Bloggfærslur mánaðarins, júlí 2018
31.7.2018 | 06:47
2754 - Hitt og þetta um allan fjárann
Brauðmolakenningin svonefnda hefur afsannast í þeirri eymd og niðurlægingu sem víða þrífst í Bandaríkjunum. Vissulega eru margir ríkir þar, en fátæklingarnir eru líka margir og reyndar miklu fleiri. Mér finnst mestu máli skipta á hvaða leið menn eru, ekki hvort hægt er að finna torleyst vandamál. Þau má allsstaðar finna. Mér finnst ESB vera á betri leið en USA. Sú fyrirætlun Trumps að loka ríkin sem mest af, er röng að mínum dómi og mun að lokum leiða til ófarnaðar. Evrópska leiðin er farsælli. Samvinna og samstarf er betra þegar til lengdar lætur. Gallar eru samt augljósir á þeirri leið. T.d. eru flóttamannamálin til þess fallin að valda sífelldri úlfúð og vandræðum.
Öfgar í veðri eru að ég held ekkert meiri nú en oft áður. Rigningarsumur hafa komið áður hér á Íslandi. Ef aldrei væru sett veðurmet væri veðrið fyrst óvenjulegt. Ef hægt væri að leysa flóttamannamálin og hnatthlýnunina með því móti að skrifa um þann vanda, væri áreiðanlega búið að gera það fyrir löngu. Svartagallsraus leysir engan vanda. Vissulega eru skógareldar og flóttamannadrukknanir hræðilegir atburðir. Hugsanlega stafa þeir þó fyrst og fremst af auknum mannfjölda og sívaxandi fjölmiðlun. Kannski erum við að nálgast þolmörkin þar. Enginn vafi er að mannkynið þarf á allri sinni snilli að halda til að leysa brýnustu mál.
Fésbókarvinum mínum fjölgar um þessar mundir sem aldrei fyrr. Mest eru það útlendingar (eftir nöfnunum að dæma) sem sækjast eftir slíku. Sennilega hef ég lent á einhverju lista yfir þá sem líklegir eru til að samþykkja vináttu. Sjálfur sækist ég nær aldrei eftir slíku. Þegar ég var kominn í u.þ.b. 500 hætti ég þessháttar söfnun. Hef það fyrir reglu að samþykkja aldrei fésbókarvináttu nem um svo og svo marga sameiginlega vini sé að ræða og að ég kannist eitthvað við þá. Því er ekki að neita að sömu nöfnin koma aftur og aftur fyrir. Annars finnst mér fésbókin vera að verða sífellt leiðinlegri og leiðinlegri. Ágætlega hentar hún þó til myndasýninga fyrir ættingja og kannski er best að vera ekkert að hafa áhyggjur af henni. Sá fjölmiðill sem bloggið er finnst mér henta ágætlega til skrifelsis. Ágætt er að vera sem mest laus við pólitíkina og guðsorðastaglið. Moggabloggið gæti sem best tekið við sér aftur.
Minn stíll í bloggskrifum er sá að skrifa stuttar athugasemdir um flest milli himins og jarðar. Svona svipað og Jónas heitinn Kristjánsson gerði. Hann skrifaði reyndar fyrst og fremst um pólitík og þær fréttir sem hæst bar á hverjum tíma. Reynsla hans og þekking kom þar að góðum notum og hann hafði greinilega fjölmarga lesendur. Sama er reyndar að segja um marga aðra. Þó ekki mig, enda er engin regla á því hve oft ég skrifa né um hvað. Mér finnst sjálfum að mest af því sem ég sendi frá mér á þessu bloggi vera óttalegt gaspur. Orðaval mitt og umfjöllunarefni er kannski oft sérvitringslegt.
Vel getur verið að þessi skrif mín séu óttalega þreytandi, en svo getur líka verið að þau hjálpi einhverjum að halda sönsum í þeirri vitfyrringu hraða og ofstækis sem mér finnst stundum vera að ganga alltof nærri þeim sem eldri eru. Gamall er ég vissulega en reyni að fylgjast með því sem hæst ber í þjóðfélaginu. Tinna segir að við séum bæði hjónin fréttasjúk. Henni leiðast fréttir og vill helst vera án þeirra. Helsti kosturinn við að eiga heima hérna á Akranesi er hve rólegheitin og afskiptaleysið eru yfirþyrmandi. Umferðin í Reykjavík er líka orðin svo mikil að til vandræða horfir að mínum dómi. Bjarni týndi símanum sínum í gær, en hann finnst væntanlega fljótlega. Að sumu leyti eru þessi bloggskrif mín að verða eins og nokkurskonar dagbókarfærslur. A.m.k. stundum.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)
30.7.2018 | 11:06
2753 - Julian Assange
Það var hann Vilbergur vanafasti sem gerði næstum allt sem til óþurftar er. Vel mætti hugsa sér að gera hann að strámanni. Uppáhalds strámaður eða strámenn margra er góða fólkið svonefnda. Þetta er hjá flestum háðsyrði hið mesta. Á þetta má slengja allskyns fáránlegum ímyndunum um þá sem styðja eða vilja gjarnan styðja flóttamenn og hælisleitendur. Aðgerðarsinnar allir (nema nýnasistar) tilheyra þessum hópi að sjálfsögðu.
Einhverju sinni var mjög til siðs að skíra fyrirtæki og allan fjandan .is eitthvað. Fyrir mér hætti sú tilfinnig sem því fylgdi að vera frumleg og varð í staðinn hallærisleg þegar skyr.is kom á markaðinn. Af hverju þetta kemur allt í einu upp í hugann núna veit ég ekki. Og ég veit heldur ekki hvers vegna mér þótti þetta allt í einu hallærislegt. Kannski hefur einhver sem ég hef metið mikils á þeim tíma verið á móti þessu.
Julian Assange hefur hírst í sendiráði Ekvador í London síðan árið 2012. Hvernig í ósköpunum stendur á þessu. Bakvið þetta er löng saga og um margt merkileg. Hann var stofnandi og ábyrgðarmaður Internet síðunnar WikiLeaks á sínum tíma. (Á íslensku á allsekki að hafa stóran staf inni í miðju orði.) Þessi samtök njóta og nutu verulegs stuðnings víða um heim. Þó ekki í Bandaríkjunum. Kannski hafa þau alla tíð notið meiri stuðnings hér á Íslandi en víða annars staðar. Á þeim tíma sem liðinn er hefur Assange hugsanlega orðið úreltur og önnur samtök en WikiLeaks tekið við keflinu.
Vera hans í sendiráði Ekvador hefur orðið til þess að Wikileaks samtökin hafa á margan hátt drabbast niður. Stjórnvöld í Bretlandi og Ekvador ræða nú hvernig hægt er að leysa margskonar vandamál sem þessu tengjast. Svíþjóð og Bandaríki Norður-Ameríku blandast einnig í þessa deilu. Vel mætti skrifa margar bækur um þetta mál alltsaman en í grunninn snýst það um mismunandi túlkun laga í þessum löndum.
Að mörgu leyti lít ég hann svipuðum augum og Bobby Fischer. Báðir urðu þeir fyrir reiði stórvelda þrátt fyrir frægð sína. Örlög þeirra stjórnast að miklu leyti af þessum stórveldum. Þau (stórveldin) muna vel ef þeim finnst eitthvað gert á hlut sinn og hafa fjölmörg ráð til þess að hefna sín. Þegar frægðarinnar og aðdáunar margra nýtur ekki við getur orðið ansi lítið úr baráttu gegn slíku ofurefli.
Ein besta braghendi sem ég kann finnst mér vera þessi:
Sólskríkjan mín situr enn á sama steini
og hlær við sínum hjartans vini.
Honum Páli Ólafssyni.
Sjálfur hef ég reynt að stæla þetta:
Braghendu er býsna gott að berja saman.
svo er líka geysigaman
að gretta sig sem mest í framan.
Annars finnst mér litlu máli skipta fyrir hagyrðinga (sem ég tilheyri hugsanlega) hvað bragarhættir heita. Sama er að segja um höfunda. Ef vísan hittir í mark verður hún fleyg, annars ekki:
Á fésbókinni eru flestir feikilega góðir
og feta ekki neinar slæmar slóðir.
Slappir verða geysilega fróðir.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (4)
26.7.2018 | 23:22
2752 - Frægð er fangelsi
Frægð er fangelsi. Ekkert má fræga fólkið gera. Ekki einu sinni mistök, þá er það komið í fréttirnar. Þetta verðum við hin ófrægu og andlitslausu a.m.k. að telja okkur trú um til að halda sönsum. Sama er að segja um ríkidæmi. Sennilega er alltof streituvaldandi og áhættusamt að vera ríkur. Sífelldar áhyggjur. Best er sennilega að komast sæmilega af og vera þokkalega heilsuhraustur. Sums staðar fylgist þetta að. Þ.e.a.s. ef fólk missir heilsuna getur ríkidæmið verið á förum líka. Annars staðar hefur verið reynt að aðskilja þetta með því að hafa allt lækningatengt sem ódýrast, helst alveg ókeypis. Þá verður að hafa skattana fremur háa því einhver verður að borga. Nú er ég að komast á dálítið hálan ís og svolítið pólitískan.
Um daginn helgaði Morgunblaðið Helgu Völu Helgadóttir heilan staksteinaþátt. Fyrir utan Reykjavíkurbréfið á sunnudögum (eða a.m.k. um helgar) er það einn helsti gallsúri pólitíski þátturinn þar. Leiðarana í Morgunblaðinu les ég aldrei og heyri sjaldan á þá minnst. Helgu hafði orðið það á að gagnrýna (á vitlausan hátt) Píu Glistrup (ég meina Kjærsgaard). Annars mætti skrifa langa og leiðinlega rollu um Þingvallafundinn síðasta og Steingrím Sigfússon. Sennilega er þetta hans svonasöngur í íslenskri pólitík. Vonum bara að Katrín verði eitthvað skárri. Satt að segja er ég ekki ennþá búinn að missa alla trú á henni þó sumir virðist hafa gert það. Gjáin milli þings og þjóðar sem ÓRG talaði sem fjálglegast um virðist sífellt fara breikkandi. Við verðum eiginlega að fara að gera eitthvað í þessu.
Fyrir skömmu heyrði ég eða sá nýtt orð. Skýrslumýri var orðið. Líklega var það kennari sem notaði þetta orð. Held að hann hafi verið að finna að þvi að foreldrar eru í vaxandi mæli farnir að ætlast til þess að skólinn (og þar með kennararnir) sjái um uppeldið á krakkagríslingunum. Að sumu leyti er ég sammála því, en mér fannst hann vera heldur á móti því sem hann kallaði skýrslumýri. Eitt af því sem ég held að okkur Íslendinga vanti tilfinnanlega er meiri og fullkomnari skýrslugerð. Skýrslur sem hér eru gerðar um íslenskt þjóðlíf eru fyrst og fremst um það sem jákvætt er. Neikvæðar skýrslur eru litnar hornauga og helst ekki gerðar og ekki skrifað um í fjömiðla. Þeir eru samt óskaplega hallir undir hverskonar skoðanakannanir og þessháttar.
Það sem Þorvaldur Gylfason skrifar er eitt af því sem ég les næstum alltaf í Fréttablaðinu. Held að þeir Þorsteinn og Vilmundur hafi verið bræður hans. Synir Gylfa Þ. Gíslasonar, sem lengi var ráðherra og formaður Alþýðuflokksins. Í dag skrifar hann um kosningaskyldu og Ástralíu og þar talar hann einnig eins og svo oft áður um Skandinavíu og reyndar Noreg sérstaklega, að mig minnir.
Björn Birgisson skrifar mikið og oft á fésbókina og er sjálfhælinn nokkuð. Það er þó enginn ljóður á hans ráði. Hann fer stundum mikinn þar. Mest skrifar hann í hálfum setningum. Það er bara hans stíll. Býr sér gjarnan til svokallaða strámenn og ræðst á þá af mikilli heift. Man að hann sagðist einu sinni hafa farið á Moggabloggið og þar væru aðallega sannfærðir sjálfstæðismenn og fáeinir sérvitringar. Líklega er ég einn slíkur og þeir sem þó lesa bloggið mitt mega passa sig á því að kommenta varlega þar því Björn og hans menn gætu verið þar yfir og allt um kring. Nú virðist hann hafa tekið miklu ástfóstri við Piu Kjærsgaard sem lengi hefur stýrt þjóðarflokknum í Danmörku. Ekki er ég sannfærður um ágæti hennar og hef kosið Píratana að undanförnu. Kannski hefði ég þó viljað mæta á Þingvöll og hugsanlega ekki mótmælt veru Piu þar á sama hátt og Helga Vala hefði ég haft aðstöðu til og fengið borgað fyrir það.
Þó ég sé sennilega fésbókarvinur nefnds Björns þá þykir mér verra að missa Steina Briem, en að verða hugsanlega úthýst af Birni (hann er slæmur með það). Steini virðist vera hættur að kommenta með vísum á bloggið mitt eins og hann gerði.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (4)
24.7.2018 | 12:34
2751 - Pia Kjærsgaard
Varð fyrir svolitlum vonbrigðum þegar viðtal var við Friðrik Ólafsson þar sem rætt var við hann meðal annars um sín fyrstu kynni af skák. Það heimfærði hann upp á sjálfan sig gamla sögu um Capablanca. A.m.k. heyrði ég hana fyrst um Capablanca. Kannski er hún ekkert síður sönn um Friðrik en Capa því ómótmælanlegt er að hann stóð sig mjög vel í skák alveg frá unga aldri og er að mínum dómi einn merkasti íþróttamaður Íslandssögunnar. Sjálfur man ég ósköp vel eftir því að hann kom í heimsókn á heimsmeistaramót skáktölva sem haldið var í háskólanum í Reykjavík um árið samhliða einhverju íslensku skákmóti. Meistararnir sem þar voru urðu mjög uppveðraðir af því að fá tækifæri til að fá mynd af sér með Grandmaster Olafsson.
Sagt er að álíka spennandi sé að horfa á málningu þorna einsog að fylgjast með skákmóti. Einu sinni var sú tíð að hægt var að selja inn á skákmót. Það er ekki gert lengur. Meðan ég var og hét fylgdist ég stundum með skákmótum og keypti mig jafnvel inn á þau. Aldrei hefur það hvarflað að mér að fara á golfmót sem áhorfandi og ég skil ekki þannig mentalitet Satt að segja mundi ég fremur sjálfur vilja vera þátttakandi í slíku en áhorfandi. Gott ef það er ekki ennþá betra að fylgjast með þessháttar í sjónvarpi en að fara á staðinn.
Undarlegt með mig. Sennilega er ég ólíkur flestum öðrum íslenskum sófakartöflum sem kalla sig íþróttaunnendur. Ég elska nefnilega að sjá Englendinga tapa í fótbolta og svo hefur lengi verið. Að sumu leyti er einn mesti sigur Íslendinga í þeirri íþróttagrein að hafa sigrað þá og slegið út úr 16 liða úrslitum Evrópukeppninnar um árið í Frakklandi sællar minningar. Þátttakan í heimsmeistaramótinu í Rússlandi er ekki af sömu stærðargráðu. Þar stóðu þeir sig ekki alveg nógu vel, þó jafnteflið við Argentínu hafi svosem verið ágæt sárabót. Sömuleiðis finnst mér alveg nauðsynlegt að Tiger Woods nái sér alls ekki aftur á strik í golfinu. Eiginlega finnst mér golfið ekki vera íþrótt. Frekar afsökun fyrir útiveru. Kannski er þar um að ræða einhverskonar ást á því að vera öðruvísi en aðrir.
Helga Vala Helgadóttir, henti skít í Píu. Þetta gæti svosem verið upphaf á vísu. Þó ég hafi stundum gert vísur treysti ég mér ekki til að gera boðlega vísu úr þessu. Annars finnst mér Danir hafa sýnt okkur Íslendingum óvirðingu með því að senda okkur manneskju af þessu tagi. Steingrímur Jóhann er greinilega mjög ánægður með að þurfa ekki að ræða um annað en hegðun Helgu Völu og Pírata. Samkoman á Þingvöllum var greinlega að öllu leyti misheppnuð og Steingrímur er greinilega alveg í vasanum á Bjarna Ben. einsog fleiri. Vitanlega er auðvelt að vera vitur eftirá, en Pia er samt sem áður skítapía.
Bloggar | Breytt s.d. kl. 12:51 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (19)
23.7.2018 | 11:59
2750 - Guðmundur Brynjólfsson
Bakþankar Fréttablaðsins eru eitt af því fáa sem ég les reglulega. Sama gerði ég í morgun mánudag. Guðmundur Brynjólfsson skrifaði þá og fjallar þar um James Ratcliffe og 40 jarðir. Að mörgu leyti er ég honum alveg sammála. Of miklir peningar eru yfirleitt til bölvunar. Hér á Akranesi er alveg hægt að stunda einveru á sama hátt og hann segir að Ratcliffe hljóti að vera að sækjast eftir. Sjálfur stunda ég slíka einveru og tala mest við sjálfan mig og í mesta lagi símann. En auðvitað verður að fara nokkuð snemma af stað, ef einveran á að vera fullkomin. Þar að auki fylgir þessari einveru enginn lax. Meðfram sjónum er þó óhætt að ganga. Auðvitað finnst forföllnum laxveiðimönnum það mikill ókostur að hafa engan lax. Einu sinni lenti ég í brjáluðum laxveiðimanni við Elliðaárnar. Þó var ég ekki að trufla neinn, nema kannski laxinn. En sleppum því. Ég slapp óskaddaður frá honum. Kannski af því að konan mín var með í för.
Allir, eða a.m.k. allflestir hljóta að gleðjast yfir því að samið hefur verið við ljósmæður. Verkalýðsbarátta hverskonar hlýtur ætíð að stjórnast af aðstæðum í þjóðfélaginu hverju sinni. Að þessu sinni má segja að sú barátta hafi fyrst og fremst farið fram á samfélagsmiðlum, svo og öðrum fjölmiðlum. Eflaust finnst mörgum að í þessari baráttu hafi ljósmæður ekki haft mikið uppúr krafsinu. Það sem þær þó hafa fengið, eða fá, er samt mikilsvert uppá framtíðina. Á vissan hátt má líta á þessa baráttu sem undanfara þeirrar miklu verkalýðsbaráttu sem hugsanlega er framundan.
Morðárásir á saklausan almenning fara ekki eftir stjórnmálaskoðunum eða löndum. Hugsanlegt er að fjölmiðlaumfjöllun hverskonar hafi hér áhrif og margt fleira. Frjálsleg byssulöggjöf í Bandaríkunum hefur eflaust á ýmsan hátt áhrif á það hvernig vopn menn nota í slíkum árásum og eðli þeirra, en hugsanlega ekki á árásirnar sem slíkar. Þekking fólks á eðli þeirra samfélaga sem hlut eiga að máli, er sennilega besta vörnin. Að nota slíkar árásir sem lið í hernaðarárásum er fyrirlitlegt. Jafnvel ekki síður en loftárárásir á saklausa borgara.
Segja má að Trump Bandaríkjaforseti hafi dregið heimspólitíkina niður á svið almennra borgara og samfélagsmiðla í stað þeirrar heilögu ósnertanlegu hugmyndaþoku sem stjórnmálamenn vilja gjarnan sveipa sig. Því fer víðsfjarri að þeir séu eitthvað merkilegri en annað fólk. Sennilega má segja það um Trump að hann skerpi andstæðurnar í bandarískum stjórnmálum og alþjóðapólitík. Hvort það er til góðs eða ekki verða kjósendur að dæma um. Ekki þýðir að mótmæla þeim dómi. Hægri og vinstri vegast þar á og líka margt fleira. Flóttamenn hvers konar og umhverfismál af öllu tagi eru mál málanna nú um stundir a.m.k. hér á Vesturlöndum.
Sko. Ekki tókst mér að vera lengi án þess að minnast á Trump. Sennilega er hann óvenjulega mikið hataður af vinstra fólki á Vesturlöndum. Bandaríkjamenn virðast hinsvegar fyrst og fremst líta á baráttu hans við kerfið, sem þeim finnst ógna sér og sínum. Skiljanlega vilja þeir halda sínum forréttindum, sem þeir hafa oft komið sér upp á löngum tíma.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)
21.7.2018 | 10:09
2749 - Ljósmæður
Það er svo undarlegt með mig að oft er vísukorn eða eitthvað þessháttar að flækjast fyrir mér daglagt eða jafnvel lengur. Nú er það þessi vísa, sem sagt er að vistmaður á elliheimili hafi látið sér um munn fara. Mín kenning er sú að sagan komi á eftir vísunni eins og oft vill verða með góðar vísur. Jafnvel að seinni parturinn hafi verðið gerður á undan. Vísan er svona og margir hafa eflaust heyrt hana:
Áður hafði áform glæst
engin þó að hafi ræst.
Nú er það mín hugsjón hæst
hvenær verður étið næst.
Geri mér engar grillur um höfundinn. Sumum finnst það samt skipta mestu máli. (Höfundinum kannski.) Reyndar getur vel verið að ég hafi minnst á þessa vísu fyrr á blogginu mínu. Ekki get ég vitað um hvað ég hef áður skrifað. Gúgli ætti að vita þetta. Nenni samt ekki að gá að því. En góð er hún.
Allar fréttir snúast þessa dagana um ljósmæður. Yfirvinnubann hafa þær sett á og vissulega veldur það vandræðum. Að láta þær berjast þannig einar við auðvaldið og mismunina í kerfinu er að sjálfsögðu alls ekki sanngjarnt. Þeir sem vel gætu stutt þær gera það ekki. Margir munu samt njóta þess ávinnings sem þær hugsanlega ná. Í sannleika sagt riðar ríkisstjórnin til falls útaf þessu. Smáatriði þessa máls skipta engu máli.
Kannski förum við til Akureyrar á eftir. Ekki þó til að elta sólina. Enda er hún hið mesta ólíkindatól og veðrið allt. Veðuráhugamaður er ég enginn. Vil bara hafa veðrið þannig að það henti mér. Veðurvísur eru oft góðar. Föstudagar eru ryksugudagar. Ryksugaði þó ekkert í gær (hversvegna er ekki sagt ryksaug?) en ég er eiginlega önnum kafinn við það núna. Hleyp samt öðru hvoru í bloggið og þykist vera að hvíla mig.
Eiginlega er ég bara að teygja lopann til að þetta verði nægilega langt til að setja upp. Mér dettur ekkert merkilegt í hug. Enginn les bloggið mitt ef ég skrifa ekki neitt. Klásúlan um ljósmæðurnar sýnir nokkuð vel hina pólitísku hugsun mína og er á margan hátt ástæðan fyrir því að ég vil fyrir hvern mun setja þetta sem fyrst upp.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)
20.7.2018 | 10:08
2748 - Hátíðarfundur og ýmislegt fleira
Ekki dugir fyrir Tromparann að fara alveg í kleinu þó Pútín sé óttalegur refur. Efast reyndar um að Pútín hafi eitthvað á hann. Nú ætla ég að reyna að sleppa því að minnast meira á Trump. Hann er ekki svo merkilegur. Kannski ég snúi mér þá bara að íslenskri pólitík.
Ef nauðsynlegt er að kenna einhverjum um Hrunið mikla sem varð hér fyrir um það bil 10 árum, er alveg greinilegt að þar hlýtur að vera um alþingi að ræða. Eru þingmenn bara til þess að gera það sem þeim er sagt? Það hefði ég ekki haldið. Samþykktu þeir ekki bankasöluna og margar fleiri vitleysur á sínum tíma? Var þeim sagt að gera það? Hin svokölluðu flokksbönd eru óhóflega sterk hér á landi. Löngumýrar-Birnir er alls ekki leyfðir í fjórflokknum lengur. Er það kannski þessvegna sem flokkunum hefur fjölgað svona? Svo kann að fara einhverntíma í framtíðinni að enginn flokkur fái yfir 5% atkvæða. Hvað á þá að gera? Ráðherrarnir verða kannski orðnir svona 20 þá. Á kannski að láta þá ráða öllu? Og hver á að kjósa þá?
Einfaldast væri að allir væru í framboði og þeir sem flest atkvæði fengju yrðu alþingismenn og réðu því sem þeir vilja ráða. Svo mætti kjósa ríkisstjórn sérstaklega og allir nema alþingismenn yrðu þá í framboði. Líklega verður samt bið á því að hægt verði að losna við rótgróna fjórflokksmenn og annað illgresi.
Hátíðarfundur alþingis sem kostaði víst 80 milljónir króna fór fram á Þingvöllum s.l. þriðjudag. Reiknað var með því að mörg þúsund myndu leggja það á sig að berja þessa fávita augum, en þeir voru víst eitthvað færri. Annars virðast þessi hátíðarhöld í tilefni af 100 ára fullveldi vera að mestu í skötulíki. Aumingja Katrín að vera innilokuð í þessari vitleysu. Ólíkt auðveldara er að gagnrýna allt sem gert er eða ekki gert.
Lesendum mínum er sem betur fer að fækka aftur. Enda gæti ég trúað að það sé frekar óþægilegt að vera vel þekktur.
Veðrið er orðið skaplegra núna þó sólskinið sé ekki tiltakanlega mikið. Beið eftir slösuðum Breka í morgun, en dýralæknirinn hefur víst gert sæmilega við hann, svo honum er óðum að batna.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)
18.7.2018 | 15:27
2747 - Enn um Trump
Slæmt er að vera með Trump ræfilinn svona á heilanum, þegar um nóg annað er að hugsa. Að sumu leyti er ekkert skrítið þó Bandaríkjamenn flykki sér um mann sem á svo áberandi hátt beitir sér gegn kerfinu eins og hann gerir. Allt vill hann samt gera flokkspólitískt og kennir að sjálfsögðu demókrötum um allt sem miður fer. Stundum mismælir hann sig reyndar og lýgur pínulítið. Ekki getur hann samt kennt þeim um það. Verst er að hann skuli koma frá hægri og vera svona ríkur og sérgóður. Auðvitað verður ekki á allt kosið, en vel finnst mér að megi hræra svolítið upp í njósna-, her- og öryggiskerfunum í bandaríkjunum. Verst hvað Trump er öfgafullur í flóttamannamálum. Svo má segja að fjölmiðlamálin séu sér kapítuli.
Sennilega er það Jón Baldvin Hannibalsson sem hefur komið því inn hjá mér að skandinavíska velferðarkerfið sé mun betra en ameríska kerfið á flestum sviðum, þó hefur það bandaríska hingað til verið með því besta í mannréttindamálum. Annars eru alþjóðleg stjórnmál talsvert fyrir utan og ofan við minn skilning. Hreyfiöfl þess eru mér alls ekki eins kunn og ég vil stundum vera láta.
Í gær (mánudag) vorum við viðstödd útför í Skálholtsdómkirkju. Þar var borinn til grafar Guðjón Gunnarsson, faðir Sollu hans Þórs. Komum aðeins við hjá Herði og Ingibjörgu og fórum með þeim í athöfnina. Þau voru að sjálfsögðu sveitungar Guðjóns um langa hríð. Á eftir borðuðum við á heisluhæli NLFÍ og þar hitti ég Guðmund Ólafsson en Hörður þekkti hann greinilega. Man vel eftir því að hann og Þór Eysteinsson voru ákaflega duglegir við að skrifa á Imbu í gamla daga. Hittum Bjarna Harðarson sem snöggvast á Selfossi í bakaleiðinni og eftir því sem hann sagði þá er blessuð rigningin besti vinur bóksalans.
Nú er sumarið greinilega komið. Sennilega stendur það stutt, en við eigum svosem ekki öðru að venjast. Undanfarin ár hafa að mörgu leyti verið undantekningin sem sannar regluna. Veit ekki hvort ég nenni að setja þetta upp á bloggið. Áreiðanlega nota menn þetta góðviðri til annars en lesturs. Svo er ég eiginlega ekki alveg búinn með kvótann.
Langminnugir muna kannski eftir því að Kári Stefánsson gaf fyrir hönd Íslenskrar Erfðagreiningar Landsspítalanum jáeinaskanna fyrir fáeinum árum. Samkvæmt Morgunblaðinu (ekki lýgur það) er stefnt að því að gefa út starfsleyfi fyrir hann á næstunni. Kannski kemst hann einhverntíma í notkun. Svona ganga hlutirnir bara fyrir sig hérna á Íslandi og ekkert við því að gera.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (4)
16.7.2018 | 05:53
2746 - Bílar og Trump
Ekki er nokkur vafi á því að rafbílarnir eru að taka yfir. Þó opinberir aðilar muni eflaust reyna að mjólka hleðslustöðvar eins og mögulegt er þá er lítill vafi á því að bílferðir muni verða talsvert ódýrari í framtíðinni. Eins og ástandið er núna virðist sem þeir sem í alveg nýjum blokkum eða einbýlishúsum búa hafi dálítið forskot vegna þess að bílana ætti að vera tiltölulega auðvelt að hlaða þar. Öðru máli gegnir um þá sem búa í eldri blokkum og gömlum einbýlishúsum. Þar mun víða dragast eitthvað að koma upp hleðsluaðstöðu fyrir alla. Víða getur hleðsla rafbílanna valdið einhverjum vandræðum, en eflaust verður ráðin bót á því fljótlega.
Drægni rafbíla, þyngd þeirra og verð, mun þróast fremur hratt á næstu árum og helsta vandamálið hjá flestum verður sjálfsagt HVENÆR rétt sé að taka stóra stökkið. Undanfarna áratugi hefur mikil framför orðið í bílasmíðum og vegalagningu hvers konar og rétt er að gera ráð fyrir áframhaldi á því. Alltaf virðist þeim þó fjölga sem líta á bíla sem leikfang, en ekki tæki til að komast á milli staða með. Stöðutákn er bíllinn líka alveg tvímælalaust.
Að komast í heimsfréttirnar er greinilega æðsta takmark sumra. En hvernig komast menn í heimsfréttirnar? Ef nógu mörgum fréttastjórum stórra fjölmiðla finnst eitthvað nógu merkilegt til að komast í fréttirnar, þá kemst það þangað og menn fá sína 15 mínútna frægð og gleymast síðan, nema einhverjum algjörum fréttanördum. Auðvitað finnst samt þessum fréttastjórum betra og þægilegra að skrifa eða láta skrifa fréttir um eitthvað sem þeir þekkja vel og búast við að aðrir geri líka. Þá eru skrifin næstum sjálfvirk, því hægt er að grípa til endurtekninga ef annað bregst. Hvernig verða þá stórir fjölmiðlar til? Það er margslungið og að sjálfsögðu koma peningar þar við sögu. Stríðsfréttir eru líka öðrum fréttum betri til að ná því marki. Þessvegna meðal margs annars, svosem vegna vopnasölufylkingarinnar (military industrial complex, einsog einu sinni var talað um) eru stríð og allskyns hörmungar nauðsynlegur fylgifiskur heimsfréttanna.
Í aðaldráttum er það samt sem áður ekki rétt hjá Trump bandaríkjaforseta að fjölmiðlar búi til fréttir. En magnið er svo mikið að með því að velja ávallt það sem kemur Trump illa birta miðlarnir talsvert skekkta mynd að raunveruleikanum. Þeir (miðlarnir) bjuggu Trump til og núna sjá þeir eftir öllu saman. Þessvegna og vegna persónuleika síns er hann orðinn svona óvinsæll a.m.k. utan bandaríkjanna. Sennilega er hann ekkert verri en aðrir forsetar USA hafa verið. Hann lýgur bara meira og er sjálfhælnari en flestir aðrir. Einnig er hann á móti flestum stærstu fjölmiðlum heims og finnst þeir of valdamiklir, sem þeir auðvitað eru.
Þó ég hérna á undan hafi varið Trump sjálfan að einhverju leyti, breytir það ekki því að ég er í grundvallaratriðum á móti honum, pólitískt séð. Vinstri stefnan er sú eina rétta. Það er t.d. alls ekki sanngjarnt og rétt að mjög lítill minnihluti fólks velti sér uppúr auðæfum heimsins, en allir hinir lepji dauðann úr skel. Þeir þurfa alls ekki að gera það (og gera reyndar ekki). Undanfarna heimsmeistaradaga hefur mér oft dottið í hug þetta með brauð og leika sem Rómverjar (eða voru það Grikkir) til forna fílósóferuðu sem mest um.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)
13.7.2018 | 17:36
2745 - Hægri og vinstri
Hulda Indland, hver er nú það? Það er alltaf verið að tala um hana í sjónvarpinu. Ekki kannast ég við hana og fésbókin ekki heldur. Er hún þá til? Kannski ekki. Aumlegur útúrsnúningur atarna. Ætli það sé ekki bara verið að auglýsa sjónvarpsþátt um Indland.
Ómótmælanlegt er að Bandaríska ríkisstjórnin reynir með hótunum og öðru þessháttar að hafa áhrif á þær þjóðir innan sameinuðu þjóðanna sem veikastar eru fyrir. Mannréttindi eru þeirri stjórn lítils virði. Einangrunar- og tollastefna Trumps er svo annar kapítuli, sem ekki verður ræddur hér. Bandaríska ríkisstjórnin, og þó einkum Trump sjálfur, virðist álíta að bandaríkin geti gert, í krafti auðs síns og áhrifa, hvað sem er. Svo er þó ekki og fyrr eða síðar verður bandaríkjamönnum sýnt ótvírætt hvar þeir eiga heima. Auður þeirra og áhrif eru ekki frá Guði, heldur hafa aðrar þjóðir hingað til sætt sig við yfirgang þeirra. Kóngarnir í Evrópu töldu áður fyrr að völd sín væru frá Guði komin, en fyrir löngu er búið að leiðrétta þá lygi.
Kommúnistar álíta alla andstæðinga sína kapítalista og kapítalistar álíta alla sem ekki fallast á þeirra sjónarmið vera kommúnista. Hægri og vinstri ásamt kommúisma og kapítalisma finnst mér einkum snúa að ríkisafskiptum. Öfgarnar ber samt að forðast eða varast a.m.k. Miðjumoðið er farsælast til lengdar. Auðvitað er þetta einföldun. Snýst ekki öll pólitík um einfaldanir? Það hefur mér sýnst. Vel er hægt að halda því fram að hægri og vinstri skiping eftir þessu sé úrelt. Sumir hafa talað um opingáttar- og einagrunarstefnu. Kannski er hún réttari. Afstaðan til flóttamanna er farin að skipta mjög miklu máli hér á Vesturlöndum. Annars er öll pólitík hálfleiðinleg. Vel er hægt að komast hjá henni í flestum málum. Allir þeir sem til áhrifa komast virðast vilja vel.
Sveiflurnar í lesendafjölda hjá mér undanfarna daga eru talsverðar, eða frá 5 til 330 er fjöldi þeirra sem leggur það á sig að fara inná Moggabloggið mitt. Auðvitað skrifa ég ekki daglega en samt eru þetta talsvert miklar sveiflur finnst mér. Ég er ekki vanur svonalöguðu. Ekki er þó um annað að ræða en sætta sig við þetta. Kannski verður þetta til þess að maður fer að skrifa oftar. Með því verða bloggin samt óttaleg þunnildi. Mér finnst ég þurfa að tæpa á allnokkrum málum í hverju bloggi.
NATO-aðildin hefur á flestan hátt komið sér vel fyrir okkur Íslendinga. Finnst mér. Ef við eigum að stórauka hernaðarútgjöld okkar mikið finnst mér það koma til greina prósentvís en ekki annars. Með því að kúpla saman smæð okkar og aðildinni að NATO höfum við hingað til getað notið flestra kosta við aðild án þess að leggja mikið á móti.
Er öll þessi vitleysa í kringum Trump bandaríkjafoseta kannski einn risastór gjörningur? Við vitum að hann þrífst á því að vera í fréttum og á milli tannanna að fólki. Ekki er að sjá að það skipti hann máli hvort umfjöllunin um hann er jákvæð eða neikvæð. Umfjöllunin er allt.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)