Bloggfærslur mánaðarins, apríl 2018
30.4.2018 | 08:18
2709 - Andvökur
Svefninn er mikil náðargjöf og hundleiðinlegt að vera andvaka. Aldrei er maður eins einmana og þegar maður er andvaka og einn með hugsunum sínum. Erfitt er að stjórna þeim. Þó má reyna. Kannski er maður þó ennþá meira einsamall í dauðanum, en um hann vil ég helst ekki hugsa, þó ég sé farinn að nálgast áttrætt. Vel gengur yfirleitt að forðast slíkar hugsanir og um forgengileika og tilgangsleysi lífsins. Enda æfingin mikil.
Fussum fei. Mannaþefur í helli mínum, sagði tröllskessan um leið og hún kom inn eftir að hafa verið úti alla nóttina. Naumlega hafði henni tekist að komast hjá því að sjá sólina og verða þar með að steini. Hin brennheita og stórhættulega sól var einmitt það sem tröllin þurftu einkum að vara sig á. Myrkrið og kuldinn eru þeirra ær og kýr. Þessvegna fer afar lítið fyrir þeim í birtunni á vorin og sumrin.
Þannig geta æfintýrin hljómað og með þeim má jafnvel koma tilveruótta og dauðahræðslu til skila til þeirra sem afar lítinn eða engan skilning hafa. Til dæmis til ómálga barna. Þegar börn gera sér í fyrsta skipti grein fyrir dauðanum og forgengileik lífsins má segja að nýr kafli hefjist í þeirra lífi.
Í heimspólitíkinni má segja að það langmerkilegasta sem á sér stað þessa dagana sé það sem er að gerast á Kóreuskaganum. Ef Norður og Suður-Kórea ná einhverskonar samkomulagi má hiklaust gera ráð fyrir að áhrif stórveldanna á heimsmálin minnki umtalsvert. Jafnvel þó Trump bandaríkjaforseti eigni sér allan heiður af því sem gerist í þessu fjarlæga heimshorni. Vel má ímynda sér að þetta auki enn á einangrunarstefnu hans og flóttamannahræðslu. Áhrif þessa á kosningarnar sem verða í bandaríkjunum í haust er þó engin leið að gera sér grein fyrir.
Við landamæri Mexikós og bandaríkjanna eru nú á annað hundrað flóttamenn sem vilja komast til bandaríkjanna. Þetta eru leifar mun stærri hóps, aðallega frá Guatemala og Honduras, sem Trump óttast mikið. Ástæðan til þess að þeir ferðast í hóp er sú að með því er hugmyndin að komast framhjá mexikóskum ribböldum og ræningjahópum, sem reyna gjarnan að ræna og myrða flóttamenn á leið til bandaríkjanna. Örlög þessa hóps gætu haft mikil áhrif á kosningarnar næsta haust í bandaríkjunum. Trump er áreiðanlega ekki skemmt og andstæðingar hans gleðjast mjög þessi dægrin.
Bæjar- og sveitarstjórnarkosningarnar hér á landi, sem verða í lok Maí eru að verða svolítið spennandi. Einkum þó í Reykjavík. Úrslitin þar má með vissum hætti heimfæra á landsmálin, þó ekki sé það einhlítt. Eyþór sjálfstæðismaður er Steina Briem hugstæður eins og sjá má á vísnainnleggi hans á þessu bloggi. Kannski heldur hann áfram að yrkja um Eyþór og vel er hugsanlegt að mér takist að svara í sömu mynt.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)
29.4.2018 | 15:35
2708 - Bragi barnaverndari
Auglýsing Wow-air um að til standi að ráða tvo ferðalanga til að ferðast með Wow-air-flugvélum ókeypis í sumar og fá um 4 þúsund dollara í laun á mánuði hefur vakið svolitla athygli. T.d. býr CNBC til dálitla frétt um þetta og birtir hana. Vafalaust er þetta ekki mjög dýr auglýsing en greinilegt er að hún hittir í mark.
Já, ég var andvaka og setti þessa klásúlu á fésbókina eldsnemma á laugadagsmorguninn, því mér fannst ég ekki geta beðið með það.
Hef verið að hugsa svolítið um borgarstjórnarkosningarnar í Reykjavík. Svona þegar ég tek mér frí frá því að hugsa um Tromparann eina og sanna. Sagt er að þar séu komin fram ein sautján framboð. Ekki er því að leyna að kjörseðillinn verður sennilega veglegur mjög. Sum (jafnvel flest) þessara framboða boða að bílaeign verði aukin stórlega og gatnaframkvæmdir sömuleiðis. Einnig að komið verði í veg fyrir svifryksmengun. (Sennilega á bara að segja henni að fara.) Kannski er það svo að því sé víða trúað að svifryksmengun hafi alls ekkert með bíla að gera. Hvað þá nagladekk. Einhverjum finnst samt hugsanlega viss mótsögn felast í þessu. Annars getur fjöldi framboða borið vott um mikinn áhuga á borgarmálefnum. Mikil eindrægni í sambandi við bæjarstjórnarkosningar virðist samt einkenna Skagamenn. Helst að þeir velti því svolítið fyrir sér hvort ferðamenn muni áfram forðast Akranes og hvort Akranesferjan starfi áfram næsta sumar. Svo vilja þeir fella Sementsverksmiðjustrompinn.
Mér sýnist að mál Braga barnaverndara geti orðið ríkisstjórninni skeinuhætt. Þó er ekki víst að þar séu öll kurl komin til grafar. Vel gæti verið að Ásmundur Einar eigi tromp uppi í erminni og svo eru barnaverndarmál alltaf vandmeðfarin. Samt er það svo að þetta mál virðist ætla að verða prófsteinninn á heilindi Katrínar.
Einhverju sinni var það í skólaferðalagi að ég eignaðist stráhatt. Sá hattur var ljósleitur, en fínastir þóttu í það skiptið svartir hattar. Samt sem áður fór það svo að ég týndi hattinum. Um það var gerð vísa. Þó ég viti ekkert um hver orti hana hef ég Þórð á Grund sterklega grunaðan. Hjörtur sá sem nefndur er í vísunni er að sjálfsögðu Hjörtur í Laugaskarði. Hann munaði ekkert um að vera bílstjóri í skólaferðalögum auk þess að kenna. Vísan var svona:
Hjörtur keyrir býsna hratt
hugsar mjög um frúna.
Sæmundur hann hafði hatt
en hefur ekki núna.
Frá engu sjónarmið held ég að hægt sé að telja þetta merkilegan skáldskap, en strax á þessum aldri hefur verið byrjað að örla á sjálfhverfunni hjá mér, því ég lærði þessa vísu samstundis og hef ekki getað gleymt henni síðan.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)
26.4.2018 | 15:09
2707 - Frostlaust að kalla, en kaldara til fjalla
Eiginlega finnst mér mesti óþarfi að vera að kvarta yfir veðrinu, þó snjóað hafi smávegis í Akrafjallið í nótt. Sennilega eru þeir mun fleiri í veröldinni sem þurfa að búa við of mikinn hita en kulda í veðrinu. Svo má alltaf klæða af sér kulda, en líklega er það meira vandamál með hitann. Læt ég svo útrætt um veðrið að sinni. Mest vegna þess að ég veit lítið um það.
Pólitíkin er við það að verða allsráðandi. Enda er farið að styttast í bæjarstjórnarkosningar. Hér á Akranesi fer samt ekki mikið fyrir þessari óáran. Þó held ég að Sjálfstæðismönnum sé ekki rótt. Um pólitíkina veit ég líka lítið þó ég fjölyrði oft um hana. Það er líka auðveldara en um veðrið. Hvað ætti ég svosem að skrifa um þá.
Vinsælasta varaefnið er vafalaust Trump. Ekki bregst hann. Man samt ekki hvað var hans síðasta afreksverk. Eins og Sigmundur okkar er hann dálítið hneigður fyrir heimsmet. Áreiðanlega verða sett þar met af einhverju tagi þegar hann hittir fyrir einræðisherrann í Norður-Kóreu. Hvort þau met verða öllum til góðs eða ekki veit ég að sjálfsögðu ekkert um.
Nú er ég búinn að skrifa þrjár klásúlur og byrjaður á þeirri fjórðu án þess að segja nokkuð af viti. Kannski ég haldi því bara áfram. Hvað vitleysinginn Trump snertir þá held ég ekki að honum verði auðveldlega bolað frá völdum. Vel gæti verið fremur ástæða til að óttast mjög endurkjör hans árið 2020. Annars hygg ég að repúblikanar fari mjög halloka í komandi haustkosningum í Bandaríkjunum. Hugsanlega verður hægt að kenna Trump um það. Samt sem áður gæti hann vel sigrað í forsetakosningunum tveimur árum seinna. Ekki get ég leynt því að mér finnst kosningar þeim mun merkilegri sem fleiri taka þátt í þeim. Hversvegna ætti ég svosem að hafa áhuga á því sem kallað er kosningar hér á ísa köldu landi. Við lúffum hvort eð er ævinlega fyrir þeim sem stærri og sterkari eru. Að Gulli skuli vera orðinn utanríkisráðherra segir það sem segja þarf.
Haukur Hilmarsson er annaðhvort lifandi eða dauður. Hvort heldur sem er þá er ekki óeðlilegt að fjölskylda hans og vinir ætlist til þess að allt sem hægt er sé gert til þess að komast að hinu sanna í málinu. Sömuleiðis er vel hægt að skilja að Gulli utanríkis- vilji helst að þetta mál hverfi einhvernvegin af hans borði. Ekki dugir að reyna að fleygja því eitthvert annað, því þarna á það greinilega heima. Hvort hann og aðrir í ráðuneytinu hafa gert nóg í þessu máli má eflaust deila lengi um.
Fitbit lætur ekki rigninguna rugla sig. Óveðurshringurinn reyndist vera 3,2 kílómetrar en ekki tæpir þrír eins og ég hafði haldið. Annars er Fitbit-inu kannski ekki treystandi, því með því að fara upp á fjórðu hæð bættust 300 metrar við mælinguna og er það dálítið ótrúlegt. Það var Bjarni sonur minn sem setti Fitbit-ið í símann og nú er ég önnum kafinn við að læra á það. Alveg er hún merkileg þessi ofurtækni öllsömul. Uppáhaldsbekkurinn minn virðist vera í 1,52 kílómetra fjarlægð og var hann það bæði í gær og í dag.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)
23.4.2018 | 12:05
2706 - Harpa Hreinsdóttir
Enginn vafi er á því að í utanríkismálum og skattamálum hefur Bjarni Benediktsson svínbeygt Katrínu Jakobsdóttur. Hvað skyldi hún hafa fengið í staðinn og hvenær kemur það fram? Það er hinsvegar alveg rétt hjá Katrínu að árangur næst ekki nema gefið sé eftir. Mér finnst samt að kjósendur VG þurfi að fá skýringar á hvað komi á móti eftirgjöfinni gagnvart NATO og ríka fólkinu. Annars held ég að það gæti hugsast að sú aðgerð sem mestum deilum hefur valdið nú nýlega verði einmitt til að lengja stríðið í Sýrlandi, en ekki til að stytta það.
Einhvern vegin er það svo að ég á aldrei í neinum erfiðleikum með að svara í ferskeytluformi Steina Briem sem að undanförnu hefur látið ljós sitt skína hér á blogginu mínu. Venjulega á ég ekkert sérlega gott með að semja vísur. Veit þó nokkurnvegin hvernig þær eiga að vera og hef alloft sett saman slíkar. Einu sinni var ég beðinn um að vera hagyrðingur á einhverjum fundi sem átti að halda. Líklega var það Bjarni frændi minn Harðarson sem bað mig um það. Því miður gat ég ekki orðið við þeirri bón og ég hef ekki verið beðinn oftar. Þannig er nú það.
Heimsmálin eru mér alla tíð ofarlega í minni og sinni. Kannski ég láti ljós mitt skína um loftárásirnar sem mest er um deilt þessa dagana. Þó ég sé alls ekki að mæla eiturvopnaárásum bót, virðist sem loftárásir Breta, Frakka og Bandaríkjamanna á skotmörk í Sýrlandi geti í framtíðinni orðið til þess að framlengja stíðið þar. Þar að auki er allsekki víst að þær hafi náð tilgangi sínum. Eiturvopn kunna enn að vera til í Sýrlandi og ekki er útilokað að þeim verði beitt í framtíðinni. Ekki er nein furða þó VG og Katrín Jakobsdóttir hafi fallist á þessa árás. Satt að segja hefði komið mjög á óvart ef á þeim bænum hefði verið tekið öðruvísi á þessu.
Í gegnum tíðina (er þetta ekki dönskusletta?) hef ég lesið margt bloggið. Núorðið hefur þeim fækkað nokkuð og ég hef eytt sívaxandi tíma á fésbókarfjáranum, sem allt ætlar að drepa. Þegar ég var að byrja að fikta við að blogga sjálfur voru blogg ekki nærri eins algeng og núna. Ég kalla það nefnilega blogg sem ýmsir láta frá sér fara á fésbókinni. Sumt þar er að vísu eins og hvert annað kaffispjall, eða jafnvel verra. Já, alveg rétt. Ég ætlaði að fjölyrða svolítið um það hverjir það eru sem hafa haft hvað mest áhrif á þessa bloggnáttúru eða ónáttúru sem ég er greinilega haldinn.
Fyrst þegar ég var að þessum fjára þá fylgdist ég einkum með Salvöru systur hans Hannesar Hólmsteins. Satt að segja er hún frábær bloggari. Seinna meir fylgdist ég vel með Ágústi Borgþóri meðal annars af því að hann vann um tíma uppá Stöð 2 og þar kynntist ég honum smávegis. Það er samt óhætt að fullyrða að helsti mentor minn í bloggfræðum hafi verið Harpa Hreinsdóttir. Hún er gift systursyni mínum, en það er ekki þessvegna sem ég dáist að bloggkunnáttu hennar og frásagnargleði heldur er hún afburða bloggari og segir frá af stakri snilld. Á tímabili var það eitt helst afrek mitt á þessu sviði að kommenta eða jafnvel sníkjublogga hjá henni. Seinna meir hætti ég því og fór að blogga sjálfur og hef síðan átt í mestu erfiðleikum með að hætta því.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (3)
15.4.2018 | 08:47
2705 - Ánamaðkar o.fl.
Ánamaðkarnir halda greinilega að vorið sé komið. Þeir hafa nefnilega framið harakiri í stórum stíl núna í hlýindunum og vætunni. Ekki held ég samt að spádómar þeirra séu einhlítir. Þó eflaust komi ekki páskahret úr þessu gæti allt eins komið snjókoma og frost aftur. Reyndar höfum við sem betur fer ekki mikið af slíku að segja hér á Akranesi. Hér er snjólaust og þurrt um.
Hitti í gær Ásþór Ragnarsson, sem Óli Andrésar kallaði alltaf ása-þór. Við gengum m.a. meðfram Langasandi og ræddum um Borgarblaðið, útgáfu þess og ýmislegt fleira. Ánægjulegur hittingur. Ræddum þó ekki um Óla þó það hefði verið gáfulegt, því hann var svo sannarlega eftirminnilegur karakter. Margt mætti eflaust segja um hann og Madda í Vatikaninu. Á sínum tíma var það næstum eins sjálfsagt að stela frá Kaupfélaginu og ríkinu. Kaupfélagið kom heldur ekki vel fram við alla. Hér á Akranesi var Haraldur Böðvarsson kannski einskonar kaupfélag.
Stundum finnst mér að ég hafi ekki lent í neinu um ævina. Ýmislegt hef ég þó upplifað þó fátt sé eftirminnilegt. Oft eru það samt samskipti við aðra sem eru eftirminnilegust. Merkilegt er stundum að heyra hve upplifun einstaklinga á sama hlutnum getur verið ólík. Sama er að segja um það sem festist í minninu. Ýmsir atburðir sem aðrir hafa tekið þátt í hafa kannski alveg gleymst öðrum eða eru allt öðruvísi. Ekki get ég fjölyrt mikið um þetta því sérfræðingur um þessi málefni er ég enginn. Eiginlega er þetta óttalegt mal sem engu máli skiptir.
Mér sýnist margt benda til þess að Trump ætli að leika sama leikinn í Sýrlandi og Bush gerði í Írak. Frá sjónarmiði okkar Íslendinga er aðalmunurinn sá að vonandi erum við ekki meðal viljugra þjóða að þessu sinni. Varasamt er þó að þakka Gulla það. Hugsanlega eru atburðirnir bara að hlaupa frá honum. Hver veit nema þriðja heimssyrjöldin sé í þann veginn að hefjast. Hef þó þá trú að Rússar bakki frekar en að flækjast inn í þetta. Þetta eru mínar hugsanir eftir fréttir morgunsins. Kannski verður allt annað uppi á teningnum þegar líða tekur á daginn.
Ef það er eitthvað sem er leiðinlegra og heimskulegra í íslenska sjónvarpinu en Evrópusöngvakeppnin sjálf, þá er það húllumhæið í kringum kynninguna á íslenska laginu. Man ómögulega hvað það heitir. Man bara að það var nefnt uppá enska tungu eins og mörgum finnst sjálfsagt. Afspyrnuleiðinleg er líka kynningin á lögum annarra landa. Annars er mér svosem alveg sama. Ég horfi fremur lítið á sjónvarp.
Er nýkominn úr einni fermingarveislunni til. Það er oftast þannig á vorin að maður mætir í svo og svo margar fermingarveislur. Annars eru þær svosem ágætar. Maður hittir þó a.m.k. marga sem maður kannast við. Svo fara barnabörnin bráðum að fermast.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)
12.4.2018 | 07:43
2704 - Bræðurnir Egilsson
Steini Briem kallaði sig einhverntíma eitthvað annað. Man ekki hvað það var. Hann hefur greinilega gaman af að setja saman vísur. Af einhverjum ástæðum virðist hann hafa tekið ástfóstri við bloggið mitt og yrkir vísu með runurími við hvert blogg sem ég læt frá mér fara um þessar mundir og leggur þar, á sinn hátt, útaf því sem ég skrifa. Vona bara að hann haldi því áfram.
Sé að ég hef gleymt að stækka og miðja myndina sem ég lét fylgja blogginu mínu um daginn. Nenni samt ekki að lagfæra það. Gæti það þó sennilega alveg. Er orðinn svolítið þreyttur á þessum gömlu myndum mínum. Er búinn að nota þær allar áður. Læt samt slag standa. Síðast þegar ég vissi kostaði nefnilega þúsund kall að bæta við sig plássi á Moggablogginu. Mér finnst að allt eigi að vera ókeypis á internetinu. Þó er ég svolítið á móti fésbókinni. Hún er ókeypis, en selur sennilega aðganginn að okkur. Þarna er ég semsagt kominn í andstöðu við sjálfan mig. Hver segir að við megum ekki vera þannig?
Ætlar góða fólkið að flýja í hægra skjólið hjá Trump og May? Vonda fólkið er svolítið vinstrisinnað (sumt a.m.k.) án þess þó að styðja Rússa eða Pútín. Kannski bara Kúrda eða Tíbeta. Ýmsa mætti styðja frekar en Pútín og Assad. Stríð eru stórhættuleg og ber að varast. Alþjóðleg stjórnmál eru oft margflókin. Tyrkir eru varasamir. Kannski Trump haldi að hann geti hrætt Pútín með því að segjast ætla að skjóta eldflaugum á Assad. Hugsanlega hefur honum tekist með digurbarkalegu tali sínu að hræða Kim Yong un frá kjarnorkutilraunum sínum. Í bili a.m.k. Ekki er víst að eins auðvelt sé að hræða Pútín. Gott ef Rússa-athugunin í bandaríkjunum er ekki að valda þessu öllu saman. Trump er alveg trompaður útaf henni.
Þessar hugleiðinar mínar um alþjóðastjórnmál eru kannski ekki marktækar. Enda lesa þetta fáir sem betur fer. Veit ekki hvað ég mundi gera ef einhver marktækur tæki uppá því að ráðast á þessar skoðanir mínar. Sigurjón Egilsson, sem ég held endilega að sé bróðir Gunnars Smára Egilssonar sem stofnaði Sósíalistflokkinn sællar minningar og vildi þaráður að við gerðumst fylki eða sýsla í Noregi og hefur komið víða við. Sigurjón, sem áður stjórnaði Sprengisandi sínum á Bylgjunni (svo ég komist nú loksins að efninu) virðist hafa fulla atvinnu af því að fylgjast með íslenskri pólitík og skrifa um hana. Eins ómerkileg og hún nú er. Eflaust borgar BB honum samt ekki fyrir það úr ríkiskassanum.
Nú er ég búinn að nefna fáein nöfn í þessu bloggi mínu og þar af leiðandi ætti ég að fá talsvert margar heimsóknir á minn mælikvarða, jafnvel þó þetta sér bara Moggablogg. Sennilega fer þeim fjölgandi sem hafa andstyggð á Mogganum. Ekki er að sjá að Eyþór geti híft upp fylgi Sjálfstæðisflokksins í Reykjavík eins og hann hefur sennilega átt að gera.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (5)
10.4.2018 | 07:44
2703 - Fésbókin o.fl.
Aumingja fésbókin. Enginn treystir henni lengur. Hrópa bara: Falsfréttir. Falsfréttir. Eins og Trump gerir. Reyndar eru næstum allir fjölmiðlar óvinir hans. Fésbókin á sér ekki einu sinni pólitíska vini. Allir eru á móti henni, en geta samt ekki án hennar verið. Kannski hafa skrifin minnkað eitthvað, en lesturinn sjálfsagt ekki. Þetta væri sennilega hægt að mæla, en flestir mundu efast um að sú mæling væri rétt. Sumir hafa alltaf haft ýmislegt á móti fésbókinni, en aðrir verið miklir aðdáendur hennar. Vissulega tengir hún fólk saman, en gerir það um leið að söluvöru. Og fæstum líkar að vera eins og hver annar búsmali.
Facebook-fyrirtækið á víst Instagram svo ekki þýðir að fara þangað. Youtube er vinsælla í sumum kreðsum, en þeir eru til sem finnst þeir vera illa meðhöndlaðir þar, eins og (fals)fréttir hafa fjallað um. Margir hafa líka meiri áhuga á videómyndum og tali en skrifuðum texta og myndum. Sumir skrifa líka af því þeir kunna ekki annað. Þannig er því til dæmis varið með mig. Vissulega tók ég vídeómyndir einu sinni, en það eru margir ártugir síðan og ég er orðinn of gamall til að læra eitthvað nýtt.
Hart er nú sótt að Trump. Bæði hatast hann í vaxandi mæli við Rússa og svo er sérstakur saksóknari farinn að skipta sér af persónulegum lögfræðingi forsetans. Ég er nú svo bjartsýnn að ég held að þetta hvort tveggja eigi eftir að sjötlast. Undarlegt orðalag atarna. Ég er hvorki viss um að þetta hvortveggja sé rétt skrifað hjá mér né beygingin á sögninni að sjötla sér rétt. Látum það þó vera. Lífið snýst ekki um réttritun, allra síst þá sem opinberir aðilar halda að fólki. Aðalatriðið er að gera sig sæmilega skiljanlegan sem flestum. Til dæmis er ég viss um að greinarmerkjasetningu er oft ábótavant hjá mér. Allgóður þykist ég samt í samræmdri stafsetningu.
Kannski ætti ég að hneykslast svolítið á stríðsfréttum utanúr heimi, en ég er hræddur um að svo margir geri það, að mín rödd verði svolítið mjóróma í þeim kór. Ég er samt sammála þeim sem halda því fram að með eiturvopnaárásum séu stríðsátök komin á nýtt og hættulegt stig. Svo er líka möguleiki að fréttastofur og fjölmiðlar geri of mikið úr hlutunum og þegar það er fullyrt af stríðsaðila að þessar árásir komi úr ákveðinni átt er ástæða til tortryggni.
Ef ég væri að sækjast eftir sem flestum lesendum, sem ég vil ekki viðurkenna að ég sé að gera, þá væri sennilega happadrýgst fyrir mig að skrifa sem mest um íslensk stjórnmál. Alþjóðamál finnst mér samt mun athyglisverðari og ekki get ég ráðið áhuga mínum að öllu leyti. Annars er ég ekkert óánægður með það að lesendum mínum virðist vera að fjölga. Einu sinni kunni ég það mikið á stjórnborðið hér að ég gat eftir atvikum haldið upplýsingum um lesendafjöldann úti eða inni. Núorðið þori ég helst ekki að fikta í því sem stjórnar útliti og ýmsu fleiru í sambandi við þetta blogg mitt. Þar að auki eykst almenn íhaldssemi mín með aldrinum. Læt ég svo staðar numið að minnsta kosti til fyrramáls.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)
8.4.2018 | 09:07
2702 - Hitler, Stalín og Maó
Já, þetta er alvöru vandamál. Hvern á að sekta ef lögreglumaður heldur því fram að sjálfkeyrandi bíll hafi ekki stoppað við gangbraut fyrir gangandi vegfarendum? Hver á að taka við sektarmiðanum. Þetta skeði einmitt í henni Ameríku daginn eftir að sjálfkeyrandi bíll varð valdur að fyrsta banaslysinu. Vissulega eru til myndir af þessu atviki og bílnum eða bílstjóraleysinu var ekki um að kenna.
Vissulega má segja að kommúnisminn hafi tapað. Að það hafi sýnt sig að það alræði öreiganna sem sagt var að kommúnisminn væri í raun hafi alls ekki reynst það hjálpræði sem boðað var. Þó Donald Trump bandaríkjaforseti virðist halda það er ekki þar með sagt að ómengaður kapitalismi hafi unnið sigur á kommúnismanum.
Lýðræðið er líka stórgallað. Ef nákvæmlega samskonar lýðræði ríkti í öllum heiminum væri kannski hægt að segja að það væri mun eðlilegri stjórnskipan en flest önnur kerfi í því efni sem fundin hafa verið upp. Eins og lýðræðið er framkvæmt í heiminum í dag er ekkert sem getur komið í veg fyrir að það þróist í versta hugsanlega einræði.
Metingurinn um það hver hafi staðið fyrir flestum morðum af þeim kumpánum Hitler, Stalín og Maó er í besta falli innlegg í sagnfræði dagsins. Segja má að þau hugmyndafræðikerfi sem tröllríða heiminum í dag geti hvernær sem er náð tökum á stórþjóðum sem munu þá einskis svífast í því að ná heimsyfirráðum. Greinilegt er að það kínverska er í þann veginn að sigra og bandaríkin fylgja fast á eftir. Bandaríkin hafa enn þó sennilega hernaðarlega yfirburði framyfir kínverja en það verður ekki lengi. Síst er við því að búast ef þar verður Trumpísk einangrunarstefna ofaná. Það rússneska getur á endanum náð miklum völdum en Norður-Kórea, Íran og önnur munu áfram verða annars flokks.
Fari svo að ESB þróist í átt til eins ríkis á sama eða svipaðan hátt og Bandaríki Norður-Ameríku hafa gert, gæti sú ríkasamsteypa á vissan hátt orðið von heimsins. A.m.k. er ekki líklegt að smærri og smærri þjóðir muni verða örlagavaldar í þróun stjórnmála í heiminum. Kannski er það alveg rétt að umhverfismál verði sífellt mikilvægari. Sönguinn um það að allt fari til fjandans ef ekki er gert nákvæmlega þetta eða hitt er samt ekki mjög sannfærandi.
Hve vel þolir almenningur í hinum ýmsu ríkjum að misrétti aukist í sífellu og að alltaf eða nær allaf sé farið illa með náttúruna? Stjórnmálafólk og ráðamenn virðast skella að mestu skollaeyrum við aðvörunarorðum vísindamanna. Svarið við þessum spurningum er afar mismundandi eftir ríkjum. Ekki þurfum við Íslendingar að hafa miklar áhyggjur af þessu ef dæma má af fréttum dagsins. Í mörgum öðrum og fjölmennari ríkjum mundu þau mál sem mestum áhyggjum valda horfa til stórvandræða innan fárra ára.
Að mörgu/sumu leyti má líta á Trump bandaríkjaforseta sem einskonar super-utanríkisráðherra. Hann ræður ekki mjög miklu, nema óbeint, á sviði dóms- og löggjafarmála. Auk þess eru fylkin (ríkin) meira og minna sjálfstæð hvað snertir innanríkismál. Annars eru bandarísk stjórnmál á margan hátt afar flókin miðað við það sem við Evrópubúar eigum að venjast. Fáránlegt má samt telja að einn maður hafi jafnmikil völd og bandaríkjaforseti hefur. Augljóst er að gagnvart öðrum löndum en USA er hann afar ósanngjarn. Til skamms tíma litið kunna bandaríkjamenn þó að hagnast á því að hafa hann fyrir forseta. Einmitt þessvegan er ástæða til að óttast endurkjör hans árið 2020. Vonandi er ekki ástæða til að óttast að hann verði við völd lengur en til 2024. Held samt að hann mundi helst vilja það.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (3)