafa víst færri farið í. Ég á við maskínuskrímsli eitt á Borgarspítalanum. En byrjum á byrjuninni.

Í febrúar 2007 (minnir mig) var ég greindur með kæfisvefn. Í framhaldi af því fór ég í einhverja rannsókn á Borgarspítalanum. Þar var mér líka boðið að fara í einhverja samanburðarrannsókn sem Íslensk Erfðagreining stóð fyrir. Það þáði ég, svo ég á kannski einhvern þátt í gjaldþroti þess fyrirtækis – en er sléttsama.

Þessi magnaða vél er einkum eitt stórt og mikið rör. Þessi vél hefur eitthvert íslenskt nafn og jafnvel deild sem nefnd er eftir henni. Man það bara ekki og finnst það ekki skipta miklu máli. Út úr vélinni rann fjöl ein sem líktist legubekk. Þar var ég látinn leggjast . Fyrst var ég reyndar spurður að því hvort mér hætti við innilokunarkennd. Ekki vildi ég viðurkenna það svo ég lagðist á bekkinn. Eina kúlu fékk ég í hendina og var sagt að kreista hana ef ég þyrfti nauðsynlega að komast út.

Konan sem aðstoðaði mig við að koma mér fyrir á bekknum fór síðan út úr herberginu og lokaði á eftir sér. Líklega til að koma sér fyrir við tölvuna sem var í herbergi skammt frá og ég hafði séð fólk sitja við þegar ég kom fyrst inn í herbergið. Þetta var svolítið ógnvekjandi því ég sá strax að ég mundi ekki geta risið upp né lyft höndunum eftir að ég væri kominn inn.

Áður en konan fór sagði hún mér að ég þyrfti að vera þarna í svona 10 til 15 mínútur og mætti ekki hreyfa mig og helst ekki kyngja. Síðan rann bekkurinn eins og fyrir einhverja töfra rakleiðis inn í maskínuna. Ekki var mér bannað að hugsa svo það var eiginlega það eina sem ég gat gert. Komst þó ekki hjá því að kyngja munnvatni öðru hvoru en reyndi að vera fljótur að því.

Leið svo og beið. Engin hljóð bárust til mín frá umheiminum og ég gat ekki hreyft mig og mátti það ekki. Fæturnir stóðu þó útúr vélinni að ég held. Að lokum var ég orðinn sannfærður um að mun meira en 15 mínútur væru liðnar og starfsfólkið væri bara búið að gleyma mér. Stillti mig samt um að kreista kúluna sem auðvitað gat vel verið biluð en ekki margt sem ég gat gert.

Þegar ég var orðinn sannfærður um að ég hefði gleymst og allir væru farnir varð ég var við umgang í herberginu og bekkurinn rann út úr vélinni. Þar var þá komin konan sem hafði aðstoðað mig í upphafi. Varð ég nú allshugar feginn og taldi allt vera búið. Svo var þó ekki og átti sér nú stað samtal sem var einhvern vegin svona:

Konan: „Þetta gengur ekki nógu vel hjá okkur. Við fáum myndina ekki skýra. Ertu nokkuð með gervitennur?“

Ég: „Jú, einmitt.“

Konan: „Þá verð ég biðja þig að setja þær hér.“

Ég: „Sjálfsagt.“

Síðan setti ég gervitennurnar á bakkann eða hvað það nú var sem hún rétti í áttina til mín.

Svo rann sleðinn aftur inn í vélina og allt endurtók sig nema hvað nú var ég ennþá sannfærðari um að ég hefði gleymst. Kannski var ég ögn lengur í þetta sinn en veru minni í rörinu lauk þó stóráfallalaust.

___________________________________________________________

Aldrei hefur teljarinn á Moggablogginu haldið því fram, svo ég viti, að ég sé með þeim allra vinsælustu þar, en þó hef ég lengi verið meðal þeirra 50 efstu og reyndar komist miklu ofar. Stjórnendur Morgunblaðsins hafa sérstakt dálæti á sumum bloggurum, en ekki á mér, sem betur fer, segi ég bara.

Þeir virðast skammast sín fyrir bloggið og vilja sem minnst láta á því bera (kannski finnst þeim það ógna sér) og hafa lítið álit á því. Svona eins og ég hef greinilega fremur lítið álit á fésbókinni. Auðvitað höfum við bloggararnir á Moggablogginu ekki sama aðgang að fréttum og blaðamenn þar. Greinskrif í Mogganum hef ég litlar spurnir af vegna þess einfaldlega að ég er ekki áskrifandi að honum. Held að þau birtist ekki á mbl.is, sem ég les stundum, jafnvel oft ef svo ber undir. Fésbókina les ég líka og safnaði eitt sinn fésbókarvinum, en er eiginlega alveg hættur því.

IMG 6460Einhver mynd.


2897 - Ingimundur Kjarval

Ingimundur Kjarval er kominn aftur og byrjaður að skrifa um afa sinn Jóhannes Sveinsson Kjarval listmálara. Ekkert hef ég frétt frá Ingimundi í allmörg ár. Síðasta innlegg hans á undan því sem hann hefur skirfað eða a.m.k. sett á Moggabloggið í fyrradag (5. desember 2019) er frá 2013. Ég fylgdist allvel með því sem hann sendi frá sér fyrir löngu. Vel getur verið að ég hafi einkum lesið Moggabloggið sem hann skrifaði.

Aðrir eru eflaust fróðari en ég um málarekstur hans og fjölskylduhagi. Hann hélt því fram að mörgum verkum afa síns hafi verið stolið af Reykjavíkurborg. Málarekstri hans held ég að hafi lokið með dómsúrskurði Hæstaréttar Íslands. Ég man vel eftir að hafa lesið mörg blogg eftir hann og satt að segja er öll hans frásögn bæði mjög sennileg og ágætlega skrifuð. Að Hæstiréttur hafi komist að rangri niðurstöðu í þessu máli getur alveg staðist.

Um þetta mál gæti ég skrifað miklu meira en vísa í staðinn á það sem Ingimundur sjálfur hefur skrifað um þetta mál allt saman á Moggabloggið.

Von er á halastjörnu um jólaleytið. Björtust verður hún víst þann 28. desember. Samt mun hún ekki sjást með berum augum, heldur aðeins í sæmilega öflugum stjörnukíkjum. Halar halastjarna, séu þær yfirleitt með hala er samsettur úr örsmáum rykkornum, sem sólarvindurinn feykir til. Þessi halastrjarna heitir 2l Borisov í höuðið á þeim sem fann hana. Í gegnum halann a henni fannst stjörnuþokan eða galaxy-ið sem nefnt er: 2dFgrS TGN363Z174, sem er víst ákalega merkileg stjörnuþoka, þó ekki verði farið nánar útí að lýsa henni hér.

Þegar við vorum á Tenerife fyrir nokkru leigðum við okkur í eina dagstund svokallaða ellinöðru. Svo merkilega vildi til að það var íslenskt fyrirtæki sem leigði okkur hana. Á þessu farartæki fórum við fram og aftur um ströndina fyrirhafnarlaust. Hún gekk að sjálfsögðu fyrir rafmagni. Eflaust eiga tæki sem þetta mikla framtíð fyrir sér á svona stöðum þar sem aldrei sést snjór eða ísing og stormur og rok er nánast það sama og við köllum golu.

Nú eru Jólin að nálgast og kaupæði landans að ná hámarki. Allir þykjast vera lausir við þessi ósköp, en satt að segja eru næstum allir sekir. Sjálf keyptum við okkur nýtt sjónvarp, en þurfum sem betur fer ekki að kaupa margar jólagjafir. Sumir horfa á jólagjafalistann lengjast með hverju árinu, en við erum sem betur fer farin að takmarka þetta við nánustu fjölskyldu. Útgjöld flestra eru ekki takmörkuð við jólagjafir, heldur er reynt að gera vel við sig á sem flestum sviðum. Lífskjör öll hafa sem betur fer farið batnandi síðustu áratugina og ekki er nein furða þó eyðslan sé mikil um þetta leyti. Fræg vísa lýsir þessu nokkuð vel:

Þó desember sé dimmur
þá dýrleg á hann jól.
Með honum endar árið
og aftur hækkar sól. 

Vonum að nýárssólin boði okkur gott og farsælt ár.

IMG 6470Einhver mynd.


2896 - Trump, aldrei slíku vant

Af því að Fréttablaðið er ókeypis set ég mig sjaldnast úr færi með að fletta því. Hvort ég les eitthvað annað en fyrirsagnirnar er svo undir hælinn lagt. Ýmislegt hefur valdið því að ég hef ekki ennþá komist til þess að fletta í gegnum laugardagsblaðið. Ætli ég geri það nokkuð. Var áðan að ná í mánudagsblaðið og þó klukkan sé orðin eða alveg að verða eitt tók ég síðasta blaðið sem hefur borist hingað í blokkina. Slíkt er afar óvenjulegt. Yfirleitt læt ég nægja að lesa fyrirsagir á forsíðunni en stundum dugir það alls ekki. T.d. var ég rétt í þessu að líta á aðalforsíðufréttina þar og hana má skilja a.m.k. á tvo vegu. Fyrir þá sem ekki nenna eða geta athugað það skal ég endurtaka þessa fyrirsögn en hún var svona: „Fá vitni leidd fyrir Landsrétt“. Sennilega neyðist ég til að lesa fréttina sjálfa, eða a.m.k. inngang hennar. Sjálfsagt hefði verið hampaminna fyrir mig að lesa fréttina heldur en að skrifa þetta, en ekki verður við öllu séð.

Trump greyið hefur fallið svolítið í skuggann hér á Íslandi vegna Samherjamálsins. Fjölmiðlafrumvarpið virðist vera ríkisstjórninni dálítið erfitt, en kannski er það einmitt Samherjamálið sem er að valda henni, eða forystumönnum hennar, hugarangri. Opinberlega er alls ekki hægt annað en vera sammála öllu sem gert er í því máli, en útgerðarauðvaldið á hugsanlega þessa ríkisstjórn.

Eitt er það sem honum Kára Jónasar, eða hver það er sem ræður þessu með gegnsæið, virðist ekki hafa dottið í hug. Það er að láta umsækjendur sjálfa ráða því hvort nöfn þeirra verða birt. Það er ekkert sérlega langt síðan hann Óskar Nafnleyndar sótti um hin ýmsustu embætti hér um slóðir. Sumum sjálfstæðisþingmönnum finnst RUV vera orðið ansi vinstrisinnað. Hver veit nema fjölmiðlafrumvarpinu öllu saman verði á endanum stungið undir stól. Nóg virðist vera fyrir Lilju að gera samt.

Kæran á Trump bandaríkjafoseta verður líklega samþykkt í fulltrúadeildinni í þessum mánuði. Afar litlar líkur eru þó á að hún verði samþykkt í öldungadeildinni, en tvo þriðju hluta atkvæða þarf þar svo forsetinn verði að víkja. Hugsanlegt er meira að segja að kærunni verði vísað frá strax í upphafi. Til þess þarf kannski aðeins einfaldan meirihluta, sem republikanar hafa vissulega. Ef kæran verður tekin til meðferðar þar munu öldunardeildarþingmenn (allir 100) verða einskonar kviðdómur, en forseti Hæstaréttiar mun stýra málsmeðferð og verða þannig nokkurs konar dómari. Síðan repúblikanar reyndu að koma Clinton frá völdum vegna meinsæris hefur verið hefð fyrir því að flokkslínur ráði atkvæðum þar í svona málum, og í það heila hafa flokkslínur ráðið meira en venjulega að undanförnu..

Hættulegra fyrir Trump, að sumu leyti, kann að vera að Hæstiréttur bandaríkjanna fær hugsanlega til meðferðar fljótlega kæru vegna neitunar Hvíta Hússins á að afhenda skattskýrslur Trumps aftur í tímann, eins og forsetar hafa hingað til gert. Hæstiréttur hefur ekki alltaf farið eftir flokkslínum og satt að segja er ekki sjáanlegt að þó hann dæmi Trump í óhag í þessu máli þurfi hann að segja af sér embætti, en búast má þá við löngum þrætum. Og svo eru sjálfar kosningarnar á næsta ári eftir. Trump er allavega óvenjulegur forseti og hefur á margan hátt breytt embættinu. Þó víða um heim sé hlegið að honum, hefur hann verið heppinn heima fyrir með flest, nema hvað Pressan og að sjálfsögðu demókratar hafa verið honum andsnúin. Fylgi hans meðal venjulegra bandaríkjamanna er talsvert.

Ég er búinn að ætla mér að skrifa á bloggið alla vikuna en ekki orðið úr. Sumt af þessu skrifaði ég á mánudaginn var, en sumt er alveg nýlegt. Nú er ég andvaka og þessvegna er ágætt tækifæri til að ganga frá þessu.

IMG 6478Einhver mynd.


Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband