2750 - Guðmundur Brynjólfsson

Bakþankar Fréttablaðsins eru eitt af því fáa sem ég les reglulega. Sama gerði ég í morgun mánudag. Guðmundur Brynjólfsson skrifaði þá og fjallar þar um James Ratcliffe og 40 jarðir. Að mörgu leyti er ég honum alveg sammála. Of miklir peningar eru yfirleitt til bölvunar. Hér á Akranesi er alveg hægt að stunda einveru á sama hátt og hann segir að Ratcliffe hljóti að vera að sækjast eftir. Sjálfur stunda ég slíka einveru og tala mest við sjálfan mig og í mesta lagi símann. En auðvitað verður að fara nokkuð snemma af stað, ef einveran á að vera fullkomin. Þar að auki fylgir þessari einveru enginn lax. Meðfram sjónum er þó óhætt að ganga. Auðvitað finnst forföllnum laxveiðimönnum það mikill ókostur að hafa engan lax. Einu sinni lenti ég í brjáluðum laxveiðimanni við Elliðaárnar. Þó var ég ekki að trufla neinn, nema kannski laxinn. En sleppum því. Ég slapp óskaddaður frá honum. Kannski af því að konan mín var með í för.

Allir, eða a.m.k. allflestir hljóta að gleðjast yfir því að samið hefur verið við ljósmæður. Verkalýðsbarátta hverskonar hlýtur ætíð að stjórnast af aðstæðum í þjóðfélaginu hverju sinni. Að þessu sinni má segja að sú barátta hafi fyrst og fremst farið fram á samfélagsmiðlum, svo og öðrum fjölmiðlum. Eflaust finnst mörgum að í þessari baráttu hafi ljósmæður ekki haft mikið uppúr krafsinu. Það sem þær þó hafa fengið, eða fá, er samt mikilsvert uppá framtíðina. Á vissan hátt má líta á þessa baráttu sem undanfara þeirrar miklu verkalýðsbaráttu sem hugsanlega er framundan.

Morðárásir á saklausan almenning fara ekki eftir stjórnmálaskoðunum eða löndum. Hugsanlegt er að fjölmiðlaumfjöllun hverskonar hafi hér áhrif og margt fleira. Frjálsleg byssulöggjöf í Bandaríkunum hefur eflaust á ýmsan hátt áhrif á það hvernig vopn menn nota í slíkum árásum og eðli þeirra, en hugsanlega ekki á árásirnar sem slíkar. Þekking fólks á eðli þeirra samfélaga sem hlut eiga að máli, er sennilega besta vörnin. Að nota slíkar árásir sem lið í hernaðarárásum er fyrirlitlegt. Jafnvel ekki síður en loftárárásir á saklausa borgara.

Segja má að Trump Bandaríkjaforseti hafi dregið heimspólitíkina niður á svið almennra borgara og samfélagsmiðla í stað þeirrar heilögu ósnertanlegu hugmyndaþoku sem stjórnmálamenn vilja gjarnan sveipa sig. Því fer víðsfjarri að þeir séu eitthvað merkilegri en annað fólk. Sennilega má segja það um Trump að hann skerpi andstæðurnar í bandarískum stjórnmálum og alþjóðapólitík. Hvort það er til góðs eða ekki verða kjósendur að dæma um. Ekki þýðir að mótmæla þeim dómi. Hægri og vinstri vegast þar á og líka margt fleira. Flóttamenn hvers konar og umhverfismál af öllu tagi eru mál málanna nú um stundir a.m.k. hér á Vesturlöndum.

Sko. Ekki tókst mér að vera lengi án þess að minnast á Trump. Sennilega er hann óvenjulega mikið hataður af vinstra fólki á Vesturlöndum. Bandaríkjamenn virðast hinsvegar fyrst og fremst líta á baráttu hans við kerfið, sem þeim finnst ógna sér og sínum. Skiljanlega vilja þeir halda sínum forréttindum, sem þeir hafa oft komið sér upp á löngum tíma.

IMG 7933Einhver mynd.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Þorsteinn Briem

Jarðir Sæmi engar á,
ekki veiðir laxa,
Trump er alltaf honum hjá,
hatrið mun þar vaxa.

Þorsteinn Briem, 23.7.2018 kl. 13:19

2 Smámynd: Sæmundur Bjarnason

Hatrið bara vex og vex
vellur yfir strikið.
Steini étur kommakex
kannski alltof mikið.

Sæmundur Bjarnason, 23.7.2018 kl. 14:03

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband