2896 - Trump, aldrei slíku vant

Af því að Fréttablaðið er ókeypis set ég mig sjaldnast úr færi með að fletta því. Hvort ég les eitthvað annað en fyrirsagnirnar er svo undir hælinn lagt. Ýmislegt hefur valdið því að ég hef ekki ennþá komist til þess að fletta í gegnum laugardagsblaðið. Ætli ég geri það nokkuð. Var áðan að ná í mánudagsblaðið og þó klukkan sé orðin eða alveg að verða eitt tók ég síðasta blaðið sem hefur borist hingað í blokkina. Slíkt er afar óvenjulegt. Yfirleitt læt ég nægja að lesa fyrirsagir á forsíðunni en stundum dugir það alls ekki. T.d. var ég rétt í þessu að líta á aðalforsíðufréttina þar og hana má skilja a.m.k. á tvo vegu. Fyrir þá sem ekki nenna eða geta athugað það skal ég endurtaka þessa fyrirsögn en hún var svona: „Fá vitni leidd fyrir Landsrétt“. Sennilega neyðist ég til að lesa fréttina sjálfa, eða a.m.k. inngang hennar. Sjálfsagt hefði verið hampaminna fyrir mig að lesa fréttina heldur en að skrifa þetta, en ekki verður við öllu séð.

Trump greyið hefur fallið svolítið í skuggann hér á Íslandi vegna Samherjamálsins. Fjölmiðlafrumvarpið virðist vera ríkisstjórninni dálítið erfitt, en kannski er það einmitt Samherjamálið sem er að valda henni, eða forystumönnum hennar, hugarangri. Opinberlega er alls ekki hægt annað en vera sammála öllu sem gert er í því máli, en útgerðarauðvaldið á hugsanlega þessa ríkisstjórn.

Eitt er það sem honum Kára Jónasar, eða hver það er sem ræður þessu með gegnsæið, virðist ekki hafa dottið í hug. Það er að láta umsækjendur sjálfa ráða því hvort nöfn þeirra verða birt. Það er ekkert sérlega langt síðan hann Óskar Nafnleyndar sótti um hin ýmsustu embætti hér um slóðir. Sumum sjálfstæðisþingmönnum finnst RUV vera orðið ansi vinstrisinnað. Hver veit nema fjölmiðlafrumvarpinu öllu saman verði á endanum stungið undir stól. Nóg virðist vera fyrir Lilju að gera samt.

Kæran á Trump bandaríkjafoseta verður líklega samþykkt í fulltrúadeildinni í þessum mánuði. Afar litlar líkur eru þó á að hún verði samþykkt í öldungadeildinni, en tvo þriðju hluta atkvæða þarf þar svo forsetinn verði að víkja. Hugsanlegt er meira að segja að kærunni verði vísað frá strax í upphafi. Til þess þarf kannski aðeins einfaldan meirihluta, sem republikanar hafa vissulega. Ef kæran verður tekin til meðferðar þar munu öldunardeildarþingmenn (allir 100) verða einskonar kviðdómur, en forseti Hæstaréttiar mun stýra málsmeðferð og verða þannig nokkurs konar dómari. Síðan repúblikanar reyndu að koma Clinton frá völdum vegna meinsæris hefur verið hefð fyrir því að flokkslínur ráði atkvæðum þar í svona málum, og í það heila hafa flokkslínur ráðið meira en venjulega að undanförnu..

Hættulegra fyrir Trump, að sumu leyti, kann að vera að Hæstiréttur bandaríkjanna fær hugsanlega til meðferðar fljótlega kæru vegna neitunar Hvíta Hússins á að afhenda skattskýrslur Trumps aftur í tímann, eins og forsetar hafa hingað til gert. Hæstiréttur hefur ekki alltaf farið eftir flokkslínum og satt að segja er ekki sjáanlegt að þó hann dæmi Trump í óhag í þessu máli þurfi hann að segja af sér embætti, en búast má þá við löngum þrætum. Og svo eru sjálfar kosningarnar á næsta ári eftir. Trump er allavega óvenjulegur forseti og hefur á margan hátt breytt embættinu. Þó víða um heim sé hlegið að honum, hefur hann verið heppinn heima fyrir með flest, nema hvað Pressan og að sjálfsögðu demókratar hafa verið honum andsnúin. Fylgi hans meðal venjulegra bandaríkjamanna er talsvert.

Ég er búinn að ætla mér að skrifa á bloggið alla vikuna en ekki orðið úr. Sumt af þessu skrifaði ég á mánudaginn var, en sumt er alveg nýlegt. Nú er ég andvaka og þessvegna er ágætt tækifæri til að ganga frá þessu.

IMG 6478Einhver mynd.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband